Search is not available for this dataset
url
stringlengths
21
288
text
stringlengths
1
1.35M
https://www.akureyri.is/is/frettir/logfraedi-og-felagsvisindatorg-i-ha-logfraedi-og-felagsvisindatorg-i-ha
Lögfræði- og félagsvísindatorg í HA - Lögfræði- og félagsvísindatorg í HA Lögfræði- og félagsvísindatorg eru fastir liðir í starfsemi Háskólans á Akureyri. Á þessi torg geta nemendur jafnt sem aðrir sótt fyrirlestra af ýmsu tagi og aukið við þekkingu sína. Á fyrsta lögfræðitorgi vetrarins fjallar Mikael M. Karlsson um uppbyggingu og sérstöðu laganáms við Háskólann á Akureyri. Lögfræðitorg Fyrirlestur þriðjudaginn 29. ágúst 2006 kl. 12.00 í stofu 25 í Þingvallastræti 23 Laganám við Háskólann á Akureyri er með verulega frábrugðnum hætti því sem tíðkast hefur hér á landi og við lagadeildir norrænna háskóla. Segja má að hefðbundin námstilhögun sé stokkuð upp. Fyrirmynda var m.a. leitað hjá bandarískum háskólum og framsæknum evrópskum menntastofnunum. Mikael M. Karlsson er prófessor við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Hann var deildarforseti Félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans 2003-2006. Mikael hefur ritað og birt greinar á sviði heimspeki, lögfræði og sálarfræði. Félagsvísindatorg Fyrirlestur miðvikudaginn 30. ágúst 2006 kl. 12.00 í stofu L101 á Sólborg við Norðurslóð „Maðurinn sem dýr: Skógarpúki Nijinskys" Vaslav Nijinsky's choreography and performance of the controversial modernist ballet Afternoon of a Faun (1912) was a transformational moment in the representation of masculinity. This lecture will consider how the work's narrative structure coalesced with its distinctive choreographic style to stage, through the ambivalent figure of the Faun, a male sexual animal that was at once non-masculine and non-effeminate. This queerly dissident representation of masculinity contributed to the formation of modernist sexual identities, but the threat that it posed to dominant ideologies of gender and sexuality was contained as character and creator became pathologically fused in the mythologized figure of Nijinsky as faun that entered the popular imagination through the retrospective lens of his mental illness. Afternoon of a Faun thus serves as a case study of how modernist performance practice disrupted normative sex and gender roles and, in doing so, participated in the development of, and fueled the circulation of discourse about, emergent modern sexual identities.
https://www.akureyri.is/is/frettir/landslidsthjalfarinn-i-sundi-i-heimsokn-a-akureyri
Landsliðsþjálfarinn í sundi í heimsókn á Akureyri Landsliðsþjálfari Íslands í sundi, Brian Daniel Marshall, er nú í heimsókn hjá sundfélaginu Óðni á Akureyri. Stjórnaði hann æfingu hjá afrekshópi félagsins í gær og gerir aftur í síðdegis dag. Brian hefur starfað hér á landi um árabil með frábærum árangri, bæði með landsliðið og áður lið Sundfélags Hafnarfjarðar með Örn Arnarson fremstan í flokki. Tilgangur Brians með heimsókninni til Akureyrar er m.a. að fylgjast með þeim sundmönnum Óðins sem valdir hafa verið í hin ýmsu landsliðsverkefni sem framundan eru á næstu mánuðum. Mikil gróska og uppbygging hefur verið í starfi Óðins undanfarin ár. Félagið hefur styrkt stöðu sína í hópi öflugustu sundfélaga landsins og sífellt fleiri sundmenn hafa verið valdir til þátttöku í landsliðsverkefnum. Sundtímabilið að hefjast Sundvertíðin er nú að fara í fullan gang. Æfingar afrekshóps Óðins hófust um miðjan ágúst og nú um mánaðamótin fara æfingar yngri hópa af stað. Um 200 sundmenn æfa hjá félaginu, frá 6 ára aldri og uppúr. Yfirþjálfari félagsins annað árið í röð er Vladislav Maikhin. Koma hans til Óðins hefur reynst mikill happafengur og er ljóst af árangri síðasta tímabils að starf hans í samvinnu við aðra þjálfara félagsins hefur þegar skilað verulegum árangri. Má sem dæmi nefna að á Aldursflokkameistaramóti Íslands síðastliðið vor féllu 27 Akureyrarmet. Næsti stóri viðburðurinn sem framundan er í starfinu er nýtt sundmót, Sprengimót Óðins, sem haldið verður í Sundlaug Akureyrar dagana 22.-23. september. Þar verður keppt í styttri vegalengdum og er von á sundmönnum víða af landinu.
https://www.akureyri.is/is/frettir/skoflustunga-ad-reidholl-a-akureyri
Skóflustunga að reiðhöll á Akureyri Sunnudaginn 3. september kl. 15.00, verður tekin fyrsta skóflustungan að reiðhöll á Akureyri. Reiðhöllin mun rísa í Hlíðarholtshverfi, svæði hestamanna fyrir ofan bæinn. Á eftir verður kaffi í Skeifunni félagsheimili Léttis. Það eru allir hjartanlega velkomnir til að fagna þessum tímamótum. Hestamannafélagið Léttir á Akureyri hefur barist fyrir þessu máli í fjöldamörg ár og hafa margir félagsmenn unnið óeigingjarnt starf til þess að tryggja framgang þess. Akureyrarbær fjármagnar reiðhöllina að stærstum hluta en reiknað er með að ríkið kominn einnig með fjárveitingu í verkefnið. Áætlað er að reiðhöllin rísi næsta vor, en hún verður ein sú glæsilegasta á landinu og rétt tæpir 3000 fermetrar að stærð. Mun aðstaða hestamanna á Akureyri gjörbreytast með tilkomu reiðhallar og er stefnt að því að á fáum árum verði aðstaða hestamanna á svæðinu á við það sem best gerist annarsstaðar. Að sögn Ástu M. Ásmundsdóttur formanns Léttis munu, með tilkomu reiðhallar, opnast miklir möguleikar á markvissara námskeiðahaldi fyrir barna- og unglingastarf og sýningum. Aðstaðan muni einnig laða að sér fagfólk í greininni. Allt þetta sé ávísun á framfarir og muni lyfta hestamennsku á svæðinu á hærra plan. Hestamannafélagið Léttir stefni einnig að því að aðrir en hestamenn geti nýtt sér þetta glæsilega hús sem bjóði upp á svo marga möguleika.
https://www.akureyri.is/is/frettir/aevi-og-storf-jonasar-jonassonar-fra-hrafnagili
Ævi og störf Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili Nú fer hver að verða síðastur að sjá sýninguna Sú þrá að þekkja og nema, um ævi og störf sr. Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili í anddyri Amtsbókasafnsins á Akureyri. Sýningunni, sem sett er upp í tilefni af því að 150 ár eru liðin frá fæðingu hans, lýkur 9. september næstkomandi. Á sýningunni gefur á að líta ýmsa muni úr eigu Jónasar m.a. messuhökla, skjöl, bækur og önnur rit. Sr. Jónas Jónasson var prestur í aldarfjórðung á Grund í Eyjafirði og lengi kennari á Akureyri auk þess sem hann stundaði ritstörf af kappi og stóð í bréfaskriftum hérlendis og erlendis. Árið 1915 stóð hann fyrir heimildasöfnun um þjóðhætti, þjóðsiði, trú og venjur hér á landi. Afrakstur söfnunarinnar kom út í bókinni Íslenskir þjóðhættir sem fyrst var gefin út árið 1934. Afmælis sr. Jónasar hefur verið minnst með ýmsum hætti norðan heiða í sumar. Auk sýningarinnar í Amtsbókasafninu voru kvöldvökur um íslenska þjóðhætti öll fimmtudagskvöld í Laufási, fyrirlestur um Hrafnagil; staðinn og kirkjuna á Handverkshátíðinni í Hrafnagili og síðast en ekki síst minja- og söguganga í Djúpadal í Eyjafjarðarsveit. Sýningin á Amtsbókasafninu er samstarfsverkefni fjögurra safna; Minjasafnins á Akureyri, Amtsbókasafnsins á Akureyri, Héraðskjalasafnins á Akureyri og Landsbókasafns Íslands og er veglega styrkt af hjónunum Björgu Rafnar og Össuri Kristinssyni.
https://www.akureyri.is/is/frettir/logfraedi-og-felagsvisindatorg
Lögfræði- og Félagsvísindatorg Lögfræðitorg verður haldið í Háskólanum á Akureyri í hádeginu í dag og á sama tíma á morgun er Félagsvísindatorg. Að venju er um mjög áhugaverða fyrirlestra að ræða sem allir eru velkomnir að sækja. Lögfræðitorg Fyrirlestur þriðjudaginn 5. september 2006 kl. 12.00 í stofu 25 Þingvallastræti 23. Málsmeðferðarreglur stjórnsýslunnar Þegar stjórnvald tekur stjórnvaldsákvörðun, sem hefur áhrif á réttindi eða skyldur borgaranna eða lögaðila, verður stjórnvaldið að gæta ákveðinnar málsmeðferðar. Fari stjórnvald ekki að málsmeðferðarreglum stjórnsýslunnar eru ákvarðanir þeirra kæranlegar til æðra stjórnvalds. Málsmeðferðarreglur stjórnsýslunnar eru ekki síst til að skapa réttaröryggi fyrir borgarana og stuðla að málefnalegri stjórnsýslu. Í erindi sínu á Lögfræðitorgi gefur Inga Þöll Þórgnýsdóttir, bæjarlögmaður Akureyrar, yfirsýn yfir helstu reglur stjórnsýslunnar við meðferð máls og kynnir með hvaða hætti þær eru notaðar. Inga þöll Þórgnýsdóttir hdl., útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands 1991 og hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 1994. Rak eigin lögmannsstofu á Akureyri í 8 ár. Frá apríl 2002 hefur hún verið lögmaður Akureyrarbæjar, þar sem reglur stjórnsýsluréttar hafa verið stór hluti af starfi hennar. Félagsvísindatorg Fyrirlestur miðvikudaginn 6. september 2006 kl. 12.00 í stofu L101 á Sólborg við Norðurslóð. Áhrif DV á umræðuna um íslenska fjölmiðlasiðfræði Innrás hins nýja DV í heim íslenskra fjölmiðla í lok árs 2003 ögraði þeim hugmyndum og venjum sem myndast höfðu varðandi nafn- og myndbirtingar í íslenskum fjölmiðlum og hafði umtalsverð áhrif á umræðuna um siðareglur og siðfræði í fjölmiðlum. DV hefur nú verið breytt í vikublað og umræðan hefur róast um siðamálin á ný. Í fyrirlestri sínum fer Birgir Guðmundsson yfir þessa þróun og áhrif hennar í dag. Birgir er lektor í fjölmiðlafræði við Félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri. Birgir er stjórnmálafræðingur og sagnfræðingur frá Essex í Bretlandi og lauk framhaldsnámi í stjórnmálafræði frá Manitóbaháskóla í Kanada. Hann hefur starfað við fjölmiðla í um tvo áratugi sem blaðamaður, fréttastjóri og ritstjóri. Birgir er ritstjóri Blaðamannsins, fagrits Blaðamannafélags Íslands, formaður dómnefndar um Blaðamannaverðlaun Íslands og á sæti í nefnd á vegum Blaðamannafélagsins sem vinnur að endurskoðun á siðareglum félagsins.
https://www.akureyri.is/is/frettir/syning-fraedslufundur-og-namskeid
Sýning, fræðslufundur og námskeið Þann 14. september verður Námsgagnastofnun með námsefnissýningu, fræðslufundi og Matrix-námskeið í Háskólanum á Akureyri þar sem allir eru velkomnir. Nauðsynlegt er að skrá sig fyrir 8. september. Námsefnissýningin verður haldin á Sólborg við Norðurslóð þar sem til sýnis verður mikið af útgefnu efni stofnunarinnar. Fulltrúar frá Námsgagnastofnun verða á staðnum til að svara fyrirspurnum og haldnar verða stuttar vefkynningar þar sem farið verður yfir vef stofnunarinnar, www.nams.is og margt af því fjölbreytta námsefni sem þar er að finna. Vefkynningarnar verða kl. 10, 11, 13 og 14. Umsjón hefur Hildigunnur Halldórsdóttir, tölvunarfræðingur. Ekki þarf að skrá sig á vefkynningu. Kl. 13:00–17:00 verður haldið námskeið á Sólborg um nýja enskuefnið Matrix. Þar mun einn af höfundum fjalla um efnið og hvernig það nýtist best í kennslu. Einnig verður boðið upp á fjóra fræðslufundi sem haldnir verða í húsakynnum háskólans að Þingvallastræti 23. Eftirtaldir fræðslufundir eru í boði – allir endurgjaldslaust: Kl. 09:00–10:15 - Kynfræðsla. Kynnt verður nýtt efni í kynfræðslu fyrir unglingastig, bókin Um stelpur og stráka og blaðið Kynlíf og sex nýja myndbandsþætti sem fylgja því. Fjallað er um hvernig efnið er byggt upp, meginmarkmið og tengingar við námskrár og rætt um kennsluhugmyndir. Umsjón: Hafdís Finnbogadóttir, ritstjóri. Íslenska – val um fjölbreytt námsefni. Á undanförnum árum hefur komið út mikið af nýju efni sem nýtist við nám í íslensku. Kynnt verður efni sem einkum er ætlað nemendum í 1.–4. bekk en nýtist sumum einnig í byrjun miðstigs. Um er að ræða lestrarbækur, verkefnabækur, kennsluforrit, gagnvirkt efni á vef og efni til útprentunar, bæði nemendaefni og kennaraefni. Fjallað verður um hvernig efnið er byggt upp, meginmarkmið og hvernig vinna má með það í samræmi við áherslur í aðalnámskrá. Umsjón: Sylvía Guðmundsdóttir, ritstjóri. Kl. 10:30–11:45 - Lífsleikni – inntak, áherslur og námsefni. Á fyrri hluta fræðslufundarins verður fjallað um inntak og áherslur námsgreinarinnar og rætt um kennsluaðferðir. Síðari hluta fundarins verður varið til þess að skoða það námsefni sem til er í greininni. Annars vegar það sem fjallar um félags- og tilfinningaþroska og hins vegar annað efni sem undir greinina fellur. Umsjón: Aldís Yngvadóttir, ritstjóri. Umhverfismennt. Samkvæmt námskrá er umhverfismennt þverfaglegur þáttur sem gert er ráð fyrir að fléttist inn í allar námsgreinar og í raun allt skólastarf. Rætt verður um leiðir sem fara má og nýlegt námsefni kynnt, m.a. vefurinn Heimurinn minn og handbókin Ein jörð fyrir alla. Umsjón: Hafdís Finnbogadóttir, ritstjóri. Skráning. Nauðsynlegt er að skrá sig á alla fræðslufundina og Matrix-námskeiðið. Sendið upplýsingar um nafn ykkar, skóla og hvaða fræðslufund þið viljið sækja á simi@nams.is Athugið að skráningu lýkur föstudaginn 8. september.
https://www.akureyri.is/is/frettir/vidhorf-foreldra-i-grunnskolum-a-akureyri-2006
Viðhorf foreldra í grunnskólum á Akureyri 2006 Fyrir stuttu var lögð fram niðurstaða könnunar sem gerð var af Háskólanum á Akureyri um skoðanir foreldra á Akureyri um grunnskólana í bænum. Fram kom að ánægja foreldra með grunnskólann er almennt meiri nú en í könnunum sem gerðar voru 2002 og 2004. Mest er breytingin á viðhorfi foreldra til aðbúnaðar og agastjórnunar í skólunum. Gunnar Gíslason, deildarstjóri skóladeildar Akureyrarbæjar segir að undanfarið hafi verið stöðug og vaxandi umræða um geðræn vandamál barna, sérstaklega ofvirk börn. Umræðan sé sjaldan um mögulegar leiðir eða lausnir til þess að mæta þörfum þessara barna. Skólinn sé daglegur starfsvettvangur barnanna stærstan hluta ársins og að vitsmunalegir erfiðleikar sem fylgja mörgum hegðunar og geðrænum vandamálum geri því vart við sig í umhverfi skólans, annars vegar með félagslegum erfiðleikum og hins vegar með námserfiðleikum. Skóladeild Akureyrar hefur því í samvinnu við barna- og unglingageðdeild FSA staðið fyrir komu tveggja Kanadískra vísindamanna til Akureyrar. Kynntu þeir aðferðir fyrir kennurum og ráðgjöfum í grunnskólum Akureyrar sem hafa haft mikil og góð áhrif á hegðun barna innan skólans. Segir Gunnar að á þennan hátt sé verið að koma til móts við óskir kennara og skólastjórnenda um leiðir til þess að mæta sérþörfum nemenda inni í skólanum. Þarna sé því kominn enn einn liður í því að bæta skólastarfið þar sem þessi aðferð gagnist í raun kennslu allra barna í grunnskólanum.
https://www.akureyri.is/is/frettir/skilningur-vekur-von
Skilningur vekur von 10. september 2006 er alþjóðlegur forvarnardagur gegn sjálfsvígum. Alþjóðasamtök sem kallast ”International Association for Suicide Prevention” í samvinnu við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina, WHO helga þennan dag ár hvert, báráttuna gegn sjálfsvígum. Í tilefni dagsins stendur Geðverndarfélag Akureyrar og nágrennis fyrir opnu málþingi í sal Brekkuskóla á Akureyri sunnudaginn 10. september nk., frá kl. 16.00 – 18.30. Í ár er yfirskrift dagsins ”With understanding, new hope”, eða eins og heiti málþingsins ber með sér: Skilningur vekur von. Markmiðið með málþinginu er að rjúfa þá þöggun sem ríkt hefur um sjálfsvíg hér á landi og beina sjónum að einni af meginorsökum ótímabærra dauðsfalla sem oft er hægt að koma í veg fyrir. Dagskrá málþingsins er fjölbreytt og verða mörg sjónarmið kynnt. Meðal frummælenda verða: Salbjörg Bjarnadóttir verkefnisstjóri hjá Landlæknisembættinu, Þorgrímur G. Daníelsson sóknarprestur á Grenjaðarstað, Brynjólfur Ingvarsson geðlæknir, Ágúst Mogensen forstöðumaður rannsóknarnefndar umferðarslysa, Elfa Dögg S.Leifsdóttir verkefnisstjóri 1717 síma RKÍ og Guðrún Eggertsdóttir sjúkrahúsprestur á FSA. Málþingstjóri verður Margrét Blöndal dagskrárgerðarmaður. Málþingið er öllum opið, aðgangur ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
https://www.akureyri.is/is/frettir/sidasta-skemmtiferdaskipid-i-sumar
Síðasta skemmtiferðaskipið í sumar Síðasta skemmtiferðaskip sumarsins kom til hafnar í morgun. Það heitir Sea Princess og er alls 77.000 brúttó tonn með 12 farþegadekkjum. Starfsmenn eru ríflega 800 talsins og allt að 2000 farþegar eru um borð. Stöðug auking hefur verið á farþegum skemmtiferðaskipa til Akureyrar á milli ára og munu alls um 45 þúsund manns hafa komið hingað í sumar. Stór hluti þeirra ferðast í nágrenni Akureyrar og njóta eigendur verslana og annarar þjónustu góðs af. Sea Princess í hádeginu í dag Myndin er tekin af ÞJ á akureyri.net
https://www.akureyri.is/is/frettir/sjonvarpsmynd-um-thrain-karlsson
Sjónvarpsmynd um Þráin Karlsson Á sunnudagskvöld kl. 21.05, verður frumsýnd í Ríkissjónvarpinu ný sjónvarpsmynd um leikarann Þráin Karlsson sem gerð var í tilefni af fimmtíu ára leikafmælis hans. Í gærkveldi var forsýning í Samkomuhúsinu á Akureyri í boði Bæjarútgerðinnar, Leikfélags Akureyrar, Ríkisútvarpsins og Akureyrarbæjar. Létu gestir hennar mjög vel af myndinni og skemmtu sér hið besta. Það var Bæjarútgerðin sem framleiddi myndina fyrir Sjónvarpið.
https://www.akureyri.is/is/frettir/setning-framhaldsskolanna
Setning framhaldsskólanna Verkmenntaskólinn á Akureyri var settur þann 24. ágúst sl. og þann 13. september nk. munu nemendur mæta til leiks við Menntaskólann á Akureyri. Nemendur við Verkmenntaskólann á Akureyri hófu sitt nám þann 24. ágúst sl. VMA tók til starfa árið 1984 og var fjöldi nemenda fyrsta skólaárið um 780 en nú eru þeir rúmlega 1200. Að auki stunda 700-800 nemendur nám í fjarnámsdeild skólans á hverju skólaári og hátt í 200 starfsmenn. Alls voru prentaðar út 1240 stundatöflur fyrir þessa önn, sem er svipaður fjöldi og undanfarnar annir og eru nokkrir tugir nemenda enn á biðlistum. Þó fjöldi nemenda sé svipaður og áður, þá er dreifing kennslunnar önnur en oft áður og hefur því orðið að fjölga kennurum um eitt og hálft stöðugildi. Þarna vega verklegir áfangar mest þar sem fjöldi nemenda í þá er mjög takmarkaður. Það pláss sem VMA hefur á heimavistinni við Menntaskólann á Akureyri er þegar full nýtt og um 130 nemendur hafa fengið þar inni á haustönn. Busun nýnema var nú á dögunum og tókst í alla staði vel. Hægt er að skoða myndir á síðu skólans www.vma.is Menntaskólinn á Akureyri verður settur í Kvosinni, Sal skólans á Hólum, miðvikudaginn 13. september klukkan 15. Að lokinni skólasetningu verður gestum boðið kaffi. Foreldrar og forráðamenn eru boðnir velkomnir ásamt nemendum. Í vetur verða nemendur í skólanum fleiri en nokkru sinni fyrr, eða um 750 talsins. 10 bekkjardeildir eru í 1. bekk og nemendur þar um 250 alls. Þar af eru 16 nemendur á almennri braut hraðlínu (nemendur sem koma í skólann rakleitt úr 9. bekk grunnskóla) og 21 á almennri braut stoðlínu (nemendur sem hljóta stoðkennslu þar sem þörf er). Tæplega þriðjungur nemenda MA verður á heimavist í vetur, 220-230 nemendur alls. Áfram verður unnið að margvíslegum nýjungum og þróunarstarfi auk þess sem unnið verður að verkefnum í alþjóðlegu samstarfi. Nánari upplýsingar um skólann má skoða á heimasíðu skólans www.ma.is Á heimavistinni við Menntaskólann á Akureyri búa bæði nemendur MA og VMA.
