Search is not available for this dataset
url
stringlengths
21
288
text
stringlengths
1
1.35M
https://www.vikubladid.is/is/frettir/radgjafarnefnd-um-heimavinnslu-og-solu-landbunadarafurda-skipud
Ráðgjafarnefnd um heimavinnslu og sölu landbúnaðarafurða skipuð Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað nefnd til ráðuneytis um hvernig best megi standa að og greiða fyrir þróun heimavinnslu og sölu afurða hjá bændum. Nefndinni er ætlað að hafa náið samráð við stjórn Beint frá býli - Félags heimavinnsluaðila, sem tók til starfa á hlaupársdag. Nefndina skipa: Jón Gunnarsson, alþingismaður og formaður nefndarinnar, Guðmundur H. Gunnarsson, verkefnastjóri hjá Matís ohf., Ólöf Hallgrímsdóttir bóndi, Vogum í Mývatnssveit, Sigurður Jóhannesson, frkvstj. SAH Afurða, Blönduósi og Sigurður Örn Hansson, forstöðumaður matvælaöryggis og neytendamála hjá Matvælastofnun. Ráðherra segir að glöggt megi merkja að áhugi bænda fyrir heimavinnslu afurða aukist hratt um þessar mundir. Þarna felist vaxtarbroddur sem vert sé að hlúa að, því hvers kyns nýsköpun af þessu tagi geti orðið greininni lyftistöng. Nefndin eigi að liðka fyrir þessu og stuðla að árangursríku samstarfi hins opinbera og hagsmunaaðilanna.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/feykir-gerir-samninga-vid-sveitarfelog-i-skagafirdi
Feykir gerir samninga við sveitarfélög í Skagafirði Feykir, héraðsfréttablaðið á Norðurlandi vestra, hefur verið í mikilli uppsveiflu síðasta árið. Áskrifendum hefur fjölgar mikið og hefur blaðið nú tryggt sig í sessi. Er nú svo komið að blaðið auglýsir í fyrsta sinn eftir blaðamanni í fullt starf til að starfa með ritstjóranum. Þetta má að hluta til rekja til aðkomu sveitarfélaga á svæðinu að blaðinu, en Feykir hefur nú þegar gert almannatengslasamning við tvö af sex sveitarfélögum. Samningar af þessu tagi hafa iðulega komið í umræðuna um héraðsfréttablöð en slík blöð njóta engra styrkja eða aðstoðar frá opinberum aðilum. Þá rata opinberar auglýsingar sem tengjast viðkomandi svæðum sjaldnast inn í þessi blöð og ríkisstofnanir hafa ekki sem reglu að kaupa þau í áskrift, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið sýnt fram á mikilvægi þeirra fyrir staðbundin samfélög. "Ég finn fyrir mikilli jákvæðni í garð blaðsins enda eru héraðsfréttablöðin nauðsynleg viðbót við fjölmiðlaflóru landsmanna. Það er erfitt í nútímasamfélagi að reka miðil sem kemur út einu sinni í viku og slíkur miðill vill því verða undir í samkeppninni um auglýsingar. Hins vegar eru sveitarfélögin á mínu svæði meðvituð um samfélagslegt gildi héraðsfréttablaðs og hafa því nú þegar tvö af sex gert almannatengslasamning við blaðið en hin hafa óskað eftir nánari viðræðum um fyrirkomulag," segir Guðný Jóhannesdóttir ritstjóri Feykis. Guðný hefur stýrt blaðinu í ár en með tilkomu samnings við sveitarfélögin í samspili við fjórðungs aukningu á áskrifendum er nú í fyrsta sinn í 26 ára sögu Feykis hægt að auglýsa eftir blaðamanni til þess að starfa við hlið ritstjóra í fullu starfi. Upplýsingar um starfið veitir Guðný í síma: 898 2597
https://www.vikubladid.is/is/frettir/margir-saekja-um-styrk-hja-menningarsjodi-akureyrarbaejar
Margir sækja um styrk hjá Menningarsjóði Akureyrarbæjar Óvenju margar umsóknir bárust um styrk úr Menningarsjóði Akureyrar, eða 39 alls. Ein umsókn hafði borist um styrk úr Húsverndarsjóði í vikunni en umsóknarfestur um styrk úr honum rann út í gær, laugardag. „Ég held að það verði ekki annað sagt en að fjöldinn beri þess skýr merki að menningin er á fullri ferð í bænum," segir Hulda Sif Hermannsdóttir verkefnastjóri hjá Akureyrarstofu. Hún segir að umsóknir séu af margvíslegu tagi, þó nokkrar tengist myndlist, tónlist er líka áberandi, en greinilegt sé að t.d. kórar ætli sér að verða á faraldfæti á næstunni í söngferðum, þá kenni ýmissa grasa í hópi umsókna. Nefnd sem úthlutar styrkjum kemur saman í vikunni en til úthlutunar úr Menningarsjóði er 1,5 milljónir króna. Styrkjum úr Menningarsjóði er úthlutað tvisvar á ári, næst verður það í haust.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/framkvaemdir-vid-menningarhusid-hof-a-aaetlun
Framkvæmdir við menningarhúsið Hof á áætlun Framkvæmdir við menningarhúsið Hof á Akureyri ganga vel og eru á áætlun. Frágangi utanhúss, þ.e. klæðning, gluggar og hurðir, á að vera lokið 1. apríl næstkomandi samkvæmt tilboði. Guðríður Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri Fasteigna Akureyrarbæjar, segir að vel gangi að setja klæðningu utan á húsið og þá sé unnið af fullum krafti við að glerja, „en það er heilmikið eftir innandyra, vinna við innréttingar fer að hefjast," segir hún. Fjöldi manns vinnur nú í byggingunni og hafa framkvæmdir gengið með ágætum, veður hefur ekki tafið byggingaframkvæmdir að sögn Guðríðar. Hún segir að stefnt sé að því að opna húsið fullbúið vorið 2009.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/auglyst-eftir-nyjum-sveitarstjora-i-eyjafjardarsveit
Auglýst eftir nýjum sveitarstjóra í Eyjafjarðarsveit Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hefur auglýst eftir metnaðarfullum og kraftmiklum aðila í starf sveitarstjóra. Nýr sveitarstjóri tekur við starfinu af Bjarna Kristjánssyni, sem verið hefur sveitarstjóri undanfarin ár. Bjarni var sveitarstjóri á síðasta kjörtímabili en eftir kosningarnar fyrir tæpum tveimur árum, var hann aðeins endurráðinn til tveggja ára. Í Eyjafjarðarsveit er rekinn öflugur landbúnaður. Vegna nálægðar við Akureyri, býður sveitarfélagið kosti hins klassíska sveitarfélags og um leið eiginleika þéttbýlis, eins og segir m.a. í auglýsingu um starfið. Umsóknarfrestur er til 16. mars nk. Eins og fram kom í Vikudegi nýlega hafa íbúar í Eyjafjarðarsveit náð því marki að verða fleiri en eitt þúsund, í fyrsta sinn við formlega mannfjöldaskráningu sem miðar við 1. desember ár hvert. Íbúar hafa þó af og til náð þeirri tölu áður. Nokkuð hefur verið byggt af nýjum íbúðum í sveitarfélaginu. Um þessar mundir er verið að úthluta 15 nýjum lóðum á nýjum skipulagsreit í Reykárhverfi, sem töluverður áhugi var fyrir.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/kaerum-vegna-aksturs-undir-ahrifum-vimuefna-fjolgar-ort
Kærum vegna aksturs undir áhrifum vímuefna fjölgar ört Kærum vegna aksturs undir áhrifum vímuefna hefur fjölgað mjög að undanförnum. Má það einkum rekja til þess, að sögn Gunnars Jóhannessonar lögreglufulltrúa hjá Lögreglunni á Akureyri, að ný tæki og tækni voru tekin í notkun á liðnu ári sem gera lögreglumönnum nú auðveldara um vik að greina strax á vettvangi hvort ökumenn séu undir áhrifum vímuefna. „Frá því þessi tæki voru tekin í notkun hefur kærum fjölgað umtalsvert," segir Gunnar. Lágmarksrefsing við akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna, fyrsta broti, er ökuleyfissvipting í þrjá mánuði, 30 þúsund króna sekt að lágmarki, fer eftir því hve mikið mælist í blóðinu, auk málskostnaðar sem getur numið tugum þúsunda. Við ítrekuð brot hækka sektir og svipting ökuleyfis verður lengri. Gunnar segir ástand fíkniefnamála í bænum í svipuðu horfi og verið hafi undanfarin ár, það sé hvorki betra né verra en áður. Framboð af fíkniefnum virðist ætíð vera nóg og þó svo að þekktir salar séu teknir úr umferð eru aðrir fljótir að fylla þeirra skarð. „Það eru miklir peningar í umferð í þessum heimi og á meðan svo háttar eru margir tilbúnir að taka þátt," segir Gunnar. „Þetta er stríð, en ég held að menn hljóti að gera sér grein fyrir því fyrr en síðar að það vinnst ekki." Gunnar segir um þjóðfélagsmein að ræða sem kosti samfélagið mikið fé, þar megi nefna löggæslu, dómskerfið, félagskerfið og heilbrigðiskerfið sem öll koma að málum með einum eða öðrum hætti. Algengt er að sögn Gunnars að virkir fíklar nýti sér félagskerfið m.a. til að sækja sér atvinnuleysis- eða örorkubætur og þá mæði einnig mikið á heilbrigðiskerfinu. „Þegar allt er tínt til kostar þetta samfélagið óhemju mikla peninga, ég hugsa að margir geri sér ekki grein fyrir því hvað þessi ógæfa kostar," segir hann. Hvert kerfi sem áður er nefnt vinnur að málum, en heildarstefna eða samvinna þeirra á milli er ekki fyrir hendi. „Það berjast allir í bökkum, það vantar all staðar fé til þessa málaflokks og því hafa menn ekki unnið saman, enda þarf óskaplega mikið til að þoka málum áfram," segir Gunnar.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/riflega-halfur-milljardur-i-hagnad-hja-nordlenska
Ríflega hálfur milljarður í hagnað hjá Norðlenska Hagnaður Norðlenska matborðsins ehf. á árinu 2007 nam 505,8 milljónum króna samanborið við 18,7 milljóna króna hagnað árið 2006. Í árslok 2007 námu eignir félagsins 2.183 milljónum króna, bókfært eigið fé var 405 milljónir og hafði hækkað um 37 milljónir milli ára og eiginfjárhlutfall var 19%. Ársvelta Norðlenska á árinu 2007 var 3.181 milljónir króna. Norðlenska var stærsti sláturleyfishafi landsins árið 2007, heildarslátrun félagsins á árinu nam 3.732 tonnum. Hjá Norðlenska voru 189 ársstörf - á Akureyri, Húsavík, Höfn og í Reykjavík. Á Akureyri er stórgipaslátrun og vinnsla úr þeim afurðum. Á síðasta ári var slátrað um 14.500 svínum á Akureyri og um 3.600 nautgripum. Á Húsavík er dilkaslátrun og vinnsla úr dilkakjöti. Á sl. hausti var slátrað 81.500 dilkum á Húsavík. Á Höfn er dilka- og stórgripaslátrun. Á liðnu hausti var þar slátrað 33.300 dilkum. Í Reykjavík er rekið öflugt sölustarf. Stjórn Norðlenska staðfesti ársreikning félagsins á fundi í vikunni. Þar kom fram að afkoma Norðlenska á liðnu ári væri umfram áætlanir. Stjórn félagsins vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til framleiðenda og starfsfólks fyrir vel unnin störf og hlut þess í bættri afkomu félagsins. Hagnaður Norðlenska fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) var 735,0 milljónir króna árið 2007 samanborið við 268,7 milljónir króna árið 2006. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsgjalda var hagnaður af rekstri félagsins 505,8 milljónir króna. Þar af var hagnaður af sölu fasteigna 455,8 milljónir. Veltufé frá rekstri var 274,7 milljónir árið 2007 samanborið við 271,1 milljón króna árið 2006. Vörusala á innanlandsmarkaði nam 3.116 milljónum og jókst um 224 milljónir króna milli ára. Hins vegar dróst útflutningur saman milli ára sem nemur 32 milljónum króna. Launagreiðslur Norðlenska á árinu 2007 - laun og launatengd gjöld - námu 701 milljón króna og jukust um 47 milljónir milli ára. Á árinu 2007 urðu miklar breytingar á eignarhaldi Norðlenska. Búsæld, framleiðslufélag bænda, eignaðist félagið að fullu með kaupum á eignarhlutum KEA, Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga, Akureyrarbæjar og Norðurþings. Heildarfjárfesting Búsældar vegna þessara kaupa nam 568 milljónum króna. Jafnframt var fasteign Norðlenska á Akureyri seld til fasteignafélagsins Miðpunkts. Stefnt er að því að aðalfundur Norðlenska fyrir árið 2007 verði 18. mars nk.. Í stjórn félagsins eru Jón Benediktsson, bóndi á Auðnum, formaður, Ingvi Stefánsson, bóndi í Teigi, varaformaður, Aðalsteinn Jónsson, bóndi í Klausturseli, Geir Árdal, bóndi í Dæli, og Auður Finnbogadóttir, viðskiptafræðingur í Garðabæ.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/giljaskoli-og-grunnskoli-siglufjardar-i-urslit-i-skolahreysti
Giljaskóli og Grunnskóli Siglufjarðar í úrslit í Skólahreysti Lið Giljaskóla á Akureyri og lið Grunnskóla Siglufjarðar tryggðu sér sæti í úrslitum í Skólahreysti 2008, sem fram fara í Laugardalshöll 17. apríl nk. Tvær keppnir fóru fram í Íþróttahöllinni Akureyri í gær, þar sem alls 18 skólar kepptu í tveimur riðlum. Í fyrri riðlinum kepptu skólar úr dreifbýli, alls ellefu lið. Keppnin var jöfn og spennandi og voru það lið Reykjahlíðarskóla, Dalvíkurskóla og Grunnskóla Siglufjarðar sem leiddu keppnina allan tímann en síðastnefndi skólinn hafði sigur. Í seinni riðlinum voru sjö lið frá Akureyri og nágrenni. Riðillinn var jafn og sterkur en sem fyrr sagði hafði lið Giljaskóla sigur. Lið Giljaskóla náði að halda forystu alla keppnina með mikilli keppnishörku og vinna riðilinn á 31 stigi. Þelamerkurskóli hafnaði í öðru sæti með 29 stig og Síðuskóli varð í þriðja sæti með 25,5 stig. Akureyringar troðfylltu Íþróttahöllina þegar keppni í seinni riðlinum fór fram. Jónsi og Ívar Guðmundsson sáu um að stemningin væri fjörug og frábær og í stíl við hrausta norðlenska unglinga. Stuðningsmenn og áhorfendur létu sig heldur ekki vanta þegar keppni í fyrri riðlinum fór fram og létu vegalengdir ekki stöðva sig. Forsvarsmenn skólanna fylltu rútur af stuðningsmönnum og fjölmenntu í Íþróttahöllina. Um sexhundruð krakkar með skilti, trommur, flautur og stuðningslög. Nú eru eftirtaldir átta skólar komnir í úrslit : Foldaskóli, Hagaskóli, Heiðarskóli/Reykjanesbær, Lindaskóli, Hvolsskóli, Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar, Grunnskóli Siglufjarðar og Giljaskóli.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/unnid-ad-motun-nyrrar-stefnu-i-sorpmalum-a-akureyri
Unnið að mótun nýrrar stefnu í sorpmálum á Akureyri Unnið er að því af fullum krafti að móta stefnu í sorpmálum, að sögn Hjalta Jóns Sveinssonar formanns umhverfisnefndar Akureyrarbæjar. Í burðarliðnum er samningur við Flokkun ehf. sem er félag í eigu sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu. Flokkun hefur boðið Akureyrarbæ upp á margvíslega þjónustu í þessum efnum, m.a. hvað varðar förgun úrgangs, endurvinnslu, móttöku spilliefna, rekstur mótttökustöðva fyrir úrgang sem og sorphirðu. „Við erum að móta stefnuna, hvernig við viljum standa að flokkun sorps og markmiðið er að allur almenningur muni í nánustu framtíð flokka það mikið sorp að við þurfum ekki að urða nema um það bil 20 til 30% af því sorpi sem við nú urðum," segir Hjalti Jón. Ætlunin er að kynna nýja stefnu í sorpmálum á Umhverfisdeginum, m.a. þá hugmynd að bjóða fólki upp á að hafa tvær eða jafnvel þrjár sorptunnur við híbýli sín. „Þetta gæti þá virkað þannig að því meira sem fólk flokkaði því minna þyrfti það að borga," segir hann. Hjalti Jón nefnir að m.a. horft sé til Stykkishólms í þessum efnum, „en okkar markmið er auðvitað að vera í fararbroddi í þessum málaflokki og við erum býsna langt komin með að móta stefnuna. Þetta er mjög skemmtilegt verkefni og það eru spennandi tímar framundan," segir Hjalti Jón.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/maria-sigurdardottir-radin-leikhusstjori-la
María Sigurðardóttir ráðin leikhússtjóri LA María Sigurðardóttir hefur verið ráðin í stöðu leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar til þriggja ára frá 1. mars 2008 til 1. mars 2011. María var valin úr hópi 12 umsækjenda, þar sem tveir óskuðu nafnleyndar. Hún tekur við stöðunni af Magnúsi Geir Þórðarsyni, sem hefur verið ráðinn leikhússtjóri Borgarleikhússins. Nýr leikhússtjóri mun hefja störf fljótlega og mun á vordögum starfa við hlið fráfarandi leikhússtjóra. Meginverkefni Maríu fyrstu dagana í starfi verður að velja verkefni og listamenn næsta leikárs sem hefst 1. ágúst 2008. Stjórn Leikfélags Akureyrar væntir mikils af störfum Maríu sem tekur við einstaklega góðu búi eftir uppgangstíma síðustu ára. Sjálf hefur María leikstýrt fjölda verka á síðustu árum hjá Borgarleikhúsinu, Leikfélagi Akureyrar, Leikfélagi Íslands, Sögn ehf. og Þjóðleikhúsinu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/radstefna-um-oryggis-og-skipulagsmal-hestamanna
Ráðstefna um öryggis- og skipulagsmál hestamanna Landsamband hestamannafélaga heldur ráðstefnu um öryggis- og skipulagsmál hestamanna á Akureyri á morgun, föstudaginn 29. febrúar kl. 16.30. Ráðstefnan verður í sal Brekkuskóla og er gengið inn að vestan gegnt Íþróttahöllinni. Halda átti ráðstefnuna fyrr í þessum mánuði en henni varð að fresta vegna veðurs. Tilgangur ráðstefnunnar er að fjalla um öryggismál hestamanna í ljósi tíðra slysa á hestamönnum undanfarið og þeirrar staðreyndar að stöðugt þrengir að svæðum hestamanna við þéttbýli sem hefur skapað aukna slysahættu. Dæmi um þetta er tillaga Akureyrarbæjar um að koma fyrir hávaðasömum akstursíþróttum rétt við hesthúsahverfin og aðalreiðleiðir bæjarins sem hefur verið mikið hitamál meðal hestamanna, segir í tilkynningu frá Ástu Ásmundsdóttur formanni Léttis. Reiknað er með að á ráðstefnuna komi fulltrúar bæjarins, hestamenn og aðrir hagsmunaaðilar og því má búast við fjörugum umræðum. Dagskrá ráðstefnunnar: I: Öryggis- og skipulagsmál 1) Haraldur Þórarinsson formaðu LH: - Framsöguerindi 2) Ásta M. Ásmundsdóttir formaður Léttis: - Hvað getum við lært af reynslu hestamannafélagsins Léttis? 3) Halldór Halldórsson formaður reiðvega og skipulagsnefndar LH: -Kynning á reiðvega- og skipulagsmálum hestamanna. 4) Gunnar Sturluson formaður öryggisnefndar: - Öryggismál í brennidepli 5) Ragnheiður Davíðsdóttir frá VÍS: - Öryggismál og forvarnir 6) Umræður II: Landsmót 1) Jóna Fanney Friðriksdóttir framkvæmdastjóri LM: - Landsmót 2008 undirbúningur III: Almennar umræður Ráðstefnuslit
https://www.vikubladid.is/is/frettir/ingibjorg-osp-radin-til-ad-sinna-verkefnastjorn-vegna-menningarhuss
Ingibjörg Ösp ráðin til að sinna verkefnastjórn vegna menningarhúss Akureyrarbær hefur samið við Ingibjörgu Ösp Stefánsdóttur um verkefnastjórn og ráðgjöf í tengslum við undirbúning á rekstri Menningarhússins Hofs. Gert er ráð fyrir að húsið verði opnað á vormánuðum 2009 og er framundan vinna við undirbúning og mótun rekstursins og þeirrar starfsemi sem verður í húsinu. Samningurinn felur m.a. í sér endurgerð á eldri viðskiptaáætlunum fyrir húsið, áætlun um markaðssetningu, greiningu helstu verkferla eftir að starfsemi hefst og endanlega mótun listrænnar stefnu. Það eru Akureyrarstofa og Fasteignir Akureyrar sem gera samninginn fyrir hönd bæjarins. Ingibjörg er 32 ára og lauk B.sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2001 en stundar nú, samhliða vinnu, meistaranám í viðskiptafræði við sama skóla. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri Leikfélags Akureyrar frá árinu 2004 - 2005 en hefur síðan þá starfað sem markaðs- og kynningarfulltrúi KEA. Ingibjörg er gift Karel Rafnssyni verslunarstjóra á Akureyri og eiga þau þrjú börn.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/vinna-hafin-vid-stefnumotun-fyrir-ferdathjonustu-i-thingeyjarsyslum
