Search is not available for this dataset
url
stringlengths 21
288
| text
stringlengths 1
1.35M
|
|---|---|
https://www.akureyri.is/is/frettir/foss-trekt-og-flaekja
|
Foss, Trekt og Flækja
Mikil og góð stemning var í Sundlaug Akureyrar í dag þegar nýju vatnsrennibrautirnar voru teknar í notkun. Tilkynnt var um úrslit í nafnasamkeppni fyrir brautirnar og fengu þau sem lögðu til nöfnin sem voru valin að fara fyrstu ferðina hvert í sína brautina.
Tveir lögðu til nafnið Trektin á brautina sem er líkust trekt í laginu. Það voru þær Stefanía Sigmundsdóttir og Bryndís Anna Magnúsdóttir og var Bryndís valin til að renna sér fyrst í þeirri braut. Sex mæltu með að langa brautin fengi nafnið Flækjan. Það voru þær Kristrún og Arnheiður saman, Sigrún Stefánsdóttir, Sigríður Ragnarsdóttir, Lilja Hilmisdóttir og Hanna Þórey Guðmundsdóttir og var Hanna Þórey svo heppin að nafn hennar var dregið úr pottinum. Loks var Kristjana Mjöll Víðisdóttir ein með tillöguna um að litla brautin fengi heitið Fossinn og renndi hún sér fyrst í Fossinum.
Sundfélagið Óðinn bauð upp á pylsur og Trópí á bakkanum, blásturssveit lék nokkur lög og síðan tók við plötusnúður sem lét vinsælustu lög dagsins í dag óma yfir sundlaugarsvæðið.
Veðrið var eins og best verður á kosið og biðraðir mynduðust strax í nýju vatnsrennibrautirnar.
Opið er til miðnættis í kvöld í Sundlaug Akureyrar og einnig á morgun, föstudaginn 14. júlí.
Mynd: Axel Þórhallsson.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/midaldadagar-um-helgina-1
|
Miðaldadagar um helgina
Hvernig væri að bregða sér til miðalda? Kannski til ársins 1317? Það er hægt á Gásum rétt utan við Akureyri á Miðaldadögum 14. til 16. júlí. Gásir var einn helsti verslunarstaður á Norðurlandi á miðöldum frá c.a 1100-1600. Hvergi eru varðveittar jafnmiklar mannvistarleifar frá verslunarstað frá þessum tíma. Árlega færist líf og fjör í verslunarstaðinn sem er endurskapaður á tilgátusvæði með tilheyrandi miðaldamannlífi. Hátíðin hefur verið haldin árlega síðan 2003. Í fyrstu voru þar 3 konur í einu tjaldi en í ár verða þar um 90 Gásverjar við leik og störf og búist er við um 2.000 gestum.
Á Miðaldadögum gefst tækifæri til að upplifa fortíðina og verslunarstaðinn á blómatíma hans, hitta Gásverja, kynnast handverki og daglegum störfum, jafnvel fá að prófa eitt og annað. Boðið er upp á leiðsagnir um forleifasvæðið þrisvar á dag, Vandræðaskáld verða ekki með vandræði heldur leikrænar sögustundir. Það slær hins vegar reglulega í brýnu milli bardagamanna Rimmugígs og meðlimir Handraðans bregða einnig á leik með söng. Gapastokkurinn verður óspart nýttur fyrir glæpamanninn og gefst gestum tækifæri til að grýta hann með eggjum. Þó ekki fúlum þótt hann verði fúll.
Auk viðburðanna verða fjölmargir handverksmenn að störfum og tónlistarfólk glæðir svæðið lífi í takt við leikþætti og taktfastan slátt eldsmiða. Annálaritari Gása hanterar skinn og saman búa gestir og Gásverjar til nýjan kafla í annál þessarar skemmtilegu fortíðarhátíðar.
Aðgangsnisti gildir alla þrjá miðaldadagana sem eru 14.-16. júlí frá kl. 11-17.
Nánari upplýsingar á www.gasir.is og á facebook síðu miðaldadaga á Gásum.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/deiliskiulagsbreytingar-nidurstada-baejarstjornar
|
Deiliskipulagsbreytingar - niðurstaða bæjarstjórnar
Hrísey, deiliskipulag hafnarsvæðis
Svæðið sem breytingum tekur nær til hafnar- og miðsvæðis Hríseyjar. Tillagan gerir m.a. ráð fyrir afmörkun og fjölgun lóða, skilgreiningu á fyrirkomulagi gatna, bílastæða, útivistar- og almenningssvæða, göngustíga og gangstétta.
Tillagan var auglýst frá 22. febrúar til 5. apríl 2017. Athugasemdir bárust sem leiddu til þeirrar breytingar að nokkrum heitum og númerum á lóðum var breytt.