https://www.akureyri.is/is/frettir/naustahverfi-i-reitir-1-og-2-ndash-tillaga-ad-deiliskipul
Naustahverfi I, reitir 1 og 2 – tillaga að deiliskipulagi Bæjarstjórn Akureyrar auglýsir hér með skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.b. tillögu að nýju deiliskipulagi. Skipulagssvæðið afmarkast til norðurs af Miðhúsabraut, til suðurs af útivistarsvæði Tjarnarhóls, til vesturs af golfvelli og til austurs af íbúðarbyggð fyrri áfanga Naustahverfis. Þessi áfangi deiliskipulags Naustahverfis nær til vestasta hluta reita 1 og 2 skv. Rammaskipulagi Naustahverfis og íþróttasvæðis ásamt opnu útivistarsvæði. Aðkoma að deiliskipulagssvæðinu verður um Kjarnagötu, sem mun liggja um deiliskipulagssvæðið frá hringtorgi við Miðhúsabraut. Heildarstærð deiliskipulagssvæðisins er 12,1 ha. Á skipulagssvæðinu er gert ráð fyrir íbúðarbyggð í sérbýli og fjölbýli, íþróttasvæði, útivistarsvæði og settjörn. Gert er ráð fyrir einum grenndarvelli á deiliskipulagssvæðinu. A Fjölbýli 2 hús alls 24 íbúðir 3 hæðir B Fjölbýli 1 hús alls 24 íbúðir 3 hæðir C Raðhús 2-3 hús alls 16 íbúðir 2 hæðir D Parhús 2 hús alls 4 íbúðir 2 hæðir E Einbýlishús 3 hús alls 3 íbúðir 2 hæðir F Einbýlishús 12 hús alls 12 íbúðir 1 hæð Á svæðinu eru alls 83 íbúðir, þar af 48 íbúðir í fjölbýli og 35 íbúðir í sérbýli. Sérbýlisíbúðir skiptast í 16 íbúðir í raðhúsum, 4 íbúðir í parhúsum og 15 íbúðir í einbýlishúsum. Tillöguuppdrættir munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, næstu 6 vikur frá birtingu þessarar auglýsingar, þ.e. til miðvikudagsins 25. október 2006, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir. Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rennur út kl. 16.00 miðvikudaginn 25. október 2006 og skal athugasemdum skilað til Umhverfisdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillöguna innan þessa frests telst vera henni samþykkur. 13. september 2006 Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar. Tillögurnar er hægt að skoða hér á pdf formi: Naustahv. 1_2 skilmalar Naustahv. 1_2-skyrm Nausthv. 1_2 -dsktl. Naustahv_reitur_1_2_hljod
https://www.akureyri.is/is/frettir/greifinn-skiptir-um-eigendur
Greifinn skiptir um eigendur Þann 1. október nk. verða eigendaskipti á veitingahúsinu Greifanum á Akureyri. Þá munu þau Arinbjörn Þórarinsson og Hugrún Helga Guðmundsdóttir taka við rekstri Greifans af þeim “Greifamönnum” sem rekið hafa staðinn með góðum árangri undanfarin sextán ár. Arinbjörn og Hugrún eru fædd og uppalin á Akureyri og þekkja vel til Greifans. Bæði hafa þau unnið þar um alllangt skeið, Hugrún sem þjónn og Arinbjörn í eldhúsi. Hugrún er lærður framreiðslumaður og Arinbjörn er matvælaframleiðslu-fræðingur frá Háskólanum á Akureyri. Arinbjörn og Hugrún njóta liðsinnis rekstrarfélags American Style sem kemur að verkefninu með eignaraðild. Þessar breytingar eru í samræmi við áætlanir þeirra “Greifamanna” sem ætla að snúa sér alfarið að sinni kjarnastarfssemi sem er í dag hótelrekstur. Undir nafni Keahótela eiga þeir og reka sex hótel, þrjú á Akureyri; Hótel Kea, Hörpu og Norðurland, Hótel Gíg í Mývatnssveit og Hótel Borg og Björk í Reykjavík. Engar breytingar verðar gerðar á rekstrarformi veitingahússins Greifans. Arinbjörn og Hugrún munu leggja allt kapp á að viðhalda þeim gæðum og þjónustu sem staðurinn er þekktur fyrir. Einnig verður lögð mikil áhersla á að viðhalda þeirri velvild sem Greifinn hefur notið meðal Akureyringa og annarra landsmanna. Sömuleiðis mun Greifinn styðja áfram vel við bakið á íþróttastarfi, menningar- og leiklistarlífi á Akureyri og í nágrenni. Fráfarandi eigendur Greifans vilja óska hinum nýju eigendum velfarnaðar í rekstrinum og þakka viðskiptavinum og starfsfólki, bæði núverandi og fyrrverandi, fyrir gott samstarf og ánægjuleg viðskipti á liðnum árum.
https://www.akureyri.is/is/frettir/sama-gjald-i-leikskola-og-i-daggaeslu
Sama gjald í leikskóla og í daggæslu Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 7. september sl. tillögu að þjónustusamningi við dagforeldra á Akureyri. Markmiðið með slíkum þjónustusamningi er aðallega þríþætt: Að jafna stöðu allra foreldra á Akureyri óháð því hjá hvaða dagforeldri þau hafa börn sín. Að tryggja að foreldrar sem hafa börn sín hjá dagforeldri greiði sama gjald og ef barnið væri í leikskóla. Að auka starfsöryggi þeirra dagforeldra sem eru í þessu starfi til lengri tíma og efla þar með þjónustu þeirra. Að sögn Gunnars Gíslasonar, deildarstjóra skóladeildar, er niðurgreiðsla Akureyrarbæjar tæplega 43.000 kr. á mánuði fyrir 8 tíma gæslu á dag fyrir börn foreldra sem eru giftir eða í sambúð. Upphæðin er ríflega 48.000 kr. fyrir börn einstæðra foreldra og námsmanna þar sem báðir foreldrar eru í námi. Því hafi niðurgreiðslan nú hækkað um 40-50% frá fyrri gjaldskrá. Gunnar segir jafnframt að á Akureyri séu nú starfandi 28 dagforeldrar og hjá þeim eru um 120 börn á aldrinum 6 til 18 mánaða. Í leikskólum Akureyrar eru 1.056 börn á aldrinum 18 mánaða til 5 ára. Þar af eru 10 sem eiga ekki lögheimili á Akureyri. Alls 993 börn tveggja ára og eldri af 1.003 börnum sem eiga lögheimili í bænum eru í leikskóla. Það eru því 99% barna fædd á árunum 2001-2004 sem eru á leikskóla í dag. Í ár eru í fyrsta skipti tekin inn börn sem eru 18 mánaða, þ.e. fædd í janúar til apríl árið 2005. Af 77 börnum eru 53 nú þegar komin í leikskóla eða tæp 69% þeirra. Að lokum segir Gunnar að meðalvistunartími barna í leikskóla sé nú 7,5 klst. og hafi hann verið að lengjast nokkuð á síðast liðnum árum. Stöðugildi starfsmanna sé ríflega 200 og hlutfall fagmenntaðra starfsmanna á deild nú um 70%, sem sé mjög hátt hlutfall á landsvísu.
https://www.akureyri.is/is/frettir/samid-vid-fmr
Samið við FMR Háskólinn á Akureyri og Fasteignamat ríkisins hafa undirritað samning um skipulagningu námskeiða fyrir notendur nýs álagningakerfis. Síðastliðinn vetur samþykkti Alþingi breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga þess efnis að frá 1. janúar 2007 fari álagning fasteignaskatta og fasteignagjalda fram í Landskrá fasteigna. Fer það fram á þann hátt að hvert sveitarfélag fær aðgangsstýrt svæði í skránni þar sem sveitarfélagið skráir álagningarforsendur og framkvæmir álagningu. Með þessu geta sveitarfélög lagt af rekstur sérstakra álagningarskráa. Landskrár fasteigna er samhæft gagna- og upplýsingakerfi um allar fasteignir í landinu til að geyma upplýsingar um fasteignir sem stjórnvöld og þar með fasteignaeigendur, almenningur og hagsmunaaðilar í landinu, þurfi á að halda. Fasteignamat ríkisins rekur skrána og hefur hlotið vottun frá Bresku staðlastofnuninni, BSI, samkvæmt BS 7799-2:2002 staðlinum um stjórnun upplýsingaöryggis. Er Fasteignamatið eina opinbera stofnunin sem hlotið hefur slíka vottun. Háskólinn á Akureyri hefur tekið að sér fyrir Fasteignamat ríkisins að skipuleggja námskeið fyrir verðandi notendur álagningakerfisins en áætlað er að þeir verði 150-200 talsins. Námskeiðin munu fara fram á nokkrum stöðum um landið í tengslum við símenntunarmiðstöðvar. Hlutverk háskólans er að skipuleggja námskeiðahaldið, veita þátttakendum ýmsa þjónustu og móta kennslufræði námsins en starfsmenn Fasteignamats ríkisins munu leiðbeina á námskeiðunum. Að námskeiðunum loknum munu sömu starfsmenn síðan starfa við þjónustu við sveitarfélögin vegna álagningarinnar en það þjónustuborð verður á skrifstofu Fasteignamats ríkisins á Akureyri. Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritun samningsins. Talið frá vinstri: Haukur Ingibergsson forstjóri Fasteignamats ríkisins, Þorsteinn Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri og Elín Hallgrímsdóttir símenntunarstjóri Háskólans á Akureyri.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ljodagangan-2006
Ljóðagangan 2006 Hin árlega ljóðaganga verður farin í Garðsárreit í Eyjafirði laugardaginn 16. september nk. í samvinnu Skógræktarfélags Eyfirðinga, Amtsbókasafnsins á Akureyri og Populus tremula. Lagt verður upp með rútu frá Amtsbókasafninu klukkan 14.00 og komið til baka á fimmta tímanum. Til upplyftingar andanum munu eftirtaldir lesa eða syngja kvæði fyrir göngufólk: Aðalsteinn Svanur Sigfússon, Arna Valsdóttir, Hannes Örn Blandon, Helgi Þórsson, Jón Kristófer Arnarson og Steinunn Sigurðardóttir. Einnig verður skógurinn kynntur, hellt uppá ketilkaffi og bragðbætt með kúmeni að vanda. Síðasta áratuginn eða svo hefur ljóðagangan fest sig vel í sessi og nýtur vaxandi vinsælda. Allir eru velkomnir. Sætaferð og þátttaka er ókeypis.
https://www.akureyri.is/is/frettir/greifa-og-kb-bankamot-thors
Greifa- og KB-bankamót Þórs Greifa- og KB-bankamótið í körfuknattleik hefst í dag, föstudag. Að þessu sinni mæta sjö úrvalsdeildarlið til leiks, auk gestgjafanna í Þór, en þau eru ÍR, Fjölnir, KR, Snæfell, Haukar, Tindastóll og Skallagrímur. Flest úrvalsdeildarliðanna eru fullmönnuð og búin að fá sína erlendu leikmenn til landsins. Þá eru Þórsararnir með nánast fullskipað lið en liðið mun ekki tefla fram erlendum leikmanni í vetur. Leikið verður í tveimur riðlum sem spilast á föstudegi og laugardegi. Leikið verður í Íþróttahöll Akureyrar og í íþróttahúsi Síðuskóla. Úrslit ráðast fyrri part sunnudags og munu dómarar frá KKÍ dæma alla leikina. Þórsarar munu spila sína leiki í íþróttahúsi Síðuskóla en þar mun liðið einnig spila sína heimaleiki í vetur. Vonir standa til að hægt verði að ná upp hörku stemningu með því að spila í hjarta Þórshverfisins. FRÍTT ER INN Á ALLA LEIKI MÓTSINS Hér að neðan má sjá riðlaskiptingu og niðurröðun leikja: A – riðill (Höllin) Snæfell Tindastóll Fjölnir KR B – riðill (Síðuskóli) ÍR Þór Skallagrímur Haukar Föstudagur 15. sept. Höllin kl. 19:00 Snæfell-Tindastóll Höllin kl. 21:00 Fjölnir-KR Síðuskóli kl. 19:00 ÍR-Þór Síðuskóli kl. 21:00 Skallagrímur-Haukar Laugardagur 16. sept. Höllin kl. 09:00 KR-Snæfell Höllin kl. 11:00 Tindastóll-Fjölnir Höllin kl. 15:00 Snæfell-Fjölnir Höllin kl. 17:00 Tindastóll-KR Síðuskóli kl. 09:00 ÍR-Haukar Síðuskóli kl. 11:00 Þór-Skallagrímur Síðuskóli kl. 15:00 ÍR-Skallagrímur Síðuskóli kl. 17:00 Þór-Haukar Sunnudagur 17. sept. Höllin kl. 09:00 A4 – B4 Síðuskóli kl. 09:00 A3 – B3 Síðuskóli kl. 11:00 A2 – B2 Síðuskóli kl. 13:00 A1 – B1 – úrslitaleikur
https://www.akureyri.is/is/frettir/styrkir-til-nams-i-hjukrunarfraedi-vid-haskolann-a-akureyri
Styrkir til náms í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri Félagsmálaráð Akureyrar samþykkti á fundi sínum þann 14. ágúst 2006 að veita styrk til 3. eða 4. árs nema í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Styrkurinn nær til námsloka eða til eins eða tveggja vetra. Einnig getur styrkveitingin náð til hjúkrunarfræðinga í framhaldsnámi í öldrunarfræðum. Markmiðið er að styrkja til náms nema sem vilja tileinka sér sérstaklega hjúkrun aldraðra og að auka áhuga hjúkrunarfræðinema og nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga á stofnanaþjónustu fyrir aldraða. Styrkupphæðin er kr. 70.000,- á mánuði á tímabilinu 1. september til 31. maí. Val á styrkþegum byggir á, að nemandi hafi sérstakan áhuga á hjúkrunarstörfum í stofnanaþjónustu við aldraða, á frammistöðu í námi á þeim árum sem lokið er, á meðmælum eða öðru því sem talið er skipta máli. Styrkþegar verða skuldbundnir til að inna af hendi 100% vinnuframlag við Öldrunarheimili Akureyrarbæjar að loknu námi, í 3 ár miðað við 2ja ára styrk en í 1 ½ ár miðað við 1 árs styrk. Að öðrum kosti hefur styrkveitandi heimild til að krefjast endurgreiðslu á veittum styrk. Einnig hefur styrkveitandi heimild til að krefjast endurgreiðslu heildarstyrkfjárhæðar ef styrkþegi hættir námi án þess að ljúka því. Umsóknum skal skilað á meðfylgjandi eyðublöðum í afgreiðslu á Öldrunarheimilinu Hlíð, Austurbyggð 17. eða www.helgat@kureyri.is Nánari upplýsingar gefur hjúkrunarforstjóri Helga Tryggvadóttir hjúkrunarheimilinu Hlíð í síma 460 9100. Umsóknarfrestur er til 29. september 2006. Stjórnendur Öldrunarheimila Akureyrar. Smelltu hér til þess að sjá umsóknareyðublað á pdf-formi.
https://www.akureyri.is/is/frettir/taekninyjungar-a-idnadarsafninu
Tækninýjungar á Iðnaðarsafninu Þann 16. september sl. var tekin upp sú nýjung í Iðnaðarsafninu á Akureyri að bjóða gestum uppá leiðsögn um safnið af bandi. Leiðsögn Jóns Arnþórssonar hefur löngum verið ómetanlegur hluti af upplifun heimsóknar í Iðnaðarsafnið. Því ákvað stjórn safnsins að ráðast í það verkefni að hljóðrita leiðsögnina þannig að gestir framtíðarinnar gætu notið leiðsagnar hans með aðstoð tækninnar og gengið um safnið og hlustað á frásögnina í heyrnartólum. Inn í safnaleiðsögnina eru fléttaðar sögur og tónlist frá liðnum árum sem tengjast iðnaðarbænum Akureyri. Lesari með Jóni er Brynhildur Pétursdóttir og um hljóðritun og tæknilega úrvinnslu sá Kristján Edelstein. Til þessa verkefnis fékkst styrkur bæði frá Safnaráði og Samtökum iðnaðarins. Að lokinni athöfn var gestum boðið uppá veitingar og einnig siglingu með Húna ll. Næsta verkefni sem safnið hefur áhuga á að framkvæma er að hljóðrita viðtöl og frásagnir starfsfólksins sem vann á þeim vinnustöðum sem kynntir eru í safninu. Stefnt er að því að flétta þær frásagnir inn í safnaleiðsögnina þannig að minningar og þekking fari ekki forgörðum og varðveitist til framtíðar. Þannig verði smám saman aukið við upplifun gesta með lifandi frásögnum og minningarbrotum. Að sögn Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, forseta bæjarstjórnar er ánægjulegt að finna vaxandi áhuga Akureyringa fyrir safninu sem kemur fram með margvíslegum hætti. Fyrirtæki og félagasamtök hafi stutt dyggilega við rekstur safnsins í gegnum árin og segir hún þann stuðning mjög mikilvægan. Stöðugt berist gjafir til safnsins sem tengjast sögu iðnaðarins á Akureyri, gömul áhöld og gripir, eins megi nefna gamlar auglýsingar og kynningarefni, sveinsstykki og meistararbréf, ásamt fjölda mynda. Sögugöngur safnsins hafa notið mikilla vinsælda í sumar – bæði um iðnaðarsvæðið á Gleráreyrum sem og Grófargilið auk þess sem sögusiglingar með Húna ll. hafa verið mjög vinsælar í sumar og færri komist að en viljað.
https://www.akureyri.is/is/frettir/islensku-sjonlistarverdlaunin
Íslensku sjónlistarverðlaunin Sýning á verkum þeirra listamanna sem tilnefndir eru til Íslensku sjónlistaverðlaunanna 2006. Nú stendur yfir sýning á verkum þeirra sex listamanna sem tilnefndir hafa verið til Íslensku sjónlistaverðlaunanna 2006. Í tilefni af verðlaunaafhendingunni, sem fram fer í Leikfélagi Akureyrar föstudaginn 22. september kl. 20.10 og alþjóðlegu málþingi því tengdu, verður Listasafnið á Akureyri opið frá kl. 10-22 næstkomandi föstudag og laugardag. Fram til þessa hafa engin verðlaun verið veitt á Íslandi á sviði sjónlista sambærileg verðlaunaveitingum í bókmenntum, tónlist, leiklist og kvikmyndum. Með Íslensku sjónlistaverðlaununum er þess freistað að gera hlut sjónlistanna hærra undir höfði, en markmiðið með þeim er einkum þríþætt: 1) að beina sjónum að framúrskarandi framlagi íslenskra myndlistarmanna og hönnuða sem starfa hér heima og erlendis, 2) stuðla að aukinni þekkingu, áhuga og aðgengi almennings að sjónlistum og 3) hvetja til faglegrar þekkingarsköpunar og bættra starfsmöguleika sjónlistafólks á Íslandi. Þeir listamenn sem tilnefndir voru í ár og eiga því verk á sýningunni eru: Hildur Bjarnadóttir fyrir yfirlitssýninguna Unraveled í Boise listasafninu í Idaho, Bandaríkjunum, Katrín Sigurðardóttir fyrir verkið High Plane III á sýningunni The Here and Now í Renaissance Society í Chicago, Margrét H. Blöndal fyrir innsetningu í Samtímalistasafninu í Santiago í Chile, Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, hönnuður, fyrir húsgögn í framleiðslulínunum Inner Beauty og Flatpack Antiques, Steinunn Sigurðardóttir, fatahönnuður, fyrir vor- og haustlínu sem hún hannaði undir vörumerki sínu Steinunn og Margrét Harðardóttir og Steve Christer, arkitektar hjá Studio Granda, fyrir nýjan nemendagarð rannsóknar- og frumkvöðlaseturs Viðskiptaháskólans á Bifröst. Sjónlist er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, menntamálaáðuneytis, iðnaðarráðuneytis, Sambands íslenskra myndlistarmanna og Forms Íslands, sambands arkitekta og hönnuða. Í tengslum við sýningunna gefur Listasafnið á Akureyri út 120 síðna bók á íslensku og ensku um verkefnið og listamennina, en þar er að finna upplýsingar um feril þeirra, umfjöllun og viðtöl, ásamt niðurstöðum dómnefnda og völdum myndum. Ritstjóri, sýningarstjóri og höfundur þessa verkefnis er Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri. Í TILEFNI AF AFHENDINGU SJÓNLISTAVERÐLAUNNA OG MÁLÞINGI ÞVÍ TENGDU VERÐUR OPIÐ Í LISTASAFNINU Á AKUREYRI FÖSTUDAG OG LAUGARDAG FRÁ KL. 10-22 .
https://www.akureyri.is/is/frettir/staerdfraedi-i-leikskolum
Stærðfræði í leikskólum Færri komast að en vilja á ráðstefnu skólaþróunarsviðs, kennaradeildar Háskólans á Akureyri um nám og starf yngstu barnanna í leikskólanum með sérstaka áherslu á stærðfræði. Ráðstefnan verður haldin í Brekkuskóla á Akureyri laugardaginn 23.september nk. Hún er liður í þróunarverkefni Háskólans á Akureyri og fjögurra leikskóla, frá Kópavogi og Akureyri, um gerð kennsluleiðbeininga fyrir yngsta stig leikskólans. Þrír af leikskólunum fjórum kynna valda þætti verkefnisins í málstofum ráðstefnunnar. Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar eru sænskir leikskólakennarar, Mikaela Sundberg og Susanne Hådén. Fyrirlestur þeirra fjallar um verkefni sem unnið var á tuttugu og tveimur deildum yngstu barna, þar sem leikskólakennararnir horfðu á starfið út frá sjónarhorni stærðfræðinnar. Þær munu jafnframt rekja hvernig unnið var með stærðfræðihugtök með svo ungum börnum. Auk þeirra fjallar Guðrún Alda Harðardóttir, lektor við leikskólabraut HA um stærðfræðinám í leikskólastarfi með yngri börnum. Auk fyrirlestra verða haldnar málstofur þar sem ólík verkefni í íslensku leikskólastarfi verða kynnt: „Einn, tveir og byrja“ – námsefni fyrir þau yngstu. „Því fyrr því betra“ – stærðfræði með ungum börnum. Aðlögun yngstu barnanna. Allt er stærðfræði. Dagleg umönnun. Einingakubbar og stærðfræði fyrir 1-3 ára börn. Göngum, göngum... Litlu manneskjurnar í leikskólanum. Stærðfræði er leikur 1. Tölur í tónum. Aðsókn á ráðstefnuna er slík að færri komast að en vilja, en um 300 manns munu sitja ráðstefnuna.
https://www.akureyri.is/is/frettir/endurnyjad-leiksvaedi-vid-holtakot
Endurnýjað leiksvæði við Holtakot Það var glatt á hjalla við leikskólann Holtakot í morgun þegar endurbætt leiksvæði var formlega tekið í notkun. Leikskólastjórinn Sigríður Gísladóttir klippti á borðann og síðan þustu krakkarnir kátir og glaðir út á nýja leiksvæðið. Framkvæmdum á lóðinni var skipt í tvo hluta. Fyrst var svæði við útganga leikskólans lagfært, hitalögnum komið fyrir undir hellulagnir sem voru endurnýjaðar og stækkaðar, einnig var reist nýtt geymsluhús. Í seinni hluta var skipt um jarðveg á leiksvæðinu, lýsingu komið fyrir og sett niður leiktæki. Mesta athygli vekur e.t.v. að svokallað fallundirlag hefur verið sett á leikvöllinn. Annars vegar er notast við gúmmímottur sem gras vex upp í gegnum en hins vegar efni sem samanstendur af grófu gúmmíkurli sem undirlagi og fínkornað gúmmí í yfirlag. Þetta er í fyrsta sinn sem þetta efni er notað á leiksvæði hér á landi. Í gegnum fallundirlagið liðast síðan lítill lækur sem setur sérstakan blæ á leiksvæðið og vakti mikla hrifningu leikskólakrakkanna. Fasteignir Akureyrarbæjar höfðu umsjón með framkvæmdunum og gúmmíundirlagið er frá Gólflausnum Mallandi. Myndirnar frá vígslu svæðisins tala sínu máli.