Vinna hafin við stefnumótun fyrir ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum Hafist hefur verið handa við gerð stefnumótunaráætlunar fyrir ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum. Að vinnunni standa Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Ferðamálasetur Íslands og Rannsóknarstofnun ferðamála á Nýja Sjálandi. Stefnumótunin byggir á reynslu og vinnu sérfræðinga frá Kanada og Nýja Sjálandi. Þeir sem að verkinu vinna eru: dr. John Hull, sérfræðingur við Ferðamálasetur Íslands og Rannsóknastofnun ferðamála á Nýja Sjálandi, dr. Edward H. Huijbens, forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands, Simon Milne, forstöðumaður Rannsóknastofnunar ferðamála á Nýja Sjálandi og Carol Patterson, ferðaþjónusturáðgjafi í Kanada og leiðbeinandi við háskólann í Calgary. Auk þeirra fjögurra koma að verkinu fjöldi stúdenta og starfsmenn stofnananna sem standa á bak við stefnumótunina. Markmið stefnumótunarinnar er að greina möguleika til uppbyggingar á ferðaþjónustu til framtíðar, út frá úttekt á því sem svæðið hefur upp á að bjóða. Úttektin, sem unnin er í samvinnu við lykil hagsmunaaðila og þá sem þekkja vel til á svæðinu, er síðan er borin undir aðra hagsmunaaðila í ferðaþjónustu og þarfir hennar til framtíðar greindar með þeim hætti. Allir hagsmunaaðilar munu einnig koma að vinnunni á tveggja daga námskeiði og hugarflugsfundi um stefnumótun á svæðinu sem haldinn verður í byrjun maí. Úttektin er unnin af íslenskum sérfræðingum í málefnum ferðaþjónustu í samvinnu við lykilaðila en greining og kortavinna er í höndum erlendra sérfræðinga og byggir á þeirra vinnu á ýmsum svæðum hvaðanæva úr heiminum. Í sameiningu munu síðan rannsakendur og hagsmunaaðilar vinna stefnumótun til fimm ára, en áætlað er að vinnan verði endurtekin að þeim tíma liðnum. Landfræðilegum upplýsingakerfum (GIS) er beitt við úttekt og greiningu á ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum. Gögnum um einstaka staði, s.s. fossa, byggðaminjar, sundlaugar, veitingastaði og vegaslóða, er safnað í aðgreindar þekjur sem nýtast til að átta sig á þyrpingum ólíkra möguleika til uppbyggingar í framtíðinni. Með þessari aðferð er þáttað saman nálgunum fræðimanna og hagsmunum atvinnugreinarinnar á máta sem er auðframsetjanlegur í kortum og myndum en jafnframt nýtist til frekari greininga. Sá landfræðilegi upplýsingagrunnur sem byggður verður upp í Þingeyjarsýslum mun nýtast sem fyrirmynd í sambærilega gagnaöflun og stefnumótunarvinnu á öðrum landssvæðum og getur að lokum orðið undirstaða landnýtingaráætlunar fyrir íslenska ferðaþjónustu, segir á vef Ferðamálastofu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/niu-manns-a-slysadeild-fsa-eftir-tvo-umferdarslys
Níu manns á slysadeild FSA eftir tvö umferðarslys Níu manns voru fluttir á slysadeild FSA í gærdag eftir tvo harða árekstra sem urðu með skömmu millibili á þjóðvegi 1 á Svalbarðsströnd. Jeppi ók aftan á rútu sem hafði numið staðar til að hleypa út farþegum við bæinn Sólberg. Tveir farþegar jeppans slösuðust en beita þurfti klippum til að ná farþega úr bílnum. Ekki er talið að um alvarleg meiðsl hafi verið að ræða. Jeppinn er gjörónýtur og rútan talsvert skemmd. Seinni áreksturinn varð skömmu síðar rétt austan Leirubrúar en slökkviliðsmenn og stjórnendur komu fyrstir að því slysi á leið sinni frá hinu slysinu. Sá árekstur var geysiharður, fimm manns voru í öðrum bílnum en tveir í hinum. Þurfti að beita klippum til að ná ökumanni annars bílsins en hann slasaðist talsvert. Einn úr hinum bílnum slasaðist einnig alvarlega en allir voru fluttir á slysadeild til skoðunar og meðferðar. Samtals unnu í þessu slysi 13 slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn frá SA á þremur sjúkrabílum, dælubíl og tveimur þjónustubílum auk vaktlæknis á læknabíl. Ennfremur kom sjúkrabíll Dalvíkinga, mannaður tveimur sjúkraflutningamönnum, sem staddur var á Akureyri, til aðstoðar á slysstað en fjórði sjúkrabíll SA var í flutningi utanbæjar. Lögregla og vegfarendur veittu einnig góða aðstoð. Mikið annríki hefur verið hjá slökkviliðinu í gær en samtals voru skráðir 16 sjúkraflutningar frá því í gærmorgun auk þriggja sjúkrafluga, þar af eitt með sjúkling suður til Reykjavíkur úr slysinu í gær.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/lid-akureyrar-i-2-flokki-i-urslit-i-bikarkeppni-hsi
Lið Akureyrar í 2. flokki í úrslit í bikarkeppni HSÍ Strákarnir í liði Akureyrar í 2. flokki í handbolta tóku í kvöld á móti Víkingi í undanúrslitum bikarkeppni HSÍ og unnu öruggan 10 marka sigur 41-31. Með sigrinum komst lið Akureyrar í úrslit og mætir liði HK í Laugardalshöllinni næsta sunnudag. Jafnræði var með liðunum á upphafsmínútum leiksins og jafnt á öllum tölum upp í 4-4 en fljótlega eftir það tóku heimamenn af skarið og leiddu með fjórum mörkum í hálfleik 19-15. Í síðari hálfleik jókst munurinn jafnt og þétt og lauk leiknum eins og áður segir með öruggum tíu marka sigri 41-31.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/logreglan-a-akureyri-lysir-eftir-vitnum-fra-2004
Lögreglan á Akureyri lýsir eftir vitnum frá 2004 Lögreglan á Akureyri lýsir eftir vitnum að líkamsárás sem átti sér stað laugardaginn 4. september 2004 um miðjan dag á Eyjafjarðarbraut eystri skammt frá Akureyri. Málsatvik voru þau að karlmaður veittist að konu á rauðri fólksbifreið og veitti henni alvarlega áverka. Tveir karlmenn á jeppabifreið munu hafa komið að þar sem þetta átti sér stað og tekið árásarmanninn á brott með sér. Lögreglan biður þá sem komu þarna að og aðra þá sem hugsanlega hafa vitneskju um málið að hafa samband við lögregluna á Akureyri í síma 464 7705.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/lausn-fundin-i-deilu-nokkva-og-akureyrarbaejar
Lausn fundin í deilu Nökkva og Akureyrarbæjar Viðunandi lausn er nú fundin í deilu siglingaklúbbsins Nökkva við bæjaryfirvöld á Akureyri vegna fyrirhugaðra framkvæmda klúbbsins á Leirunni. Eftir fund formanns Nökkva í gær með skipulagsstjóra og formanni bæjarráðs, Hermanni Jóni Tómassyni, er ljóst að ekki er grundvöllur fyrir framkvæmdum á þessu ári, eins og bæjarstjóri, Sigrún Björk Jakobsdóttir, hefur réttilega bent á í bréfum til formanns Nökkva og annarra. Þær upplýsingar sem klúbburinn lagði til grundvallar bentu til þess að hægt væri með góðum vilja að byrja framkvæmdir á haustdögum og stefndi félagið á að hefja framkvæmdir á 45 ára afmæli klúbbsins 11. september. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Rúnari Þór Björnssyni formanni Nökkva. Þar segir ennfremur að stjórn Nökkva mun sættast á þessa niðurstöðu á þeim forsendum að þegar verði hafist handa við að koma hugmyndum þeirra í réttan farveg hjá skipulagsyfirvöldum og framkvæmdasýslu. Einnig skal þess getið að þær fjárveitingar sem fyrirhugaðar voru til framkvæmda hjá Nökkva í ár falla niður, en klúbburinn heldur fjárveitingu á árinu 2009 og þá og ekki seinna en þá, verður hafist handa. Viðbrögð Nökkvamanna skulu skoðaðar í því ljósi að í tugi ára, já, tugir ára líða og enn eru þeir að berjast fyrir bættri aðstöðu fyrir klúbbinn og betri aðstöðu fyrir sportbátaeigendur í bænum og við sjáum hver staðan er í dag. Metnaðarfullar hugmyndir um framtíðarsvæði fyrir siglingar og sjósport eru alveg við það að verða að veruleika, frestun á þeim um nokkur ár er ekki inni í myndinni. Stjórn Nökkva er harðákveðin í að fylgja þessum nýjustu hugmyndum eftir og ætlar að koma þeim í framkvæmd og það er gleðiefni að sjá og heyra að bæjarstjóri hefur ítrekað það sl. daga, að það að fullur vilji bæjaryfirvalda að styðja uppbyggingu klúbbsins á Leirunni. Stjórn Nökkva vill jafnframt koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hafa sent þeim stuðningsyfirlýsingar síðustu daga og sýnt málinu áhuga. Það gefur okkur mikinn styrk að sjá að fullt af siglingafólki, foreldrum og stjórnir annara siglingaklúbba ásamt SÍL fylgist með málum og er tilbúið að láta heyra í sér þegar þess er þörf.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/forsetahjonin-heimsottu-hrafnagilsskola-i-morgun
Forsetahjónin heimsóttu Hrafnagilsskóla í morgun Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, og Dorrit Moussaieff forsetafrú heimsóttu Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit í morgun, þar sem tekið var vel á móti þeim. Heimsóknin tengist því að Hrafnagilsskóli hlaut Íslensku menntaverðlaunin árið 2007 í flokki skóla sem sinnt hafa vel nýsköpun og farsælu samhengi í fræðslustarfi. Fulltrúar Hrafnagilsskóla tóku á móti forsetahjónunum og fylgdu þeim í íþróttasal skólans, þar sem fram fór dagskrá þeim til heiðurs. Einnig heimsóttu forsetahjónin kennslustofur og kynntu sér kennsluhætti, aðbúnað og viðhorf nemenda. Nánar er fjallað um heimsókn forsetahjónanna í Vikudegi á morgun.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/aefingar-i-fullum-gangi-a-dubbeldusch-hja-la
Æfingar í fullum gangi á Dubbeldusch hjá LA Æfingar eru nú í fullum gangi hjá Leikfélagi Akureyrar á nýju íslensku leikriti, Dubbeldusch, eftir Björn Hlyn Haraldsson. Hér er á ferðinni ljúfsárt verk um mann sem stóð frammi fyrir erfiðu vali fyrir þrjátíu árum en nú bankar fortíðin upp á. Sýningin verður frumsýnd í Rýminu á Akureyri 13. mars. Björn Hlynur leikstýrir verkinu sjálfur, Hilmar Jónsson leikur aðalhlutverkið en hann hefur ekki leikið að ráði á sviði síðan blómlegur leikstjórnarferill hans hófst. Aðrir leikarar eru: Harpa Arnardóttir, Davíð Guðbrandsson, María Heba Þorkelsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Rýmið er samstarfsverkefni LA og TM en fyrr í vetur voru Ökutímar sýndir þar. Þeir viku fyrir fullu húsi til að rýma til fyrir Dubbeldusch. Ökutímar verða sýndir á fjölum í Reykjavík síðar á árinu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/ejs-og-akureyrarbaer-semja-um-tolvubunad-og-thjonustu
EJS og Akureyrarbær semja um tölvubúnað og þjónustu Forsvarsmenn Akureyrarbæjar og EJS undirrituðu í dag samning um kaup bæjarins á tölvubúnaði og þjónustu sem því tengist til næstu fimm ára. Um er að ræða stærsta samning EJS Akureyri hingað til en Akureyrarbær er með um 1000 tölvur í rekstri. Tölvurnar sjálfar koma frá Dell og áttu forsvarsmenn Dell beina aðkomu að undirbúningi samningsins með verðtilboði sem skilar Akureyrarbæ verulegum ávinningi. Samningurinn er að undangenginni verðkönnun Akureyrarbæjar hjá þremur aðilum og reyndist tilboð EJS Akureyri hagstæðast. Óskað var eftir verði í skilgreindar vélar en ekki er kveðið á um í samningnum hversu margar vélar verða keyptar á samningstímanum. EJS hefur síðustu fimm árin átt samstarf við Akureyrarbæ á hliðstæðum grunni og því verður um beint framhald á þeim samningi að ræða til næstu fimm ára. "Samningurinn er okkur mjög mikilvægur, ekki síst í því ljósi að við höfum átt gott samstarf við Akureyrarbæ á undanförnum árum. Um leið er þetta áfangi í að tryggja frekari vöxt EJS á Norður- og Austurlandi. Við þekkjum vel til tölvuumhverfis bæjarins eftir síðasta samning og Dell vélar eru nú orðnar nánast allsráðandi í allri starfsemi bæjarins. Þar hafa þær sýnt og sannað ágæti sitt. Aðkoma yfirmanna Dell í Evrópu að tilboði okkar sýnir líka hversu ríka áherslu við lögðum á að tryggja Akureyrarbæ sem hagstæðast verð," segir Reynir Stefánsson, svæðisstjóri EJS á Norðurlandi, en fyrirtækið veitir heildarlausnir á sviði upplýsingatækni, rekur verslun og verkstæði á Akureyri, sem og hýsingu, símkerfaþjónustu, kerfisleigu, rekstrarþjónustu, veitir fyrirtækjarráðgjöf og fleira. Starfsmenn eru nú 23 talsins. Gunnar Frímannsson, verkefnisstjóri hjá Akureyrarbæ, segir góða reynslu af fyrri samningi við EJS Akureyri og ánægjulegt að samstarfið sé nú endurnýjað til næstu fimm ára. Hann segir samninginn mjög hagstæðan fyrir Akureyrarbæ en tilboð EJS reyndist afgerandi best í áðurnefndri verðkönnun. "Hjá Akureyrarbæ eru í heild um 1000 tölvur í rekstri og því er um nokkuð viðamikinn þátt að ræða í starfsemi bæjarins. Vélbúnaðurinn sem slíkur skiptir auðvitað miklu máli og reynsla okkar af Dell vélunum hefur verið góð. Hins vegar skiptir ekki síður máli fyrir okkur að þjónustan að baki vélbúnaðinum sé traust og áreiðanleg. Af reynslunni vitum við að hverjum við göngum hjá EJS á Akureyri hvað þetta varðar og fögnum því að eiga áfram aðgang að þeirri þjónustu," segir Gunnar. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri og Örn Þór Alfreðsson, framkvæmdastjóri búnaðarlausna EJS, undirrituðu samninginn fyrir hönd samningsaðila en viðstaddir undirskriftina voru Reynir Stefánsson, svæðisstjóri EJS á Norðurlandi, Alfreð Markússon, viðskiptastjóri EJS Akureyri, Gunnar Frímannsson, verkefnisstjóri hjá Akureyrarbæ, og Jón Bragi Gunnarsson, hagsýslustjóri Akureyrarbæjar.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/haskolar-landsins-kynna-namsframbod-sitt-i-vma-a-morgun
Háskólar landsins kynna námsframboð sitt í VMA á morgun Háskóladagurinn á Akureyri verður haldinn á morgun, miðvikudaginn 27. febrúar, en þá kynna háskólar landsins námsframboð sitt fyrir næsta skólaár. Kynningin fer fram í VMA og stendur frá kl. 11-15. Á staðnum verða Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands. Þarna býðst áhugasömum gott tækifæri til að skoða yfir 500 mismunandi námsleiðir sem háskólarnir bjóða upp á og eru allir velkomnir.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/forsetahjonin-i-heimsokn-i-hrafnagilsskola
Forsetahjónin í heimsókn í Hrafnagilsskóla Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, og Dorrit Moussaieff forsetafrú heimsækja Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit á morgun, miðvikudaginn 27. febrúar. Hrafnagilsskóli hlaut Íslensku menntaverðlaunin árið 2007 í flokki skóla sem sinnt hafa vel nýsköpun og farsælu samhengi í fræðslustarfi. Fulltrúar nemenda, skólastjóri og kennarar Hrafnagilsskóla taka á móti forsetahjónunum kl. 9:00 í fyrramálið og kynna skólastarfið. Í kjölfarið heimsækja forsetahjón kennslustofur, kynna sér kennsluhætti sem og aðbúnað og viðhorf nemenda. Kl. 11:00 verður sérstök samverustund á sal skólans þar sem forseti mun ávarpa nemendur og svara spurningum þeirra. Nemendur munu flytja tónlist og önnur atriði. Áætlað er að heimsókninni ljúki kl. 12:00. Í umsögn dómnefndar Íslensku menntaverðlaunanna um Hrafnagilsskóla sagði m.a.: „Hrafnagilsskóli í Eyjafjarðarsveit hefur um árabil vakið athygli fyrir framsækni og farsælt skólastarf. Sýn skólans er sú að allir hafi hið góða í sér og möguleikann til að verða betri manneskjur. Þessi einkunnarorð endurspeglast í væntingum starfsfólks til nemenda. Virðing þeirra fyrir nemendum kemur fram í því hvernig þeir ræða við þá og hlusta á sjónarmið þeirra. Skólaheit nemenda er: „Ég kem í skólann til að læra og nýta hæfileika mína til fulls." Í daglegu skólastarfi fer fram umfjöllun um dygðir þar sem ábyrgð, góðvild og virðing eru kjarninn. Samverustundir allra nemenda eru fastur liður í skólastarfinu. Þar er rætt um dygð mánaðarins og nemendur á öllum aldri koma fram og kynna viðfangsefni sín og ræða mál sem þeim liggja á hjarta. Hafa nemendur fengið viðurkenningu fyrir góða hegðun utan skólans, t.d. á íþróttamótum. Undir sterkri forystu stjórnenda hefur skólinn lagt áherslu á framsækni í kennsluháttum og námsmati. Nýjustu umbótaskref skólans felast í einstaklingsmiðuðum kennsluháttum, samkennslu, áformum nemenda um nám, námsmöppum, samvinnuprófum og sjálfsmati. Skólinn leggur metnað sinn í að taka vel á móti öllum nemendum og þykir taka einstaklega vel á móti nemendum sem hafa sértækar þarfir í námi. Hrafnagilsskóli starfar í nánum tengslum við samfélagið. Almenn ánægja er meðal foreldra með skólastarfið og gildir þá einu hversu ríkar þarfir börn þeirra kunna að hafa. Foreldrar telja sig hafa gott aðgengi að starfsmönnum skólans en skólinn býður foreldrum og nemendum að kennarar komi í heimsókn á heimili þeirra til að ræða um nám og kennslu og væntingar til skólastarfsins. Náin samvinna er við leikskólann og tónlistarskólann og mánaðarlegt fréttablað skólans berst inn á hvert heimili í sveitarfélaginu." Þetta kemur fram á vef forsetaembættisins.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/augljost-daemi-um-hvernig-hrepparigur-vinnur-gegn-hagsmunamalum
Augljóst dæmi um hvernig hrepparígur vinnur gegn hagsmunamálum Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og forseti bæjarstjórnar Akureyrar, er þrátt fyrir allt bjartsýnn á að björgunarþyrla verði staðsett á Akureyri á framtíðinni. Hann segir að ályktanir m.a. bæjarstjórna á Ísafirði og Fljótsdalshéraði, sem einnig vilji þyrlur á sína flugvelli, sé augljóst dæmi um hvernig hrepparígurinn vinnur gegn hagsmunamálum af þessu tagi. Kristján Þór sagði að ýmsar stofnanir og samtök hafi ályktað í þá veru að setja eigi niður björgunarþyrlu á Akureyri og reyndar hafi verið ágætis sátt um það víðast hvar í samfélaginu. "Þegar svo þingmenn kjördæmisins ná saman um þingsályktunartillögu þar sem skorað er á dómsmálaráðherra og ríkisstjórn að vinna að framgangi málsins, fara sveitarstjórnir vítt og breitt um landið að álykta. Þar má nefna bæjarstjórn Ísafjarðar og bæjarstjórn Fljótsdalshérað og allir vilja strax fá þyrlu á sinn flugvöll. Þetta er í mínum huga augljóst dæmi um hvernig hrepparígurinn vinnur gegn hagsmunamálum af þessu tagi. Ég hélt að sveitarstjórnarmenn í dag væru búnir að læra af reynslunni en það virðist ekki vera." Kristján Þór sagði að þessar áherslur gerðu ekkert annað en veikja málið. "Róðurinn í þessu máli er því miður ekkert að léttast og það er eðlilegt að dómsmálaráðherra taki ekki af skarið þegar skoðanir eru þetta skiptar. Ég er þrátt fyrir allt ennþá bjartsýnn á að málið nái fram að ganga. Menn verða þó að hafa í huga að áður en til þess getur komið þurfa áætlanir um endurnýjun þyrluflotans og uppbyggingu hans að hafa gengið eftir. Þeirri endurnýjun og viðbót lýkur ekki fyrr en á árinu 2011 eða 2012. Ég vona að hægt verði að vinna þannig að málinu að eftir þann tíma verði hægt að setja niður björgunarþyrlu á Akureyri."