https://www.akureyri.is/is/frettir/karius-og-baktus-i-samkomuhusinu
Karíus og Baktus í Samkomuhúsinu Laugardaginn 23. september verður hið ástsæla og sígilda barnaleikrit Karíus og Baktus eftir Thorbjorn Egner frumsýnt hjá LA. Verkið er löngu orðið sígilt og því í raun óþarft að kynna enda gengur það í endurnýjun lífdaga með hverri nýrri kynslóð ungra leikhúsgesta. Verk Thorbjorns Egners eru ætíð vinsæl en þetta er í fyrsta sinn sem Karíus og Baktus eru settir upp norðan heiða. Í uppsetningu LA er tónlistin flutt í nýrri og grallaralegri útgáfu hljómsveitarinnar 200.000 naglbíta. Ófrýnilegu grallararnir Karíus og Baktus munu gera allt vitlaust á Akureyri. Þeir höggva, berja, öskra og heimta í munninum á Jens, sem gefur þeim nóg af sætindum! Þeir eru svakalegir og skemmtilegir, hættulegir og hlægilegir í senn, svo sæluhrollur hríslast niður bakið á áhorfendum, ungum sem öldnum. „Einu sinni var drengur sem hét Jens. Hann hafði tennur í munninum eins og við höfum öll. En í einni tönninni hans Jens var gat og í því bjuggu tveir litlir náungar sem hétu Karíus og Baktus. Ykkur finnst þetta kannski undarleg nöfn, en þetta eru líka undarlegir náungar...“ Karíus og Baktus verða sýndir í nýju leikhúsi LA, Rýminu í september, október og nóvember. Sýningin er stutt, tekur um hálfa klukkustund í flutningi og tilvalin fyrir þá sem eru að kynnast töfrum leikhússins í fyrsta skipti. Verk Thorbjörns Egners eru fastir liðir á verkefnaskrám íslenskra leikhúsa. Hver þekkir ekki Soffíu frænku, Lilla klifurmús, Mikka ref og Bæjarfógetann Bastían? Kardimommubærinn og Dýrin í Hálsaskógi hafa oft sést á íslenskum fjölum og meðal annars hjá LA. Karíus og Baktus hafa lifað með þjóðinni á ýmsan hátt, ekki síst sem vinsælt útvarpsleikrit sem gefið var út á hljómplötu en einnig sem sjónvarpsmynd og auðvitað sem leiksýning. Þetta er í fyrsta sinn sem leikritið er sett upp hjá LA. Árið 1970 framleiddi Ríkissjónvarpið sjónvarpsmynd upp úr verkinu um Karíus og Baktus. Leikstjóri og sögumaður var einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, Helgi Skúlason heitinn. Með hlutverk Jens þá fór Skúli Helgason, þá barn að aldri. Skúli er löngu orðinn þekktur sem vinsæll útvarpsmaður og nú framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar. Nú 36 árum síðar bregður hann sér í hlutverk sögumannsins og fetar þar með í fótspor föður síns. Sonur Skúla fer nú með hlutverk Jens. Það má því með sanni segja að sagan fari í hringi, hvað íslenskar uppfærslur á Karíus og Baktus varðar. Það var Hulda Valtýsdóttir sem þýddi en leikstjóri er Ástrós Gunnarsdóttir. Leikmynd og búninga hannar Íris Eggertsdóttir, ljósahönnuður er Sveinn Benediktsson og Ragna Fossberg á heiðurinn af gervahönnun. Hljómsveitin 200.000 naglbítar hafa endurútsett tónlistina og sjá sjálfir um flutninginn. Grallarana Karíus og Baktus leika þeir Guðjón Davíð Karlsson og Ólafur Steinn Ingunnarson. Samstarfsaðili er Colgate.
https://www.akureyri.is/is/frettir/sjonlistaveisla-framundan
Sjónlistaveisla framundan Dagana 22. og 23. september fer hátíðin Sjónlist 2006 fram á Akureyri. Hápunktur hennar verður í beinni útsendingu Sjónvarpsins frá Samkomuhúsinu á föstudagskvöldið 22. september en þá mun koma í ljós hverjir hljóta Sjónlistaorðurnar 2006, annars vegar á sviði myndlistar og hins vegar á sviði hönnunar og arkitektúrs. Þeir sem orðurnar hljóta, fá einnig peningaverðlaun að upphæð 2 milljónir króna og því eftir miklu að slægjast og úrslitanna er beðið með eftirvæntingu. Jafnframt verður veitt heiðursorða Sjónlistar 2006 fyrir markvert ævistarf og framlag til sjónlista. Þeir listamenn sem tilnefndir voru í ár eru: Hildur Bjarnadóttir fyrir yfirlitssýninguna Unraveled í Boise listasafninu í Idaho, Bandaríkjunum, Katrín Sigurðardóttir fyrir verkið High Plane III á sýningunni The Here and Now í Renaissance Society í Chicago, Margrét H. Blöndal fyrir innsetningu í Samtímalistasafninu í Santiago í Chile, Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, hönnuður, fyrir húsgögn í framleiðslulínunum Inner Beauty og Flatpack Antiques, Steinunn Sigurðardóttir, fatahönnuður, fyrir vor- og haustlínu sem hún hannaði undir vörumerki sínu Steinunn og Margrét Harðardóttir og Steve Christer, arkitektar hjá Studio Granda, fyrir nýjan nemendagarð rannsóknar- og frumkvöðlaseturs Viðskiptaháskólans á Bifröst. Nú stendur yfir sýning á verkum þeirra sem tilnefndir eru á Listasafninu á Akureyri og safnið gaf út 120 síðna bók um þá. Á hátíðinni verður margt í boði fyrir utan sjónvarpsútsendinguna. Á föstudaginn kl. 16.00 munu dómnefndir verðlaunanna spjalla við tilnefnda listamenn um verk þeirra á sýningunni í Listasafninu og laugardag kl. 11.00 verður alþjóðlegt málþing í Ketilhúsinu. Á málþinginu verður fjallað um verðlaun og aðra viðburði á sviði sjónlista, gildi þeirra, kosti og galla. Fyrirlesarar eru ekki að verri endanum: Lizzie Carey-Thomas, sýningarstjóri hjá Tate Britain og ein af skipuleggjendum hinna þekktu Turnerverðlauna, Maziar Raein, deildarstjóri þverfaglegs Masternáms í Listaakademíunni í Osló, Marina Fokidis, sýningarstjóri og gagnrýnandi frá Aþenu, Lilly Wei, sýningarstjóri og gagnrýnandi frá New York, Karen Peters, aðstoðarforstöðumaður Whitebox miðstöðvarinnar í New York og Guðjón Bjarnason, myndlistarmaður og arkítekt. Fundarstjóri verður Fríða Björk Ingvarsdóttir, menningarritstjóri Morgunblaðsins. Sjónlist 2006 lýkur svo með glæsilegu grímuballi í Ketilhúsinu á laugardagskvöld kl. 21.00. Þangað eru allir hjartanlega velkomnir, aðgangur er ókeypis en veitt verða verðlaun fyrir besta búninginn. Sá gestur sem mætir í besta búningnum að mati dómnefndar hlýtur helgarferð fyrir tvo til Kaupmannahafnar í boði Ferðaskrifstofu Akureyrar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/hildur-og-gudrun-hlutu-sjonlistaordur
Hildur og Guðrún hlutu Sjónlistaorður Sjónlist 2006 var haldin í Samkomuhúsinu á Akureyri í kvöld. Þar var tilkynnt hverjir hlutu Sjónlistaorðurnar 2006 en það voru Hildur Bjarnadóttir fyrir myndlist og Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir fyrir hönnun. Sérstaka heiðursorðu Sjónlistar fékk Magnús Pálsson fyrir markvert ævistarf og framlag til sjónlista. Hildur Bjarnadóttir hlaut orðuna fyrir yfirlitssýninguna Unraveled í Boise listasafninu í Idaho, Bandaríkjunum, og Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir fyrir húsgögn í framleiðslulínunum Inner Beauty og Flatpack Antiques. Sjónvarpið sýndi beint frá Sjónlistahátíðinni í Samkomuhúsinu. Hátíðin heldur áfram á laugardag en þá verður efnt til alþjóðlegs málþings í Ketilhúsinu klukkan 11 árdegis þar sem fjallað verður um verðlaun og aðra viðburði á sviði sjónlista, gildi þeirra, kosti og galla. Sjónlist 2006 lýkur loks með glæsilegu grímuballi í Ketilhúsinu á laugardagskvöld kl. 21.00. Þangað eru allir hjartanlega velkomnir, aðgangur er ókeypis en veitt verða verðlaun fyrir besta búninginn. Sá gestur sem mætir í besta búningnum að mati dómnefndar hlýtur helgarferð fyrir tvo til Kaupmannahafnar í boði Ferðaskrifstofu Akureyrar. Frá sýningu Hildar Bjarnadóttur. Verk eftir Guðrúnu Lilju Gunnlaugsdóttur.
https://www.akureyri.is/is/frettir/atta-akureyrarmet-fellu
Átta Akureyrarmet féllu Um helgina var Sprengimót Óðins haldið í blíðskaparveðri í Sundlaug Akureyrar. Keppt var í styttri vegalengdum og náðist góður árangur í mörgum greinum. Meðal annars féllu átta Akureyrarmet sem sum voru komin verulega til ára sinna. Bryndís Rún Hansen setti fjögur met á mótinu, þrjú telpnamet og eitt stúlknamet. Í 50 m baksundi sló hún telpnamet Önnu Fanneyjar Stefánsdóttur frá árinu 2004 sem var 35.38 sek. og jafnframt stúlknamet Andreu Aspar Karlsdóttur sem var 33.38 sek. en Bryndís synti á tímanum 33.37 sek. Í 50 m flugsundi sló Bryndís gamalt met Birnu Björnsdóttur frá árinu 1987 sem var 32.88 sek. en Bryndís synti á tímanum 32.84 sek. Í 100 m fjórsundi sló hún met Andreu Aspar Karlsdóttur frá árinu 2003 sem var 1:13.26 mín. en Bryndís Rún fór á tímanum 1:11.77 mín. Freysteinn Viðar Viðarsson setti tvö met á mótinu í sveinaflokki. Í 50m. bringusundi sló hann gamalt met Ingimars Guðmundssonar frá árinu 1975 sem var 41.60 sek. en Freysteinn synti á tímanum 40.14 sek. Í 100 m fjórsundi sló Freysteinn eigið met frá því fyrr þessu ári sem var 1:21.97 mín. en nú fór hann á tímanum 1:20.44 mín. Í meyjaflokki féllu einnig tvö Akureyrarmet. Elín Erla Káradóttir sló gamalt met Birnu Björnsdóttur í 50 m skriðsundi frá árinu 1985 sem var 30:60 sek en hún fór á tímanum 30.31 sek. Halldóra Sigríður Halldórsdóttir sló met Rannveigar Þórunnar Unnsteinsdóttur í 50 m flugsundi frá árinu 2005 sem var 35.71 sek. en Halldóra Sigríður synti á tímanum 35:33 sek. Ásta Birgisdóttir, formaður Óðins, segir mótið um helgina lofa góðu um framhaldið. Æfinga- og keppnistímabil sundfólks er nú nýhafið og ekki algengt að met séu slegin þegar í upphafi tímabils.
https://www.akureyri.is/is/frettir/forvarnadagur-i-grunnskolum
Forvarnadagur í grunnskólum Fimmtudaginn 28. september nk. verður haldinn forvarnardagur í grunnskólum Akureyrar með nemendum í 9. bekk undir slagorðinu "Taktu þátt!" Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði Forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Tveimur kennslustundum verður varið til verkefnisins að morgni 28. september. Skólarnir hafa fengið verkefni til að vinna með nemendum en það samanstendur af geisladisk og þemaverkefnum um forvarnir og gildi þeirra. Að auki munu fulltrúar íþrótta- og frístundafélaga taka þátt í þemavinnu með nemendum og kynna starfsemi sína. Þemaverkefnin/heillaráðin eru: Samvera foreldra og barna skiptir máli Þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi skiptir máli Hvert ár sem unglingar sniðganga áfengi skiptir máli Skilaboð með þessum þremur heillaráðum verða send inn á hvert heimili í landinu. Niðurstjöður íslenskra rannsókna á lífsháttum ungs fólks hafa leitt í ljós að heillaráðin eru árangursríkar forvarnir. Það hefur sýnt sig að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi hafa rannsóknirnar sýnt að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stundi íþróttir og annað skipulagt frístundastarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á þá staðreynd að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegri er að þau verði fíkniefnaneytendur.
https://www.akureyri.is/is/frettir/sveitarstjornafolk-thingar-a-akureyri
Sveitarstjórnafólk þingar á Akureyri Tuttugasta landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var sett í dag í Íþróttahöllinni á Akureyri og stendur það fram á föstudag. Á þinginu eiga sæti 154 fulltrúar sveitarfélaganna ásamt formönnum og framkvæmdastjórum landshlutasamtaka sveitarfélaga. Þar verður meðal annars fjallað um framþróun íslenskra sveitarstjórnarstigsins og árangursríkt starf sveitarfélaganna í samræmi við þarfir íbúanna og umhverfis til framtíðar litið. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, setti þingið en síðan ávarpaði Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, þingfundarmenn. Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs á Akureyri, var kjörinn þingforseti. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur nú setið í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga í 20 ár og þar af sem formaður í 16 ár. Hann gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórninni en í setningarræðu sinni sagði hann meðal annars: "Þegar ég lít yfir farinn veg er ég sáttur og tel að mér hafi - ásamt samstarfsmönnum mínum í stjórn sambandsins, starfsmönnum þess og sveitarstjórnarmönnum um land allt - tekist að þoka málefnum sveitarfélaganna í rétta átt og margt hefur breyst á þessum tíma. Á árinu 1990 voru kjörnir sveitarstjórnarmenn 1.116 en nú eru þeir 529. Árið 1990 var hlutfall kvenna í sveitarstjórnum 21,6% og þá sat engin kona í 58 sveitarstjórnum. Nú er hlutfall kvenna í sveitarstjórnum komið upp í 35,6% og þó má enn finna fimm sveitarstjórnir þar sem engin kona á sæti." Að neðan eru nokkrar svipmyndir frá setningu þingsins.
https://www.akureyri.is/is/frettir/fra-visbendingum-til-vidbragda-um-ofbeldi-gegn-bornum
Frá vísbendingum til viðbragða - um ofbeldi gegn börnum Fimmtudaginn 28. september klukkan 16.00, stendur kennaradeild Háskólans á Akureyri fyrir fyrirlestri um ofbeldi gegn börnum. Fyrirlesari verður Guðrún Kristinsdóttir prófessor við Kennaraháskóla Íslands. Fyrirlesturinn verður í stofu 14 við Þingvallastræti. Þótt íslenskar rannsóknir séu fáar liggur fyrir að börn eru beitt kynferðislegu ofbeldi hérlendis og að einhver hluti foreldra beitir börn sín líkamlegu ofbeldi. Ofbeldi gegn börnum er oft aðgreint í líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi. Sum börn eru vanrækt en misjafnt er hvort menn telja slíkt til ofbeldis. Umræða hefur mikið snúist um kynferðislegt ofbeldi þótt vanræksla virðist langalgengasta tilefni opinberra afskipta af illri meðferð á börnum hérlendis. Afleiðingar eru oft langvarandi og spanna frá fósturskaða til ótta, ógnunar, sjálfsmorðs- og annarrar lífshættu og til dauða. Heimilisofbeldi milli fullorðinna sem tengdir eru nánum tilfinningaböndum fer oft saman við ofbeldi og vanrækslu á barni eða í um 30-50% tilvika skv. erlendum rannsóknum. Ferskar niðurstöður sýna að íslensk börn telja barsmíðar milli foreldra óásættanlegar og benda til þess að sú skoðun sé mun algengari en meðal breskra barna. Það er mikilvægt fyrir kennara og aðrar uppeldisstéttir að gera sér grein fyrir alvarleika ofbeldisins, geta greint hættumerki og einkenni og kunna að bregðast rétt við. Margir þekkja tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda sem lögð er á herðar almennra borgara og sér í lagi á fagstéttir. Reynsla sýnir að ýmislegt hindrar ýmsa í að taka nægjanlega á þessum málum. Í fyrirlestrinum verður fjallað um einkenni, greiningu og rétt viðbrögð og vikið að niðurstöðum rannsóknar á þekkingu og viðhorfum barna til ofbeldis á heimilum sem nú fer fram við Kennaraháskóla Íslands.
https://www.akureyri.is/is/frettir/halldor-halldorsson-kjorinn-formadur
Halldór Halldórsson kjörinn formaður Tuttugasta landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga lauk um hádegisbil í dag með kosningu formanns og stjórnar. Tveir sóttust eftir formannsembættinu, þeir Halldór Halldórsson frá Ísafjarðarbæ og Smári Geirsson frá Fjarðarbyggð. Niðurstaðan var að Halldór Halldórsson var kjörinn nýr formaður. Smári Geirsson og Halldór Halldórsson bíða úrslitanna meðan á talningu atkvæða stóð. Smári samfagnar með Halldóri þegar niðurstöður lágu fyrir. Halldór Halldórsson, nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í ræðustól. Ný stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga er þannig skipuð: Aðalmenn: Varamenn: Halldór Halldórsson, Ísafjarðarbæ Gunnar Sigurðsson, Akraneskaupstað Hanna Birna Kristjánsdóttir, Reykjavíkurborg Gísli Marteinn Baldursson, Reykjavíkurborg Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Reykjavíkurborg Stefán Jón Hafstein, Reykjavíkurborg Árni Þór Sigurðsson, Reykjavíkurborg Svandís Svavarsdóttir, Reykjavíkurborg Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Mosfellsbæ Gunnar Einarsson, Garðabæ Lúðvík Geirsson, Hafnarfjarðarkaupstað Guðríður Arnardóttir, Kópavogsbæ Elín R. Líndal, Húnaþingi vestra Sveinbjörn Eyjólfsson, Borgarbyggð Kristján Þór Júlíusson, Akureyrarkaupstað Sigrún Björk Jakobsdóttir, Akureyrarkaupstað Smári Geirsson, Fjarðabyggð Sigrún Stefánsdóttir, Akureyrarkaupstað Þorvaldur Guðmundsson, Sveitarfélaginu Árborg Jón Hjartarson, Sveitarfélaginu Árborg Björk Guðjónsdóttir, Reykjanesbæ Aldís Hafsteinsdóttir, Hveragerðisbæ
https://www.akureyri.is/is/frettir/godur-arangur-i-frakklandi
Góður árangur í Frakklandi Fatahönnuðurinn Anna Gunnarsdóttir er nýkomin heim frá Sainte Marie aux Mines í Frakklandi þar sem hún sýndi verk sín á hönnunarsýningu í tengslum við Europian Patchwork og hlaut afar góða dóma fyrir. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskur hönnuður tekur þátt í tískusýningu European Patchwork en þær hafa verið árlegar síðustu 12 árin. Anna segir að það hafi vissulega verið mikill heiður að vera boðið að sýna þarna ásamt með tveimur öðrum hönnuðum, öðrum frá Frakklandi en hinum frá Japan. Anna sýndi fatnað úr þæfðri ull, silki og fiskiroði, samtals 20 dress sem vöktu mikla hrifningu sýningargesta og fjölmiðla eins og sjá má á meðfylgjandi blaðaúrklippum. Syd Deutch Zeitung DNA í Sélestat
https://www.akureyri.is/is/frettir/god-adsokn-a-minjasafnid
Góð aðsókn á Minjasafnið Vegna mjög góðrar aðsóknar á sumarsýningu Minjasafnsins á Akureyri hefur verið ákveðið að framlengja sýningartímann til 19. nóvember nk. Safnið verður opið allar helgar frá klukkan 14-16 fram til 19. nóvember og eftir samkomulagi. Sýningin nefnist „Ef þú giftist“ og virðist vera mikill áhugi á brúðkaupum, brúðkaupssiðum og tískustraumum; klæðnaði, ljósmyndun brúðhjóna, mat og drykk ef marka má þessa góðu aðsókn. Efni sýningarinnar byggir á brúðkaupssýningunni „Í eina sæng, íslenskir brúðkaupssiðir“ sem sett var upp í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands árið 2004. Fjallað er um trúlofunar- og brúðkaupssiði fyrr og nú, veislur, gjafir og klæðnað, og ungbarnaumönnun. Auk þess spannar sýningin þróun klæðnaðar og ljósmyndahefðar frá því á seinni hluta 19. aldar fram til dagsins í dag. Sýningin er samvinnuverkefni Minjasafnsins á Akureyri og Þjóðminjasafns Íslands. Önnur söfn, fjölmargir einstaklingar og starfandi ljósmyndarar á Akureyri hafa einnig lagt hönd á plóginn til að skapa þessa skemmtilegu og fræðandi sýningu. Við sýningarlok verður dregið úr veglegum vinningum sem fjölmörg fyrirtæki hafa látið safninu í té vegna lukkupottsins „Heppin(n) í ástum“. Í honum eru nöfn þeirra sem leigt hafa Minjasafnskirkjuna og Laufáskirkju til athafna árið 2006.
https://www.akureyri.is/is/frettir/billaus-dagur-vid-haskolann-a-akureyri
Bíllaus dagur við Háskólann á Akureyri Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri hvetur nemendur og starfsfólk skólans til að nýta sér aðra kosti en einkabílinn til að komast til vinnu og skóla miðvikudaginn 4. október. Þetta er gert í þeim tilgangi að benda á kosti þess að stunda nám í háskólabænum Akureyri þar sem samgöngur eru góðar og vegalengdir stuttar. Strætisvagnar Akureyrar munu fella niður farmiðagjald fyrir nemendur þennan dag og að auki hefur stjórn FSHA samið um að veður verði gott miðvikudaginn 4. október. FSHA vill með þessu einnig benda á að regluleg hreyfing er holl og að heilbrigt líferni sé undirstaða framúrskarandi námsárangurs.
https://www.akureyri.is/is/frettir/nordlensk-tonlistarveisla
Norðlensk tónlistarveisla Föstudaginn 6. október býður KEA til „Norðlenskrar tónlistarveislu“ í Akureyrarkirkju. Fjöldi þekktra tónlistarmanna á öllum aldri kemur fram og er hugmyndin að Akureyringar og nærsveitamenn geti hlýtt á brot af því besta sem norðlenskir tónlistarmenn hafa fram að færa. Meðal þeirra sem fram koma eru: Karlakór Akureyrar - Geysir, Óskar Pétursson, Stúlknakór Akureyrarkirkju, Eyþór Ingi Jónsson, PKK og fleiri. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00. Aðgangur að tónlistarveislunni er ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Til þæginda er nauðsynlegt að gestir nái sér í aðgöngumiða sem verða afhentir endurgjaldslaust á skrifstofu KEA, Glerárgötu 36, miðvikudaginn 4. október og fimmtudaginn 5. október frá kl. 10 til 17. Akureyrarkirkja tekur 450 manns í sæti og því viðbúið að færri komist að en vilja. KEA hefur til margra ára stutt dyggilega við menningarlífið á Akureyri og komið að fjölbreyttum verkefnum sem hafa sett svip á samfélagið. Nú er boðið til tónlistarveislu í samstarfi við Riddara musterisriddara á Akureyri en reglan fagnar um þessar mundir 25 ára afmæli sínu.
https://www.akureyri.is/is/frettir/aefingar-hafnar-a-herra-kolbert
Æfingar hafnar á Herra Kolbert Æfingar eru nú í fullum gangi á leikritinu Herra Kolbert sem LA mun frumsýna 28. október næstkomandi. Verkið hefur vakið mikla athygli hvarvetna sem það hefur verið sýnt en það var frumsýnt í Royal Court leikhúsinu í London fyrir sex árum. Herra Kolbert er spennuverk með húmor sem kemur á óvart! Venjulegt matarboð hjá venjulegu fólki tekur óvænta stefnu og þegar kvöldið er liðið er allt breytt. Herra Kolbert er verk sem hefur farið víða frá því það var frumsýnt við frábærar viðtökur árið 2000. Framsæknustu leikhús Evrópu hafa sett verkið upp og hlotið lof gagnrýnenda og áhorfenda fyrir. Herra Kolbert hefur ekki látið staðar numið þar heldur lagt undir sig Ástralíu og Ameríku. Leikritið sameinar spennu og átök Hitchcocks, undarlegheit Pinters, fáránleika Ionescos og ómótstæðilegan húmor. Frumsýning verður 28. október í Samkomuhúsinu á Akureyri. Höfundur er David Gieselmann, Bjarni Jónsson þýddi, leikstjóri er Jón Páll Eyjólfsson, um leikmynd og búninga sér Íris Eggertsdóttir, lýsingu annast Björn Bergsteinsson, tónlist og hljóðmynd eru í umsjón Halls Ingólfssonar. Leikarar eru Edda Björg Eyjólfsdóttir, Gísli Pétur Hinriksson, Guðjón Davíð Karlsson, Ólafur Steinn Ingunnarson og Unnur Ösp Stefánsdóttir.
https://www.akureyri.is/is/frettir/nytt-fyrirtaeki-a-fjarmalamarkadi
Nýtt fyrirtæki á fjármálamarkaði Saga fjárfestingar hf. er nýjasta fyrirtækið á íslenskum fjármálamarkaði. Stofnhluthafar eru Hildingur ehf. (KEA) með 25% hlut, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson með 25% hlut, Sparisjóður Norðlendinga og Sparisjóður Svarfdæla með 13% hlut hvor og fjárfestar, m.a. starfsmenn og lykilstjórnendur Sögu með 24% hlut. Stofnhlutafé er 2 milljarðar króna en ætlunin er að auka það í 4 milljarða á næstu 18 mánuðum. Höfuðstöðvar hins nýja félags verða á Akureyri. Saga mun leggja áherslu á sérvalin verkefni á fyrirtækjamarkaði. Þar má nefna stöðutöku á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum, samruna og yfirtökur, fjárfestingalán og útlán/meðfjármögnun og ennfremur mun SAGA verða viðskiptavaki með hlutabréf og skuldabréf. Umsóknarferli um leyfi til að starfrækja fjárfestingabanka er í undirbúningi en gera má ráð fyrir að það taki nokkra mánuði. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson er forstjóri hins nýstofnaða félags en hann var áður framkvæmdastjóri eigin viðskipta KB banka. Aðrir helstu lykilstjórnendur SAGA hafa þegar verið ráðnir og eiga það sammerkt að hafa víðtæka reynslu af íslenskum og alþjóðlegum fjármálamarkaði. Gert er ráð fyrir að starfsmenn félagsins verði 10 til að byrja með. Frá vinstri: Jóhann Antonsson, stjórnarformaður Sparisjóðs Svarfdæla, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga fjárfestinga hf., Örn Arnar Óskarsson, framkvæmdastjóri Sparisjóðs Norðlendinga, og Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA. „Markmið okkar með stofnun fyrirtækisins eru skýr. Í fyrsta lagi munum við veita samkeppnishæfa þjónustu á völdum sviðum fjármála. Í öðru lagi hyggjumst við veita hluthöfum okkar framúrskarandi ávöxtun með virkri stýringu og áhættumati yfir lengra tímabil. Í þriðja lagi munum við styðja við hluthafa okkar og verkefni á þeirra vegum og síðast en ekki síst er markmiðið að vera viðurkennt afl á íslenskum fjármálamarkaði innan 5 ára,” segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson.
https://www.akureyri.is/is/frettir/adalskipulagid-samthykkt
Aðalskipulagið samþykkt Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018 var samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar 12. september sl. Tillagan hafði áður fengið meðferð í umhverfisráði sem samþykkti tillöguna 30. ágúst 2006. Síðasti áfangi endurskoðunar aðalskipulagsins hófst á haustdögum 2005 og hefur Teiknistofa arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar, með Árna Ólafsson í farabroddi haft veg og vanda af vinnslunni. Aðalskipulagstillagan var auglýst tvisvar þar sem gerðar voru á henni umtalsverðar breytingar. Margar ábendingar og athugasemdir bárust við tillögurnar. Greinilegt er að skipulagsmál eru mjög stór þáttur í vitund Akureyringa sem er vel. Tekið var undir margar ábendingar í fyrri auglýsingu skipulagsins s.s. að Dalsbraut yrði á ný sett í aðalskipulag og að notkun Akureyrarvallar yrði breytt. Þátttaka Akureyringa í íbúaþingi og stofnun miðbæjarsamtakanna „Akureyri í Öndvegi” hafði mikil áhrif á endurskoðun aðalskipulagsins en afrakstur þeirrar vinnu var nýttur með beinum og óbeinum hætti í tillögunni. Aðalskipulagstillagan hefur verið send Skipulagsstofnun til yfirferðar og má vænta staðfestingar umhverfisráðherra fyrir áramót. Pétur Bolli Jóhannesson, deildarstjóri umhverfisdeildar Akureyrarbæjar, segir eðlilegt að endurskoðun aðalskipulags sé umdeild því þar sé tekið á fjölmörgum þáttum þar sem hagsmunir af ýmsum toga eru í húfi. „Endurskoðun verður því ávallt málamiðlun, en samþykkt bæjarstjórnar er mikilvægur áfangi enda er tekið á fjölmörgum atriðum til framtíðar varðandi uppbyggingu Akureyrar, s.s. íbúðasvæðum, samgöngum og uppbyggingu miðbæjarins. Það er von mín að sátt náist um framkvæmd aðalskipulagsins í framtíðinni," sagði Pétur Bolli í samtali við Akureyri.is. Hægt er að nálgast aðalskipulagsuppdrættina og greinargerð hér (pdf-skjöl sem opnast í nýjum glugga): Þéttbýlisuppdráttur Sveitarfélagsuppdráttur Greinargerð Svör við athugsemdum
https://www.akureyri.is/is/frettir/opid-hus-i-hamri
Opið hús í Hamri Mikill fjöldi fólks lagði leið sína í Hamar síðasta laugardag til þess að gleðjast og eiga notalega dagsstund á opnu húsi sem Íþróttafélagið Þór stóð fyrir. Þar kynntu körfu- handboltadeildirnar ásamt Taekwondodeild Þórs starfsemi sína gestum og gangandi. Sigfús Ólafur Helgason formaður Þórs bauð viðstadda velkomna og kynnti dagskrána í stuttu máli og opnaði að því loknu formlega dagskrána. Handknattleiksdeild Þórs hóf dagskránna með því að kynna sameinað Þórs og KA í handknattleik. Sævar Árnason aðstoðarþjálfari Akureyri handboltaliðs kynnti karlalið félagsins og fór í grófum dráttum yfir hvernig staðið er að þjálfun o.þ.h. Ekki var unnt að kynna kvennalið félagsins þar sem stúlkurnar voru að keppa þennan dag sunnan heiða. Unglingaráð handknattleiksdeildar kynnti sína starfssemi vel og ítarlega og farið var yfir starfið á víðum grundvelli. Þá skrifaði unglingaráð Þórs og Hagkaup undir nýjan styrktar- og samstarfssamning sem gildir til næstu tveggja ára. Kom fram í máli forsvarsmanns unglingaráðs að hér væri stigið afar stórt og ánægjulegt skref og myndi þessi samningur hafa mikið gildi fyrir unglingastarfið. Unglingaráð handknattleiksdeildar kallaði því næst upp Gunnar M. Gunnarsson hinn eina sanna ,,Gunna Mall” og færðu honum blómavönd að gjöf fyrir óeigingjarnt starf í gegnum árin fyrir félagið. Er óhætt að segja að fáir hafa lagt jafn mikla og óeigingjarna vinnu af hendi í þágu handboltans í Þór á undanförnum árum og Gunnar. Næst var komið að Taekwondo deild Þórs og kynnti Georg Styrmir formaður deildarinnar í stuttu máli um hvers konar íþrótt Taekwondo væri. Og til þess að gefa fólki en betri mynd af um hvað þetta snérist héldu nokkur ungmenni stutta og afar vel heppnaða sýningu. Hér er greinilega kraftmikið fólk á ferð og um áhugaverða íþrótt að ræða. Körfuknattleiksdeild Þórs var næst í röðinni og hófu þeir sitt prógramm á því að kynna karlalið félagsins sem leikur í fyrstu deildinni í vetur. Kynning þeirra var afar kraftmikil, vel skipulögð og flott. Þá kynntu þeir til sögunnar aðal styrktaraðila sína og voru undirritaðir samningar við þá. Þeirra aðal styrktaraðilar eru Sparisjóður Norðlendinga, Greifinn, Átak heilsuræktarstöð og Höldur ehf. Körfuknattleiksdeild Þórs færði fyrrum eigendum veitingahússins Greifans silfurskjöld sem þakklætisvott fyrir mikinn velvilja í garð körfuboltans í gegnum árin. Vonast menn til að nýjir eigendur Greifans verði félaginu jafn velviljað og gömlu eigendurnir. Einnig var Sparisjóði Norðlendinga færður silfurskjöldur sem þakklætisvottur þar sem Sparisjóðurinn hefur á undangengnum árum verið aðal styrktaraðili körfuknattleiksdeildar Þórs. Þá var þeim heiðursmönnum Þresti Guðjónssyni formanni ÍBA og Eiríki Sigurðssyni færðar þakkir fyrir þeirra mikla starf fyrir körfuboltann í gegnum árin. Þeir báðir Þröstur og Eiríkur stjórnuðu körfuboltadeild Þórs jafnt innan vallar sem utan og án þeirra hefði sú íþrótt ekki vaxið og dafnað eins og raunin er á án þeirra. Að endingu var kallaður til leiks Konráð Herner Óskarsson (Stálmúsin) sem án efa er einn albesti körfuboltamaður sem félagið hefur átt. Var Konráði færður blómavöndur að gjöf og um leið afhent innrömmuð keppnistreyja nr. 5, sem hann lék ávalt í, en hún verður hengd upp í Hamri honum til heiðurs. Guðmundur Ævar Oddsson færir Konráði Óskarssyni viðurkenningu frá körfuboltadeildinni. Seinasti dagskráliður dagsins var athöfn þar sem svokallaður ,,heiðursfélagaveggur” var vígður. Á opnu húsi í vor sem leið var ákveðið að finna stað fyrir myndir af öllum heiðursfélögum Þórs og afhjúpa það við hátíðlega athöfn á haustdögum, enda viðeigandi að sýna því heiðursfólki, sem og félögum Þórs þá virðingu að hafa þá sýnilega dagsdaglega í félagsheimili okkar Þórsara. Og í dag var það svo gert með pompi og pragt. Sigfús Ólafur Helgason kallaði til leiks Harald Helgason sem er í senn bæði heiðursformaður og heiðursfélagi og afhjúpaði Haraldur myndirnar heiðursfélagar Þórs eru í dag 12 talsins. Félagið naut velvilja Pedrómynda sem og Þóris Tryggvasonar ljósmyndara við gerð myndanna, erum þeim færðar þakkir fyrir aðkomu þeirra að þessu. Myndirnar af heiðursfélögunum voru settar upp í austur sal Hamars þar sem búið er að setja upp mjög fullkomið heimabíó og skjávarpa með tölvutengingum sem nú er orðin afar heppilegur staður til funda- og ráðstefnuhalds. Þá nýtist þetta afar vel til þess að geta sýnt leiki t.d. úr enska og spænska boltanum. Aðalstjórn Íþróttafélagsins Þórs vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem komu á einhvern hátt að undirbúningi að opnu húsinu. Haraldur Helgason afhjúpar heiðusmannavegginn.
https://www.akureyri.is/is/frettir/met-i-solu-askriftarkorta
Met í sölu áskriftarkorta Gríðarlegur áhugi er á áskriftarkortum hjá LA og nú hefur verið sett nýtt met í sölu áskriftarkorta. Haustið 2004 sjöfaldaðist sala áskriftarkorta frá árinu á undan og höfðu aldrei fleiri kort selst. Þá seldust tæplega eitt þúsund kort. Í fyrra jókst salan enn og nú hefur það met verið slegið. Áskriftarkort verða áfram seld næstu tvær vikurnar og því enn hægt að verða sér úti um kort. Áskriftarkort er besta leiðin til að tryggja sér öruggt sæti að leiksýningum LA. Sem kunnugt er var síðasta leikár algert metár hjá LA og uppselt á nær allar sýningar vetrarins. Oft þurftu áhugasamir frá að hverfa. Með áskriftarkorti færðu fast sæti á hagkvæmustu kjörum sem bjóðast. Áskriftarkortið kostar 7.900 kr og innifalinn er aðgangur að fjórum sýningum, þ.e. þremur nýjum uppsetningum LA; Herra Kolbert, Svartur Köttur og Lífið – notkunarreglur og svo velur korthafi sér fjórðu sýninguna úr öllum öðrum sýningum sem verða á fjölunum í vetur. Að auki bjóðast korthöfum ýmis kostakjör að leiksýningum, leikhúsmatseðlum hjá veitingahúsunum o.fl. Korthafar LA fengu t.d. 5.000 króna afslátt af leikhúsferð LA til London. Í samstarfi við Landsbankann bjóðast áskriftarkort á niðursettu verði fyrir ungt fólk og námsmenn. Þeir fá kortin með 50% afslætti. Tilboðið gildir fyrir námsmenn og alla undir 25 ára aldri. Áskriftarkort er hægt að kaupa á heimasíðu leikhússins, www.leikfelag.is eða í miðasölu LA í síma 4 600 200.
https://www.akureyri.is/is/frettir/fra-vaxholkum-til-geisladiska
Frá vaxhólkum til geisladiska Föstudaginn 13. október verður sýningin „Frá vaxhólkum til geisladiska“ opnuð í Amtsbókasafninu á Akureyri í tilefni af aldarafmæli hljóðritunar á Íslandi. Árið 2003 voru 100 ár liðin frá því að Jón Pálsson bankagjaldkeri og organisti hóf að safna þjóðfræðaefni með hljóðritunum á vaxhólka. Í tilefni af því aldarafmæli var sett upp sýning haustið 2004 undir yfirskriftinni „Frá vaxhólkum til geisladiska“. Sýningarstaðir voru tveir: Í Þjóðarbókhlöðu var áhersla lögð á sögu hljómplötunnar og íslenskrar hljómplötuútgáfu frá upphafi 20. aldar. Í Útvarpshúsinu var rakin þróun hljóðritunartækni og tækja í 100 ár. Við undirbúning aldarafmælisins kom fram hugmynd um að setja síðar upp framhaldssýningu í smækkaðri mynd á þeim stöðum þar sem Ríkisútvarpið rekur svæðisútvarpsstöðvar. Fyrsta tilraun af því tagi er hljóðritasýning, sett upp í Amtsbókasafninu á Akureyri í samstarfi við ýmsa aðila, stofnanir og einstaklinga nyrðra og syðra. Sýningin verður opnuð föstudaginn 13. október kl. 17 og í tengslum við hana mun Njáll Sigurðsson halda tvo fyrirlestra sem hann nefnir „Svipmyndir úr sögu hljóðritunar“. Verður sá fyrri haldinn laugardaginn 14. október og hefst kl. 13 í Amtsbókasafni. Sá síðari verður laugardaginn 4. nóvember kl. 13 og fjallar hann að hluta um norðlensk hljóðrit.
https://www.akureyri.is/is/frettir/liflegt-a-hverfisfundi
Líflegt á hverfisfundi Opinn hverfisfundur var haldinn í Holta -og Hlíðarhverfi laugardaginn 14. október í Glerárskóla. Um 25 manns sóttu fundinn og voru umræður líflegar. Á fundinum fjallaði Jón Birgir Gunnlaugsson, verkefnastjóri umhverfismála hjá Akureyrarbæ, um göngustíga og opin svæði í hverfinu. Í fundarlok var farið í gönguferð niður Glerárgilið undir leiðsögn Sveirris Thorstensen og Þóreyjar Ketilsdóttur, en að göngu lokinni fengu fundarmenn sér kaffi og kleinur í Kristjánsbakaríi í Bónushúsinu. Myndirnar hér að neðan tók Jón Heiðar Daðason á fundinum og við upphaf gönguferðar niður Glerárgilið.
https://www.akureyri.is/is/frettir/fraedsla-um-hjalpartaekjathjonustu
Fræðsla um hjálpartækjaþjónustu Opið hús verður hjá Hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnunar á Kristnesspítala fimmtudaginn 19. október frá kl. 13-16. Gestir geta kynnt sér fjölmörg sýnishorn hjálpartækja. Gengið er inn um aðalinngang Kristnesspítala. Notendur hjálpartækja, aðstandendur, fagaðilar, fréttamenn og aðrir sem vilja kynnast starfsemi Hjálpartækjamiðstöðvar Tryggingastofnunar á Kristnesspítala eru hvattir til að líta á aðstöðu miðstöðvarinnar og fræðast um þá þjónustu sem í boði er. Síðastliðið sumar hófst tilraunaverkefni Tryggingastofnunar ríkisins (TR) og Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar um aðstöðu fyrir Hjálpartækjamiðstöð TR á Kristnesspítala í Eyjafirði. Markmiðið með þessu tilraunaverkefni er að koma til móts við þarfir fyrir sýningar- og prófunaraðstöðu með hjálpartæki, veita ráðgjöf og meta þörf á uppbyggingu þjónustu á Akureyri á vegum Hjálpartækjamiðstöðvar. Húsnæði Hjálpartækjamiðstöðvar TR á Kristnesspítala í Eyjafirði verður sem áður segir opið gestum fimmtudaginn 19. október frá kl. 13-16. Dagskrá við opið hús hjálpartækjamiðstöðvar TR á Kristnesi 19. okt. 2006: Kl. 13.15 Ávarp. Björk Pálsdóttir forstöðumaður Hjálpartækjamiðstöðvar TR. Kl. 13.25 Ávarp. Ingvar Þóroddsson yfirlæknir Endurhæfingardeildar FSA. Kl. 13.35 Þjónusta Hjálpartækjamiðstöðvar TR á Kristnesi. Álfheiður Karlsdóttir iðjuþjálfi Hjálpartækjamiðstöðvar TR á Kristnesi. Kl. 13.45 Sjónarhorn notandans. Jón Heiðar Jónsson. Kl. 13.55- 16.00 Fólki frjálst að skoða aðstöðu og þiggja kaffi og konfekt.
https://www.akureyri.is/is/frettir/skaldid-og-salusorgarinn
Skáldið og sálusorgarinn Stoðvinafélag Minjasafnsins á Akureyri stendur fyrir dagskrá um sr. Matthías Jochumsson í Amtsbókasafninu á Akureyri næstkomandi laugardag, fyrsta vetrardag, kl 14 undir yfirskriftinni „Skáldið og sálusorgarinn“. Dagskráin samanstendur af stuttum erindum sem sýna manninn, prestinn og þjóðskáldið frá ýmsum sjónarhornum. Matthías var sóknarprestur á Akureyri frá 1887-1900, var með litríkari borgurum á Akureyri á sinni tíð og tók heilshugar þátt í gleði og sorgum samferðafólks síns. Sérstakur gestur verður Þórunn Valdimarsdóttir sagnfræðingur, höfundur bókarinnar „Upp á sigurhæðir“ sem einmitt kemur í bókabúðir þessa dagana. Í hléi syngur stúlknakór frá Akureyrarkirkju undir stjórn Arnórs Vilbergssonar og Amtskaffi verður opið. Eftir dagskrána verður hús skáldsins, Sigurhæðir, opið til skoðunar. Þar bjó sr. Matthías ásamt konu sinni Guðrúnu Runólfsdóttir um 17 ára skeið. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Stoðvinafélag Minjasafnsins var stofnað á 40 ára afmæli þess árið 2002 og hefur síðan stutt við starfsemi þess á ýmsan hátt. Meðal annars hefur það efnt til fyrirlestra og sýninga um Arthur Gook trúboða og hómópata, og um orgelleik og orgelleikara í kirkjum Eyjafjarðar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/mikil-vidurkenning
Mikil viðurkenning Matreiðslumeistaranum Friðriki V Karlssyni hefur fyrir hönd veitingastaðar síns Friðriks V á Akureyri hlotnast sá heiður að vera valinn til að matreiða og sýna listir sínar á risastórri matarráðstefnu í Torino á Ítalíu undir lok mánaðarins. Það eru samtökin Slow Food og Terra Madre sem völdu þátttakendur á þessa sýningu þar sem fulltrúar áhugaverðustu svæðisbundnu veitingastaða heims koma saman dagana 26. til 30. október. Þarna verður Friðrik og hans fólk ásamt mörgum þungavigtarmatreiðslumönnum á borð við Ferran Adrià frá El Bulli á Spáni, Raymond Blanc frá Le Manoir Aux Quat’Saisons á Englandi, René Redzepi frá Noma á Danmörku og Filippo Volpi frá Casa Volpi á Ítalíu. Vegna þátttöku veitingastaðarins Friðriks V í sýningunni verður staðurinn lokaður frá 22. október til 1.nóvember. Smelltu hér til að fræðast meira um sýninguna og þá matreiðslumeistara sem taka þátt í henni.