https://www.vikubladid.is/is/frettir/lenging-akureyrarflugvallar-bodin-ut
Lenging Akureyrarflugvallar boðin út Framkvæmdir við lengingu Akureyrarflugvallar ættu að geta hafist í apríl nk. Ríkiskaup hafa, fyrir hönd Flugstoða, óskað eftir tilboðum í verkið og verða þau opnuð 8. apríl nk. Samkvæmt útboði skal verktaki m.a. jarðvegsskipta í suðurenda brautar á um 600 metra löngu svæði og á um 150 metra svæði í norðurenda brautarinnar. Flugbrautin verður lengd um 460 metra til suðurs en einnig verða öryggisvæði stækkuð í báða enda. Gert er ráð fyrir að í undirbyggingu og fyllingar fari um 180.000 rúmmetrar af efni. Sunnan Leiruvegar á að koma fyrir rofavarinni fyllingu og sökklum undir stefnuvita og aðkomuvegi þaðan að norðurhluta vinnusvæðis. Aðkomuvegur að suðurenda skal gerður rétt norðan aðkomu að Kjarnaskógi. Þá færir verktaki Brunná suður fyrir flugvöll og rofver nýjan farveg að hluta.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/grimseyjarferjan-saefari-sjosett-og-vidgerd-ad-ljuka
Grímseyjarferjan Sæfari sjósett og viðgerð að ljúka Viðgerð á nýrri Grímseyjarferju, Sæfara, sem staðið hefur yfir hjá Slippnum Akureyri undanfarið er að ljúka og var skipið sjósett á ný nú fyrir fáum mínútum. Eins og fram kom í samtali við Hjört Emilsson hjá Navis, sem er eftirlitsaðili með framkvæmdum við Grímseyjarferju, í Vikudegi í síðustu viku, komu ýmis aukaverkefni upp í þeirri vinnu sem fram fór hjá Slippnum. Því til viðbótar komu upp smábilanir, m.a. í siglingu til Akureyrar á dögunum. Hjörtur sagði að einnig hafi orðið dálitlar tafir á komu varahluta og búnaðar sem pantað var í skipið. Hann sagði skipið nú mjög gott, enda hafi verið gerðar á því róttækar og gagngerar endurbætur, „það er svo gott sem nýtt," sagði Hjörtur.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/grunur-um-akstur-undir-ahrifum-fikniefna-a-akureyri
Grunur um akstur undir áhrifum fíkniefna á Akureyri Tveir ökumenn voru stöðvaðir á Akureyri um helgina, annar á laugardag og hinn á sunnudag, grunaðir um að aka undir áhrifum fíkniefna. Í báðum tilfellunum var um sömu bifreiðina að ræða sem ökumennirnir óku. Á föstudagskvöld var einn maður handtekinn með nokkur grömm af kannabisefnum í fórum sínum. Hann var látinn laus að yfirheyrslu lokinni og telst málið upplýst.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/tolf-saekja-um-stodu-leikhusstjora-la
Tólf sækja um stöðu leikhússtjóra LA Alls sóttu 12 manns um stöðu leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar, sem auglýst var til umsóknar 3. febrúar sl. og óskuðu tveir þeirra nafnleyndar. Aðrir umsækjendur eru: Gísli Þór Gunnarsson, Graeme Maley, Guðmundur Brynjólfsson, Gunnar I. Gunnsteinsson, Hjálmar Hjálmarsson, Kristín Elfa Gunnarsdóttir, María Sigurðardóttir, Sigurður Kaiser, Stefán Sturla Sigurjónsson og Valdimar Örn Flygenring. Það er stjórn LA sem ræður í stöðuna 1. mars nk., til þriggja ára. Nýr leikhússtjóri mun hefja störf fljótlega við undirbúning næsta leikárs og starfar því á vordögum við hlið fráfarandi leikhússtjóra, Magnúsar Geirs Þórðarsonar sem lætur brátt af störfum hjá LA enda hann hefur verið ráðinn leikhússtjóri Borgarleikhússins.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/naegt-frambod-loda-i-eyjafjardarsveit
Nægt framboð lóða í Eyjafjarðarsveit Íbúar í Eyjafjarðarsveit hafa náð því marki að verða fleiri en eitt þúsund, í fyrsta sinn við formlega mannfjöldaskráningu sem miðar við 1. desember ár hvert. Bjarni Kristjánsson sveitarstjóri segir að þetta sé í fyrsta sinn sem íbúafjöldinn fari yfir eitt þúsund við formlega skráningu, en vissulega hafi þeir af og til náð þeirri tölu áður. „Það er stígandi í þessu," segir hann. Hann væntir þess að íbúatalan haldi áfram að hækka og nefnir að nægt framboð sé á lóðum um þessar mundir í sveitarfélaginu. Þannig eru lausar 15 lóðir á nýjum skipulagsreit í Reykárhverfi, þegar hafa borist 9 umsóknir um lóðirnar, en umsóknarfestur rann út í vikunni. „Það var lítið byggt í sveitarfélaginu í fyrra, sem hélst í hendur við lítið framboð lóða. Nú eru nógar lóðir tilbúnar, en vissulega gæti ástand efnahagsmála sett strik í reikninginn, það er ómögulegt að segja hver þróunin verður," segir Bjarni.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/mikil-onaegja-hja-nokkva-med-frestun-framkvaemda
Mikil ónægja hjá Nökkva með frestun framkvæmda Mikil óánægja er innan Siglingaklúbbsins Nökkva með þær fyrirætlanir bæjaryfirvalda á Akureyri að fresta framkvæmdum við uppbyggingu fyrir siglingamenn. Rúnar Þór Björnsson formaður Nökkva og félagar hans hafa eytt mörgum árum í undirbúning þessa verkefnis og hann er allt annað en ánægður með stöðuna. Hann sagði að ekki yrði hlaupið að því að fá fólk til starfa fyrir klúbbinn í framhaldinu og að mönnum væri skapi næst að skila inn lyklunum að starfseminni og eftirláta bænum reksturinn. Bæjaryfirvöld höfðu ákveðið að leggja fram 10 milljónir króna í ár til framkvæmda og sömu upphæð á næsta ári en nú hefur verið hætt við það. Þau benda á að framkvæmdin kalli á breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi svæðisins og jafnvel að landfylling þar þurfi í umhverfismat.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/stefnt-ad-um-50-nyjum-plassum-fyrir-smabata-i-sandgerdisbot
Stefnt að um 50 nýjum plássum fyrir smábáta í Sandgerðisbót Til stendur að setja upp nýja flotbryggju í Sandgerðisbót í vor og á stefnuskrá Hafnasamlags Norðurlands er að innan tveggja ára verði búið að skapa aðstöðu fyrir um það bil 50 nýja smábáta til viðbótar þeim sem fyrir eru. Hörður Blöndal hafnarstjóri segir að eftirspurn eftir plássum í smábátahöfninni í Sandgerðisbót sé þó nokkur. Nú eru á annað hundrað manns með aðstöðu þar fyrir báta sína. Ný flotbryggja bætist svo við í apríl nk. og við hana verður pláss fyrir um 30 báta, „svo er það stefna að bæta aðstöðuna og fjölga plássum, við vonum að innan tveggja ára verði komin um 50 ný pláss í Bótinni," segir Hörður. Hann bætir við að smábátasjómönnum í bænum sé greinilega að fjölga. Þá væntir Hörður þess að Akureyrarbær sjái til þess að framkvæmdum sem eru á hans könnu og snúa að m.a. að gerð hreinsistöðvar á svæðinu verði lokið sem fyrst og að þeir sem þarna reki fyrirtæki og útgerð hafi metnað til að fegra umhverfið sem kostur er, „svo að þetta svæði verði okkur til sóma," segir Hörður.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/god-adsokn-a-ljosmyndasyningu-minjasafnsins
Góð aðsókn á ljósmyndasýningu Minjasafnsins Aðsókn að ljósmyndasýningunni; Þekkir þú...fjölbreytileika mannlífsins? á Minjasafninu á Akureyri hefur farið fram úr björtustu vonum starfsfólks Minjasafnsins. Svörun almennings hefur verið einstök þar sem bæjarbúar og aðrir áhugasamir gestir safnins hafa greint um 75% myndanna. En betur má ef duga skal, segir í tilkynningu frá safninu er og fólk því hvatt til þess að koma og vita hvort það getur komið með nýjar upplýsingar um myndirnar eða komið með heiti á fólk, mannvirki og/eða sagt til um tilefni myndarinnar. Þekkir þú...fjölbreytileika mannlífsins? samanstendur af 70 óþekktum myndum Minjasafnsins á Akureyri. Þær eru teknar víða um landið á árunum 1920-1960 og eru flestar úr safni ljósmyndastofu Jóns og Vigfúsar á Akureyri. Starfsfólk Minjasafnsins skorar fólk að láta þessa áhugaverðu sýningu ekki fram hjá sér fara fremur en sýningarnar Akureyri bærinn við Pollinn eða Eyjafjörður frá öndverðu. Ljósmyndasýningin stendur til 26. apríl alla laugardaga frá 14-16 og aðgangur að safninu er ókeypis á meðan á henni stendur.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/thrjar-milljonir-til-endurbyggingar-gomlu-bryggjunnar-a-hjalteyri
Þrjár milljónir til endurbyggingar gömlu bryggjunnar á Hjalteyri Á fundi hreppsnefndar Arnarneshrepps í vikunni var kynnt erindi þess efnis frá Alþingi að hreppurinn hefði fengið úthlutað þremur milljónum króna til til endurbyggingar á gömlu bryggjunni á Hjalteyri. Í bókun hreppsnefndar kemur fram að hún fagni innilega framlagi fjárlaganefndar til þessarar endurbyggingar og var oddvita ásamt varaoddvita falið að koma framkvæmdinni af stað. Stefnt er að því að vígja bryggjuna á sæludeginum í sveitinni 2. ágúst í sumar. Ekki hefur verið almennileg tenging á milli lands og gömlu bryggjunnar á Hjalteyri en til stendur að byggja brú þar á milli í sumar, þannig gestir og gangandi geti farið þangað út, m.a. til að dorga. Eins og fram hefur komið gerði aftaka veður á Hjalteyri fyrr í mánuðinum og fauk þá mestallt dekk gömlu bryggjunnar upp á land. Einnig urðu miklar skemmdir á sjóvarnargörðum á Hjalteyri. Sjór flæddi á land og náði langt upp á húsveggi, m.a. þar sem Fiskeldi Eyjafjarðar er til húsa, en ekki varð tjón þar eða á öðru húsnæði vegna þessa. Gríðarlegu magni af spýtnabraki skolaði einnig á land, sem heimamenn hafa unnið að því að hreinsa. Axel Grettisson oddviti Arnarneshrepps sagði að til stæði að nota um fjórðung af dekki gömlu bryggjunnar í þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er og hefði sá hluti sloppið hvað best í óveðrinu á dögunum.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/eigandi-axels-osattur-vid-ummaeli-starfsmanns-landhelgisgaeslunnar
Eigandi Axels ósáttur við ummæli starfsmanns Landhelgisgæslunnar Flutningaskipið Axel, sem er í eigu Dregg Shipping á Akureyri, kom til heimahafnar sl. nótt. Skipið kom frá Kleipeda í Litháen þar sem fram fór endanleg viðgerð á því eftir strandið í innsiglingunni við Hornafjörð undir lok síðasta árs. Axel hafði hafði viðkomu á Vopnafirði á leið sinni til Akureyrar og tók þar farm, sem siglt verður með áfram til Ísafjarðar í kvöld. Frá Ísafirði verður siglt til Tálknafjarðar, Sandgerðis og svo áfram með fullfermi til Danmerkur og í Eystrasaltið, að sögn Ara Axels Jónssonar hjá Dregg. Ari er mjög ósáttur við ummæli sem Halldór Nellett hjá Landhelgisgæslunni viðhafði í viðtölum í fjölmiðlum á meðan skipið var á leið til Akureyrar eftir strandið. "Það var ausið yfir okkur svívirðingum í fjölmiðlum allan þann tíma sem við vorum að koma skipinu til hafnar, þar sem hvorki áhöfnin eða við höfðum tækifæri til að verja okkur. Sumir þurfa að svara fyrir það, aðrir ekki. Mennirnir áttu engan annan kost en að koma skipinu til hafnar og stóðu sig virkilega vel. Lögreglurannsóknin leystist upp í skítalykt og annað þar fram eftir götunum. Þetta er alveg fáheyrt og ég man ekki eftir að embættismaður hafi hagað sér svona þegar einhver á í erfiðleikum. Á þessum sama tíma varð stórbruni á Árskógsströnd þar sem tjón varð álíka mikið og aðgerðir tóku álíka langan tíma. Ég sá ekki slökkviliðsstjórann eða lögregluvarðstjórann ausa svívirðingum yfir fólkið á meðan það brann ofan af því. Það hagar enginn embættismaður sér svona. Halldór mætir í fjögur sjónvarpsviðtöl á þessum tíma áður en skipið nær í höfn og talar niðrandi um okkur í öll skiptin. Þetta er háalvarlegt mál, síðan eru spurningar og annað í sjóprófunum byggðar á þessu. Svona umræða á að fara fram í sjóprófum en ekki í beinni útsendingu frá manni sem virðist ekki valda starfi sínu og gæta lágmarks þagmælsku. Þegar svo í sjóprófunum var farið að rekja þetta, féll þetta allt um sjálft sig og þar er allt til á upptökum," sagði Ari. Hann sagði að það hefðu verið erfiðleikar við að koma vélinni í gang eftir strandið, þar sem öllu skipinu sló út en vélstjóranum hafi tekist að koma henni í gang. "Þá er ekkert sjálfgefið að lensa upp úr frystiskipi sem er keyrt á fullu frosti. Þegar skipið fór að leka meira fór að þiðna og þá var hægt að nota dælukerfi skipsins sem var alveg óvirkt til að byrja með." Ari segir að þrátt fyrir allt hafi hlutirnir gengið vel og því hafi verið algjörlega ástæðulaust fyrir starfsmann Landhelgisgæslunnar að haga sér með þessum hætti. "Ég ætla ekki að sitja undir því að hlusta á rangfærslur um málið til æviloka. Landhelgisgæslan er virt stofnun, það voru baráttumenn sem unnu henni þann sess og ég vill ekki sjá það tætt niður með þessum hætti," sagði Ari, sem er hvergi banginn, enda næg verkefni framundan. "Við höfum fyrir margt að þakka, það var langt frá því að vera sjálfgefið að allir slyppu heilir frá strandinu og að skipið héngi uppi í kjölfarið," sagði Ari. Aðeins 11 Rússar voru í áhöfn skipsins sem kom frá Litháen í nótt en til stendur að Íslendingar verði einnig í áhöfn.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/freyvangsleikhusid-synir-gamanleikinn-thid-munid-hann-jorund
Freyvangsleikhúsið sýnir gamanleikinn “Þið munið hann Jörund” Freyvangsleikhúsið frumsýnir hinn sívinsæla gamanleik "Þið munið hann Jörund" eftir Jónas Árnason í Freyvangsleikhúsinu í Eyjafjarðarsveit á morgun, föstudag. Það er Saga Jónsdóttir sem leikstýrir verkinu. Um viðamikið verkefni er að ræða hjá Freyvangsleikhúsinu en alls koma um 40 manns að uppsetningunni og þar af tæplega 20 leikarar. Allir þekkja ævintýrið um Jörund sem kom til Íslands og gerðist yfirvald nánast upp á sitt einsdæmi og þá hefur tónlist verksins verið gerð ódauðleg í gegnum tíðina. Nánar er fjallað um uppsetningu Freyvangsleikhússins í Vikudegi í dag.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/husasmidjan-faerir-vma-fullkominn-haedarmaeli-ad-gjof
Húsasmiðjan færir VMA fullkominn hæðarmæli að gjöf Starfsmenn Húsasmiðjunnar komu færandi hendi í Verkmenntaskólann á Akureyri fyrr í dag og færðu skólanum að gjöf laser hæðarmæli af fullkomnustu gerð, fyrir hönd fyrirtækisins. Afhendingin fór að sjálfsögðu fram í byggingadeild skólans að viðstöddu fjölmenni, nemendum, kennurum og fleirum. Fyrir átti deildin rúmlega 30 ára gamlan hæðarmæli, sem einnig var af fullkomnustu gerð á sínum tíma. Húsasmiðjan og VMA hafa í mörg ár átt gott og farsælt samstarf. Nemendur skólans hafa komið reglulega í heimsóknir til Húsasmiðjunnar og fengið tilsögn og upplýsingar um það sem Húsasmiðjan hefur upp á að bjóða. Þá hefur Húsasmiðjan áður fært Verkmenntaskólanum gjafir sem aðallega hafa verið verkfæri sem nemendur nota við sitt iðnnám. Einnig kom fram við afhendinguna að VMA verslar töluvert hjá Húsasmiðjunni.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/radist-verdur-i-endurbaetur-a-sundlauginni-a-thelamork
Ráðist verður í endurbætur á sundlauginni á Þelamörk Á sameiginlegum fundi sveitarstjórna Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar á dögunum kom fram að sveitarfélögin hafi samþykkt að ráðast í gagngerar endurbætur á sundlaugarmannvirkjum Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk á þessu ári. Samþykkt var að Íþróttamiðstöðin sæki um lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga, með ábyrgð sveitarfélaganna, vegna fyrirhugaðra framkvæmda, til að fjármagna það sem er umfram fjárhagsáætlun ársins. Einnig fór fram á fundinum kynning á háhraðaneti í dreifbýli, drögum að samstarfssamningum um leikskólann á Álfasteini og Þelamerkurskóla og uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/fjolbreytt-og-vidamikid-starf-hja-sjukraflutningaskolanum
Fjölbreytt og viðamikið starf hjá Sjúkraflutningaskólanum Skólastarfið hjá Sjúkraflutningaskólanum á Akureyri var viðamikið og fjölbreytt á síðasta ári en starfsemi skólans hefur aldrei verið meiri frá því að skólinn tók til starfa fyrir fimm árum. Námskeiðin fóru fram á öllu landinu, ýmist í heimabyggð sjúkraflutningamanna eða með notkun myndfundabúnaðar. Á árinu 2007 voru haldin 47 námskeið og er það 34% aukning frá árinu áður. Þátttakendur voru samtals 677 sem er 40% aukning frá árinu 2006. Flestir þátttakenda á námskeiðum voru sjúkraflutningamenn eða 72% en einnig tóku þátt hjúkrunarfræðingar (17%), læknar (7%) og aðrir (5%). NPP verkefnið, um sjúkraflutninga og þjónustu í dreifbýli, sem Sjúkraflutningaskólinn og FSA hafa stjórnað undanfarin þrjú ár, lauk 30. nóvember 2007. Sameiginlegir verkefnafundir fóru fram í Skotlandi í maí og á Íslandi í lok október í fyrra. Lokafundur tengdur verkefninu var haldinn í Bláa lóninu 31. október 2007 og var hann vel sóttur af hópi fólks sem tengist sjúkraflutningum á einn eða annan hátt. Önnur verkefni sem Sjúkraflutningaskólinn hefur tengst er m.a. aðild að endurlífgunarráði landlæknis en þar hefur ötullega verið unnið að inngöngu Endurlífgunarráðs landlæknis í evrópska endurlífgunarráðið (ERC) og þjálfun leiðbeinenda svo þeir öðlist ERC kennararéttindi. Skólastjóri var jafnfram fulltrúi FSA í nefnd sem heilbrigðisráðherra skipaði í september 2007 en tilgangur nefndarinnar var að fjalla um skipulag sjúkraflutninga, menntunarmál og mönnun í sjúkraflutningum á landsbyggðinni. Þetta kemur fram á vef FSA.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/vilji-til-samstarfs-um-adgerdir-gegn-kynbundnu-ofbeldi
Vilji til samstarfs um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi Skólanefnd Akureyrar hefur tekið jákvætt í erindi frá Þorbjörgu Ásgeirsdóttur og Valgerði H. Bjarnadóttur f.h. samstarfshóps um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi, þar sem óskað er eftir að Akureyrarbær styðji við samstarf þessara aðila, annars vegar til varnar kynbundnu ofbeldi og hins vegar til að veita bestu mögulegu meðferð og stuðning til þeirra sem hafa mátt þola slíkt ofbeldi. Einnig er óskað eftir fjárveitingu að upphæð kr. 750.000 til að standa fyrir átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Skólanefnd hefur falið fræðslustjóra að vinna áfram að málinu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/eldur-i-krossanesi
Eldur í Krossanesi Eldur kom upp í gömlu Krossanesverksmiðjunni á tíunda tímanum í morgun. Allt tilltækt lið Slökkviliðs Akureyrar var sent á staðinn á tveimur slökkvibílum og körfubíl en eldur logaði í efni á gólfinu í turni verksmiðjunnar og myndaðist töluverður reykur frá honum. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og er tjón óverulegt, enda verið að rífa verksmiðjuna. Við það verk eru m.a. notuð logskurðartæki og er þetta í annað sinn á fáum dögum sem eldur kemur upp í verksmiðjunni í tengslum við niðurrif hennar. Á dögunum logaði eldur í klæðningu í 15-20 metra hæð í turninum.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/starfsleyfi-brotajarnsfyrirtaekisins-i-krossanesi-rennur-ut-i-vor
Starfsleyfi brotajárnsfyrirtækisins í Krossanesi rennur út í vor Jón Pétur Pétursson hjá JPP ehf. sem fer fyrir brotajárnsstarfsemi í Krossanesi segir að fyrirtækinu hafi verið afar vel tekið á Akureyri. Hann sagði að fyrirtækið hefði fullan hug á því að halda áfram starfsemi á Akureyri sé það mögulegt en frá Krossanesi verði það að fara 1. maí nk. þegar starfsleyfið þar rennur út. Fyrirtækið vinnur nú að því að rífa gömlu Krossanesverksmiðjuna ásamt því að nokkur skip hafa verið rifin niður. Jón Pétur segir starfsemina ganga nokkuð vel og niðurrif verksmiðjunnar sé nokkurn veginn á áætlun. Við sjálft niðurrifið vinna eingöngu erlendir starfsmenn, flestir frá Litháen, en Íslendingar koma að ýmsum hjáverkefnum í tengslum við vinnslu og flutning hráefnisins. Erlendu starfsmennirnir búa um borð í Margréti EA og sagði Jón Pétur þá una hag sínum vel enda er þar allt til alls. Hann kvaðst mjög ánægður með það starf sem þeir inna af hendi, þarna fari afar duglegt og gott fólk sem hafi skilað miklu fyrir fyritækið. Útflutningur á fullunnu efni frá Akureyri gengur ágætlega að sögn Jóns Péturs þótt snurða hafi hlaupið á þráðinn hjá einum kaupendanna og þeir hafi orðið frá að hverfa vegna of flókinnar pappírsvinnu. Hann sagði að til þess að starfsemi sem þessi geti gengið upp þurfi um helmingur brotajárns að koma úr landi og annar helmingur úr skipum, vildi hann gjarnan koma því á framfæri til fólks að hráefni sé vel þegið. JPP ehf. færir á næstunni út kvíarnar til Siglufjarðar og mun vinna þar hráefni sem hefur fallið til á staðnum. Jón Pétur sagði að langbest sé fyrir fyrirtækið að vera á þeim stað sem hráefnið sé hverju sinni, hráefnið verði ekki flutt langar leiðir til vinnslu. Ætlunin sé í framtíðinni að færa enn frekar út kvíarnar og vera með starfsemi eftir því sem þarf á nokkrum stöðum á landinu. Efnið verði þá fullunnið á staðnum og mannafli verði á hverjum stað eftir þörfum.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/kea-og-sparisjodir-a-svaedinu-gera-samning-um-utgafu-kea-greidslukorts
KEA og Sparisjóðir á svæðinu gera samning um útgáfu KEA greiðslukorts KEA og allir Sparisjóðirnir sjö sem starfa á félagssvæði KEA undirrituðu nú í hádeginu samning um útgáfu KEA greiðslukorts, debetkorts og kreditkorts. Kortin hafa útlit KEA kortsins en eru um leið greiðslumiðill. Auk þess sem þetta hefur í för með sér mikil þægindi fyrir félagsmenn veita Sparisjóðirnir sérstök kjör til þeirra sem nýta sér kortaútgáfuna. KEA-kortið, sem er afsláttar- og fríðindakort, verður áfram í fullu gildi. Um þessar mundir eru tvö ár frá útgáfu kortsins og á þeim tíma hefur félagsmönnum KEA fjölgað um sjö þúsund, eru nú um 14.500 og hefur notkun kortsins farið fram úr björtustu vonum. Markmiðið með útgáfu KEA greiðslukortsins er að auka ávinning félagsmanna KEA og viðskiptavina Sparisjóðanna og ýta undir verslun í heimabyggð. Ef félagsmaður KEA tekur bæði KEA debet- og kreditkort fær hann aukaávinning. Ef félagsmaður KEA tekur bæði depet- og kreditkort og gengur í Vildarþjónustu Sparisjóðanna, fær hann enn meiri ávinning. Þetta eru einu debet- og kreditkortin á markaðnum sem veita afslátt við kaup á vöru eða þjónustu, með tilliti til fjölda samstarfsaðila og að kortið er í boði fyrir alla félagsmenn KEA. Sparisjóðirnir sjö sem koma að nýja KEA greiðslukortinu eru: Sparisjóður Norðlendinga, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Ólafsfjarðar, Sparisjóður Siglufjarðar, Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Suður-Þingeyinga og Sparisjóður Þórshafnar og Langaness.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/hagnadur-kea-rumar-900-milljonir-krona-i-fyrra
Hagnaður KEA rúmar 900 milljónir króna í fyrra Samkvæmt ársreikningi KEA fyrir árið 2007 nam hagnaður félagsins rúmum 913 milljónum króna eftir skatta samanborið við 287 milljóna króna hagnað árið áður. Bókfært eigið fé félagsins um síðustu áramót nam rúmlega 5,4 milljörðum króna og heildareignir voru tæpir 5,8 milljarðar. Markaðsverðbréf námu tæpum 2,8 milljörðum og fjárfestingaverðbréf tæpum 2,2 milljörðum. Eiginfjárhlutfall félagsins var 94% um síðustu áramót. Hreinar rekstrartekjur ársins voru 781 milljón króna og rekstrargjöld 106 milljónir. Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA er ánægður með afkomu síðasta árs. „Afkoma félagsins er vissulega góð miðað við hvernig markaðir þróuðust á síðasta ári. Félagið jók vægi óskráðra hlutabréfa í eignasafni sínu á árinu. Staða í innlendum skráðum hlutabréfum var minnkuð verulega á haustmánuðum og félagið lenti ekki í þeim hremmingum sem margir aðrir fjárfestar hafa glímt við undanfarna mánuði. Félagið hefur beitt varfærnislegum reikningsskilareglum við mat óskráðra eigna og ætla má að þar sé talsverður óinnleystur hagnaður. Efnahagur KEA er sterkur og þarf að vera það áfram, ekki síst í ljósi núverandi ástands á fjármálamörkuðum. Félagið er vel sett til að nýta sér þau tækifæri sem upp kunna að koma í bráð og lengd og ég er nokkuð bjartsýnn á framhaldið þó umgjörð fjármálakerfisins sé mikilli óvissu háð um þessar mundir," segir Halldór.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/radgert-ad-boginn-hitni-i-vor
Ráðgert að Boginn hitni í vor Loftræsisamstæðurnar tvær sem ætlaðar eru til að hita upp fjölnota íþróttahúsið Bogann koma til landsins 26. febrúar nk. og þá verður strax hafist handa við að setja þær upp í húsinu, að sögn Guðríðar Friðriksdóttur, framkvæmdastjóra Fasteigna Akureyrarbæjar. Samkvæmt mjög einfaldaðari lýsingu á loftræsikerfinu mun önnur samstæðan ná í loft utandyra, hita það og blása því inn í húsið. Þá tekur hin samstæðan við að dreifa úr loftinu inni í húsinu. Ætlunin er að með þessu verði hitinn í Boganum um 8-10 gráður en meginmunurinn verður sá að loftið verður ekki jafn rakt og það er nú í húsinu. Hinn mikli raki í loftinu í Boganum er aðal orsakavaldur þess að fólki finnst mjög kalt þar. Guðríður sagðist ekki eiga von á að loka þurfi húsinu á meðan framkvæmdir standa yfir en þeim ætti að vera lokið í vor. Vikudagur sagði frá því í haust að loftræsisamstæðurnar ættu að vera komnar í gagnið um síðustu áramót. Guðríður sagði að verkið hafi tafist af óviðráðanlegum orsökum en nú sjái fyrir endann á því.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/brimnes-re-med-fullfermi-ur-barentshafinu-til-akureyrar
Brimnes RE með fullfermi úr Barentshafinu til Akureyrar Frystitogarinn Brimnes RE kom til hafnar á Akureyri í síðustu viku með fullfermi úr Barentshafi, rúmlega 600 tonn og var aflinn að langmestu leyti þorskur. Aflaverðmætið er rúmar 130 milljónir króna. Að sögn Ágústar Torfa Haukssonar, framkvæmdastjóra Brims Akureyri, er aflinn heilfrystur með haus um borð í Brimnesinu og svo þíddur upp til vinnslu hjá fyrirtækinu á Akureyri. Þetta er þriðja veiðiferð togarans í Barentshafið frá því hann kom til landsins á síðasta ári. "Það hefur gengið mjög vel hjá okkur að þíða upp aflann til vinnslu og það er í raun alveg stórkostlegt fyrir okkur að fá þessa viðbót til vinnslu utan lögsögunnar á tímum aflasamdráttar," sagði Ágúst Torfi.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/ba-vill-hefja-framkvaemdir-vid-okugerdi-og-akstursithrottasvaedi
BA vill hefja framkvæmdir við ökugerði og akstursíþróttasvæði Bílaklúbbur Akureyrar hefur sent framkvæmdaráði erindi, þar sem sem óskað er eftir að ráðið skoði aðkomu sína að uppbyggingu og undirbúningi að fyrirhuguðu ökugerði og akstursíþróttasvæði félagsins. Einnig er óskað eftir því að settur verði á fót vinnuhópur á vegum bæjarins og Bílaklúbbsins svo hægt sé að fara yfir næstu skref varðandi þá vinnu sem framkvæma þarf á staðnum eins fljótt og mögulegt er. Framkvæmdaráð hefur falið deildarstjóra framkvæmdadeildar að meta þær landmótunarframkvæmdir sem nauðsynlegar eru á svæðinu og ræða við leigutaka námuréttinda um þátttöku hans í því verkefni.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/fikniefnamisferli-kom-upp-a-akureyri
Fíkniefnamisferli kom upp á Akureyri Lögreglumenn á Akureyri höfðu afskipti af ökumanni á bifreið í bænum seinni partinn í gær vegna umferðarlagabrots. Við afskiptin vaknaði einnig grunur um að ökumaðurinn hefði verið að aka undir áhrifum fíkniefna og var hann handtekinn í kjölfarið. Við nánari athugun kom í ljós að hann var með nokkuð af fíkniefnum meðferðis. Ökumaðurinn var færður á lögreglustöðina á Akureyri en þar fannst meira af fíkniefnum. Málið var unnið í samstarfi við lögreglumenn úr sérsveit Ríkislögreglustjóra. Ökumaðurinn var yfirheyrður vegna málsins og var honum sleppt að því loknu, segir á vef lögreglunnar.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/taprekstri-fyrri-ara-snuid-i-hagnad-hja-haskolanum-a-akureyri
Taprekstri fyrri ára snúið í hagnað hjá Háskólanum á Akureyri Viðsnúningur hefur orðið í rekstri Háskólans á Akureyri, en á liðnu ári var skólinn rekinn með hagnaði í fyrsta sinn frá árinu 2000. Ólafur Halldórsson framkvæmdastjóri Háskólans á Akureyri segir þetta vissulega ánægjulegt. Háskólinn var rekinn með tapi árin 2001 til 2006, umtalsvert miklu eða um 100 milljónum á ári á tímabilinu frá 2003 til 2005 en tapið nam um 15 milljónum króna á árinu 2006. „Við náðum svo að vera réttu megin við núllið í fyrra," segir Ólafur. Megin skýringin á betri afkomu nú segir hann aðhald í rekstri, dregið hafi verið úr rekstri og kostnaði sem framast er unnt. Þá koma til auknir fjármunir á fjárlögum sem og hafa aðrar tekjur háskólans aukist. Samningur við menntamálaráðuneytið, sem var undirritaður í desember í fyrra um rannsóknir og kennslu, eykur mönnum einnig bjartsýni en með tilkomu hans telur framkvæmdastjórinn að rekstrarútlitið sé gott á næstu árum. „Það er bjartara yfir en á undangengnum árum, háskólanum hefur verið búið betra rekstrarumhverfi nú en áður," segir Ólafur.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/yfir-thusund-manns-a-skidum-i-hlidarfjalli
Yfir þúsund manns á skíðum í Hlíðarfjalli Ríflega þúsund manns voru á skíðum og brettum í Hlíðarfjalli í dag við nokkuð misjafnar aðstæður. Veður og færi var með allra besta móti í morgun en þá snjóaði í logni en upp úr hádegi fór að rigna og hvessa og um leið þyngdist skíðafærið. Gestir létu það ekkert á sig fá og skemmtu sér hið besta enda nægur snjór í fjallinu. Þá fór fram Akureyrarmót á svigi, þar sem yngsta skíðafólkið reyndi með sér. Um 90% gesta eru aðkomufólk, sem helgast m.a. af því að víða eru vetrarfrí í skólum á höfuðborgarsvæðinu og einnig eru í heimsókn á Akureyri yfir 200 ungmenni úr félagsmiðstöðvum að sunnan. Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður Skíðastaða í Hlíðarfjalli, sagði að það hefði færst í vöxt á undanförnum þremur til fjórum árum að börn og foreldrar af höfuðborgarsvæðinu kæmu norður á skíði þegar vetrarfrí væru þar í skólum. Um 200-300 slíkir gestir hefðu til að mynda verið á skíðum í Hlíðarfjalli alla vikuna. Margir gestanna eru óvanir á brettum og skíðum og nokkrir þurftu að leita sér aðhlynningar á slysadeild FSA eftir byltur í fjallinu í dag og einn gestur var fluttur þangað með sjúkrabifreið. Guðmundur Karl sagði að hlýindi væru í kortunum næstu daga en að svo væri gert ráð fyrir norðanátt á ný og snjókomu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/notkun-salts-til-halkuvarna-a-gotur-akureyrar-motmaelt
Notkun salts til hálkuvarna á götur Akureyrar mótmælt Á fundi framkvæmdaráðs Akureyrar í gær var kynntur undirskriftarlisti 559 ökumanna sem skrifuðu undir mótmæli gegn notkun salts til hálkuvarna á götur Akureyrar. Í bókun ráðsins kemur fram að Framkvæmdamiðstöð Akureyrarbæjar hafi frá því í nóvember 2007 gert tilraunir með notkun á sandi (97%) og salti (3%) til hálkuvarna á völdum stöðum í bænum. Reynslan af þessum tilraunum verður metin í lok vetrar og þá tekin ákvörðun um það hvort þessi blanda hentar til hálkuvarna á Akureyri.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/siglingamenn-vilja-byggja-upp-vid-pollinn
Siglingamenn vilja byggja upp við Pollinn Forsvarsmenn Siglingaklúbbsins Nökkva á Akureyri hafa uppi metnarfullar hugmyndir um uppbyggingu á starfssvæði klúbbsins við Pollinn. Rúnar Þór Björnsson, formaður Nökkva, mætti á fund Akureyrarstofu í vikunni og kynnti þau áform. Stjórn Akureyrarstofu lýsti yfir ánægju með þær áætlanir sem Rúnar Þór kynnti. Ljóst er að Pollurinn getur orðið útivistarsvæði sem hefur svipaða þýðingu fyrir Akureyri og nágrenni og Hlíðarfjall og golfvöllurinn. Það eru því miklir möguleikar tengdir uppbyggingunni bæði fyrir íþrótta- og ungmennastarf á Akureyri en ekki síður fyrir ferðaþjónustu á svæðinu, segir í bókun stjórnar Akureyrarstofu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/hagkaup-vill-byggja-a-lod-sjafnar-vid-austursidu
Hagkaup vill byggja á lóð Sjafnar við Austursíðu Skipulagsnefnd Akureyrar hefur borist fyrirspurn um hvort byggja megi Hagkaupsverslun á lóð Sjafnar við Austursíðu. Í bókun skipulagsnefndar er tekið undir áform fyrirtækisins um uppbyggingu matvöruverslunar á reitnum og hefur skipulagsstjóra verið falið að gera aðalskipulagsbreytingu í samræmi við tillöguna. Umsækjanda er heimilt í framhaldi af því að gera tillögu að deiliskipulagi reitsins. Eins og kunnugt er stóðu væntingar Hagkaupsmanna til þess að byggja verslunarhúsnæði á svæði við Akureyrarvöll.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/allt-ad-40-aukning-i-dagblodum-og-timaritum-til-endurvinnslu