https://www.akureyri.is/is/frettir/sundlaugarsvaedi-skolastig-4-vaxtaraektin-ndash-breyting-a-deiliskipulagi
Sundlaugarsvæði Skólastíg 4, Vaxtaræktin – breyting á deiliskipulagi Bæjarstjórn Akureyrar auglýsir hér með skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.b. tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Skipulagssvæðið er ein lóð sem afmarkast af Skólastíg og Hrafnagilsstræti að sunnan, Þórunnarstræti að vestan, Þingvallastræti að norðan og lóðamörkum Skólastígs 2. Lóðin er sameiginleg stofnanalóð fyrir Íþróttahöllina, Íþróttahús við Laugargötu, Sundlaug Akureyrar og Brekkuskóla. Landnotkun er í samræmi við gildandi aðalskipulag Akureyrar 1998-2018. Fyrirhugað er að byggja tveggja hæða byggingu norðan Íþróttahallar. Byggingin verður nýtt fyrir líkamsræktarstöð með starfsemi sem því tengist. 1. hæð nýbyggingar tengist kjallara Íþróttahallar. Byggingarreitir eru tveir; einn fyrir 1. hæð en einn fyrir 2. hæð. Húsið verði að hámarki 2000m2. Hámarkshæð húss verði 7 metrar yfir gólfi 1. hæðar. Gert er ráð fyrir að göngustígar núverandi deiliskipulags haldi sér og kvöð er um almennan göngustíg norðan Íþróttahallar og sunnan nýbyggingar. Sameiginleg bílastæði verði fyrir allar byggingar á lóðinni austan og sunnan við Íþróttahöll og sunnan Sundlaugar. Tillöguuppdrættir munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, næstu 6 vikur frá birtingu þessarar auglýsingar, þ.e. til miðvikudagsins 29. nóvember 2006, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir. Sundlaugarsvæði, Skólastíg 4 - deiliskipulagsuppdráttur Sundlaugarsvæði, Skólastígur 4 - skýringaruppdráttur Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rennur út kl. 16:00 miðvikudaginn 29. nóvember 2006 og skal athugasemdum skilað til Umhverfisdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillöguna innan þessa frests telst vera henni samþykkur. 18. október 2006 Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/upp-a-sigurhaedir
Upp á sigurhæðir Út er komin bókin "Upp á sigurhæðir - Ævisaga Matthíasar Jochumssonar" eftir Þórunni Valdimarsdóttur. Af því tilefni var boðið til samsætis á Sigurhæðum í gærdag og í dag, laugardag, var höfð sérstök dagskrá vegna útkomu bókarinnar á Amtsbókasafninu. Í kynningu frá útgefanda segir: "Matthías Jochumsson var tilfinningaheitur eldhugi, framsýnn, réttsýnn, dáður og elskaður – stundum jafnvel hataður og fyrirlitinn – en hafði ætíð djúp áhrif á alla sem til hans þekktu. Hann var prestur, ritstjóri og þjóðskáld og með skoðunum sínum, þýðingum og skáldskap setti hann sterkan svip á íslenska menningu sinnar aldar, svo opinskár og einlægur sem hann var í list sinni og lífsviðhorfum. Þórunn Valdimarsdóttir hefur samið einstaka ævisögu sem studd er fjöldamörgum heimildum, innlendum sem erlendum. Meðal annars styðst hún við bréf og persónuleg gögn sem hér koma fyrst fyrir almennings sjónir. Upp á sigurhæðir Saga Matthíasar Jockumssonar er rituð af innsæi og skáldlegum þrótti þar sem rödd Þórunnar kallast með eftirminnilegum hætti á við líf og list þjóðskáldsins." Myndirnar voru teknar á Sigurhæðum í gær.
https://www.akureyri.is/is/frettir/segdu-thad-engum
Segðu það engum Um helgina er opin í Populus tremula í Listagilinu ljósmyndasýning Kára Fannars Lárussonar. Kári er námsmaður við Háskólann á Akureyri sem hefur lagt sig fram við ljósmyndun síðustu árin og sýnir nú röð mynda sem hafa mikilvægan boðskap fram að færa. Sýningin er styrkt af Háskólanum á Akureyri og Stúdentafélagi skólans. Opið verður á morgun, sunnudag, frá klukkan 14-17 í Populus tremula. www.poptrem.blogspot.com
https://www.akureyri.is/is/frettir/samid-um-uppbyggingu-a-nyju-syningarsvidi
Samið um uppbyggingu á nýju sýningarsviði Tryggingamiðstöðin og Leikfélag Akureyrar hafa gert samning um uppbyggingu nýjasta sýningarsviðs LA sem hlotið hefur nafnið Rýmið. Óskar Magnússon forstjóri TM og Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri LA undirrituðu samninginn með sérútbúnum tannbursta fyrir sýninguna á Karíusi og Baktusi klukkan 16 í dag. Sérstakir boðsgestir á sýningunni voru börn úr Árholti á Akureyri, sem er dagvistun fyrir 10-16 ára börn með skilgreinda fötlun og krakkar úr leikskólanum Krummafæti á Grenivík. Magnús og Óskar undirrita samninginn með tannbursta. Karíus og Baktus fylgjast óttaslegnir með, enda tannburstinn þeirra versti óvinur þótt samningurinn geri þeim gott. LA hefur nú þegar með aðstoð TM fjárfest í ýmsum tækjabúnaði, öflugu sveigjanlegu ljósakerfi og hreyfanlegu palla- og stólakerfi til þess að gera aðstöðuna í Rýminu enn betri. Lokið verður við að koma búnaðinum upp í lok nóvembermánaðar. Rýmið hefur þegar sannað gildi sitt. Í fyrra var hin margrómaða Maríubjalla færð upp þar en hún hlaut fjölda tilnefninga til Leiklistarverðlauna Íslands – Grímunnar. Nú í haust hefur svo barnaleikritið Karíus og Baktus verið sýnt í Rýminu við miklar vinsældir. Til viðbótar þessu hefur með því verið bætt úr sárri þörf leikhússins fyrir æfingarými. Þá hýsir það búninga- og leikmunasafn LA sem hefur verið komið fyrir í norðurenda hússins. LA tók við Rýminu af Akureyrarbæ, sem á húsnæðið, haustið 2005. Leikfélagið gerði umfangsmiklar breytingar á því og gaf því hið nýja nafn. Lagt var upp með að Rýmið yrði hrátt og einfalt þannig að auðvelt væri að setja upp margvíslegar uppfærslur. Útkoman varð stór, svartur kassi þar sem hægt er að snúa leikrýminu á ólíka vegu og raða áhorfendum upp á þann hátt sem óskað er í hvert skipti. Rýmið stendur við Hafnarstræti 73 á Akureyri. Það hefur gegnt ýmsum nöfnum í gegnum tíðina. Margir þekkja það sem Dynheima og einnig sem Lón. Nú síðast var það kallað Húsið og hafði menningarstöð ungs fólk aðstöðu þar. Þegar hún fluttist í Brekkuskóla fékk LA afnot af húsnæðinu og Rýmið varð til. Karíus og Baktus bregða á leik með Magnúsi og Óskari. Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri LA: „Rýmið gjörbreytir allri aðstöðu LA til sýningarhalds. Það býður upp á mikla möguleika og færir leikhúsinu opið leikrými sem er gjörólíkt hinu klassíska sviði Samkomuhússins. Auk þess er nú búið að koma fyrir búninga- og leikmunasafni og góðri æfingaaðstöðu í húsnæðinu.“ Óskar Magnússon forstjóri TM: „Fái kraftmikil og metnaðarfull verkefni sem unnin eru af hæfu fólki enn frekari stuðning getur afraksturinn orðið mjög góður. Þetta hefur Leikfélag Akureyrar þegar sannað hér í Rýminu.“ Síðan hvísluðu þeir kumpánar að strákunum ungu að þeir ættu bara að borða nógu mikið af nammi því þá fengju Karíus og Baktus alltaf að koma aftur og aftur í heimsókn með tannpínuna sína.
https://www.akureyri.is/is/frettir/31-ar-lidid-fra-fyrsta-kvennafrideginum
31 ár liðið frá fyrsta kvennafrídeginum Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn á afmælisdegi Sameinuðu þjóðanna, 24. október 1975. Kvennaárið 1975 var upphafsár kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna. Talið er að um 25.000 konur hafi safnast saman á baráttufundi á Lækjartorgi það ár og var þetta líklega einn stærsti útifundur Íslandssögunnar. Langflestar konur lögðu niður störf þennan dag og atvinnulífið lamaðist. Aðgerðin vakti verðskuldaða athygli víða um heim. Þann 24. október eru 31 ár liðin frá hinum heimsfræga kvennafrídegi og er markmið hans það sama og fyrir öllum þessum árum, að sýna fram á verðmæti vinnuframlags kvenna fyrir íslenskt efnahagslíf. Gríðarleg þátttaka kvenna á vinnumarkaði og hávær krafa þeirra um jafnrétti eru skýr skilaboð til íslensks samfélags að konur ætla ekki að láta bjóða sér að vera annars flokks þegnar í íslensku samfélagi og atvinnulífi. Í fréttatilkynningu frá Femínistafélagi Akureyrar er það sagt sorglegt á degi sem þessum að skoða niðurstöður könnunnar á kynbundnum launamun sem félagsmálaráðuneytið lét gera fyrir sig fyrir skemmstu. Þar kemur fram að kynbundinn launamunur hefur lítið sem ekkert breyst síðan 1994. Ennþá sé óútskýrður 15,7% launamunur á milli kynjanna. Er þetta eitthvað sem að við erum tilbúin að sætta okkur við árið 2006? spyr Femínistafélagið, en í tilefni af afmælinu ætla félagsmenn að hittast þann 24. október á efri hæð Cafe Amour klukkan 20.30 og hafa umræðu/spjallfund. Yfirskriftin verður; “Þarf að efast um kjark kvenna?” Félagið hvetur alla til að koma og taka þátt.
https://www.akureyri.is/is/frettir/vetni-a-islandi
Vetni á Íslandi Málþing um notkun vetnis verður haldið miðvikudaginn 25. október að Borgum við Háskólann á Akureyri í stofu R311. Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Orkustofnun og RES, Alþjóðlegur Orkuskóli á Akureyri, munu standa fyrir kynningu og umræðum um notkun vetnis og þau tækifæri og hindranir sem því fylgja. Meðal annars verður fjallað um orkurannsóknir, áskoranir vetnissamfélags og verkefni Íslenskrar NýOrku. Björn Gunnarsson mun fjalla um Alþjóðlegan Orkuskóla á Akureyri en að loknum erindum verða pallborðsumræður. Kynning og umræður á Akureyri 12.00 Vistvæn orkuframleiðsla og vetni Sigþór Pétursson, prófessor HA 12.30 Orku- og umhverfismál og áskoranir vetnissamfélags: Þorsteinn I. Sigfússon, prófessor HÍ 13.00 Uppruni vetnisrannsókna á Íslandi: Bragi Árnason, prófessor emeritus HÍ 13.25 Verkefni Íslenskrar NýOrku: Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar NýOrku 13.50 Lífvetni: Jóhann Örlygsson, dósent HA 14.15 Alþjóðlegur Orkuskóli á Akureyri: Björn Gunnarsson, RES 14.40 Kaffihlé 15.00 Pallborðsumræður: Vetni, tækifæri, hindranir. Sigþór Pétursson prófessor HA, Björn Gunnarsson, Jóhann Örlygsson, Jón Björn Skúlason, Bragi Árnason, Þorsteinn I. Sigfússon Fundarstjóri: Ágústa S. Loftsdóttir, Orkustofnun Akureyri 16.00 Lok
https://www.akureyri.is/is/frettir/dagskra-um-sr-matthias-vel-sott
Dagskrá um sr. Matthías vel sótt Síðastliðinn laugardag stóðu STOÐVINIR Minjasafnsins á Akureyri fyrir dagskrá um sr. Matthías Jochumsson á Amtsbókasafninu. Þorsteinn Þorsteinsson, Ingólfur Ármansson, Halla Kristmunda Sigurðardóttir og Hallgrímur úr STOÐVINUM fluttu erindi um ritstjórann, prestinn, skáldið og fjölskyldumanninn Matthías. Stúlknakór frá Akureyrarkirkju söng tvö lög við ljóð eftir sr. Matthías undir stjórn Arnórs Vilbergssonar og Þórunn Valdimarsdóttir sagnfræðingur las kafla úr nýútkominni bók sinni "Upp á Sigurhæðir". Eftir dagskrá í Amtsbókasafninu var hús skáldsins, Sigurhæðir, opið til skoðunar. Fjölmenni var á dagskránni og þétt setið á þessari þriðju dagskrá sem STOÐVINIR Minjasafnisins efna til um söguleg efni. Félagið, sem er öllum opið sem áhuga hafa á söfnum og sögu héraðsins, hefur valið fyrsta vetrardag fyrir árlega skemmtun eða fræðslu. Að öðru leyti felst starf þess í því að styðja við Minjasafnið með ýmsu móti og taka þátt í dagskrá á vegum þess.
https://www.akureyri.is/is/frettir/nybyggingin-vid-hlid-opid-hus
Nýbyggingin við Hlíð - opið hús Bæjarbúum er boðið að skoða nýbygginguna við Öldrunarheimilið Hlíð miðvikudaginn 1. nóvember nk. en þar verður opið hús frá klukkan 14 til 18. Húsið verður formlega tekið í notkun á næstu vikum og þarna gefst fólki kostur á að ganga um nýbygginguna og meta hvernig til hefur tekist. Starfsfólk tekur vel á móti gestum og býður upp á kaffisopa. Allir eru hjartanlega velkomnir. Gengið verður inn um aðalinnganginn að norðanverðu.
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyrarbaer-hrindir-i-framkvaemd-samkomulagi-asi-og-hlutverks
Akureyrarbær hrindir í framkvæmd samkomulagi ASÍ og Hlutverks Undirritað var í morgun samkomulag milli stéttafélagsins Einingar-Iðju og Akureyrarbæjar vegna starfsmanna í starfsþjálfun og -endurhæfingu á ótímabundnum ráðningarsamningi hjá Plastiðjunni Bjargi-Iðjulundi (PBI). Akureyrarbær rekur PBI. Er samkomulagið í samræmi við yfirlýsingu Alþýðusambands Íslands og Hlutverks - samtaka um vinnu og verkþjálfun, um kjör og réttindi fatlaðra starfsmanna á vinnustöðum fatlaðra. ASÍ og Hlutverk hafa lýst sig sammála ákvörðun sem tekin hafi verið á fundi Alþjóðasambands frjálsra verkalýðsfélaga fyrir tveim árum, að unnið skuli að fullri samlögun fatlaðra „að samfélaginu og vinnustöðum með því að stuðla að menntun, starfsþjálfun og endurhæfingu, berjast gegn öllum tegundum mismununar, aðlögun vinnustaða og umhverfis og samvinnu við stjórnvöld og atvinnurekendur“, eins og segir í yfirlýsingunni. Frétt af mbl.is. Frá undirritun samkomulagsins. Talið frá vinstri: Ólöf Leifsdóttir, forstöðumaður PBI, Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Halla Margrét Tryggvadóttir, starfsmannastjóri Akureyrarbæjar. Sigrún Stefánsdóttir, formaður félagsmálaráðs Akureyrarbæjar, fylgdi samkomulaginu úr hlaði. Kristján Þór brá á leik með starfsfólki PBI.
https://www.akureyri.is/is/frettir/herra-kolbert-faer-afar-jakvaeda-doma
Herra Kolbert fær afar jákvæða dóma Leikritið Herra Kolbert var frumsýnt hjá Leikfélagi Akureyrar á laugardag og dómar sem birst hafa eru afar jákvæðir. Fréttablaðið: „Glæsilega unnið sviðsverk með skínandi beittan brodd? Frábær skemmtun - alvöru hrollur. Flott verk, flottur leikur, flott sýning." Morgunblaðið: „Frábærlega vel unnin.... Drepfyndið... Leikfélag Akureyarar hefur hitt í mark og eignast fyndna og hæfilega ögrandi sýningu sem gaman er að spjalla um í góðra vina hópi að henni lokinni." Akureyri.net: „Enn ein skrautfjöðurin í hatt Leikfélags Akureyrar." Dagur.net: „Fjögurra grímna hressandi helvíti... Það er magnað að vita til þess að hér norður við heimskautsbaug sé okkur boðið uppá frábæra leiksýningu í heimsklassa... Herra Kolbert er sýning sem ég ætla að sjá aftur."
https://www.akureyri.is/is/frettir/vidurkenning-til-fridriks-v
Viðurkenning til Friðriks V Í dag, miðvikudag, afhenti bæjarstjórinn á Akureyri eigendum veitingastaðarins Friðriks V viðurkenningu frá bæjarstjórn Akureyrar. Ástæða þess var þátttaka Friðriks V á stórri matarráðstefnu sem haldin var í Torino á Ítalíu og einnig fyrir framlag sitt til góðrar kynningar á Akureyri. Samtökin Slow Food og Terra Madre völdu þátttakendur og var veitingahúsið Friðrik V valið sem eitt af 100 bestu og áhugaverðustu svæðisbundnu veitingastöðum í heimi. Gefin verður út matreiðslubók um þá matreiðslumenn og veitingastaði sem hlotið hafa þessa tilnefningu. Veitingastaðurinn Friðrik V fær sífellt meiri athygli og viðurkenningu. Stefna staðarins hefur verið að leggja mikla áherslu á góða matreiðslu og hráefni af svæðinu og eigendur hans hafa líka verið í fararbroddi varðandi samstarf veitingastaða og fyrirtækja og lagt þannig fram ómetanlegan skerf til að auka hróður Akureyrar. Veitingastaðurinn var opnaður aftur í dag, miðvikudag, eftir frægðarförina til Ítalíu. Þessar myndir voru teknar við afhendinguna.
https://www.akureyri.is/is/frettir/uppgangur-i-hestamennsku
Uppgangur í hestamennsku Hestamannafélagið Léttir á Akureyri hlaut Æskulýðsbikar Landssambands hestamannafélaga á þingi þess sem fram fór í Borgarnesi um síðustu helgi. Þetta er æðsta viðurkenning hestamanna fyrir unglingastarf. Á þinginu var samþykkt að fela Létti að halda Íslandsmót í hestaíþróttum fullorðinna árið 2009 en þá verða liðin sextán ár frá því að hestamannamót á landsvísu var haldið síðast hér í bænum. Auk þess að byggja 3000 fm reiðhöll með dyggum stuðningi Akureyrarbæjar, stefnir Léttir að því að koma upp keppnissvæði að Hlíðarholti sem verður með því besta á landinu og gerir Akureyri að ákjósanlegum stað til þess að stunda hestamennsku sem atvinnugrein, áhugamál og keppnisíþrótt. Andrea Þorvaldsdóttir formaður unglingaráðs Léttis og Ásta M. Ásmundsdóttir formaður Léttis taka við Æskulýðsbikar LH úr hendi Haraldar Þórarinssonar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ny-starfsmannahandbok-a-netinu
Ný starfsmannahandbók á netinu Lengi hefur ætlunin verið að gefa út starfsmannahandbók þar sem starfsfólk Akureyrarbæjar getur fundið á einum stað allt sem lýtur að vinnustaðnum, kjaramálum, réttindum, skyldum o.s.frv. Nú hefur þessi draumur orðið að veruleika því ný starfsmannahandbók hefur litið dagsins ljós á vefnum www.akureyri.is/starfsmannahandbok sem er eins kona undirsíða á heimasíðu bæjarins - Akureyri.is. Í starfsmannahandbókinni er að finna ýmsan fróðleik svo sem upplýsingar fyrir nýja starfsmenn og upplýsingar um símenntun, kjaramál, jafnréttismál, vinnuvernd o.fl. Einnig verða á forsíðu starfsmannahandbókarinnar settar fréttir sem varða beint starfsfólk bæjarins, hvort heldur sem er hagsmuni þess eða jafnvel tilkynningar um skemmtanir og annað þvíumlíkt. Ennþá er starfsmannahandbókin í þróun og þess vegna eru allar góðar ábendingar um efni og framsetningu vel þegnar. Þær má senda á netfangið ingunn@akureyri.is Starfsfólk er hvatt til að skoða starfsmannahandbókina og vera duglegt við að nýta sér þær upplýsingar sem þar er að finna.
https://www.akureyri.is/is/frettir/slokkvilidsmenn-fa-vidurkenningu
Slökkviliðsmenn fá viðurkenningu Laugardagsmorguninn 15. apríl 2006 kom upp eldur á miðhæð hússins að Fjólugötu 18. Á þeirri hæð voru heima unglingspiltur ásamt móður sinni og sýndi pilturinn mikið snarræði og rétt viðbrögð, m.a. með að hringja strax í 112 og lýsa aðstæðum. Þetta flýtti fyrir komu slökkviliðs og tókst reykköfurum að bjarga manni og þremur ungum börnum sem sváfu á efstu hæð hússins. Tryggingafélagið Vörður ákvað að veita slökkviliðsmönnum á Akureyri viðurkenningu fyrir vel unnin störf og björgun mannslífa í þessum bruna. Viðurkenningin er í formi 100 þúsund kr. styrks til Félags slökkviliðsmanna á Akureyri sem verður veitt í menntunar- og styrktarsjóð félagsins. Það var Fylkir Þór Guðmundsson aðstoðarframkvæmdastjóri Varðar sem afhenti Þorláki S. Helgasyni formanni Félags slökkviliðsmanna á Akureyri styrkinn, fimmtudaginn 3. nóvember sl.
https://www.akureyri.is/is/frettir/baejarstjornarfundur-i-hrisey
Bæjarstjórnarfundur í Hrísey Bæjarstjórn Akureyrar fundar í Hlein í Hrísey klukkan 16 í dag og strax að fundi loknum, eða klukkan 18, verður haldinn stofnfundur hverfisráðs Hríseyjar. Fjallað var um stofnun hverfisnefndar í stjórnsýslunefnd 1. nóvember sl. þar sem lögð var áhersla á að um tilraunaverkefni væri að ræða. Hríseyingar eru hvattir til að fjölmenna á stofnfundinn.
https://www.akureyri.is/is/frettir/stodvun-taps-a-liffraedilegum-fjolbreytileika
Stöðvun taps á líffræðilegum fjölbreytileika Akureyrarbær var valinn sem annað af tveimur sveitarfélögum á landinu til að taka þátt í samnorrænu verkefni sem hefur það að markmiði að skoða þátt sveitarfélaga í því að ná 2010 markmiðinu um að stöðva tap á líffræðilegum fjölbreytileika. Verkefnið er á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og ákveðið var að bjóða Akureyri þátttöku eftir að verkefnastjórn hafði farið yfir þau verkefni og það starf sem unnið hefur verið á Akureyri undanfarin ár. Ásamt Akureyri var Álftanes einnig valið. Tvö sveitarfélög frá hverju hinna norðurlandanna taka einnig þátt í þessu verkefni sem mun standa til ársins 2010. Verkefnið er eitt af þeim sem lögð var mikil áhersla á að vinna að á ráðstefnu í Jóhannesarborg árið 2002. og í framhaldinu ákvað norræna ráðherranefndin á fimmta fundi sínum um umhverfismál í Evrópu að vinna að því og fylgja eftir til 2010. Fyrsti fundur sveitarfélaganna var þann 25. október í Osló þar sem hvert sveitarfélag fyrir sig kynnti sveitarfélagið, hvernig staðan er í dag og hvert það stefnir í þessum málum. Á málþingi þann 26. október var síðan ákveðið að opna heimasíðu fyrir verkefnið til kynningar fyrir almenning. Einnig var ákveðið að hvert sveitarfélag fyrir sig muni skilgreina allt að þremur verkefnum um stöðvun taps á lífræðilegum fjölbreytileika sem það mun markvisst vinna að til 2010. Stefnt er að því að þátttökuaðilar frá sveitarfélögunum muni hittast a.m.k. einu sinni á ári til 2010 þar sem farið verður yfir verkefnin og framvindu þeirra. Þegar verkefnið verður komið vel á stað eru jafnvel uppi hugmyndir um að fjölga sveitarfélögunum. Jón Birgir Gunnlaugsson verkefnastjóri umhverfismála og Kristín Halldórsdóttir fylgdu verkefninu eftir fyrir hönd Akureyrar í Osló. Glærusýningu þeirra má nálgast með því að smella hér (PowerPoint 8,64 MB).
https://www.akureyri.is/is/frettir/megas-a-matthiasarvoku
Megas á Matthíasarvöku Sunnudaginn 12. nóvember bjóða Akureyrarkirkja og Amtsbókasafnið á Akureyri upp á fjölbreytta dagskrá um Matthías Jochumsson undir yfirskriftinni „Ó, faðir gjör mig ljúflingslag“. Dagskráin er tvískipt; málþing á bókasafninu kl. 14.00 og Matthíasarvaka í kirkjunni kl. 20.30. Á málþinginu fjallar Helga Kress um Matthías og skáldkonurnar, Jón Hjaltason um blaðamanninn Matthías og Þórunn Valdimarsdóttir kveður Matthías að lokinni ritun ævisögunnar „Upp á Sigurhæðir“. Á Matthíasarvökunni í Akureyrarkirkju býður Matthíasarflokkurinn upp á fjölbreytta dagskrá í tali og tónum um manninn, leikskáldið, prestinn, og sálmaskáldið. Flutt verða lög og sálmar, lesnar sögur Matthíasar og leikin brot úr leikverkum hans. Fram koma: Guðrún Ásmundsdóttir, leikkona Halldóra Malín Pétursdóttir, leikkona Hilmar Örn Agnarsson, organisti Lilja Valdimarsdóttir, hornleikari Megas, skáld og söngvari Stúlknakór Akureyrarkirkju undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir, umboðsmaður og blokkflautuleikari Vala Gestsdóttir, víóluleikari Þórunn Valdimarsdóttir, ævisagnaritari Allir eru hjartanlega velkomnir og aðgangur er ókeypis.
https://www.akureyri.is/is/frettir/100-ara-afmaeli-skolahalds-i-hrisey
100 ára afmæli skólahalds í Hrísey Sunnudaginn 5. nóvember fögnuðu Hríseyingar því að 100 ár eru nú liðin frá því skólahald hófst í eyjunni. Að því tilefni héldu nemendur og starfsfólk Grunnskólans í Hrísey afmælishátíð þar sem boðið var upp á sýningu á gömlum munum sem tengjast sögu skólans, söngskemmtun og kaffiveislu. Einnig unnu nemendur að útgáfu skólablaðs og sérstakri afmælisvefsíðu. Hátíðin þótti takast vel þrátt fyrir mikið hvassviðri en á annað hundruð manns heimsóttu skólann þennan eftirmiðdag auk þess sem skólanum voru færðar veglegar gjafir. Afmælisvefsíðuna og myndir frá hátíðinni er hægt að nálgast á heimasíðu skólans. Sýningin stendur út þessa viku.
https://www.akureyri.is/is/frettir/umraedur-um-herra-kolbert
Umræður um herra Kolbert Herra Kolbert hefur hlotið afbragðsviðtökur gagnrýnenda og áhorfenda. Ljóst er að sýningin hefur haft mikil áhrif á marga gesti og vakið umræður. LA efnir til umræðu að lokinni sýningu á verkinu föstudagskvöldið 10. nóvember á Borgarasal leikhússins. Aðstandendur sýningarinnar, með leikstjórann Jón Pál Eyjólfsson í broddi fylkingar taka þátt í umræðunum og sitja fyrir svörum. Umræðunum stjórnar Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri LA. Herra Kolbert er ögrandi verk sem spyr áleitinna spurninga þótt gamansemi sé oft í forgrunni. Meðal þess sem gagnrýnendur hafa sagt er „gríðarlega áhrifamikil sýning” (SLG, RÚV), „glæsilega unnið sviðsverk með skínandi beittan brodd ?Frábær skemmtun - alvöru hrollur. Flott verk, flottur leikur, flott sýning." (PBB, Fréttablaðið) og „ögrandi sýningu sem gaman er að spjalla um í góðra vina hópi að henni lokinni” (ÞT, Mbl). Umræðurnar hefjast skömmu eftir sýningu á föstudagskvöldið á Borgarasal í Samkomuhúsinu. Aðgangur ókeypis og öllum opinn. Barinn verður opinn meðan á umræðum stendur. Fyrir þá sem ekki verða á sýningunni er rétt að mæta um kl. 20.40. Nánari upplýsingar veitir Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri í síma 863 8630.
https://www.akureyri.is/is/frettir/syning-a-midbaejartillogum
Sýning á miðbæjartillögum Sýning á tillögum um uppbyggingareiti í miðbæ Akureyrar verður opnuð í dag í Amtsbókasafninu. Þar gefst íbúum Akureyrar, sem og öðrum gestum, kostur að virða fyrir sér nýjar hugmyndir um framtíðarþróun miðbæjarins. Tillögurnar voru kynntar á fundi bæjarráðs í morgun. Þann 23. febrúar 2006 samþykkti bæjarráð að auglýsa eftir áhugasömun fjárfestum og byggingaraðilum til að byggja upp 5 skilgreinda reiti á miðbæjarsvæði. Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarfulltrúi, Pétur Bolli Jóhannesson, deildarstjóri umhverfisdeildar og Dan Jens Brynjarsson, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs voru skipuð í valnefnd til að meta tillögurnar. Vali á uppbyggingaraðilum var skipt upp í tvö þrep. Á heimasíðu bæjarins var m.a. auglýst: “Í fyrra þrepi er óskað eftir upplýsingum, að lágmarki þeim sem að neðan greinir, um þá aðila sem vilja standa að uppbyggingu á ofangreindum reitum, einum eða fleiri. Á grundvelli upplýsinganna verður einum til þremur aðilum sem lýsa áhuga á hverjum reit og hæfastir teljast, boðið að taka þátt í seinna þrepi. Óskað er eftir eftirfarandi upplýsingum frá hverjum aðila/fyrirtæki eða fyrirtækjahópi: Nöfn og aðsetur. Stutt ágrip af sögu fyrirtækjanna, lýsing á starfsemi þeirra, fagþekkingu og reynslu af sambærilegum verkefnum. Fjárhagslegur og faglegur styrkur - helstu fjármögnunarleiðir. Verkaskiptingu milli fyrirtækja ef um hóp er að ræða, þar af sé einn leiðandi aðili tilgreindur til að annast samræmingu og samskipti við Akureyrarbæ fyrir hönd hópsins. Tiltaka þarf þá reiti sem fyrirtækið hefur áhuga á að byggja upp. Lýsa þarf í stuttu máli áformum fyrirtækisins um gerð og umfang byggðar á hverjum reit, starfsemi og uppbyggingarhraða. Gæta þarf samræmis við deiliskipulagsramma sem fram koma í tillögu um endurskoðað aðalskipulag Akureyrar 2005 - 2018. Við mat á áhugayfirlýsingum mun vega þyngst fjárhagslegur og faglegur styrkur til að ljúka uppbyggingu á reit án óþarfra tafa og að fyrirhuguð uppbygging sé í samræmi við þá sýn sem fram kemur í tillögu um endurskoðað aðalskipulag, þ.e. eflingu miðbæjar Akureyrar.” Alls bárust upplýsingar frá 13 aðilum. Eftir yfirferð valnefndar var ákveðið að eftirtöldum þremur aðilum á hverjum reitanna 1, 2 og 4 verði gefinn kostur á að koma með tillögur á reitum í þrepi 2. Reitur 1 Reitur 2 Reitur 4 Fasteignafélagið Hlíð ehf Eykt ehf Nýsir hf, Gránufélagið ehf P.A byggingarverktaki ehf Smáragarður ehf Njarðarnes ehf Eykt ehf Þyrping hf Þ.G. verktakar ehf SS Byggir ehf gefist kostur á að koma með tillögur á reit 5. Allir aðilar utan einn, Smáragarður, skiluðu inn tillögum í þrepi tvö. Seinna þrep var skilgreint þannig í auglýsingu: “Seinna þrepið felst í því að leggja fram grunnhugmyndir með myndrænum hætti um uppbyggingu en ein þeirra verður síðan valin til framkvæmdar. Leiðarljós við mat á tillögum sem þannig munu koma fram verður það hve mikil jákvæð áhrif ætla má að tillagan hafi fyrir umhverfi og mannlíf í miðbænum. Óskað er eftir hugmyndum um uppbyggingu sem séu nægilega útfærðar til að eftirfarandi meginatriði komi fram: Lega og lögun húsmassa, fjöldi hæða og skipting eftir notkun. Yfirbragð bygginga í grófum dráttum og samspil þeirra við nágrenni. Rýmismyndun, aðgengi og yfirbragð opinna rýma, þ.m.t. göturými og götumynd. Upplýsingar um viðmót á götuhæð. Deilistúdíur sem endurspegla stíl og byggingarlist. Megindrættir í samvali byggingarefna. Megindrættir í framkvæmdaáætlun. Lágmarksskrafa er að tillögur séu í samræmi við stefnumörkun aðalskipulags, sjá einkum grein 2.2.4 (7.3.4) og kafla 3.” Samkvæmt verklýsingu skyldi meta tillögurnar samkvæmt eftirfarandi þáttum: “Allar tillögur sem fram koma fyrir hvern reit verða bornar saman með tilliti til neðangreindra gæðaþátta. Valnefnd metur styrk hvers gæðaþáttar í tillögunum og gefur þeirri sem sterkust er þrjú stig, þeirri næstu tvö og hinni lökustu eitt. Að lokum er stigafjöldi tillagnanna lagður saman og sú valin sem flest stig hlýtur. Fullt hús stiga er því 21 en lágmarkið 7. Gæðaþættirnir eru þessir og hafa allir jafnt vægi: Sterk og heilsteypt bæjarmynd. Virkar tengingar við nærumhverfi, þ.m.t. samgöngur og sjónlínur. Skjólsæl, sólrík og aðlaðandi rými. Áhugaverð og sveigjanleg umgjörð fyrir miðbæjarstarfsemi, mannlíf og menningu. Gæði í hönnun og efnisvali. Skammur tími til lúkningar framkvæmda. Fjárhagslegur og faglegur styrkur uppbyggingaraðila.” Eftirfarandi byggingaraðilar/fjárfestar skiluðu inn tillögum og hefurvalnefndin nú yfirfarið þær: Reitur 1 Reitur 2 Reitur 4 P.A byggingarverktaki ehf Eykt ehf Njarðarnes ehf Fasteignafélagið Hlíð ehf Þyrping hf Nýsir hf, Gránufélagið ehf Eykt ehf Þ.G. verktakar ehf Í verklýsingu var gert ráð fyrir að gengið væri til samninga við þann aðila sem ætti stigahæstu tillöguna á hverjum reit. Jafnframt var áskilnaður um að velja hvaða tillögu sem er eða að hafna öllum.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ibudarbyggd-vid-vestursidu-deiliskipulag
Íbúðarbyggð við Vestursíðu - deiliskipulag Bæjarstjórn Akureyrar auglýsir hér með skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.b. tillögu á deiliskipulagi. Í Aðalskipulagi Akureyrar 1998-2018 er gert ráð fyrir nýju íbúðarsvæði í norðurjaðri Síðuhverfis, sitt hvorum megin Vestursíðu, norðan íbúðarlóða við Bakkasíðu, Bogasíðu og Möðrusíðu. Skipulagssvæðið er um 2,1 hektari (ha) að flatarmáli. Í endurskoðuðu aðalskipulagi (ASAK05) er svæðið skilgreint fyrir sérbýlishús með þéttleika á bilinu 10-20 íbúðir á hektara (íb/ha). Í deiliskipulagstillögunni er hins vegar miðað við að hluti svæðisins, þ.e. svæðið norður af Bogasíðu að núverandi mörkum byggðar, um 0,4 ha, verði opið svæði með boltavelli og gróðri. Svæði fyrir íbúðarbyggð verður því um 1,7 ha. Gert er ráð fyrir tveim litlum þyrpingum sérbýlishúsa með aðkomu um húsagötur frá Vestursíðu. Raðhús verða á jaðri byggðar meðfram Síðubraut en einbýlishús í suðurhluta þyrpinganna. Skilmálar um form húsanna miðast við að fella þau að þeirri byggð sem fyrir er þannig að heildarmynd verði áfram á hverfinu. Á svæðinu verða 18 nýjar íbúðir, 11 í raðhúsum og 7 í einbýlishúsum. Þéttleiki íbúðarbyggðarinnar verður um 8,6 íb/ha miðað við heildarflatarmál skipulagssvæðisins en að frátöldu 0,4 ha leiksvæði verður þéttleikinn um 10,6 íb/ha. Tillöguuppdrættir munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, næstu 6 vikur frá birtingu þessarar auglýsingar, þ.e. til miðvikudagsins 6. desember 2006, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir. Tillagan er einnig birt hér. Íbúðarbyggð við Vestursíðu á Akureyri (pdf, 528 Kb). Skýringarmynd (pdf, 634 Kb). Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rennur út kl. 16:00 miðvikudaginn 6. desember 2006 og skal athugasemdum skilað til Umhverfisdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillöguna innan þessa frests telst vera henni samþykkur.
https://www.akureyri.is/is/frettir/hafnarsvaedi-ndash-fiskihofn-skipatangi-naustatangi-tilla
Hafnarsvæði – Fiskihöfn, Skipatangi, Naustatangi tillaga að breytingu á deiliskipulagi Bæjarstjórn Akureyrar auglýsir hér með skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.b. tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Deiliskipulag hafnarsvæðisins er fyrir blandaða hafnarstarfsemi. Lagt er til að byggingarreitir á lóðunum nr. 2,4 og 6 við Skipatanga verði stækkaðir. Jafnframt að það verði sett sem kvöð á framagreindar lóðir að lóðarhafi setji upp á sinn kostnað lokaðan vegg á lóðarmörkum Hjalteyrargötu. Lagt er til að landfylling austan við lóð Loftorku hf. verði aukinog gefin heimild til að reisa 26 m. hátt sementssíló innan stækkaðs byggingarreits. Akureyrarbær lýsir því yfir að hann tekur að sér að bæta það tjón sem einstakir aðilar kunna að verða fyrir vegna skipulagsbreytingarinnar. Tillöguuppdrættir munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, næstu 6 vikur frá birtingu þessarar auglýsingar, þ.e. til miðvikudagsins 20. desember 2006, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir. Tillagan er einnig birt hér: Deiliskipulagsbreyting fyrir Akureyrarhöfn (pdf, 1008 Kb). Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rennur út kl. 16:00 miðvikudaginn 20. desember 2006 og skal athugasemdum skilað til Skipulagsdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillöguna innan þessa frests telst vera henni samþykkur.
https://www.akureyri.is/is/frettir/kjalarsida-1-deiliskipulagstillaga-auglyst-ad-nyju-eftir-br
Kjalarsíða 1 deiliskipulagstillaga, auglýst að nýju eftir breytingar Bæjarstjórn Akureyrar auglýsir hér með að nýju eftir breytingar skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.b. tillögu að nýju deiliskipulagi. Um er að ræða deiliskipulagstillögu á svæði sem afmarkast af Bugðusíðu í austri, lóð leikskólans Síðusels í vestri og Kjalarsíðu í norðri. Í gildandi aðalskipulagi Akureyrar 1998-2018 er lóðin skilgreind skv. breytingu þ. 19.05.1998 sem verslunar- og þjónustulóð, sem blanda af íbúðum, verslunum og þjónustu. Heimilt er að reisa tvö hús á 4 hæðum. Áskilið er að þök séu flöt og hámarksvegghæð verði 12.5 m mælt frá gólfi neðstu hæðar. Um er að ræða lækkun á byggingu úr 18 m. samkvæmt fyrri tillögu í 12.5 m. Heimilt er að vera með allt að 56 einstaklingsherbergi fyrir stúdenta, eða allt að 38 almennar íbúðir. Heimilt er að vera með verslun (hverfisverslun) á neðstu hæð annars hússins. Bílastæði skulu vera 1 fyrir hvert einstaklingsherbergi, 1.5 fyrir hverja íbúð 50- 80 m² og 2 fyrir hverja íbúð. Bílastæðin verði norðan og austan við hús, samkvæmt uppdrætti. Sameiginleg leiksvæði er sunnan og austan við hús. Hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar er (brúttóflatarmál bygginga deilt með lóðarstærðinni) 0.8. Á fundi Skipulagsnefndar þ. 1.11 sl. var óskað eftir því við framkvæmdadeild að hafist yrði handa við gerð hringtorgs á gatnamótum Bugðusíðu og Borgarbrautar. Tillöguuppdrættir munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, næstu 6 vikur frá birtingu þessarar auglýsingar, þ.e. til miðvikudagsins 20. desember 2006, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir. Tillagan er einnig birt hér: Deiliskipulagstillaga vegna Kjalarsíðu 1 (pdf, 752 Kb). Skýringarmynd. Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rennur út kl. 16:00 miðvikudaginn 20. desember 2006 og skal athugasemdum skilað til Skipulagsdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillöguna innan þessa frests telst vera henni samþykkur.
https://www.akureyri.is/is/frettir/lifsleikni-i-leikskola
Lífsleikni í leikskóla Þrír leikskólar á Akureyri, Krógaból, Síðusel og Sunnuból hafa unnið saman að þriggja ára þróunarverkefni undir yfirskriftinni „Lífsleikni í leikskóla“ og er kennsluefni tengt verkefninu nú komið út. Ákveðið hefur verið að innleiða lífsleiknikennslu í skólana og vinna við kennsluleiðbeiningar. Fjölmargir aðilar hafa komið að útgáfu kennsluefnisins, auk þriggja verkefnisstjóra sem verkinu stýrðu. Má þar nefna að fenginn var grafískur hönnuður, Gígja Rut Ívarsdóttir, sem sá um útlit efnisins. Björn Ingólfsson á Grenivík sá um prófarkalestur, handbrúða sem fylgir efninu er hönnuð af Halldóru Sævarsdóttur, í kennarahandbók, sem er hluti af efninu, skrifuðu kafla Kristján Kristjánsson heimspekingur, Sigríður Síta Pétursdóttir sérfræðingur á RHA, Jakobína Áskelsdóttir leikskólastjóti og Sonja Kro, einn þriggja verkefnisisstjóranna auk þess sem hún ritstýrði verkinu. Prentstofan Stell sá um prentun efnisins. Kennsluefnið er nú til sölu í leikskólunum Krógabóli og Síðuseli.
https://www.akureyri.is/is/frettir/myndlistarnemar-hertaka-gilid
Myndlistarnemar hertaka Gilið Helgina 11.-12. nóvember sýna nemendur Myndlistarskólans á Akureyri verk sín víða í Listagilinu. Verða innsetningar og rýmisverk á á sjö stöðum í Gilinu. Í Deiglunni er samsýning nokkurra nemanda sem eru á síðasta ári í námi. Milli Myndlistarskólans og Listasafnsins er verk unnið í handrið tengibyggingar. Í Húsinu (efsta hæðin í Rósenborg) er innsetning sem nefnist „Velkominn í annan veruleika." Þar er aðeins hleypt inn í fylgd listamannsins klukkan 14, 15 og 16 á laugardag og sunnudag. Í Populus tremula er innsetning 1. árs nema sem nefnist 9 staðir. Á efri hæð verða rýmisverk og innsetningar í þremur rýmum. Sýningarnar verða opnaðar á laugardag kl 14 og eru allir velkomnir. Opið verður laugardag og sunnudag frá kl. 14 til 17 og aðeins þessa helgi.
https://www.akureyri.is/is/frettir/markadstorg-i-hlid
Markaðstorg í Hlíð Hið árlega markaðstorg í Hlíð verður haldið laugardaginn 11. nóvember frá kl. 13 til 16 og má reikna með að sannkölluð miðbæjarstemning muni ríkja. Þessi viðburður hefur verið afar vel sóttur og í fyrra er talið að gestir hafi verið á fimmta hundrað. Verslanir sýna það sem er á boðstólum fyrir jólin, þ.á m. eru JMJ, Akurliljan, Isabella, Tískuverslun Steinunnar, Skóhúsið, Blómabúð Akureyrar, Gullsmiðirnir Sigtryggur og Pétur og Urtasmiðjan. Markmið þessa framtaks er að koma til móts við þá sem ekki geta heilsu sinnar vegna farið í þreytandi verslunarferðir og um leið að skapa skemmtilegan dag í Hlíð. Einnig mun heimilisfólk og starfsfólk verða með handverk til sölu. Kaffibaunin verður opin með kaffi og kökur til sölu. Brauðgerð Kr. Jónssonar og Kexsmiðjan gefa bakkelsið og er ágóði af kaffisölunni notaður til að skapa skemmtilegheit á öldrunarheimilunum. Allir eru hjartanlega velkomnir.
https://www.akureyri.is/is/frettir/norraenn-skjaladagur
Norrænn skjaladagur Opinber skjalasöfn á Norðurlöndum hafa lengi kynnt starfsemi sína með ýmsu móti. Árið 2001 sameinuðust þau um árlegan kynningardag, annan laugardag í nóvember, sem nú ber upp á 11. nóvember. Í ár er þema skjaladagsins “Samgöngur”. Hægt er að lesa nánar um þemað í leiðara skjaladagsins http://www.skjaladagur.is og kanna hvað er á dagskrá hjá þeim skjalasöfnum sem taka þátt í skjaladeginum. Héraðsskjalasafnið á Akureyri tekur þátt í þessum vef undir slagorðinu "Á ferð" og er hægt að sjá þar ýmis gögn sem tengjast samgöngumálum í Eyjafirði á fyrri tíð. Einnig hefur verið sett upp sýning á Akureyri af þessu tilefni og er hún tvískipt, annars vegar í anddyri Ráðhússins í Geislagötu 9, þar sem sýnd eru nokkur frumskjöl og hins vegar í anddyri Héraðsskjalasafns og Amtsbókasafns í Brekkugötu 17, þar sem efnið er sýnt á veggspjöldum. Sýningin stendur yfir á báðum stöðum 11. – 30. nóvember. Á skjaladaginn 11. nóvember er sýningin í Brekkugötu 17 opin kl. 12–17 og á þeim tíma næstu laugardaga, en aðra virka daga 10–19. Í Ráðhúsinu er sýningin opin virka daga kl. 8–16.