Allt að 40% aukning í dagblöðum og tímaritum til endurvinnslu Mikil magnaukning var á síðasta ári á flokkuðu rusli sem fyrirtæki og einstaklingar skiluðu til Sagaplast - Endurvinnslunnar á Akureyri, að sögn Gunnars Garðarssonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Er þarna um að ræða sömu þróun og síðustu ár en mikil aukning er á ári hverju í sorpi sem skilað er til endurvinnslunar. Gunnar segir að dósir og plastflöskur séu aðeins lítill hluti þess sem berist fyrirtækinu til endurvinnslu. Þar sé tekið á móti öllum mögulegum hlutum, til dæmis fernum, dagblöðum og tímaritum, spilliefnum, dekkjum, gúmmíi og mörgu fleiru. „Í dósum og plastflöskum hefur aukningin verið um 3-5% árlega undanfarin ár en til samanburðar hefur aukningin í dagblöðum og tímaritum sem skilað er inn til endurvinnslu verið um 25-40% árlega sl. ár," sagði Gunnar. Þetta þakkar hann bættri umhverfisvitund bæjarbúa og bendir jafnframt á að mörg hundruð heimili séu nú þegar að borga 1000 kr. á mánuði fyrir að fá að flokka sorp í sérstakar endurvinnslutunnur. Gunnari finnst undarlegt að Akureyrarbær skuli ekki hygla því fólki á einhvern hátt sem sé duglegt við að flokka sorp sitt og skila því til endurvinnslu. Margar leiðir séu til þess en lítið sé að gert. „Mér finnst þetta skrýtið og maður spyr hvort þarna sé á ferðinni kjarkleysi hjá bæjaryfirvöldum að gera ekki eitthvað í málinu," sagði Gunnar.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/ka-hafdi-sigur-i-powerademotinu-i-knattspyrnu
KA hafði sigur í Powerademótinu í knattspyrnu KA bar sigur úr býtum í Powerdaemótinu í knattspyrnu sem lauk í Boganum í gær. Liðið lagði Þór að velli í síðasta leik mótsins, þar sem Þór dugði jafntefli til sigurs í mótinu. KA-menn voru ekki á þeim buxunum og unnu leikinn 2-0. Bæði mörkin komu í síðari hálfleik og skoraði Almarr Ormarrsson það fyrra en Steinn Gunnarsson það síðara undir lok leiksins. KA-menn voru vel að sigrinum komnir, þeir voru mun ákveðnari en Þórsarar í leiknum. Þórsarar léku einum færri síðustu mínúturnar, eftir að Kristján Sigurólason fékk seinna gula spjaldið sitt og rautt í kjölfarið en þá höfðu KA-menn reyndar skorað bæði sín mörk.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/beinbrot-tid-i-halkunni-a-akureyri
Beinbrot tíð í hálkunni á Akureyri Mjög mikið hefur verið um beinbrot nú í hálkutíð undanfarinna vikna og líður vart sá dagur að ekki komi tveir til þrír illa brotnir að leita sér aðstoðar á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Þorvaldur Ingvarsson framkvæmdastjóri lækninga segir að fara þurfi mörg ár aftur í tímann til að rifja upp svo slæman kafla og nú hefur gengið yfir bæjarbúa. Mjaðmagrindar-, úlnliðs- og ökklabrot eru umtalsvert fleiri það sem af er ári en vant er og má rekja þau fyrst og fremst til þess að fólk hefur hrasað á hálu svelli. „Þetta er mun verri staða en við höfum séð mörg undanfarin ár," segir Þorvaldur. Hann segir að auk þess sem fólk þurfi að hafa varann á í þessari tíð, þurfi að skoða hálkuvarnir bæjarins. „Það er augljóslega ekki verið að nota rétta efnið til hálkuvarna," segir hann, en það efni sem borið er á götur og gangstíga sé eins konar leir sem geri ekkert gagn. Jafnvel geri leirinn ísinn enn hálli, „það verður að nota grófa möl, annað dugar ekki," segir Þorvaldur, en kvaðst hafa heyrt að slík möl væri ekki til í landinu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/heilbrigdisradherra-ekki-myndad-ser-skodun-um-hvort-bjorgunarthyrla-skuli-stadsett-a-akureyri
Heilbrigðisráðherra ekki myndað sér skoðun um hvort björgunarþyrla skuli staðsett á Akureyri Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra er ekki tilbúinn að lýsa yfir stuðningi við það að björgunarþyrla verði staðsett á Akureyri. Hann sagði margt mæla með því en sagðist ekki hafa myndað sér skoðun á því máli. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Þorvaldar Ingvarssonar framkvæmdastjóra lækninga við Sjúkrahúsið á Akureyri á opnum fundi um heilbrigðismál á Hótel KEA fyrr í kvöld. Þorvaldur sagði að ekki yrði hægt að gæta öryggis á Norður- og Austurlandi nægjanlega vel nema þyrla yrði staðsett á Akureyri. Eins og fram hefur komið hafa níu af tíu þingmönnum í Norðausturkjördæmi og úr öllum flokkum lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um þyrlubjörgunarsveit á Akureyri. Bæjarráð Akureyrar samþykkti bókun á fundi sínum nýlega, þar sem tekið er heils hugar undir þingsályktunartillögu um staðsetningu björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri. Með staðsetningu þyrlu á Akureyri er öryggi sjófarenda á hafsvæðinu fyrir norðan og austan land aukið til muna. Auk þess gegna þyrlur Landhelgisgæslunnar nú mikilvægu hlutverki við björgun á landi og þar getur fjarlægð frá slysstað ráðið úrslitum um það hvernig til tekst. Á Akureyri er góð reynsla af sjúkraflutningum og FSA er varasjúkrahús landsins. Það er því ljóst að hér er gott bakland til að styðja við þessa starfsemi. Bæjarráð skorar því á alþingismenn að styðja þingsályktunartillöguna og ríkisstjórnina að koma henni til framkvæmda.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/sluppu-otrulega-vel-eftir-thrja-arekstra-a-holtavorduheidi
Sluppu ótrúlega vel eftir þrjá árekstra á Holtavörðuheiði Hurð skall nærri hælum í fjögurra bíla árekstri við Miklagil á norðanverðri Holtavörðuheiði um liðna helgi. Hjón frá Akureyri voru á suðurleið þegar óhappið varð, en blindbylur skall á og mikið kóf var á vettvangi. Upphafið má rekja til þess að bifreið var ekið utan í bíl hjónanna, jeppa af Hondugerð. Þau stöðvuðu úti í kanti og bjó ökumaður sig undir að fara út í kófið að kanna skemmdir. Vildi þá svo illa til að aðvífandi bifreið á norðurleið skall á bíl þeirra og varð af mikið högg, en líknarbelgir í bifreiðinni blésu upp og tóku það mesta af. Forðuðu hjónin sér út úr bifreið sinni, ræddu við ökumann bílsins og biðu átekta í hríðinni um stund, en konan ákvað svo að leita skjóls í illa förnum bílnum þar til mál skýrðust. Settist hún í aftursæti hans og hafði ekki dvalið þar lengi þegar þriðji bíllinn skall á jeppa akureysku hjónanna. Á örskammri stundu upplifði konan því þrjá árekstra í vonskuveðri á Holtavörðuheiði. Hún telur að mikið lán hafi verið yfir þeim hjónum og einstök mildi að ekki fór verr. Hjónin er lemstruð, blá og marin, að líkindum rifbeinsbrotin og með brákuð bringubein en ómeidd að öðru leyti. Bifreið þeirra er ónýt og ekki komust þau til útlanda svo sem áætlað var, en lagt var upp í förina til að komast suður til Keflavíkur og þaðan til Englands.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/mikid-tjon-a-umferdarljosum-og-ljosastaurum-a-akureyri
Mikið tjón á umferðarljósum og ljósastaurum á Akureyri Töluvert hefur verið um það í vetur að keyrt hafi verið á ljósastaura og umferðarljós og segir Gunnþór Hákonarson verkstjóri hjá framkvæmdadeild Akureyrarbæjar að mikið tjón hafi hlotist af. „Já það hefur verið óvenju mikið um að ekið hafið verið á þetta. Allt er þetta að vísu tryggt en engu að síður er þarna um að ræða mikið tjón," sagði Gunnþór. Alls hafa orðið tjón á átta umferðarmerkjum, fimm umferðarljósamöstrum eða gangbrautarljósum og fimm ljósastaurum. Nánar er fjallað um þetta mál í Vikudegi í dag.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/fundad-um-landsmal-baejarmal-og-heilbrigdismal
Fundað um landsmál, bæjarmál og heilbrigðismál Vinstrihreyfingin grænt framboð boðar til opins stjórnmálafundar á Bláu könnunni á Akureyri, í kvöld, fimmtudaginn 14. febrúar kl. 20:00. Á sama tíma stendur heilbrigðismálanefnd Sjálfstæðisflokksins fyrir opnum fundi um heilbrigðismál á Hótel KEA. Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra hefur framsögu og situr fyrir svörum. Gestir fundar VG verða þau Steingrímur J. Sigfússon formaður flokksins, Þuríður Backman þingmaður flokksins í NA-kjördæmi og bæjarfulltrúar VG Akureyri. Rætt verður m.a. um stöðuna í landsmálum auk ástandsins í höfuðborginni og stöðu bæjarmála á Akureyri. Allir eru að sjálfsögðu velkomnir á þessa fundi.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/ekki-til-akvaedi-fyrir-undirverktaka-sem-vinna-hja-akureyrarbae
Ekki til ákvæði fyrir undirverktaka sem vinna hjá Akureyrarbæ Í innkaupareglum Akureyrarbæjar eru m.a. ákvæði um að verktakar sem vinna hjá Akureyrarbæ skuli vera í skilum með launatengd gjöld og á grundvelli þessa ákvæðis hefur verið fylgst með þessu af hálfu bæjarins. Ekki eru í innkaupareglunum ákvæði af þessu tagi um undirverktaka og Akureyrarbær því ekki í stöðu til beinna afskipta af þeim. Innkaupareglunum er m.a. ætlað að stuðla að samkeppni á markaði varðandi sölu á vörum, verkum og þjónustu til Akureyrarbæjar. Bæjarráð hvetur þá verktaka sem vinna á vegum bæjarins til að sjá til þess að undirverktakar þeirra virði reglur vinnumarkaðarins og greiði tilskilin gjöld vegna starfsmanna sinna til viðkomandi stéttarfélags. Þessi bókun bæjarráðs Akureyrar frá því í morgun er til komin í kjölfar erindis frá Birni Snæbjörnssyni formanni Einingar-Iðju, varðandi fyrirspurn til ráðsins um úttekt á/eftirlit með undirverktökum sem vinna við opinberar framkvæmdir á vegum bæjarins. Bæjarráð fól bæjarlögmanni og hagsýslustjóra að hefja undirbúning að endurskoðun innkaupareglna Akureyrarbæjar. Baldvin H. Sigurðsson sat hjá við afgreiðslu en lagði fram bókun svohljóðandi: "Ég fer þess á leit við bæjarráð Akureyrar að ráðið krefjist þess af verktökum og undirverktökum á þeirra vegum sem starfa fyrir bæjarfélagið, að þeir hlíti reglum vinnumarkaðarins um lög og lágmarkskjör starfsmanna sem starfa við framkvæmdir sem unnar eru fyrir Akureyrarkaupstað."
https://www.vikubladid.is/is/frettir/lydraedisdagurinn-haldinn-a-akureyri-i-april
Lýðræðisdagurinn haldinn á Akureyri í apríl Lýðræðisdagurinn verður haldinn á Akureyri 12. apríl nk. með íbúaþingi, sem haldið verður í Brekkuskóla. Málið var til umræðu á fundi stjórnsýslunefndar Akureyrarbæjar í dag og þar gerði Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri grein fyrir undirbúningi fyrir lýðræðisdaginn. Hún fundar innan tíðar með formönnum hverfisnefnda um fyrirkomulag þingsins og umræðuefni. Einnig verður leitað samstarfs við Háskólann á Akureyri um framkvæmd íbúaþingsins.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/klaeminni-vefsidu-med-krakkamyndum-lokad
Klæminni vefsíðu með krakkamyndum lokað Vefsíðunni handahof.org, sem í DV hefur verið kölluð barnaklámssíða, var lokað að ósk lögreglu síðdegis í gær í kjölfar fréttaflutnings DV. Um var að ræða síðu þar sem hver sem er gat sett inn efni og myndir í skjóli nafnleyndar. Á síðunni hafði mátt sjá myndir af börnum og unglingsstúlkum í kynferðislegum stellingum og einnig höfðu birst þar heðfbundnar eða venjulegar myndir af fjölmörgum stúlkum, m.a. frá Akureyri, án þeirra samþykkis og við myndirnar skrifaður texti með kynferðislegum eða dónalegum undirtóni. Þegar Vikudagur ræddi við 15 ára stúlku í Brekkuskóla á Akureyri sem hafði séð myndir af tveimur bestu vinkonum sínum þarna inni á síðunni taldi hún líklegast að myndirnar hefðu verið teknar af heimasíðum eða MySpace síðum og einfaldlega settar þarna inn. Þetta hafi vissulega komið stúlkunum óþægilega á óvart ekki síst vegna þess að við myndina af þeim hafi verið ummæli eða myndatexti sem snerist um að það væri ugglaust gott a sofa hjá þeim þessum, nema hvað orðalagið var heldur klúrara. Stúlkurnar höfðu ekki hugmynd um að mynd væri af þeim inni á þessari síðu eða að síðan væri yfir höfuð til, fyrr en "einhverjir strákar úti í bæ" fóru að tala um það við þær. Sögðu þær slíkt afar óþægilegt og niðurlægjandi. Vitað er til að myndir af krökkum héðan að norðan hafa birst á síðunni áður en henni var lokað, m.a. af stúlkum úr Brekkuskóla og úr Hrafnagilsskóla. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu krafðist þess í gær af forsvarsmanni síðunnar að henni yrði lokað, en DV hefur fjallað mikið um málið og gerir það áfram í blaðinu í dag. Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir að ekki sé búið að ákveða framhald málsins. Forsvarsmaður síðunnar segir við DV að frelsið sem notendur síðunnar höfðu, hafa verið misnotað. Sé vefslóð síðunnar slegið upp nú koma einfaldlega eftirfarandi skilaboð: "Í ljósi fréttaumfjöllunar þar sem að nöfn síðunnar og aðila sem standa óbeint að henni eru svert á afar meiðandi hátt hefur sú ákvörðun verið tekin að hætta rekstri vefsíðunnar handahof.org. Undanfarið hafa birst tvær fréttagreinar þar sem þessu vefsvæði er lýst sem barnaklámsíðu. Það hefur aldrei verið inntak með rekstri síðunnar, einnig hafa birst athugasemdir á spjallþráðum þar sem komið hafa fram hótanir gagnvart einstaklingum. Slíkt er auðvitað ekki ásættanlegt. Slíku efni hefur verið eytt af vefnum jafnóðum og stjórnendur hafa orðið þess varir. Síða þessi var spjallborð þar sem að fólki var gert kleift að ræða um hvað sem er undir nafni eða nafnleynd, og kusu flestir notendur hennar að koma fram nafnlaust. Allir gátu sent inn spjallþræði og myndir, og þeir spjallþræðir sem ekki var lengur virk þáttaka í eyddust sjálfkrafa út þegar nýjir komu þeirra í stað. Síður af þessari gerð, í daglegu tali kallaðar "chan" síður eru mjög vinsælt fyrirbæri í dag. Fremst þar í hópi er vefsíðan 4chan sem er þegar þessi texti er skrifaður í 299. sæti á lista Alexa yfir vinsælustu vefsíður heims. Þegar búið er að eyðileggja nafn síðunnar á þennan hátt þá sjáum við okkur ekki fært að starfa með hana áfram."
https://www.vikubladid.is/is/frettir/franskir-skidagongumenn-sottir-a-halendid-ofan-eyjafjardar
Franskir skíðagöngumenn sóttir á hálendið ofan Eyjafjarðar Súlur, björgunarsveitin á Akureyri, og Hjálparsveitin Dalbjörg í Eyjafjarðarsveit voru kallaðar út eftir hádegi í gær til að sækja tvo franska skíðamenn að Urðarvötnum á Nýjabæjarafrétti þar sem þeir dvöldu í tjaldi og gátu sig hvergi hreyft vegna veðurs. Lögðu þeir af stað úr Eyjafirði á mánudag og ráðgerðu að ganga suður yfir hálendið á 12 dögum og enda ferðina við Skóga undir Eyjafjöllum. Voru mennirnir vel búnir og gáfu upp staðsetningu og óskuðu eftir því að þeir yrðu sóttir. Veðurskilyrði á svæðinu voru mjög slæm og voru mennirnir hjálpinni fegnir eftir þessar hrakfarir. Mennirnir voru fluttir á sleðum í bílana sem komu upp Vatnahjallann. Þeir voru þá orðnir ískaldir eftir veruna í tjaldinu en hresstust fljótlega eftir að þeir komu í heitan bílinn. Björgunarsveitirnar héldu niður til byggða með mennina og voru komnar um kl. 17.00 í Grænuhlíð þar sem húsráðendur voru með heitt á könnunni og bakkelsi handa liðinu. Úr sveitinni voru mennirnir svo fluttir til Akureyrar þar sem þeir gistu á hóteli í nótt en halda síðan heim á leið í dag. Þetta kemur fram á vefsíðum sveitanna.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/akureyri-ur-leik-i-bikarnum
Akureyri úr leik í bikarnum Akureyri er úr leik í Eimskipsbikarkeppninni í handbolta eftir annað tap liðsins fyrir Fram á fjórum dögum. Leikurinn fór fram í Framhúsinu í Reykjavík fyrir framan þó nokkurn fjölda áhorfenda. Fyrri hálfleikur var mjög jafn og fast leikinn af beggja hálfu. Raunar gengu leikmenn skrefinu of langt því að þeir Nikolaj Jankovic úr Akureyri og Andri Berg Haraldsson úr Fram fengu að líta rauða spjaldið fyrir stimpingar undir lok hálfleiksins. Staðan í hálfleik var 13-13 og munaði aldrei meira en tveimur mörkum á liðunum. Í byrjun síðari hálfleiks var leikurinn áfram jafn en svo fór smám saman að halla undan fæti hjá Akureyri og þegar um 10 mín. voru til leiksloka var Fram komið með fjögurra marka forystu 23-19. Gestirnir gáfust hins vegar ekki upp og náðu með ágætum leikkafla að minnka muninn í eitt mark þegar skammt var til leiksloka. Akureyri gaf eftir á lokakaflanum í leiknum eins og oft áður í vetur, Framarar skoruðu tvö síðustu mörk leiksins og tryggðu sér sætan þriggja marka sigur 27-24. Þar með er bikardraumur Akureyrar úti þetta árið og liðið getur farið að einbeita sér að því að tryggja sætið í efstu deild.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/g-hjalmarsson-baud-laegra-i-framkvaemdir-a-glerareyrum
G Hjálmarsson bauð lægra í framkvæmdir á Gleráreyrum Tvö tilboð bárust í framkvæmdir á Gleráreyrum, gatnagerð og lagnir, í útboði framkvæmdadeildar Akureyrarbæjar og Norðurorku. Tilboðin voru opnuð í dag og voru þau bæði yfir kostnaðaráætlun. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á um 31,5 milljónir króna en G Hjálmarsson hf. bauðst til að vinna verkið fyrir um 32,5 milljónir króna, eða um 103% af kostnaðaráætlun. GV gröfur ehf. buðu 44,3 milljónir króna, eða 140% af kostnaðaráætlun. Eftir er að fara yfir tilboðin en samkvæmt útboði skal verkinu að fullu lokið fyrir 1. maí í vor. Um er að ræða jarðvegsskipti og lagningu fráveitulagna, vatnslagna, rafstrengja, ídráttarröra og að reisa ljósastaura við götuna, sem er um 360 metrar að lengd.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/faerri-komast-ad-en-vilja-a-listasumar-a-akureyri
Færri komast að en vilja á Listasumar á Akureyri Mikill áhugi er fyrir Listasumri á Akureyri 2008 en frestur til að sækja um þátttöku er runninn út. „Okkur hafa borist 18 umsóknir um myndlistasýningar í Ketilhúsið og Deigluna, frá Íslandi, Norðurlöndunum og Skotlandi. Listamennirnir eru mun fleiri því nokkrar umsóknir eru fyrir samsýningu fjölda listamanna, mér telst að þeir séu nær 40," segir Valdís Viðars framkvæmdastjóri Listasumars. "Umsóknir um tónleika á föstudagshádegistónleika eru 16 og koma þær frá Íslandi, Þýskalandi, Spáni, Tékklandi, Rússlandi og Norðurlöndunum. Búið er að fylla djassinn inn á alla heitu fimmtudagana." Valdís segir ljóst að ekki komist allir að sem vilja, myndlistasýningar í Ketilhúsinu, Deiglunni og jafnvel útisýningar verði til að mynda líklega um 10 talsins. Hún segir umsóknirnar í ár vera heldur færri en í fyrra en orsökin kunni að vera að umsóknarfresturinn hafi verið styttur til þess að hægt sé að skipuleggja Listasumarið með meiri fyrirvara. Fjöldi atburða á dagskrá verður aftur á móti svipaður enda umsóknirnar fleiri en hægt verður að sinna. Listasumar verður nú sett í 16. sinn þann 19. júní nk., á Jónsmessu. Sem fyrr er byrjað á Jónsmessuhátíð og listsmiðjum fyrir börn. Hápunktur hátíðarinnar verður í Kjarnaskógi 23. júní en henni líkur formlega á Akureyrarvöku 30. ágúst. „Þarna verða bæði frægir listamenn og grasrótin. Rétt er að geta þess að Listasumar er fyrst og fremst vettvangur fyrir grasrótina, engin önnur listahátíð á Íslandi gerir grasrótinni eins hátt undir höfði og Listasumar á Akureyri. Þar fá ungir og upprennandi listamenn sem eru að stíga sín fyrstu skref tækifæri til að koma fram með sína list," sagði Valdís.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/samherji-verdlaunar-starfsmenn-fyrir-maetingu
Samherji verðlaunar starfsmenn fyrir mætingu Samherji hf. hefur veitt 14 starfsmönnum sínum sérstök hvatningarverðlaun fyrir fullkomna mætingu til vinnu á árinu 2007. Starfsmennirnir fengu hver um sig ferðaávísun að upphæð 100 þúsund krónur. Afhending hvatningarverðlaunanna markar lok fyrsta starfsársins í gagngerri heilsueflingu innan fyrirtækisins. Það er yfirlýst stefna Samherja að stuðla að bættri heilsu og vellíðan starfsmanna sinna. Á liðnu ári hóf fyrirtækið átak í því skyni að hvetja starfsmenn sína til markvissrar heilsueflingar á öllum sviðum. Átakið var kynnt öllum starfsmönnum Samherja í ársbyrjun og þeir hvattir til að taka virkan þátt í því, segir á vef félagsins. Einn liður í átakinu er að greiða niður kostnað við líkamsrækt og ýmsa íþróttaiðkun starfsmanna. Í öðru lagi var gerður samningur við Heilsuverndarstöðina ehf. um að fyrirtækið veitti starfsmönnum Samherja persónulega ráðgjöf í málum er snúa að heilsu og bættri líðan, þeim að kostnaðarlausu. Ennfremur voru reglur um veitingu fyrrnefndra hvatningarverðlauna kynntar. Þess má jafnframt geta að á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að úrbótum á vinnuaðstöðu starfsmanna í öllum starfsstöðvum Samherja, í samráði við vinnueftirlit og aðkeypta ráðgjafa, með það að markmiði að starfsmannaaðstaðan yrði eins og best gerist. Þessi nýbreytni hefur mælst mjög vel fyrir á meðal starfsmanna Samherja. Því verður haldið áfram á braut heilsueflingar á yfirstandandi ári og hvatningarverðlaunin veitt öðru sinni í febrúar 2009. Eftirtaldir starfsmenn hlutu hvatningarverðlaun Samherja fyrir árið 2007: Jóhannes Már Jóhannesson - Björgúlfur EA-312 Valur Höskuldsson - Björgvin EA-311 Gunnar Eiríksson - Hausaþurrkun Atli Dagsson - Dalvík Phanthong Saraphat - Dalvík Sigrún Aðalsteinsdóttir - Dalvík Samúel Björnsson - Margrét EA-710 Kristinn Helgason - Íslandsbleikja Ólafur T Hermannsson - Oddeyrin EA-210 Ingvi Eiríksson - Strýta Sigurður Pálsson - Vilhelm Þorsteinsson EA-11 Hanna Dóra Hermannsdóttir - skrifstofa Sigurður Gunnarsson - Víðir EA-910 Illugi Pálsson - Þorvarður Lárusson SH-129
https://www.vikubladid.is/is/frettir/dekk-gomlu-bryggjunnar-a-hjalteyri-fauk-upp-a-land
Dekk gömlu bryggjunnar á Hjalteyri fauk upp á land Aðfararnótt laugardagsins gerði aftaka veður á Hjalteyri og fauk mestallt dekk gömlu bryggjunnar upp á land eins og sést á myndinni hér til hliðar, sem Axel Grettisson oddviti Arnarneshrepps tók. Einnig urðu miklar skemmdir á sjóvarnargörðum á Hjalteyri. Axel sagði að sjór hefði flætt á land og náð langt upp á húsveggi, m.a. þar sem Fiskeldi Eyjafjarðar er til húsa en að ekki hafi orðið tjón þar eða á öðru húsnæði vegna þessa. Hann sagði að gríðarlegt magn af spýtnabraki hefði skolað á land og ættu heimamenn mikið hreinsunarstarf fyrir höndum. Ekki hefur verið almennileg tenging á milli lands og gömlu bryggjunnar á Hjalteyri en til stendur að byggja brú þar á milli í sumar, þannig gestir og gangandi geti farið þangað út, m.a. til að dorga. Axel sagði að til stæði að nota um fjórðung af dekki bryggjunnar í þeirri uppbyggingu og hefði sá hluti sloppið hvað best í óveðrinu um helgina. Hann gerir sér því vonir um að menn geti haldið sínu striki, þrátt fyrir þau ósköp sem dundu yfir um helgina.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/formadur-osholmanefndar-segir-leirurnar-ekki-efnistokusvaedi
Formaður óshólmanefndar segir Leirurnar ekki efnistökusvæði Jón Ingi Cæsarsson, formaður nefndar um óshólma Eyjafjarðarár, segir það rangt hjá Guðmundi Gunnarssyni framkvæmdastjóra GV grafa að kenna nefndinni um að ekki standi til að taka efni í lengingu Akureyrarflugvallar úr Leirum Eyjafjarðarár. Jón Ingi segir að nefndin hafi fengið til umsagnar skýrslu frá hönnuðum þar sem uppleggið var aðflutt efni og að hún hafi því aldrei þurft að taka afstöðu til annars. Guðmundur gagnrýndi óshólmanefnd og sagði að nefndin væri hrædd og vanbúin til að að taka yfirvegaðar ákvarðanir. Í fundargerð skipulagsnefndar frá 12. desember sl. kemur m.a. fram að fyrir liggi svohljóðandi umsögn frá umhverfisnefnd/óshólmanefnd: "Nefnd um verndarsvæði í óshólmum Eyjafjarðarár hefur kynnt sér gögn þau sem fram eru komin um fyrirhugaða lengingu Akureyrarflugvallar og stækkun öryggissvæða. Nefndin fagnar að ekki verði ráðist í efnistöku úr Leirunum og aðeins notað aðflutt efni. Hún gerir því ekki athugasemdir við fyrirhuguð áform um framkvæmdir við Akureyrarflugvöll." Guðmundur framkvæmdastjóri GV grafa sagði í Vikudegi að hægt sé að spara 50-100 milljónir króna með því að nýta um 100.000 rúmmetra af sandi úr leirum Eyjafjarðarár í væntanlega lengingu Akureyrarflugvallar. Hann segir jafnframt hægt að spara um 135 þúsund lítra af díselolíu. Jón Ingi segir að ástæður þess að nefndin hafi ekki þurft að taka afstöðu til annars en er varðaði aðflutt efni séu líklega þær að ferlið að fá efnið úr Leirunum sé mjög langt og ekki gefið að slíkt leyfi fengist. "Leirurnar eru á skrá yfir verðmæt svæði með tilliti til lífríkis fugla og skilgreint sem verndarsvæði samkvæmt samkomulagi Eyjarfjarðarsveitar, Akureyrar og Flugmálastjórnar, nú Flugstoða. Leirurnar eru ekki efnistökusvæði samkvæmt aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar og Akureyrar." Jón Ingi sagði að ef vilji hefði verið til að fá leyfi til efnistöku hefði orðið að fara í að breyta aðalskipulagi Eyjarfjarðarsveitar og Akureyrar, gera nýtt deiliskipulag fyrir óshólma Eyjafjarðarár, sækja um leyfi umhverfisyfirvalda til að opna nýjar efnistökunámur, senda framkvæmdina í umhverfismat og fá leyfi umhverfisráðuneytis til að hefja þarna efnistöku. Þetta ferli hefið getað tekið eitt til tvö ár og ekki gefið að tilskilin leyfi hefðu fengist. "Framkvæmdaraðilum var því ljóst að ef farin yrði sú leið að leitast við að nota efni úr Leirunum, hefði lenging flugbrautar Akureyrarflugvallar ekki hafist fyrr en í fyrsta lagi 2009, jafnvel ekki fyrr en 2010 og því valdi samgönguráðuneyti og Flugstoðir að nota aðflutt efni. Í það minnsta er það skýring mín sem formanns óshólmanefndarinnar," sagði Jón Ingi.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/jenny-lilja-er-thusundasti-ibui-eyjafjardarsveitar
Jenný Lilja er þúsundasti íbúi Eyjafjarðarsveitar Hjónin Ólöf Huld Matthíasdóttir og Árni Kristjánsson, Vallartröð 6 í Eyjafjarðarsveit, eignuðust dóttur 7. ágúst sl. sem hlotið hefur nafnið Jenný Lilja. Nú hefur komið í ljós að Jenný Lilja er þúsundasti íbúi sveitarfélagsins. Nokkrum dögum síðar, eða 13. ágúst, eignuðust hjónin Telma Bára Vilhelmsdóttir og Hilmar Sigurpálsson, Leyningi, þríburana Dagbjörtu Lilju, Berglindi Evu og Kristján Sigurpál. Af þessu tilefni þótti sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar ástæða til að heiðra foreldra og börn með því að færa foreldrunum blómvönd og börnunum sparisjóðsbók með upphæð sem jafngildir hálfs vetrar námi í Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Vonandi verður verðlagsþróunin ekki óhagstæðari en svo að upphæðin dugi vel fyrir námskostnaðinum þegar að því kemur að börnin vilji fara að stunda tónlistarnám, segir á vef Eyjafjarðarsveitar, þar sem fjallað er um málið. Það er sveitarstjórn sérstök ánægja að bjóða þetta unga fólk velkomið í sveitarfélagið í þeirri von að það eigi eftir að vaxa og dafna með sveit sinni eða hvar sem leið þess liggur um ókomin ár, segir þar ennfremur. Hinn 1. desember sl. voru íbúar Eyjafjarðarsveitar 1009 samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar og hafði fjölgað um 9 frá árinu 2006.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/eldur-i-verksmidjunni-i-krossanesi
Eldur í verksmiðjunni í Krossanesi Slökkvilið Akureyrar var kallað að fiskimjölsverksmiðjunni í Krossanesi nú á fjórða tímanum en þar logaði eldur í einangrun á milli klæðninga í turni verksmiðjunnar, í um 15-20 metra hæð. Greiðlega gekk að slökkva eldinn, enginn hætta var á ferðum og tjónið óverulegt, þar sem verið er að rífa verksmiðjuna. Slökkviliðið sendi tvo slökkvibíla á staðinn, sem og körfubíl sem notaður var við slökkvistarfið.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/timburhus-mikid-skemmt-af-voldum-vatns-og-gufu
Timburhús mikið skemmt af völdum vatns og gufu Slökkvilið Akureyrar var í morgun kallað að Hafnarstræti 86a. Tilkynning barst liðinu í gegnum Neyðarlínu og hafði tilkynnandi séð reyk leggja undan þaki hússins. Allt vakthafandi lið fór á staðinn á tveimur dælubílum ásamt körfubifreið. Við komu á vettvang kom í ljós að um gufu var að ræða en heitt vatn flæddi um aðra hæð hússins og niður á þá fyrstu. Húsið er þrílyft timburhús sem hefur verið mannlaust um tíma. Lokað var fyrir inntak hússins og gufu loftað út, húsið er mikið skemmt af völdum vatns og gufu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/viljayfirlysing-um-thjonustu-og-rekstur-liknardeildar-vid-fsa
Viljayfirlýsing um þjónustu og rekstur líknardeildar við FSA Sjúkrahúsið á Akureyri (FSA) og Hjúkrunarþjónusta Eyjafjarðar ehf. (HE) hafa undirritað viljayfirlýsingu þess efnis að FSA og HE geri samning um þjónustu og rekstur líknardeildar við FSA. Heilbrigðisráðuneytið hefur falið Sjúkrahúsinu á Akureyri að undirbúa og hefja rekstur líknardeildar við FSA. Hjúkrunarþjónusta Eyjafjarðar byggir á starfsemi Heimahlynningar á Akureyri og er sérhæft þjónustufyrirtæki í líknandi meðferð. Undirbúningur að stofnun líknardeildar við FSA hefur staðið um nokkurn tíma. Í lok árs 2005 var Bjarmi líknarfélag ehf. stofnað til að standa að byggingu og rekstri fasteignar fyrir líknardeild í samvinnu við FSA. Að félaginu standa Kaupfélag Eyfirðinga, Sparisjóður Norðlendinga, Oddfellowstúkurnar á Akureyri, Lionsklúbbar í umdæmi 109B - svæði 7 og 8, Minningarsjóður Heimahlynningar á Akureyri, Soroptimistaklúbbur Akureyrar og Sjúkrahúsið á Akureyri. Alþingi hefur heimilað FSA að gera leigusamning um húsnæði fyrir starfsemina og á fjárlögum 2007 og 2008 voru fjárveitingar til að undirbúa reksturinn. Deiliskipulag lóðar FSA, sem nú er til umfjöllunar hjá skipulagsyfirvöldum bæjarins, gerir ráð fyrir að nýtt húsnæði fyrir líknardeild verði sunnan við nýbyggingu sjúkrahússins, syðst og austast á lóðinni. Að skipulaginu samþykktu verður unnt að hefjast handa við frekari hönnun húsnæðis og undirbúning byggingaframkvæmda. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á vormánuðum 2008 og að deildin geti tekið til starfa í byrjun árs 2009.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/landssamtok-landeigenda-vaenta-nys-utspils-fra-fjarmalaradherra
Landssamtök landeigenda vænta nýs útspils frá fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra hefur þegið boð stjórnar Landssamtaka landeigenda á Íslandi um að koma á aðalfund samtakanna sem hefst á Hótel Sögu kl. 15:00 á fimmtudaginn kemur, 14. febrúar. Ráðherra fjallar þar um stöðu þjóðlendumála af sjónarhóli ríkisvaldsins. Þá mun Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður flytja fundarmönnum erindi um afréttarmálefni fyrir dómstólum. Fundarboðendur vænta þess að fjármálaráðherra mæti til leiks með nýtt útspil af hálfu ríkisins í átt til samkomulags í deilunni við landeigendur, ekki síst í ljósi þess að núna fyrir lok febrúarmánaðar birtir ríkisvaldið þjóðlendukröfur sínar á vestanverðu Norðurlandi (svæði 7, vestan Fnjóskár og austan Blöndu). Það fylgir sögu að í desember 2007 fór fjármálaráðherra fram á það við óbyggðanefnd að skipta svæði 7 í tvennt og taka einungis syðri hluta þess fyrir nú. Óbyggðanefnd samþykkti erindið og því mun ríkið lýsa kröfum á svæði sem í megindráttum markast af Fnjóská í austri, að norðan af Hörgárdal og Öxnadal og Öxnadalsheiði í Eyjafirði, og Norðurárdal og Norðurá í Skagafirði en vestan þess af norðurmörkum Eyvindarstaðaheiði og Blöndu. Stjórn LLÍ hefur ákveðið að efna til funda um stöðu þjóðlendumála víða um land eftir aðalfund samtakanna. Áformaðir fundarstaðir eru Borgarnes, Búðardalur, Staðarflöt, Varmahlíð, Akureyri, Breiðumýri, Þórshöfn, Egilsstaðir og Rangárvallasýsla. Tveir stjórnarmenn mæta á hvern fund. Landssamtök landeigenda á Íslandi voru stofnuð á Hótel Sögu 25. janúar 2007 í kjölfar geysifjölmenns fundar sem sveitarfélög og landeigendur á austanverðu Norðurlandi (svæði 6) boðuðu til í Mývatnssveit 30. nóvember 2006, eftir að þjóðlendukröfur ríkisins þar höfðu verið birtar. Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra mætti á fundinn og átti orðastað við landeigendur. Í Landssamtökum landeigenda á Íslandi eru alls á fimmta hundrað einstaklinga, sveitarfélaga og annarra lögaðila. Tilgangur samtakanna er að „berjast fyrir því að eignarréttur landeigenda að jörðum þeirra og landareignum sé virtur í þjóðlendumálinu eins og kveðið er á um í stjórnarskrá Íslands og í mannréttindasáttmála Evrópu."