https://www.akureyri.is/is/frettir/norraen-glaepavika
Norræn glæpavika Norræn glæpavika hefur göngu sína í dag, mánudag á Amtsbókasafninu. Þessi vika verður formlega sett með upplestri á sama texta og á sama tíma alls staðar á Norðurlöndunum og varð kafli úr Grafarþögn eftir Arnald Indriðason fyrir valinu. Mánudagur, 13. nóvember -- Kl. 18.00 - Kristín S. Árnadóttir mun halda fyrirlestur um norrænar glæpasögur. Á meðan fyrirlestur Kristínar er, verður boðið upp á upplestur í barnadeildinni, lesið verður á tveim stöðum: annars vegar bók Gunillu Bergström Ertu skræfa Einar Áskell og hins vegar kafla úr bók Ole Lund Kirkegaard Fróði og allir hinir grislingarnir, þannig að öll fjölskyldan ætti að geta komið og notið stundarinnar. Þriðjudagur, 14. nóvember -- Kl. 14.30 - Sögustund (eins og venjulega) verður í barnadeildinni, þar sem lesin verður bók Gunillu Bergström Ertu skræfa Einar Áskell og kaflar úr bók Guðrúnar Helgadóttur Ekkert að þakka. Miðvikudagur, 15. nóvember Kl. 17.15 - Þá hefst sýning á kvikmyndinni Spæjarinn Kalli Blómkvist og vinur hans Rasmus fyrir yngri kynslóðina. Kl. 18.00 mun svo Stefán Máni lesa upp úr og fjalla um nýjustu bók sína, Skipið , sem er hörkuspennandi tryllir. Áætlað er að sýningu kvikmyndarinnar og upplestri Stefáns Mána verði lokið kl. 18:30 - á sama tíma - svo fjölskyldan geti aftur komið saman. Fimmtudagur, 16. nóvember Kl. 14.30 - Sögustund (eins og venjulega) verður í barnadeildinni, þar sem lesin verður bókin Amma og þjófurinn í safninu og kafli úr bók Ole Lund Kirkegaard Fróði og allir hinir gríslingarnir -- Kl.18:00 - Sýndir verða tveir norrænir kvikmynda-krimmar á safninu og lýkur sýningu þeirra á bilinu 21:00-21:30. Öll vikan, 13.-19. nóvember - Getraunir fyrir yngri kynslóðina og ratleikur með leynilögguívafi fyrir þá eldri - verðlaun í boði! - Áhersla verður lögð á norrænar glæpasögur alla vikuna. - Nýir hlutverkaleikir verða komnir til útláns (2 vikur í senn - 200 kr.) þar sem 6-12 manns geta spilað og tekið beinan þátt í morðgátunni! Þessi spil hafa fengið verðlaun, og eru einkar sniðug fyrir hópa. Í stuttu máli ganga þau út á það að 6-12 manns (6-8, 8-10, 10-12) fara í matarboð eftir að hafa fengið boðskort og upplýsingar um hvaða persóna þau eiga að vera, mælt er með því að klæða sig skv. því. Svo tekur við morðgáta þar sem allir gestirnir taka þátt og hafa ákveðnu hlutverki að gegna. Mjög góðar leiðbeiningar fylgja með á ensku og hver kassi inniheldur líka kassettu eða geisladisk með vísbendingum og lausn.
https://www.akureyri.is/is/frettir/samstarf-korfuknattleiksdeildar-thors-og-bonus
Samstarf Körfuknattleiksdeildar Þórs og Bónus Fimmtudaginn 9. nóvember síðastliðinn var undirritaður þriggja ára samstarfssamningur milli Körfuknattleiksdeildar Þórs á Akureyri og Bónus. Undirritunin fór fram í Hamri, félagsheimili Þórs. Jóhannes Jónsson mætti á svæðið ásamt Svani Valgeirssyni, starfsmannastjóra Bónus og gáfu þeir sér dágóðan tíma til þess að gæða sér á kaffi og bakkelsi og ræða við viðstadda um ýmislegt er snertir Þór og íþróttir á Akureyri yfirhöfuð. Var Jóhannesi m.a. tíðrætt um hið mikilvæga forvarnargildi sem að íþróttir hefðu fyrir börn og unglinga. Eftir undirritun samningsins sagðist Jóhannes vera ánægður með að geta stutt við bakið á Körfuknattleiksdeild Þórs og sagði það lið í að gera góðan bæ betri. Ennfremur sagðist hann vonast til þess að það samningurinn verði báðum samningsaðilum til heilla. Forsvarsmenn Körfuknattleiksdeildar Þórs eru mjög ánægðir með samstarfið við Bónus og líta á það sem mikilvægan áfanga í því að byggja upp starf deildarinnar til framtíðar. Jóhannes Jónsson og Guðmundur Oddsson, talsmaður Körfuknattleiksdeildar Þórs, handsala samninginn.
https://www.akureyri.is/is/frettir/polsk-menningarveisla
Pólsk menningarveisla Alþjóðastofan á Akureyri býður til pólskrar menningarveislu laugardaginn 18. nóvember klukkan 18 í Rósenborg (Skólastíg 2). Markmiðið með menningarveislunni er að kynna menningarlegan bakgrunn Pólverja en þeir eru langstærsti hluti innflytjenda á Íslandi og nema um 1% þjóðarinnar. Boðið verður upp á Bigos, sem er pólskur kjöt og súrkálsréttur, ásamt pólsku brauði. Ýmislegt annað pólskt og skemmtilegt verður á boðstólnum, pólskur samsöngur, Prince Póló og margt fleira. Pólverjar á Akureyri sjá um eldamennsku og skemmtiatriði. Um er að ræða skemmtun við allra hæfi. Rósenborg verður opin eitthvað fram eftir kvöldi og eru allir bæjarbúar hjartanlega velkomnir. Gestir hjá Alþjóðastofu ræða málin og láta fara vel um sig.
https://www.akureyri.is/is/frettir/hverfisrad-hriseyjar
Hverfisráð Hríseyjar Hverfisráð Hríseyjar var kjörið fyrir réttri viku og í gærkvöldi hélt það sinn fyrsta fund. Ráðið skipti með sér verkum og var Kristinn Fr. Árnason kjörinn formaður og Drífa Þórarinsdóttir varaformaður. Myndin hér að neðan var tekin þriðjudaginn 7. nóvember þegar kosið var í ráðið. Fremri röð frá vinstri (varamenn): Guðrún Þorbjarnardóttir, Kristján Ingimar Ragnarsson, Hjördís Ýrr Skúladóttir og Narfi Björgvinsson. Aftari röð frá vinstri (aðalmenn): Linda María Ásgeirsdóttir, Theódóra Kristjánsdóttir, Kristinn Fr. Árnason, Unnsteinn Rúnar Kárason og Drífa Þórarinsdóttir.
https://www.akureyri.is/is/frettir/flugsafnid-byggir-nytt-safnahus
Flugsafnið byggir nýtt safnahús Skrifað hefur verið undir samning á milli Akureyrarbæjar og Flugsafns Íslands um framlag bæjarins til byggingar safnahúss undir starfsemi safnsins. Flugsafn Íslands áformar að byggja 2.178 fm safnahús undir starfsemi sína og er áætlaður byggingarkostnaður um 140 milljónir króna. Akureyrarbær styrkir framkvæmdina með framlagi sem nemur um þriðjungi áætlaðs byggingakostnaðar eða 45.5 milljónum króna. Húsnæðið og kostnaðaráætlun hefur hlotið samþykki safnaráðs. Ekki verður um frekari styrki að ræða til byggingarinnar að hálfu Akureyrarbæjar. Forsendur stuðnings bæjarins er umsaminn stuðningur menntamálaráðuneytisins (sbr. samning ráðuneytisins og Flugsafnsins frá 30. nóvember 2005) og að Flugsafnið sjálft annist fjármögnun á eftirstöðvum heildarkostnaðar. Ekki er gert ráð fyrir að Akureyrarbær komi að eða leggi fram fjármagn til reksturs eða viðhalds byggingarinnar. Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Svanbjörn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugsafns Íslands, undirrita samninginn.
https://www.akureyri.is/is/frettir/comenius-a-akureyri
Comenius á Akureyri Góðir gestir voru á ferð í Ráðhúsi Akureyrarbæjar í dag, nutu léttra veitinga og hlýddu á stutta kynningu á því sem bærinn hefur að bjóða. Þar var á ferð rúmlega 30 manna hópur sem hefur unnið að hinu svokallaða Comeniusar-verkefni á vegum Evrópusambandsins. Um er að ræða samstarfsverkefni átta skóla í Evrópu sem Verkmenntaskólinn á Akureyri tekur þátt í. Heimaland hvers skóla er heimsótt og hefur leiðin legið víða um Evrópu en þetta árið eru Akureyringar gestgjafarnir. Upphaflegt þema verkefnisins var „Travellers and turists - Images of Europe“ og var markmiðið að hver og einn skoðaði sitt heimaland með augum ferðalanga. Þátttakendur frá listnámsbraut VMA hafa unnið út frá tveimur listamönnum, þeim Dieter Roth og Roni Hooern, en verk þeirra eru Íslendingum vel kunn. Verkefnið hefur þróast yfir í það að snúast um hefðbundina landkynningu þar sem nemendur VMA hafa haft algjöra sérstöðu þar sem útfærsla þeirra hefur verið afar listræn. Myndirnar hér að neðan voru teknar þegar hópurinn heimsótti Ráðhúsið í dag og einnig vinnustofu myndlistarmannsins Jónasar Viðars í Listagilinu.
https://www.akureyri.is/is/frettir/vigsla-nybyggingar-vid-hlid
Vígsla nýbyggingar við Hlíð Fimmtudaginn 9. nóvember var nýbyggingin við Öldunarheimili Akureyrarbæjar við Hlíð formlega vígð að viðstöddu fjölmenni. Nýja byggingin er um fjögur þúsund fermetrar og eflir mjög öldrunarþjónustu á Akureyri. Öll aðstaða íbúa og starfsfólks verður með því besta sem gerist á landinu. Gestir á vígsluathöfninni voru í hátíðarskapi og tala myndirnar hér að neðan sínu máli. Nánari upplýsingar um nýbygginguna við Hlíð.
https://www.akureyri.is/is/frettir/starfsar-sinfoniuhljomsveitar-nordurlands-2006-2007
Starfsár Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands 2006-2007 Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er um þessar mundir að hefja sitt 14. starfsár og munu skólatónleikar skipa stóran sess í dagskrá vetrarins. Á efnisskrá þeirra er tónverk eftir hollenskt tónskáld Theo Loevendie við ævintýrið um Næturgalann eftir H.C. Andersen. Þar eru á ferðinni 7 hljóðfæraleikarar, sögumaður og stjórnandi en sögumaður er Aðalsteinn Bergdal. Í ár verður farið í skóla frá Ólafsfirði og allt austur á Raufarhöfn. Næturgalinn verður fluttur á Fjölskyldutónleikum laugardaginn 18. nóvember kl. 14.00 í Samkomuhúsinu á Akureyri (Leikhúsinu). Aðgangur að fjölskyldutónleikunum er ókeypis. Aðventuveisla verður haldin í Íþróttahöllinni laugardaginn 9. desember. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Knattspyrnudeild Þórs bjóða til aðventuveislu. Dagskráin hefst með tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Með hljómsveitinni koma fram Hulda Björk Garðarsdóttir, Ólafur Kjartan Sigurðarson og Karlakór Dalvíkur. Á efnisskrá tónleikanna verður jóla og aðventutónlist. Að tónleikunum loknum verður boðið uppá jólahlaðborð frá Bautanum. Þriðjudaginn 6. febrúar heimsækir Sinfóníuhljómsveit Íslands Akureyri og verður með tónleika í Íþróttahúsi Síðuskóla. Efnisskrá: Jón Leifs: Galdra Loftur, forleikur op.10, Sergei Rakmaninoff: Tilbrigði um stef eftir Paganini, Dímítrí Sjostakovítsj: Sinfónía nr. 5 í dmoll op. 47. Einleikari: Lilya Zilberstein. Stjórnandi: Rumon Gamba. Strengjasveitatónleikar verða sunnudaginn 4. mars í Akureyrarkirkju. Tónleikarnir eru í samvinnu við Tónlistarskólann á Akureyri. Fimmtudaginn 5. apríl, á skírdag verða tónleikar í Glerárkirkju. Á efnisskrá tónleikanna er konsert fyrir fiðlu og hljómsveit eftir Max Bruch þar sem fiðluleikarinn Ari Þór Vilhjálmsson verður í aðalhlutverki. Einnig verður flutt sinfónía no. 5 eftir L. van Beethoven sem nefnd hefur verið Örlagasinfónían. Samstarf við Kirkjulistaviku Akureyrarkirkju, tónleikar sunnudaginn 6. maí. Á efnisskrá er Symphony no. 1 fyrir orgel og hljómsveit eftir F.A. Guilmant og Te Deum eftir A. Dvorak. Kórastefna við Mývatn, tónleikar sunnudaginn 10. júní í Íþróttahúsinu Reykjahlíð. Á efnisskrá tónleikanna er m.a. messa eftir John Rutter. Stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands er Guðmundur Óli Gunnarsson.
https://www.akureyri.is/is/frettir/skidasvaedid-i-hlidarfjalli-opnar
Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli opnar Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli verður opnað laugardaginn 18. nóvember kl. 10. Flestar lyftur verða í gangi og skíðagöngusvæðið opið. Snjókoma síðustu daga hefur gert það að verkum að töluverður snjór er kominn í brekkurnar og mun meiri en sést hefur á sama árstíma nokkur undanfarin ár. Snjókerfið sem tekið var í notkun í fyrravetur hjálpar einnig til við að gera opnun skíðasvæðisins mögulega svo snemma vetrar. Skíðafólk hefur til að mynda æft í Hlíðarfjalli síðan í október en það hefði verið ógjörningur ef snjóframleiðslunnar hefði ekki notið við. Síðasta vetur var félagið „Hollvinir Hlíðarfjalls" stofnað en markmið félagsins er að renna styrkari stoðum undir rekstur skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli, létta undir með rekstri snjóframleiðslukerfisins og efla þar með ferða- og atvinnumál á Akureyri. Hollvinir Hlíðarfjalls eru: KEA, Icelandair, Flugfélag Íslands, SBA-Norðurleið, Landsbankinn, Höldur, Greifinn, Baugur Group, Glitnir, ISS Ísland, Avion Group og Sjóvá. Á Uppskeruhátið Ferðaþjónustunnar sem haldin var í Austur Húnavatnssýslu þann 9. nóvember sl. fengu skíðasvæðin í Hlíðarfjalli og í Böggvisstaðafjalli á Dalvík viðurkenningu fyrir áhugaverða nýjung í ferðaþjónustu. Er þar vísað til uppsetningar á snjóframleiðslukerfum sl. vetur sem bætt hafa til muna aðstöðu til skíðaiðkunar á þessum svæðum og skotið með því traustari stoðum undir vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi öllu.
https://www.akureyri.is/is/frettir/hjonabond-samkynhneigdra
Hjónabönd samkynhneigðra Fyrirlestur um hjónabönd samkynhneigðra verður haldinn á heimspekitorgi, mánudaginn 20. nóvember kl. 16.15. Á undanförnum misserum hafa sambúðarmál samkynhneigðra verið töluvert til umfjöllunar og þá sérstaklega krafan um að þeir fái gengið í hjónaband með svipuðum hætti og gagnkynhneigð pör. Í erindi sínu á heimspekitorgi gerir Atli Harðarson tilraun til að varpa ljósi á andstöðu gegn slíkum hjónaböndum og hvernig hún tengist pólitískum hugmyndum um fjölskyldu- og heimilislíf. Atli Harðarson lauk stúdentsprófi við eðlisfræðideild Menntaskólans að Laugarvatni vorið 1979 og BA prófi í heimspeki og bókmenntum frá Háskóla Íslands 1982. Árið 1984 útskrifaðist hann með MA próf í heimspeki frá Brown University á Rhode Island í Bandaríkjum Norður Ameríku. Atli lauk námi í uppeldis- og kennslufræðum til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands. Atli Harðarson hefur lengst af starfað við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi ef frá eru talin skólaárin 1996-7 og 1997-8 þegar hann kenndi við Menntaskólann að Laugarvatni. Frá 1. ágúst 2001 hefur Atli gegnt stöðu aðstoðarskólameistari við Fjölbrautaskóla Vesturlands. Ásamt kennslunni hef hann fengist við heimspeki, ritstörf, félagsmál kennara og ýmiskonar tölvugrúsk. Fyrirlesturinn verður haldinn í Húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti, en það húsnæði tilheyrir nú AkureyrarAkademíunni sem stendur fyrir fyrirlestrinum ásamt Félagi áhugamanna um heimspeki á Akureyri.
https://www.akureyri.is/is/frettir/godur-arangur
Góður árangur Píanókeppni EPTA var haldin í síðustu viku í Salnum í Kópavogi í þriðja sinn og voru úrslit kynnt sl. sunnudag. Tónlistarskólinn á Akureyri sendi þrjá keppendur í keppnina. Það voru þau Gauti Baldvinsson, 15 ára, og Elva Eir Grétarsdóttir, 15 ára, sem kepptu fyrir hönd skólans í flokki miðnámsnemenda. Í flokki framhaldsnámsnemenda keppti Þóra Kristín Gunnarsdóttir, 19 ára. Að auki kepptu nemendur á háskólastigi. Nemendurnir stóðu sig allir mjög vel en Gauti og Þóra Kristín komust í úrslitakeppnina sem haldin var sl. laugardag. Leikar fóru svo að Gauti Baldvinsson lenti í 3. sæti í sínum flokki og Þóra Kristín Gunnarsdóttir lenti í 2. sæti í sínum flokki. Kennari Gauta Baldvinssonar og Elvu Eir Grétarsdóttur er Þórarinn Stefánsson en kennari Þóru Krístínar Gunnarsdóttur er Dýrleif Bjarnadóttir. Mynd af Þóru Kristínu Gunnarsdóttur er fengin af www.tonak.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/althjodlegur-dagur-nemenda
Alþjóðlegur dagur nemenda Nemendur Menntaskólans, Verkmenntaskólans og Háskólans á Akureyri boða til opins fundar í Kvosinni í MA föstudaginn 17. nóvember. Sá dagur er Alþjóðlegur dagur nemenda og hafa nemendur skólanna þriggja sameinast um að helga daginn að þessu sinni málefninu Staða nemenda í íslensku samfélagi. Fundurinn hefst kl. 15.00. Að sögn aðstandenda fundarins stafar valið á umræðuefninu meðal annars af þeirri óvissu sem þeir segjast sjá í stöðu nemenda í framhalds- og háskólum um þessar mundir. Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir og sterk mótmæli gegn skerðingu náms til stúdentsprófs hafi engin skýr svör fengist um stefnu Menntamálaráðuneytisins í þeim málum. Skólunum stafi jafnframt mikil hætta af samdrætti og niðurskurði fjárveitinga á sama tíma og nemendum fjölgi. Metnaðarfull menntastefna, sem skólarnir vilji reka, eigi í vök að verjast fyrir niðurskurðarhnífum í einhverju mesta góðæri sem í landinu hafi ríkt. Fundurinn er opinn nemendum á öllum skólastigum og áhugafólki um menntamál. Bæjarfulltrúar, alþingismenn og starfsmenn í menntamálum er boðnir sérstaklega velkomnir. Ræðumenn á fundinum verða Ottó Elíasson, fyrrum stjórnarmaður í Hugin, skólafélagi MA, James Bóas Faulkner, fulltrúi í hagsmunaráði nemenda VMA og Steinþór Þorsteinsson varaformaður Félags stúdenta við HA. Fundarstjóri verður Kristín Helga Schiöth, formaður Hugins, skólafélags MA.
https://www.akureyri.is/is/frettir/syningar-a-sjotugu
Sýningar á sjötugu Laugardaginn 18. nóvember kl. 15.00 opnar myndlistarmaðurinn Kristinn G. Jóhannsson sýningarnar „Málverk um Búðargil og Brekkurnar“ í Ketilhúsi og „Svart á hvítu“ í Jónas Viðar Gallery. Kristinn (f. 1936) nam myndlist á Akureyri, í Reykjavík og Edinburgh College of Art. Hann efndi til fyrstu sýningar sinnar á Akureyri 1954 en sýndi fyrst í Reykjavík í Bogasal Þjóðminjasafnsins 1962 og sama ár tók hann þátt í Haustsýningu FÍM í Listamannaskálanum í fyrsta sinn. Kristinn hefur síðan verið virkur á sýningarvettvangi. Síðustu sýningar hans voru í Luxembourg 2005 og í Húsi málaranna í Reykjavík haustin 2003 og 2002 en árið 2001 var efnt til sýningar á verkum hans í Listasafninu á Akureyri. Síðustu ár hefur Kristinn eingöngu starfað að list sinni og hefur vinnustofur sínar að Glerárgötu 28. Sýningarnar bera yfirskriftina „Sýningar á sjötugu“ og standa til 3. desember. Ketilhúsið er opið frá kl. 13-17 alla daga nema mánudaga en JV Gallery er opið föstudaga, laugardaga og sunnudaga frá kl. 13-18.
https://www.akureyri.is/is/frettir/sidasta-syningarhelgi-3
Síðasta sýningarhelgi Síðasta sýningarhelgi sýningarinnar „Ef þú giftist“ er runnin upp. Af því tilefni munu starfsmenn Minjasafnins fræða áhugasama í stuttu máli um Minjasafnskirkjuna, Laufáskirkju og sýninguna sjálfa sunnudaginn 19. nóvember kl. 14. Einnig verður dregið úr veglegum vinningum í happdrættinu „Heppin(n) í ástum“. Í happdrættispottinum eru þau brúðhjón sem giftust í áðurnefndum kirkjum auk þeirra sem skírðu börn sín þar á þessu ári. Sýningin „Ef þú giftist“ fjallar um brúðkaup og brúðkaupssiði í gegnum tíðina. Efni sýningarinnar byggir á brúðkaupssýningunni „Í eina sæng, íslenskir brúðkaupssiðir“ sem sett var upp í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands árið 2004. Á sýningu Minjasafnins má meðal annars komast að því hvaða gjafir voru gefnar til að staðfesta heit fram að brúðkaupi, hverjar tískusveiflurnar voru í klæðnaði og ljósmyndun frá seinni hluta 19. aldar fram til dagsins í dag, hvaða dagar voru vinsælastir til að draga upp hringa, hvað er hjónaband og margt margt fleira. Fjöldi ljósmynda úr eigu safnsins og atvinnuljósmyndara á Akureyri, persónulegir gripir úr einkaeign, sjaldséðir safngripir, skjöl og brúðkaupsföt svo eitthvað sé nefnt svarar mörgum af fyrrnefndum spurningum og fleirum til. Opnunartími safnins laugardaginn 18. nóvember er 14-16 og sunnudag 14-17. Aðgangseyrir er enginn og allir eru velkomnir.