https://www.vikubladid.is/is/frettir/baejarrad-undrast-breytingu-a-mati-a-vistunarthorf-aldradra
Bæjarráð undrast breytingu á mati á vistunarþörf aldraðra Bæjarráð Akureyrar undrast mjög breytingu á mati á vistunarþörf aldraðra og hvernig að henni var staðið. Ráðið tekur undir þau sjónarmið sem fram hafa komið hjá félagsmálaráði og þjónustuhópi aldraðra að með þessum breytingum sé stigið skref aftur á bak í þjónustu við aldraða á svæðinu. Bæjarráð skorar á heilbrigðisráðherra að endurskoða afstöðu sína og veita starfssvæði Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri undanþágu frá lögunum hvað þetta tiltekna atriði varðar þannig að áfram megi halda að þróa öldrunarþjónustuna á svæðinu í þágu íbúa.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/lenging-akureyrarflugvallar-tharf-ekki-i-umhverfismat
Lenging Akureyrarflugvallar þarf ekki í umhverfismat Skipulagsstofnun hefur úrskurðað að lenging Akureyrarflugvallar þurfi ekki í umhverfismat. Þetta þýðir að hægt verður að hefjast handa við framkvæmdir, að undangengnu útboði, áður en langt um líður. Um er að ræða framkvæmd upp á 1,3 milljarða króna, með tækjum og tækjabúnaði sem á að endurnýja og setja upp, samhliða lengingu. Stefnt er að því að framkvæmdum verði lokið næsta haust. Mikið hefur verið rætt og ritað um efnistöku í Eyjafjarðará í tengslum við fyrirhugaða framkvæmd, þar sem sitt sýnist hverjum. Bjarni Kristjánsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit, skrifaði hugleiðingu um það mál á dögunum og þar kemur m.a. fram: "Framkvæmdir við lengingu Akureyrarflugvallar krefjast mikils fyllingarefnis. Það liggur ekki fyrir hvert það efni verður sótt en fastlega má gera ráð fyrir að leitað verið eftir leyfi til að taka það í umdæmi Eyjafjarðarsveitar. Þá koma helst til álita óshólmasvæðin, farvegur Eyjafjarðarár og að líkindum Munkaþveráreyrar." Bjarni segir að samkvæmt nýstaðfestu Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005 - 2025 sé ekki gert ráð fyrir efnistöku á óshólmasvæðinu nema að undangengnum rannsóknum og úttekt eins og ákvæði er um í skipulagsforsendum. Sama eigi við um farveg Eyjafjarðarár þótt náma fyrir landi Vagla sé staðfest í skipulaginu. Sú náma sé þó lítil sett í samhengi við efnisþörf vegna flugvallarstækkunarinnar. Bjarni bendir á að í skýrslu Flugstoða og tilkynningu um fyrirhugaða framkvæmd í nóvember 2007 segi að aðflutt efni til fyllinga og burðarlaga verði samtals 220 þúsund rúmmetrar og gert sé ráð fyrir „að þessu efni verði ekið úr opnum námum í nágrenni Akureyrar. "Hvar eru þessar námur," spyr Bjarni. Hann bendir á að samkvæmt upplýsingum hjá umdæmisstjóra Flugstoða á Akureyri sé ekki fyrirhugað að fara á þessu ári í framkvæmdir við flughlöð og slíka aðstöðu þannig að efnisþörfin í fyrsta áfanga verður minni en að framan greinir eða ca. 150 þús. rúmmetrar. Það má gera ráð fyrir að þetta magn skiptist til helminga á milli sands og burðarmeira efnis. "Er ekki ástæða til að þessi mál séu skoðuð nánar og sameiginlega af skipulagsyfirvöldum á Akureyri og í Eyjafjarðarsveit í þeim tilgangi að greiða fyrir því að allt fínna efni til fyllingar verði tekið sem næst framkvæmdastaðnum," spyr Bjarni ennfremur í pistli sínum.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/veitingamenn-a-akureyri-ihuga-ad-utbua-reykherbergi
Veitingamenn á Akureyri íhuga að útbúa reykherbergi Veitingamenn á Akureyri fylgjast grannt með gangi mála syðra varðandi reykingar á veitingastöðum, en sem kunnugt er gekk í gildi bann við reykingum á veitingastöðum á liðnu sumri. Sumir íhuga að útbúa reykherbergi á stöðum sínum verði það heimilað. Birgir Torfason veitingamaður á Kaffi Akureyri og Vélsmiðjunni segir ekki ólíklegt að útbúið verði reykherbergi á veitingastöðunum báðum. „Við höfum lent í auknum vandræðum vegna þessa, fólk er hér á ferðinni út og inn og erfitt að henda reiður á straumnum, sumir á leið út að reykja eða koma inn frá því að reykja og aðrir í biðröð eftir að komast inn," segir Birgir. Hann segir þetta mál sem verði að leysa með einhverjum hætti "og mér sýnst að best fari á að útbúa sér reykherbergi." Birgir nefnir einnig að þegar veður sé vont, kalt og blautt eins og undanfarnar vikur, sé enn verra að eiga við þetta, nánast ómögulegt. Hann segir að komur gesta á Kaffi Akureyri hafi dregist saman yfir daginn um allt að 80% og það þýði vitanlega tekjutap. Greinilega hafi reykingafólk sótt staðinn í meira mæli en þeir sem ekki reykja, fólk sem hefur slakað á yfir kaffi og reyk, en þegar kalt er í veðri leiti það annað. „Maður hefði nú kannski haldið að fólk sem ekki reykir myndi sækja staðina í meira mæli, en það lætur ekki sjá sig." Þórhallur Arnórsson veitingamaður í Sjallanum segir að almennt hafi gengið mjög vel að framfylgja reykingabanninu, það hafi verið fyrst um liðna helgi eftir háværar umræður í fjölmiðlum um stöðu mála í Reykjavík að hann hafi rekist á fáeina sígarettustubba innandyra. „Okkar gestir hafa tekið þessu banni mjög alvarlega og fylgja því vel. Ég kveið þessu dálítið í fyrstu í fyrrasumar, en það var greinilega óþarfi, allt hefur gengið vel," segir Þórhallur. Þeir gestir sem bregða sér út fyrir til að reykja fara um annan útgang en þeir sem eru að koma inn og því hafa ekki skapast vandræði af þeim sökum. Þórhallur segir að vissulega væri ákjósanlegra að gestir hefðu betra skjól fyrir norðangarranum, en litlir möguleikar væru fyrir hendi að útbúa það við Sjallann. Hann hefði hins vegar Kjallarann ónotaðan og þær væri reykaðstaða fyrir hendi ef til þess kæmi að leyfi yrði veitt til að útbúa aðstöðu af því tagi.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/utlan-yfir-200-thusund-i-fyrsta-sinn-a-amtsbokasafninu
Útlán yfir 200 þúsund í fyrsta sinn á Amtsbókasafninu Útlán á Amtsbókasafninu á Akureyri fóru í fyrra yfir 200 þúsund og er það í fyrsta sinn sem það gerist. Bæjarbúar sækja safnið jafnt og þétt yfir árið og fjölgar heimsóknum stöðugt. Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður segir að starfsemin gangi ljómandi vel, safnið sé vel sótt og gestakomum fjölgi öfugt við þá þróun sem virðist vera í nágrannalöndum okkar, þar sem dregið hefur úr komum á bóksöfn. Á liðnu ári komu alls um 113.750 manns á safnið en þeir voru ríflega 107 þúsund árið á undan. Gantast hefur verið með að gestafjöldi ársins 2006 hafi verið slíkur að hefði fólkinu sem þangað kom verið stillt upp í beina röð hefði hún náð til Ólafsfjarðar. „Þannig að líklega myndi gestafjöldi liðins árs ná alla leið að Héðinsfjarðargöngum uppstilltur í eina beina röð," segir Hólmkell. Útlán voru sem fyrr segir yfir 200 þúsund í fyrra. „Þetta er allt á réttri leið, fólki þykir greinilega gott að koma hingað," segir Hólmkell. Útlán skiptast þannig að um 70% þeirra eru bækur, 16% tímarit, 7% DVD myndir, 2% myndbandsspólur, 1% tónlist og 1% hljóðbækur. „Bæjarbúar eru mjög duglegir að sækja safnið og við erum ánægð með það, það er ekkert sem gefur til kynna að breyting verði þar á," segir Hólmkell, en auk þess sem gestir sækja sér gögn af ýmsu tagi hefur safnið staðið fyrir viðburðum margskonar, sýningum, erindum og upplestrum svo dæmi séu tekin.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/menntamalaradherra-tok-fyrstu-skoflustunguna-ad-nybyggingu-ha
Menntamálaráðherra tók fyrstu skóflustunguna að nýbyggingu HA Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra tók fyrstu skóflustunguna að 4. áfanga nýbygginga Háskólans á Akureyri við Sólborg nú í morgun að viðstöddu fjölmenni. Nemendur, starfsfólk og aðrir gestir héldu á kaðli sem myndaði útlínur húsanna, á meðan ráðherra tók skóflustunguna. Nýbyggingin verður um 2.300 m2 að stærð og þar verða m.a. hátíðarsalur, fyrirlestrarsalir, aðalinngangur skólans og smærri kennslurými Menntamálaráðherra ætlar ekki að láta þar við sitja í ferð sinni til Akureyrar, því nú í hádeginu verður hún viðstödd setningu RES Orkuskólans. Menntamálaráðuneytið ákvað að höfðu samráði við bygginganefnd Háskólans á Akureyri, að taka tilboði frá Tréverki ehf. í byggingu 4. áfanga HA. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næstu mánuðum og að verkinu ljúki sumarið 2010. Tilboð Tréverks hljóðaði upp á um 620 milljónir króna, eða 120% af kostnaðaráætlun. Nýbyggingin er mikil viðbót fyrir Háskólann og liður í því að koma starfsemi skólans á eitt og sama svæðið. Þrjátíu nemendur frá 10 löndum hefja nám við RES Orkuskóla en flestir koma þeir frá Póllandi. Allir nemendur hafar góðan og faglegan undirbúning í verkfræði og raunvísindum og flestir eru komnir í meistaranám. Kennsla hefst af fullum krafti á mánudag.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/naeg-atvinna-a-akureyri-en-thad-vantar-folk
Næg atvinna á Akureyri en það vantar fólk Nægt framboð virðist vera á atvinnumarkaði um þessar mundir og atvinnuástand með ágætum. Blikur eru hins vegar á lofti, þegar kemur fram á vorið taka gildi uppsagnir í fiskvinnslu víða um fjórðunginn. Helena Karlsdóttir framkvæmdastjóri Vinnumálastofnunar Norðurlands eystra segir að óvenju fáir séu nú skráðir án atvinnu á svæði stofnunarinnar miðað við árstíma. „Það virðist vera sem nóg sé að gera um þessar mundir, það vantar fólk til starfa hér og þar, hvergi marga, en víða vantar einn og einn eða nokkra starfsmenn," segir Helena. Nægt framboð sé því af atvinnu nú í upphafi febrúarmánaðar, en helst að það vanti fólk til starfa. Þó svo að atvinnuástand sé nú með besta móti segir Helena að brugðið geti til beggja vona þegar kemur fram á vorið. Þá taki gildi uppsagnir í fiskvinnslu og megi búast við að fjöldi fólks standi þá uppi án atvinnu. „Áhrif uppsagnanna eru ekki komin fram enn, þau skella á okkur á vormánuðum, þannig að ekki er gott að segja hvernig ástandið verður nákvæmlega þegar að uppsagnir taka gildi," segir Helena.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/oryggisvesti-handa-ungu-hestafolki-a-akureyri
Öryggisvesti handa ungu hestafólki á Akureyri Sparisjóður Norðlendinga hefur afhent öllum börnum og unglingum í hestamannafélaginu Létti á Akureyri öryggisvesti með endurskinsborðum. Með þessu reynir Sparisjóðurinn að tryggja öryggi ungmennanna í myrkrinu. Það er öllum þeim sem ferðast nauðsynlegt að sjást vel í skammdeginu. Þetta á ekki síst við þá sem stunda útreiðar. Ungir hestamenn í Létti komu saman í Skeifunni, félagsheimili hestamanna á Akureyri, í gær en þar fór Guðný Bergvinsdóttir, leiðbeinandi hjá Rauða krossinum, yfir öryggismál og skyndihjálp og benti unga fólkinu á hversu mikilvægt er að nota hjálm og endurskinsmerki. Við það tækifæri afhenti Fjóla Björk Karlsdóttir frá Sparisjóði Norðlendinga hestafólkinu öryggisvestin. Það var æskulýðsnefnd Léttis sem stóð fyrir fundinum en formaður nefndarinnar er Andrea Þorvaldsdóttir. Öryggismál eru ofarlega á baugi hjá hestamönnum þessa dagana en Landssamband hestamannafélaga ætlaði að fjalla um þau á ráðstefnu á Akureyri síðar í dag en henni varð að fresta vegna slæmrar veðurspár. Stefnt er að því að halda ráðstefnuna síðar í þessum mánuði.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/vida-haettuastand-vegna-grylukerta
Víða hættuástand vegna grýlukerta Eftir að hitastigið á Akureyri fór yfir frostmark hefur víða skapast hættuástand fyrir gangandi vegfarendur, þar sem stór grýlukerti hanga nú í þakskeggjum fjölmargra húsa. Þegar þau svo losna og falla niður er víst eins gott að enginn verði fyrir þeim á jörðu niðri. Einnig geta bíleigendur orðið fyrir tjóni, leggi þeir of nærri húsum þar sem grýlukerti gætu losnað. Slökkviliðsmenn á Akureyri voru mættir á körfubílnum í Skipagötuna nú fyrir stundu og hreinsuðu grýlukerti af þakskeggjum, enda var þar hættuástand fyrir gangandi vegfarendur.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/baejarrad-stydur-hugumyndir-um-bjorgunarthyrlu-a-akureyri
Bæjarráð styður hugumyndir um björgunarþyrlu á Akureyri Bæjarráð Akureyrar samþykkti bókun á fundi sínum í gær, þar sem tekið er heils hugar undir þingsályktunartillögu um staðsetningu björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri. Með staðsetningu þyrlu á Akureyri er öryggi sjófarenda á hafsvæðinu fyrir norðan og austan land aukið til muna. Auk þess gegna þyrlur Landhelgisgæslunnar nú mikilvægu hlutverki við björgun á landi og þar getur fjarlægð frá slysstað ráðið úrslitum um það hvernig til tekst. Á Akureyri er góð reynsla af sjúkraflutningum og FSA er varasjúkrahús landsins. Það er því ljóst að hér er gott bakland til að styðja við þessa starfsemi. Bæjarráð skorar því á alþingismenn að styðja þingsályktunartillöguna og ríkisstjórnina að koma henni til framkvæmda. Eins og fram hefur komið hafa níu af tíu þingmönnum í Norðausturkjördæmi og úr öllum flokkum lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um þyrlubjörgunarsveit á Akureyri.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/ahrifarikasta-halkuvornin-er-oblandad-salt
Áhrifaríkasta hálkuvörnin er óblandað salt Áhrifaríkasta hálkuvörnin á götum bæjarins er að nota eintómt salt. Þetta segir Guðmundur Hjálmarsson verktaki, eigandi verktakafyrirtækisins G. Hjálmarssonar. Sjálfur notaði hann eigin bíl á dögunum til að saltbera kafla á Þórunnarstræti, en hann er með verkefni við sundlaugina og umferð gangandi og akandi vegfarenda er mikil. Hann segir viðbrögðin neikvæð, „það varð allt vitlaust." Guðmundur segir að við vissar kringumstæður líkt og var á Akureyri fyrir nokkru, þar sem mikil ísing og hálka var á götum bæjarins, sé langbest að nota óblandað salt á hættumestu göturnar. Það sé kröftug leið til að losna við hálkuna, sandurinn sem hefð ef fyrir að bera á götur til hálkuvarna sé ekki líkt því eins áhrifaríkur auk þess sem erfitt sé að hreinsa hann upp og í froststillum valdi hann því að svifryk eykst til muna þegar bílar þeyta honum upp. Saltið aftur á móti hreinsist burt í næstu rigningu og fari sína leið. „Ég held að fólk sé óþarflega viðkvæmt fyrir þessu. Aðstæður eins og voru hér í bænum um daginn skapast ekki nema örfáa daga á ári þannig að það er ekki verið að tala um mikið magn. Það er ekki eins og verið sé að dreifa áburði á tún. Fólk sem er að amast við þessu horfir ekki á heildarmyndina, það skapast mikil hætta í umferðinni í hálkunni og iðulega verða árekstrar og tjón. Fyrst og fremst held ég að þetta séu fordómar í fólki og það er erfitt við þá að eiga," segir Guðmundur. Hann kveðst hafa óskað eftir því að leiðin sem bílar hans aka um við sundlaugarsvæðið yrði hálkuvarin, en þegar ekkert gerðist hafi hann gripið til þess ráðs að dreifa sjálfur salti á eigin bíl um svæðið. Viðbrögðin létu ekki á sér standa segir hann. „Það varð eitthvað að gera, umferðin er mikil, þarna fara skólabörn mikið um auk bílaumferðar og mér þykir forgangsröðunin einkennileg ef allt verður vitlaust út af örlitlu salti á litlum bletti en ekki horft á þá hættu sem skapast getur fyrir skólabörn sem þarna eru á ferðinni."
https://www.vikubladid.is/is/frettir/kirkjurad-vill-ibudarhus-burt-fra-laufasi
Kirkjuráð vill íbúðarhús burt frá Laufási Kirkjuráð hefur boðið ábúendum í Laufási í Grýtubakkahreppi, Þórarni Inga Péturssyni og Hólmfríði Björnsdóttur, að leigja jörðina án hlunninda í fjögur ár, með því skilyrði að íbúðarhús þeirra verði fjarlægt af jörðinni nú næsta vor. Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps lýsti yfir vonbrigðum sínum með samþykkt Kirkjuráðs á fundi í vikunni og „telur að hér sé um að ræða óaðgengilega afarkosti fyrir ábúendur Laufáss og óttast mjög um áframhaldandi búrekstur í Laufási," eins og segir í bókun sveitarstjórnar. Nánar er fjallað um málið í Vikudegi í dag og rætt við Þórarin bónda og Guðnýju Sverrisdóttur sveitarstjóra.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/baejarrad-akureyrar-lysir-yfir-studningi-vid-alver-a-bakka
Bæjarráð Akureyrar lýsir yfir stuðningi við álver á Bakka Byggðarráð Norðurþings, Jón Helgi Björnsson, Gunnlaugur Stefánsson og Þráinn Gunnarsson ásamt sveitarstjóra Bergi Elíasi Ágústssyni, komu á fund bæjarráðs Akureyrar í morgun til viðræðna um stöðu mála varðandi fyrirhugað álver á Bakka. Í kjölfarið var samþykkt bókun þar sem fram kemur að bæjarráð Akureyrar lýsir yfir eindregnum stuðningi við áform um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík. Á undanförnum árum hefur alvarlegur samdráttur í fiskvinnslu og landbúnaði haft veruleg áhrif á afkomu fólks, atvinnuöryggi og búsetu á svæðinu. Á síðustu 10 árum hefur íbúum á svæðinu frá Húsavík til Raufarhafnar, sem nú heitir Norðurþing, fækkað um 15%. Mest hefur fækkunin verið í aldurshópnum 40 ára og yngri, en í þeim aldursflokki hefur íbúum fækkað um 25%. Kjölfesta í atvinnumálum er nauðsynleg til þess að snúa vörn í sókn og viðhalda gróskumikilli byggð á Norðausturlandi. Fyrirhugað álver á Bakka getur skapað þessa kjölfestu. Álverið mun skapa um 300 ný framtíðarstörf og afleidd störf verða mun fleiri og áhrifa þeirra mun gæta langt út fyrir Norðurþing, ekki síst á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu. Bæjarráð skorar því á stjórnvöld að beita sér fyrir því að af þessum framkvæmdum geti orðið sem fyrst, segir ennfremur í bókun bæjarráðs. Baldvin H. Sigurðsson sat hjá við afgreiðslu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/mikilvaegur-domur-fyrir-verkalydshreyfinguna
Mikilvægur dómur fyrir verkalýðshreyfinguna Dómur í máli Félags skipstjórnarmanna gegn Brimi hf. féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 29. janúar sl. Í málinu var m.a. deilt um hvort ófélagsbundnum launþegum bæri að greiða til stéttarfélags stéttarfélags- eða vinnuréttargjöld, sem stundum eru nefnd svo. Félag skipstjórnarmanna vann sigur í málinu en niðurstaða dómsins er sú að ekki skiptir máli hvort einstaklingar séu skráðir í stéttarfélag eða ekki, það þarf að greiða af þeim félagsgjöld til viðkomandi stéttarfélaga. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir á vef félagsins að þarna sé um mjög mikilvægan dóm að ræða. "Við erum með nokkur mál í gangi af þessu tagi og niðurstaða dómsins, sem er að mínu mati mikilvægur fyrir verkalýðshreyfinguna, gefur okkur tilefni til bjartsýni í þeim málum. Sem dæmi um slíkt mál má nefna atvinnurekanda með starfsemi á félagssvæði Einingar-Iðju, sem ákvað einhliða að borga ekki gjöld af erlendum starfsmönnum sínum," segir Björn. "Í sambandi við það mál höfum við upplýsingar frá Vinnumálastofnun. Vinnuveitandi tilkynnti að starfsmennirnir hefðu óskað eftir að ekki yrðu greidd af þeim félagsgjöld, en á fundi sem starfsmenn Einingar-Iðju áttu með þessum sömu starfsmönnum kom í ljós að þeir höfðu aldrei heyrt minnst á íslensk stéttarfélög og hvað þá að ekki væru greidd gjöld vegna þeirra til félaganna. Þetta er grafalvarlegt ef rétt reynist og vekur upp spurningar um kröfur sem t.d. opinberir aðilar eins og ríki og sveitarfélög geri eða geri ekki til verktaka sem samið hefur verið við um verk á grundvelli útboða. Ekki er hægt að líða að þátttakendur í opinberum útboðum verði hlutskarpastir vegna þess að þeir geti sniðgengið reglur vinnumarkaðarins um lágmarkskjör starfsmanna," segir Björn ennfremur á vef félagsins.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/einn-vinsaelasti-farsi-allra-tima-frumsyndur-hja-la
Einn vinsælasti farsi allra tíma frumsýndur hjá LA Leikfélag Akureyrar frumsýnir gamanleikinn Fló á skinni, eftir George Feydeau, í Samkomuhúsinu á morgun, föstudag. Þetta er einn besti og eitraðasti gamanleikur allra tíma. Nú eru 100 ár frá því að þessi óborganlegi farsi Feydeau kitlaði fyrst hláturtaugar áhorfenda og hóf sannkallaða sigurför um heiminn. LA fagnar tímamótunum með sinni fyrstu uppsetningu á þessu vinsæla verki og í glænýrri leikgerð Gísla Rúnars Jónssonar en leikstjóri er María Sigurðardóttir. Meðal leikara: Guðjón Davíð Karlsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Hallgrímur Ólafsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Viktor Már Bjarnason, Atli Þór Albertsson, Linda Ásgeirsdóttir, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Tinna Lind Gunnarsdóttir, Randver Þorláksson, Valdimar Örn Flygering, Aðalsteinn Bergdal, Þráinn Karlsson og Árni Tryggvason en þeir tveir síðastnefndu skipta hlutverkinu á milli sín.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/moguleikar-folgnir-i-godri-djupri-hofn-i-hjarta-baejarins
Möguleikar fólgnir í góðri djúpri höfn í hjarta bæjarins Baldvin H. Sigurðsson og Kristín Sigfúsdóttir bæjarfulltrúar VG lögðu fram bókun á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í gær vegna framtíðarskipulags við Torfunef. Þar benda þau á möguleika sem fólgnir eru í góðri djúpri höfn í hjarta bæjarins. "Það að reka niður stálþil við Torfunef þar sem stór skip, skútur og bátar geta legið gefur mörg framtíðartækifæri tengd atvinnu- og tómstundalífi. Jafnvel er hægt að byggja bryggjur sem þjóni sem viðlegukantar fyrir menningarminjar og ferðaþjónustufley, svo sem Húna II og gömul sögufræg skip Landhelgisgæslunnar, flotans og Slysavarnafélagsins. Þau Baldvin og Kristín telja að kanna eigi alla möguleika til að hafa bryggjur og viðleguból í "Dokkinni" við Torfunef og kanna í því skyni hvort "síki" verði tengt því, eða alfarið aflagt. "Við bendum á sívaxandi möguleika í ferðaþjónustu og íþróttum með siglingum eða minjum og menningarverðmætum tengdum siglingum og aðstöðu við sjóinn."
https://www.vikubladid.is/is/frettir/annir-i-sjukraflugi-hja-slokkvilidi-akureyrar
Annir í sjúkraflugi hjá Slökkviliði Akureyrar Talsverðar annir hafa verið í sjúkraflugi hjá Slökkviliði Akureyrar í dag. Þegar hefur verið óskað eftir sjúkraflugi fjórum sinnum frá miðnætti og eru sjúkraflutningamenn frá Slökkviliði Akureyrar og Flugfélagið Mýflug að sinna því fjórða. Í janúar var farið í 37 sjúkraflug og fluttur 41 sjúklingur í þessum ferðum. Slökkvilið Akureyrar er búið að sinna sjúkraflugi í 10 ár og hafa liðsmenn farið í 2.355 sjúkraflug á því tímabili.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/bornin-heimsaekja-fyrirtaeki-og-syngja-fyrir-starfsfolk
Börnin heimsækja fyrirtæki og syngja fyrir starfsfólk Það lifnaði heldur betur yfir bæjarlífinu á Akureyri í morgun, öskudag. Yngstu bæjarbúarnir rifu sig á fætur fyrir allar aldir, klæddu sig í hina ýmsu búninga, máluðu sig í framan og héldu út í daginn í misjafnlega stórum hópum. Börnin hafa frá því snemma í morgun heimsótt fyrirtæki og stofnanir, sungið fyrir starfsfólk og viðskiptavini og fengið sælgæti í poka að launum. Líkt og venjulega verður svo kötturinn sleginn úr tunnunni á Ráðhústorgi kl. 10.30.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/nymjolk-oedlilega-odyr-midad-vid-adrar-drykkjarvorur
Nýmjólk óeðlilega ódýr miðað við aðrar drykkjarvörur "Það hefur verið vinsælt hjá þeim sem gagnrýna verð á landbúnaðarvörum að bera saman verð til neytenda hér á landi og annarsstaðar í veröldinni. Nú hafa landbúnaðarvörur hækkað mikið á heimsmarkaði, sem gerir það að verkum að verðmismunur búvöru hér er minni en á mörgum öðrum vöruflokkum. Við getum hæglega rökstutt að flestar búvörur geti hækkað nokkuð í verði. Nýmjólk er t.d. óeðlilega ódýr ef miðað er við aðrar drykkjarvörur. Verum óhrædd við að halda fram gæðum okkar framleiðslu og eðlilegt sé að góðar vörur séu frekar dýrar," segir Sigurgeir Hreinsson formaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar í hugvekju á vefsíðu Búgarðs. Sigurgeir nefnir einnig að á undanförnum árum hafi verið miklar framkvæmdir og fjárfestingar hjá bændum, sem geri það að verkum að hinir geysiháu vextir sem eru hér á landi hafi mikil áhrif á afkomu búanna. "Ef litið er til all margra liðinna ára er umtalsverður munur á, hvað hagstæðara hefur verið að taka lán í erlendum myntum heldur en hinni íslensku krónu með þeim verðbótum sem því fylgja. Ýmsir aðrir kostnaðarliðir búrekstrar hafa hækkað mikið á liðnum mánuðum og eru enn á stöðugri uppleið svo sem kjarnfóður og vörur unnar úr olíu. Ástæða hækkunarinnar á kjarnfóðri er geysileg hækkun á allri kornvöru á heimsmarkaði, en lítið er talað um að á seinustu mánuðum hefur fiskbeina- og loðnumjöl lækkað í verði. Einnig eru fram komnar ógnvænlegar hækkanir á áburði. Það er umhugsunar vert að söluaðilar boða umtalsvert meiri hækkanir heldur en raunin er í nágrannalöndum okkar. Það hlýtur að vera nauðsynlegra en nokkru sinni að vanda áburðarpöntun og dreifingu og nýta ráðunauta til leiðbeininga," segir Sigurgeir ennfremur.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/gistinottum-fjolgadi-hlutfallslega-mest-a-nordurlandi-i-desember
Gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mest á Norðurlandi í desember Gistinætur á hótelum í desember síðastliðnum voru 54.200 en voru 53.600 í sama mánuði árið 2006. Gistinóttum fjölgaði því um rúmlega 1% á milli ára á landinu öllu en sé hver landshluti skoðaður er um talsverðar breytingar að ræða. Hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Norðurlandi, úr 1.800 í 2.200 eða um tæp 24%. Gistinóttum á Suðurlandi fjölgaði í desember um tæp 20% á milli ára, úr 2.700 í 3.200. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum í desember um rúmt 1% frá fyrra ári, úr 43.300 í 43.700. Á Austurlandi fækkaði gistinóttum í desember hins vegar um tæp 54% á milli ára, eða úr 1.300 í 600. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða voru 4500 gistinætur í desember 2007 sem er sami fjöldi og árið áður. Fjölgun gistinátta á hótelum í desember má rekja til Íslendinga, gistinóttum Íslendinga fjölgar um 21% en gistinóttum útlendinga fækkar um 8% á milli ára, segir í frétt frá Ferðamálastofu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/felag-kartoflubaenda-gefur-ut-baekling-med-uppskriftum
Félag kartöflubænda gefur út bækling með uppskriftum „Ég er alin upp við kartöflur, það má segja að lífið hafi snúist um kartöflur allt frá æskuárum," segir Sigríður Valdís Bergvinsdóttir frá Áshóli í Grýtubakkahreppi en þar hafa foreldrar hennar stundað kartöflurækt í áraraðir. Í tilefni þess að Sameinuðu þjóðirnar hafa tileiknað árinu 2008 kartöflunni stendur Félag kartöflubænda fyrir útgáfu á veglegum bæklingi hvar verður að finna 10 uppskriftir þar sem kartöflur koma mjög við sögu. Bæklingurinn kemur út innan tíðar, um miðjan febrúar en Sigríður er potturinn og pannann í útgáfunni og hefur því í nógu að snúast þessa dagana. Sigríður er höfundur allra uppskriftanna, „þetta hefur smám saman verið að þróast, ég hef kartöflur með öllum mat, eða jafnvel sem aðalfæðu en þær er hægt að útbúa á margvíslega vegu, í bökur, gratin, súpur, þær má sjóða og steikja, nota í salöt og nú er ég farin að nota þær við gerbakstur. Það kemur einstaklega vel út, þær eru mjölmiklar og bollurnar og bauðið verður einstaklega gott þegar kartöflurnar bætast við," segir hún. Meðal þess sem verður að finna í bæklingnum er uppskrift af fjallagrasabrauði sem síðustu sumur hefur verið á boðstólnum í kaffistofu Laufáss, en hún er upphaflega ættuð frá ömmu Sigríðar. „Ég hef svo aðeins þróað hana og að sjálfsögðu bætt út í hana kartöflum!" Hún nefnir einnig að sífelld þróun sé í gangi og sem dæmi er Sigríður nú farin að nota kartöflur við kökubakstur. Uppskriftir af því tagi má finna í bæklingnum. Auk uppskriftanna fá ýmsir fróðleiksmolar að fylgja með og þá segja nokkrir valinkunnir Íslendingar „kartöflusögur" eða greina frá áliti sínu á þessari meinhollu afurð. Í þeim hópi er einkaþjálfarinn Arnar Grant, leikarinn Guðjón Davíð Karlsson, sveitungi Sigríðar, Valgarður Egilsson læknir, og Solla á Grænum kosti svo einhverjir séu nefndir. Kartöflur segir hún holla og góða vöru, ferskar afurðir án aukaefna og þær er hægt að matreiða á fjölbreyttan hátt. „Kartöflur eru mjög góður kostur, það er auðvelt að rækta þær, þær eru hollar og ódýrar. Við vonum auðvitað að viðtökurnar verði góðar og landsmenn borði meira af kartöflum," segir Sigríður. Vissulega segir hún Íslendinga duglega að borða kartöflur og oftast nær klárist framleiðslan en kartöflubændur vilji fyrir alla muni minna á sig og afurð sína með þessum hætti, en það er Félag kartöflubænda sem stendur að útgáfunni og tilefni sem fyrr segir Ár kartöflunnar. „Þar á bæ vildu menn vekja með einhverjum hætti athygli á kartöflunni," segir Sigríður. Bæklingurinn verður gefinn út í 50 þúsund eintökum fyrsta kastið og mun liggja frammi í kartöflurekkum verslana um land allt. „Þetta hefur verið mjög skemmtilegt verkefni og allir sem ég hef leitað til vegna útgáfunnar hafa verið einstaklega jákvæðir og viljað leggja sitt af mörkum," segir Sigríður.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/oryggismal-hestamanna-raedd-a-radstefnu-a-akureyri
Öryggismál hestamanna rædd á ráðstefnu á Akureyri Landssamband hestamannafélaga heldur ráðstefnu á Akureyri um öryggis- og skipulagsmál hestamanna þann 8. febrúar nk. Ráðstefnan verður haldin í Íþróttahöllinni á Akureyri og hefst klukkan 16.30. Tilgangur ráðstefnunnar er að fjalla um öryggismál hestamanna í ljósi tíðra slysa á hestamönnum undanfarið og þeirrar staðreyndar að stöðugt þrengir að svæðum hestamanna við þéttbýli sem hefur skapað aukna slysahættu. Ráðstefnunni er ætlað að ræða um og skilgreina áhættuþætti í þessu sambandi og hvernig hægt er að vinna að skipulagsmálum hestamanna til framtíðar m.t.t. öryggissjónarmiða.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/faranlegt-ad-setja-svo-fallegt-svaedi-undir-idnadarhverfi
Fáránlegt að setja svo fallegt svæði undir iðnaðarhverfi „Ég veit ekki hvert við flytjum þar sem þetta er svo nýbúið að gerast en okkur þykir að sjálfsögðu mjög leitt að þurfa að flytja úr þessu húsi," sagði Kristján Þórðarson, ábúandi á Ytra-Krossanesi til 18 ára. Hann og kona hans, Svanhildur Leósdóttir, þurfa að flytja úr húsinu innan sex mánaða þar sem Akureyrarbær hefur sagt upp leigusamningi við þau frá og með 1. febrúar nk. Ástæða uppsagnarinnar er að samkvæmt gildandi aðalskipulagi Akureyrar fyrir árin 2005-2018 er gert ráð fyrir því að svæðið við Ytra-Krossanes verði nýtt sem iðnaðar- og athafnasvæði. Kristján sagði að þetta komi sér illa fyrir hann og ekki síður syni hans sem hafa verið með aðstöðu til bílaviðgerða á staðnum en missa nú aðstöðu sína. Þá sagði hann að sér þætti fáránlegt að svona fallegt svæði fari undir iðnaðarhverfi, þarna væri mun betra að hafa íbúabyggð í fallegu umhverfi.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/togarinn-gullver-dreginn-til-hafnar-a-akureyri
Togarinn Gullver dreginn til hafnar á Akureyri Togarinn Gullver NS var dreginn til hafnar á Akureyri nú fyrir stundu en bilun varð í gírbúnaði, skömmu eftir að togarinn hélt frá Akureyri. Gullver var í viðgerð í Slippnum en var á leið til heimahafnar á Seyðisfirði. Togarinn var kominn á móts við Svalbarðseyri þegar bilunin varð og var Sleipnir, dráttarbátur Hafnasamlags Norðurlands, sendur til að draga til hann til hafnar og liggur togarinn nú við Tangabryggju.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/godtemplarareglan-a-akureyri-gefur-fsa-50-milljonir-krona
Góðtemplarareglan á Akureyri gefur FSA 50 milljónir króna Góðtemplarareglan á Akureyri afhenti í dag Sjúkrahúsinu á Akureyri 50 milljónir króna að gjöf til stofnunar á sérstökum sjóði sem varið verður til kaupa á tækjum og búnaði til greiningar og meðferðar hjartasjúkdóma á FSA. Fram kom í máli Halldórs Jónssonar forstjóra FSA við þetta tækifæri að hér væri um ræða eina af stærstu ef ekki stærstu gjöf sem sjúkrahúsið hefur fengið frá upphafi. Það var Árni Valur Viggósson, stjórnarformaður Góðtemplarareglunnar á Akureyri, sem afhenti gjöfina. Góðtemplarareglan á Akureyri var stofnuð 10. janúar 1884 á heimili Friðbjörns Steinssonar bóksala Aðalstræti 46 á Akureyri. Stúkustarf í bænum var með miklum blóma í á annað hundrað ár og var það undirstaða forvarna- og mannúðarstarfs sem og menningar- og listastarfsemi í bæjarfélaginu um langt árabil. Til að standa straum af umfangsmiklu starfi sínu stofnuðu stúkurnar til ýmis konar fyrirtækjareksturs og byggðu stórhýsi undir starfsemina. Þau setja enn þann í dag sterkan svip á bæjarmyndina og má þar nefna Samkomuhúsið, Skjaldborg og Borgarbíó. Þá áttu og ráku stúkurnar einnig Hótel Varðborg um langt skeið. Nýjar leiðir og áherslur ráða nú ferðinni á því sviði sem Góðtemplarareglan starfaði. Fyrirtæki hennar og hús hafa verið seld og hluti andvirðis þeirra verið notaður til að gera upp Friðbjarnarhús við Aðalstræti. Þar hafa stúkurnar komið upp safni yfir hið merkilega starf sitt og er nú verið að leggja lokahönd á enduruppbyggingu þess. Þeir fjármunir sem eftir eru af tæplega 125 ára starfi Góðtemplarareglunnar á Akureyri hafa nú verið afhentir Sjúkrahúsinu á Akureyri.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/hald-lagt-a-fikniefni-a-akureyri-1
Hald lagt á fíkniefni á Akureyri Lögreglan á Akureyri stöðvaði bifreið aðfararnótt sl. sunnudags þar sem hún var vanbúin til vetraraksturs og einnig var einum farþega ofaukið í bifreiðinni. Í bifreiðinni reyndust vera aðilar sem þekktir eru af neyslu og meðferð fíkniefna. Við nánari athugun fundust um fjögur grömm af amfetamíni í hanskahólfi bifreiðarinnar og eitt gramm á einum farþeganum. Allir aðilarnir voru handteknir og færðir á lögreglustöð og fundust þá sextán grömm af amfetamíni í viðbót á öðrum farþega sem hann hafði falið innanklæða og viðurkenndi hann að hafa ætlað efnið til sölu. Við húsleit fundust svo tæp fjögur grömm í viðbót og voru því haldlögð tæp tuttugu og fimm grömm alls. Við málið naut lögreglan á Akureyri aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra, segir á vef lögreglunnar.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/fyrsta-skurdadgerdin-a-fyrstu-einkastofunni-a-akureyri
Fyrsta skurðaðgerðin á fyrstu einkastofunni á Akureyri Starfsemi Læknastofa Akureyrar er komin í gang á 6. hæð í Krónunni við Hafnarstræti og í síðustu viku var framkvæmd þar fyrsta skurðaðgerðin á þessari fyrstu einkaskurðstofu utan höfuðborgarsvæðisins. Guðni Arinbjarnar bæklunarskurðlæknir framkvæmdi hnéaðgerð ásamt þeim Helgu Magnúsdóttur svæfingalækni og Soffíu Jakobsdóttur hjúkrunarfræðingi. Aðgerðin tókst vel og í kjölfarið fylgdu tvær minni háttar skurðaðgerðir til viðbótar. Alls koma sex læknar að starfseminni í Krónunni, m.a. bæklunarskurðlæknir, þvagfæraskurðlæknir, kvensjúkdómalæknir, lýtalæknar og svæfingalæknir. Að auki starfa þar fjórir starfsmenn í fimm stöðugildum til viðbótar en nær allt starfsfólkið starfar einnig á FSA. Þá er stefnt að því að bjóða fleiri læknum að nýta þá aðstöðu semi boði er hjá Læknastofum Akureyrar. Guðni segir að þessi nýja starfsemi hafi fengið góðar viðtökur, eftirspurnin verið meiri en hann átti von á og hann lítur björtum augum á framtíðina. "Við erum að gera aðgerðir sem framkvæmdar hafa verið að á FSA en teljum okkur geta framkvæmt þær hér á hagkvæmari hátt. Á FSA geta menn þá einbeitt sér að stærri aðgerðum sem henta betur þar," sagði Guðni.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/adstada-i-fangelsinu-a-akureyri-batnar-til-mikilla-muna
Aðstaða í Fangelsinu á Akureyri batnar til mikilla muna Aðstaða Fangelsisins á Akureyri batnar til mikilla muna innan tíðar en nú standa yfir heilmiklar endurbætur á eldri hluta þess auk þess sem reist hefur verið ný viðbygging. Iðnaðarmenn vinna nú af kappi innandyra en stefnt er að því að opna nýja fangelsið í næsta mánuði. Gestur Davíðsson hefur tekið við stöðu varðstjóra þess. „Þetta verður allt annað líf og betra," segir hann, en fangelsið nýja verður 537 fermetrar að stærð auk yfirbyggðs garðs sem er 152 fermetrar að stærð. Vinnuaðstaða fangavarða verður önnur og betri en var, rýmri og að auki verður ný tækni tekin í notkun sem auðveldar starfið. Alls verða 10 klefar í fangelsinu, 11,5 fermetrar hver og er salerni og sturta inni á hverjum þeirra. Einn hinna nýju klefa er sérhannaður með þarfir fatlaðra í huga, þar getur aðili í hjólastól athafnað sig, en þetta er fyrsti sérhannaði fangaklefinn fyrir fatlaða hér á landi. Góð aðstaða verður til líkamsræktar og verða fangar hvattir til að nýta sér þá aðstöðu að sögn Gests. Þá verður yfirbyggður garður til suðurs, helmingi stærri en sá sem áður var. „Við erum með ýmsar hugmyndir varðandi garðinn, m.a. þá að setja á hann gervigras, en möguleikarnir eru fjölmargir," segir Gestur og á ekki von á öðru en að garðurinn verði vel nýttur. Vinnuherbergi verður einnig í nýjum húsakynnum en að sögn varðstjóra er stefnt að því að í boði verði vinna fyrir fanga. „Við erum að hugsa um ýmislegt í þeim efnum, t.d. pökkunarvinnu af ýmsu tagi." Hann segir að fangavörðum sé ætlað að afla verkefna og vinna við það muni hefjast innan tíðar. „Við höfum augun opin og munum fara á fullt í þessu máli þegar nær dregur opnun." Tilvalið væri fyrir félagasamtök og hópa eða bara hvern sem er að hafa samband ef leysa þarf verk sem ekki krefst mikills útbúnaðar eða tækni. Stefnt er að því að fangar sjái sjálfir um að elda mat að hluta til. Þeim verði áætluð upphæð sem jafngildir matarkostnaði og verði svo unnið út frá því. Þá verður ætlast til að allir taki þátt í matseld og frágangi. „Við förum hægt og rólega af stað og sjáum til hvernig til tekst, auðvitað vonum við að þetta fyrirkomulag gefist vel, þetta er hluti af ákveðinni lífsleikni, að standa sig í stykkinu," segir Gestur. Í kjallara hússins er sérstakt heimsóknarherbergi þar sem nánustu ættingjar geta komið í heimsókn. Eins er þar kennslustofa en stefnt er að því að bjóða föngum upp á kennslu í framtíðinni. Segir Gestur mikinn vilja standa til þess, en ýmis ljón þó á veginum. Eitt þeirra það að menn komi og fari á mismunandi tímum, og ekki alltaf í samræmi við annir skólanna. Vonandi verður hægt að koma á móts við þá sem hug hafa á að mennta sig. „Ég vona bara að við finnum flöt á málinum þegar fram líða stundir," segir Gestur. Kennsluherbergið segir hann einnig nýtast til námskeiðahalds af ýmsu tagi eða fyrirlestra, og að sjálfsögðu AA funda. „Það má nýta það í eitthvað uppbyggilegt, en um þetta snýst málið, að opna föngum nýja sýn og bæta lífsleikni þeirra." Í kjallara fær fangelsið að auki hluta af bílageymslu lögreglunnar sem örugglega verður hægt að nýta á margvíslegan hátt. „Við vonum að fangar hafi það mikið að gera yfir daginn að þeir sofni þreyttir að kvöldi. Hingað munu koma fangar sem hafa hug á að bæta líf sitt, menn sem ekki eru í neyslu eða háðir vímuefnum," segir Gestur um þá menn sem afplána munu sína dóma í Fangelsinu á Akureyri. Áður voru fangaverðir við Fangelsið á Akureyri fjórir talsins, en verða 6 eftir breytingar. Auglýst var eftir fangavörðum á dögunum og bárust yfir 30 umsóknir, en Gestur segir áhugann fyrir starfinu mikinn. Sjálfur hefur hann starfað sem fangavörður í 6 ár. Gestur segir að mikil eftirvænting ríki meðal fangavarða nú þegar hillir undir að nýtt og betra fangelsi verði opnað. „Okkar væntingar eru þær að geta komið til móts við þarfir ólíkra einstaklinga og að við berum gæfu til að koma þeim til betri vegar. Þetta er ágætt starf og mjög gefandi þegar maður sé að fólk nær sér á strik og snýr blaðinu við, en að sama skapi fyllist maður vitanlega stundum vonleysi þegar sömu mennirnir koma kannski ár eftir ár," segir Gestur. „En við munum reyna að gera eins vel og við getum, við komum tvíefld til leiks á ný og ætlum að leggja okkur fram um að vinna vel."