https://www.akureyri.is/is/frettir/fjor-i-hlidarfjalli
Fjör í Hlíðarfjalli Hlíðarfjall var opnað síðasta laugardag, skíðafólki til mikillar gleði. Nægur snjór var á svæðinu og fjöldi fólks sem skemmti sér konunglega eins og myndirnar hér að neðan sýna. Myndirnar voru teknar af Rúnari Þór Björnssyni.
https://www.akureyri.is/is/frettir/fundir-um-alver
Fundir um álver Í dag, þriðjudaginn 21. nóvember, verða haldnir á Akureyri og Húsavík kynningarfundir um stöðu mála vegna álvers sem hugsanlega mun rísa á Bakka við Húsavík. Á fundunum munu fulltrúar Norðurþings og Alcoa gera grein fyrir þeirri vinnu sem fram hefur farið í kjölfar viljayfirlýsingar þessara aðila og Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins sem undirrituð var síðastliðið vor. Ennfremur munu fulltrúar frá Landsvirkjun og Landsneti fjalla um ýmis atriði sem lúta að orkuöflun. Fundirnir eru öllum opnir og verða haldnir sem hér segir: Akureyri, Skipagötu 14, 4. hæð, kl. 12.00-13.20 (boðið verður upp á súpu og brauð). Húsavík, Fosshóteli, kl. 17.
https://www.akureyri.is/is/frettir/riflega-250-nyjar-eignir
Ríflega 250 nýjar eignir Mikil gróska hefur verið í byggingariðnaði á Akureyri á árinu og hafa ríflega 250 nýjar eignir verið skráðar í Landskrá fasteigna fyrstu 10 mánuði árisns. Tekjur bæjarfélagsins aukast vegna þessa í samræmi við ný lög um tekjustofna sveitarfélaga. Að stærstum hluta er hér um íbúðarhús og lóðir að ræða, einkum í Naustahverfinu, en einnig hefur orðið veruleg fjölgun á lóðum undir atvinnustarfsemi. Þessi ásókn í lóðir á Akureyri og uppgangur í atvinnustarfsemi af ýmsum toga, hefur það óhjákvæmilega í för með sér að tekjur bæjarfélagsins aukast. Með setningu nýrra laga um tekjustofna sveitarfélaga á Alþingi í lok ársins 2005 varð nokkur breyting á álagningu fasteiganskatts. Hann er nú lagður á samkvæmt Landskrá fasteigna og breytingin á lögum um tekjustofna sveitarfélaga felur það í sér að fasteignaskattur er lagður á nýjar lóðir og ný mannvirki í hlutfalli við ársálagningu frá næstu mánaðamótum eftir að þau eru skráð og metin í Landskrá fasteigna. Í tíð eldri laga var álagningin einungis miðuð við stöðuna í Landskrá fasteigna um áramót. Samkvæmt framansögðu hefur fasteignaskattur verið lagður á nýjar eignir á Akureyri, eins og gert mun verða í öðrum sveitarfélögum landsins, og nemur hann rúmlega 7 milljónum króna. Álagningarseðlar verða sendir út á næstu dögum. Nánari upplýsingar eru veittar á fjárreiðudeild Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, sími 460 1000.
https://www.akureyri.is/is/frettir/jolatonleikar-tonlistarskolans
Jólatónleikar Tónlistarskólans Á næstu vikum munu hinar ýmsu deildir Tónlistarskólans á Akureyri halda jólatónleika og sýna afrakstur hauststarfsins. Blásarasveitirnar ríða á vaðið með veglegum jólatónleikum sunnudaginn 26. nóvember kl. 18 í Ketilhúsinu. Þar koma fram Grunnsveit ásamt nemendum frá Tónlistarskóla Dalvíkur, Blásarasveit Tónlistarskólans, Lúðrasveit Akureyrar og síðast en ekki síst Big-Band sveit undir stjórn Edwards Fredriksens. Edward hefur verið með námskeið fyrir nemendur Tónlistarskólans en einnig koma fram með Big-bandinu nokkrir nemendur frá FÍH. Allir eru hjartanlega velkomnir. Nánari upplýsingar um jólatónleikana má nálgast á heimasíðu skólans, www.tonak.is.
https://www.akureyri.is/is/frettir/odinn-fekk-hvatningarbikar
Óðinn fékk hvatningarbikar Sundfólk úr Óðni gerði góða ferð til Reykjavíkur um helgina en þar fór fram eitt sterkasta sundmót ársins, Íslandsmótið í 25 metra laug. Akureyrarmet voru slegin 37 sinnum á mótinu og sex keppendur komust á verðlaunapall. Rúsínan í pylsuendanum var síðan á uppskeruhátíð sundmanna á sunnudagskvöldið en þar var tilkynnt að Óðinn væri handhafi Hvatningarbikars Sundsambands Íslands 2006 fyrir frábært uppbyggingarstarf. Á Íslandsmóti er keppt í opnum flokki karla og kvenna og til að vinna sér þátttökurétt þarf sundfólk að synda undir ákveðnum lágmörkum í viðkomandi grein. Óinn átti 23 sundmenn á mótinu, fleiri en nokkru sinni fyrr. Fyrirkomulagið er með þeim hætti að fyrir hádegi er synt í undanriðlum og þeir sem ná 8 bestu tímunum komast í úrslit sem synt eru seinnipartinn. Til marks um þær miklu framfarir sem er í sundi á Akureyri má nefna að á sama móti fyrir ári síðan komust tveir sundmenn frá Óðni í úrslit á öllu mótinu. Núna var algengara en ekki að félagið ætti a.m.k. einn sundmann í úrslitum í hverri grein. Óðinn átti fjóra á palli í einstaklingsgreinum: Sindri Þór Jakobsson fékk brons í 200 m flugsundi á tímanum 2:15.86, Sigrún Benediktsdóttir fékk brons í 400 m fjórsundi á tímanaum 5:12,31. Svavar Skúli Stefánsson fékk tvenn silfurverðlaun, í 400 m skriðsundi á tímanum 413:47 og í 1500m skriðsundi á tímanum 16:45,65. Tómas Leó Halldórsson fékk brons í 1500 m skriðsundi á tímanum 17:08,33. Þeir syntu báðir undir Akureyrarmeti í pilta og karla flokkum. Karlaboðsundsveit Óðins (Hannibal Hafberg, Árni Björn Gestsson, Tómas Leó Halldórsson og Svavar Skúli Stefánsson) fékk síðan brons í 4x50 m skriðsundi á tímanum 1.43.44 og brons í 4x100 skriðsundi á tímanum 3:44.58. Í báðum tilfellum féllu Akureyrarmet pilta og karla. Halldór Arinbjarnarson, stjórnarmaður í Óðni, segir ánægjulegt að sjá þá uppskeru sem uppbyggingarstarf undanfarinna ára er að skila. „Við getum teflt fram mun stærri og breiðari hóp en áður og vorum t.d. með tvær boðsundsveitir, bæði í karla og kvennaflokki, sem einhvern tíman hefði þótt saga til næsta bæjar. Óðinn er þó enn með mjög ungt lið en krakkarnir eru orðnir einu ári eldri en í fyrra og byrjaðir að narta í hælana á þeim allra bestu. Uppgangurinn á Akureyri vekur verðskuldaða athygli annarra félaga enda höfum við allar forsendur til að vera eitt að stóru félögunum í sundi hérlendis. Helsta vandamál okkar í dag er aðstöðuleysið sem einkum lýsir sér í of fáum æfingatímum og plássleysi í sundlaugum bæjarins,“ segir Halldór. Á myndinni er Rússinn Valdislav Manikhin, yfirþjálfari Óðins, sem er greinilega að ná góðum árangri með sundfólkinu frá Akureyri.
https://www.akureyri.is/is/frettir/tonleikar-til-styrktar-maedrastyrksnefnd-2
Tónleikar til styrktar Mæðrastyrksnefnd Á sunnudag þann 26. nóvember kl. 16.00 verða haldnir tónleikar í Glerárkirkju til styrktar Mæðrarstyrksnefnd Akureyrar. Kvennakór Akureyrar heldur tónleikana ásamt Kór Akureyrarkirkju og Barnakórum Akureyrarkirkju. Á efnisskrá kóranna verða jólalög og önnur þekkt lög sem eiga vel við á þessum árstíma. Þetta er í fjórða skiptið sem tónleikar sem þessir eru haldnir, í fyrra safnaðist vel og er það einlæg von kóranna að fólk sjái sér fært að eiga notalega stund í Glerárkirkju og að styrkja um leið mjög gott málefni. Stjórnendur kóranna eru Arnór Brynjar Vilbergsson og Eyþór Ingi Jónsson sem einnig leika undir ásamt Snorra Guðvarðssyni, Stefáni Gunnarssyni og Halla Gulla. Kynnir er Snorri Guðvarðsson. Í lok tónleikanna verður afraksturinn óskiptur færður Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, því allt tónlistarfólkið gefur sína vinnu, auglýsendur auglýsa tónleikana ókeypis og Glerárkirkja gefur eftir leiguna.
https://www.akureyri.is/is/frettir/naeturvaktir-i-heimahjukrun
Næturvaktir í heimahjúkrun Nú er komin á sólarhringsþjónusta í heimahjúkrun á Akureyri og eru næturvaktirnar samvinnuverkefni heilsugæslu og búsetudeildar Akureyrarbæjar. Ráðnir hafa verið þrír sjúkraliðar á næturvaktir og starfa þeir í heimahjúkrun ásamt því að sinna skjólstæðingum búsetudeildar þegar þess gerist þörf. Aðalverkefni næturvaktarinnar er að fara í fyrirfram ákveðnar vitjanir, öryggisinnlit, eftirlit og aðhlynningu. Er þessi viðbótar þjónusta til mikilla bóta og var þörfin fyrir hana orðin brýn. Það er stefna yfirvalda að styrkja þjónustu við fólk í heimahúsum þannig að hver einstaklingur geti búið við þær aðstæður sem honum henta best og hann sjálfur kýs. Öflug heimahjúkrun og heimaþjónusta er forsenda til að svo verði. Sjá fleiri fréttir á heimasíðu Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri.
https://www.akureyri.is/is/frettir/godur-arangur-fimleikafolks
Góður árangur fimleikafólks Það var ferð til fjár hjá Fimleikafélagi Akureyrar á vinamóti í Ármannsheimilinu laugardaginn 25. nóvember sl. Stúlkur í hópunum F-1 og F-2 sópuðu til sín verðlaunum bæði í 5 og 6 þrepi fimleikastigans. Stúlkunum gekk vel á öllum áhöldum; stökki, tvíslá, jafnvægisslá og á gólfi. Þjálfarar þessara stúlkna eru hjónin Mirela og Florin Paun frá Rúmeníu. Árangurinn af kröftugu uppbyggingarstarfi félagsins á síðustu árum leynir sér ekki. Í vetur æfa um 400 krakkar fimleika á vegum Fimleikafélags Akureyrar, flestir á aldrinum 4 til 16 ára. Krakkarnir uppskera ekki aðeins færni og hreysti heldur læra þeir líka prúðmennsku og tillitssemi. Mótið var haldið til að vígja hið nýja og glæsilega fimleikahús Ármanns í Laugardalnum. Sem kunnugt er hafa bæjaryfirvöld á Akureyri samþykkt að byggja sérhæft fimleikahús sem tekið verður í notkun á árinu 2008 sem mun efla fimleikastarf á Akureyri til muna. Mynd tekin af www.fimak.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/kveikt-a-jolatrenu-2
Kveikt á jólatrénu Laugardaginn 2. desember verða ljósin tendruð á jólatrénu frá vinabæ okkar Randers í Danmörku. Boðið verður upp á skemmtilega dagskrá fyrir alla fjölskylduna og sannkallaða jólastemningu. Dagskráin er þessi: Kl. 16.00 Lúðrasveit Akureyrar leikur létt lög Kl. 16.20 Stúlkur úr kór Akureyrarkirkju Kl. 16.30 Ávörp: Helgi Jóhannesson konsúll Dana á Akureyri og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri Kl. 16.40 Ljósin tendruð á jólatrénu Kl. 16.45 Söngur: Óskar Pétursson Kl. 16.55 Jólasveinarnir Hurðaskellir, Kjötkrókur og Kertasníkir kíkja í bæinn og syngja nokkur lög eins og þeim einum lagið Kynnir verður Aðalsteinn Bergdal.
https://www.akureyri.is/is/frettir/islandsklukkunni-hringt-2
Íslandsklukkunni hringt Föstudaginn 1. desember kl. 17 verður Íslandsklukkunni, listaverki Kristins E. Hrafnssonar við Háskólann á Akureyri, hringt sex sinnum, einu sinni fyrir hvert ár umfram árið 2000. Baldvin Jóh. Bjarnason fyrrverandi kennari og skólastjóri hringir klukkunni með aðstoð Gunnars Aðalgeirs Arasonar 5 ára leikskólanema. Varaforseti háskólaráðs og formaður Félags stúdenta við HA flytja ávörp og eftir barnasöng verður boðið upp á kakó og smákökur í kaffiteríu skólans. Sú skemmtilega hefð hefur skapast við athöfnina að þar er samvinna skólastiga í forgrunni og setja leikskólanemendur sem eru að hefja sína skólagöngu skemmtilegan svip á hátíðlega athöfn. Klukkan 12 sama dag heldur Skúli Skúlason rektor Hólaskóla hátíðarfyrirlestur sem ber heitið „Hlutverk okkar í mótun íslenskrar menningar“. Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu L201 að Sólborg v/Norðurslóð. Boðið verður upp á tónlistaratriði og léttar veitingar. Bæjarbúar og aðrir eru hjartanlega velkomnir í hátíðlega desemberstemningu við Háskólann á Akureyri.
https://www.akureyri.is/is/frettir/glerareyrar-1-10-glerartorg-deiliskipulagsbreyting
Gleráreyrar 1-10, Glerártorg - deiliskipulagsbreyting Bæjarstjórn Akureyrar auglýsir hér með skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.b. tillögu á breytingu á deiliskipulagi á Gleráreyrum 1-10. Smáratorg ehf. rekur verslunarmiðstöðina Glerártorg á austurhluta svæðisins. Félagið hefur keypt fasteignir ýmissa aðila á vesturhluta svæðisins vegna fyrirhugaðrar stækkunar verslunarmiðstöðvarinnar og er áformað í framhaldi af því að rífa þær byggingar á þeim hluta lóðarinnar. Í september 2006 gerðu Akureyrarbær og Smáratorg með sér samkomulag um breytingar á skipulagi á lóðinni Dalsbraut 1 og framkvæmdir þess vegna. Ma. var samið um að Akureyrarbær geri breytingar á umferðartengingum til þess að tryggja nauðsynlega aðkomu að lóðunum. Tilgangur þessara áforma er gera mögulega stækkun verslunarmiðstöðvarinnar Glerártorgs. Á deiliskipulagsuppdrættinum kemur m.a. fram: Akbraut, sem liggur um svæðið er flutt til vesturs og nefnist Gleráreyrar. Skipting lóða í sex sjálfstæðar lóðir, Gleráreyrar 1 – 10 og ný lóðamörk þessara lóða. Skilgreindar eru nýjar lóðir Gleráreyrar 2, 3, 4 , 6-8 og 10. Hús á vestari hluta svæðisins eru rifin, auk hluta bygginga við Borgarbraut vegna fyrirhugaðrar umferðartengingar. Tillaga er gerð um flutning hringtorgs á Borgarbraut. Tillaga er gerð um innra skipulag lóðanna í samráði við Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Samkvæmt deiliskipulagsbreytingu þessari eru lóðirnar 6: Gleráreyrar 1 stærð lóðar 50.360 m², Gleráreyrar 2 stærð lóðar 3.010 m², Gleráreyrar 3 stærð lóðar 6.930 m², Gleráreyrar 4 stærð lóðar 1.100 m², Gleráreyrar 6-8 stærð lóðar 9.696 m², Gleráreyrar 10 stærð lóðar 6.146 m². Heildarbyggingarmagn á svæðinu er uþb. 44.000 m². Áætlað byggingarmagn nú er uþb. 21.800 m² vegna nýbyggingar Glerártorgs. Deiliskipulagstillagan er sett fram á skipulagsuppdrætti Arkís nr. 90-1-01 dags. 15.11. 2006, ásamt greinargerð og skýringarmyndum 90-1-02 og 90-1-03 dags. 15.11.2006. Tillaga að deiliskipulagi svæðisins er unnin með það að markmiði að tryggja sem best umferðaröryggi allra vegfarenda og tengja nýtt verslunar- þjónustu- og athafnasvæði sem best við göngustíganet bæjarins eftir því sem unnt er miðað við aðstæður, gerða samninga og aðrar skipulagsforsendur. Tillöguuppdrættir ásamt greinargerð munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, næstu 6 vikur frá birtingu þessarar auglýsingar, þ.e. frá 1. desember 2006 - 12. janúar 2007, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir. Tillagan er einnig birt hér: Glerártorg-stækkun: Deiliskipulagsuppdráttur Glerártorg-stækkun: Skýringaruppdráttur, skýringarmynd Glerártorg-stækkun: Skýringaruppdráttur, snið Glerártorg-stækkun: Greinargerð og skipulagsskilmálar Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rennur út kl. 16:00 föstudaginn 12. janúar 2007 og skal athugasemdum skilað til Skipulagsdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillöguna innan þessa frests telst vera henni samþykkur.
https://www.akureyri.is/is/frettir/sigrun-bjork-verdur-baejarstjori
Sigrún Björk verður bæjarstjóri Í dag var haldinn blaðamannafundur í Ráðhúsinu á Akureyri þar sem kynntar voru breytingar sem gerðar verða á æðstu stjórn Akureyrarbæjar frá og með 9. janúar 2007. Sigrún Björk Jakobsdóttir tekur þá við embætti bæjarstjóra á Akureyri á fyrsta fundi bæjarstjórnar á nýju ári. Þá verður Kristján Þór Júlíusson forseti bæjarstjórnar og Hjalti Jón Sveinsson sest í bæjarráð í stað Sigrúnar Bjarkar. Elín Margrét Hallgrímsdóttir tekur sæti í framkvæmdaráði, stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar og verður formaður stjórnar Akureyrarstofu. Frá blaðamannafundinum í morgun. Talið frá vinstri: Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, og Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar og verðandi bæjarstjóri á Akureyri. Sigrún Björk í viðtali við fréttamann að blaðamannafundinum loknum.
https://www.akureyri.is/is/frettir/althjodadagur-fatladra
Alþjóðadagur fatlaðra Á alþjóðadegi fatlaðra 3. desember vilja Sjálfsbjörg á Akureyri og Þroskahjálp á Norðurlandi - eystra lýsa upp umhverfi sitt með markmiðið "samfélag fyrir alla" að leiðarljósi. Félögum, vinum og velunnurum er boðið í tilefni dagsins upp á ljósahátíð, kakó og piparkökur á Ráðhústorginu á Akureyri sunnudaginn 3. desember n.k. kl.16.00. Lýsum upp skammdegið og tökum á móti ljósinu!
https://www.akureyri.is/is/frettir/landsbankagledi-vid-radhustorg
Landsbankagleði við Ráðhústorg Það verður mikið um að vera á Ráðhústorgi laugardaginn 2. desember. Ljósin verða tendruð á jólatrénu frá Randers og í tilefni 120 ára afmælis Landsbanka Íslands verður boðið upp á skemmtilega dagskrá í útibúi bankans við torgið frá kl. 14.00. Undanfarin ár hefur Landsbankinn á Akureyri tekið þátt í upphafi hinnar eiginlegu jólastemmningar í miðbæ Akureyrar. Landsbankinn hefur boðið Akureyringum og gestum til upphitunar fyrir þá stóru stund sem tendrun jólaljósa á jólatrénu frá Randers í Danmörku er í hugum Akureyringa. Í ár, á 120 ára afmæli bankans, hyggst Landsbankinn bjóða Akureyringum og gestum uppá sérstaklega veglega dagskrá í útibúi Landsbankans við Ráðhústorg. Dagskráin hefst klukkan 14 laugardaginn 2. desember og vonast bankinn til að þar finni allir eitthvað við sitt hæfi. Félagar úr unglingakór Akureyrarkirkju syngja nokkur lög og Óskar Pétursson syngur m.a. lög af nýja diskinum sínum. Idolstjarnan Briet Sunna mætir einnig í bankann og syngur lög af nýja disknum sínum. Úrslit í Karíus og Baktus teikningasamkeppni Landsbankans og Leikfélags Akureyrar verða kynnt, en samhliða því verður úrval teikninga sem bárust í keppnina til sýnis í bankanum daganna 2. til 8. desember. Landsbankinn býður gestum upp á kaffi, kakó og meðlæti, svo allir verði vel upplagðir fyrir tendrun jólaljósanna á jólatrénu á Ráðhústorgi en þar hefst dagskráin klukkan 16.00.
https://www.akureyri.is/is/frettir/hofundur-herra-kolberts-til-akureyrar
Höfundur Herra Kolberts til Akureyrar David Gieselmann, höfundur Herra Kolberts, er væntanlegur til Íslands til að sjá rómaða uppfærslu á leikriti sínu hjá LA. Verk Gieselmanns hafa verið sýnd um allan heim en Herra Kolbert er hans þekktasta verk en það hefur verið sýnt um nær alla Evrópu auk Bandaríkjanna, Ástralíu og Suður Ameríku. Gieselmann þáði boð um að koma til Akureyrar í kjölfar afar jákvæðra dóma og viðbragða áhorfenda sem sýningin hefur hlotið. Sérstök hátíðarsýning verður haldin í tilefni komu hans laugardagskvöldið 9. desember og mun höfundurinn taka þátt í umræðum að sýningu lokinni. David Gieselmann er fæddur árið 1972 og ólst upp í Darmstadt í Þýskalandi. Hann er leikari og leikstjóri en lauk svo námi frá Listaháskólanum í Berlín í handritaskrifum árið 1998. Í framhaldinu setti hann upp fjölda eigin leikverka, þar á meðal Ernest in Bern, The Globes og The Big Building Project, Fruhstuck og die Plantage. Hið virta Royal Court höfundaleikhús í London bauð honum að taka þátt í leikritasmiðjum árið 1999 og 2000, en það var einmitt þar sem Herra Kolbert var frumsýnt. Verkið hlaut mikið lof og hefur síðan verið sýnt víða um heim þar sem það hefur vakið verðskuldaða athygli enda beitt og ágengt þrátt fyrir ómótstæðilegan húmor. Auk þess að hafa verið sýnt um nær alla Evrópu þá hefur verkið verið sýnt víða um Bandaríkin, í Rússlandi, Ástralíu og Suður Ameríku. Herra Kolbert var frumsýnt hjá LA 28. október og verður verkið sýnt fram að jólum. Sýningin hefur hlotið einróma lof gagnrýnanda. Sýningum lýkur 16. desember. Að gefnu tilefni skal tekið fram að sýningin er ekki væntanleg til Reykjavíkur, þrátt fyrir fjölda fyrirspurna og áskorana, þannig að nú er um að gera fyrir sunnanfólk að drífa sig norður í leikhús og skella sér e.t.v. í Hlíðarfjall á skíði eða snjóbretti í leiðinni!