Skilgreind verður lóð fyrir tjaldsvæði við Austurveg 4, heimilað að fjarlægja núverandi skúrbyggingu á lóðinni og skilgreindur byggingarreitur fyrir þjónustuhús. Gert er ráð fyrir sjósundssvæði, með m.a. heitum pottum, við sjóvarnargarðinn á móts við tjaldsvæðið.
Bætt er við göngustíg á milli tjaldsvæðis og Sæborgar við Austurveg til að tengja sjósundsvæði betur við íþróttamiðstöð og sundlaug Hríseyjar.
Bætt er við kvöð á lóð við Austurveg 6 (Sæborg) um aðgengi að tjaldsvæði við Austurveg 4.
Bætt er við lóð fyrir núverandi geymsluhús við Sjávargötu og verður lóðin við Sjávargötu 3.
Gert er ráð fyrir móttöku á ýmsum úrgangi sem fellur til á eyjunni á lóð við Hafnargötu 2. Á lóðinni er gert ráð fyrir lítilli starfsmannabyggingu og því er bætt við byggingarreit og skilmálum fyrir bygginguna.
Bætt er við upplýsingum um friðuð hús á uppdráttinn.
Bætt er við núverandi fráveitulögnum á uppdráttinn.
Hafnarstræti 26 - deiliskipulagsbreyting
Skipulagssvæðið sem breytingum tekur nær til Hafnarstrætis 26 og 32. Tillagan gerir ráð fyrir byggingu þriggja fjölbýlishúsa á lóðinni Hafnarstræti 26.
Tillagan var auglýst frá 24. maí til 5. júlí 2017. Athugasemd barst sem leiddi til þeirrar breytingar að bílastæðum var fjölgað á lóðinni Hafnarstræti 32.
Deiliskipulagstillögurnar verða sendar til Skipulagsstofnunar og taka þær gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.
Þeir sem óska nánari upplýsinga um tillögurnar og niðurstöðu bæjarstjórnar, geta snúið sér til skipulagssviðs, Akureyrarkaupstaðar, Geislagötu 9, 3. hæð.
17. júlí 2017
Sviðsstjóri skipulagssviðs
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/beint-flug-fra-bretlandi-til-akureyrar-naesta-vetur
|
Beint flug frá Bretlandi til Akureyrar næsta vetur
Breska ferðaskrifstofan Super Break mun á næstu dögum hefja sölu á ferðum til Norðurlands með beinu flugi frá Bretlandi. Þetta verður í fyrsta sinn sem boðið verður upp á beint flug til Akureyrar frá Bretlandi, en flogið verður alls átta sinnum frá átta mismunandi flugvöllum víðsvegar um Bretland. Þeirra á meðal eru Newcastle, Liverpool, Leeds, Bradford og Bournemouth. Samtals verður pláss fyrir um 1.500 farþega í þessum ferðum.
Fyrst um sinn verður boðið upp á átta ferðir, allar í janúar og febrúar á næsta ári, en sérstök áhersla verður lögð á norðurljósaferðir. Boðið verður upp á þriggja til fjögurra nátta ferðir og auk gistingar verður boðið upp á ferðir í Mývatnssveit. Ferðamennirnir geta svo bætt við ferðina eftir eigin óskum, til dæmis með heimsókn í Bjórböðin, hvalaskoðun eða hestaferðir svo eitthvað sé nefnt.
Þessar ferðir Super Break eru viðbragð við vaxandi eftirspurn eftir ferðum til Íslands, en þetta er í fyrsta skipti sem ferðaskrifstofan býður upp á sitt eigið leiguflug. Ánægjulegt er að sjá að svo virðist sem áhugi Breta á Íslandi fari síst dvínandi þrátt fyrir gengisbreytingar og sömuleiðis er það fagnaðarefni að verið sé að fljúga með ferðamenn til Akureyrar á vetrartíma en Markaðsstofan hefur markvisst unnið að því að fá fleiri ferðamenn á Norðurland yfir veturinn.
„Þetta er eitthvað sem við höfum ekki gert áður og sýnir hversu ákveðin við erum í að bjóða upp á einstakar og áhugaverðar ferðir. Við vitum að það er ekki hægt að fljúga beint til Norðurlands frá Bretlandi og vonumst þess vegna eftir því að okkar sölufulltrúar geti nýtt sér hvað þetta er einstakt. Eftirspurnin eftir norðurljósaferðum er mikil og það skemmtilega við þessar stuttu ferðir okkar er hvað þær bjóða líka upp á margt annað skemmtilegt og spennandi,“ segir Chris Balmforth, sölustjóri hjá Super Break.
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir að Norðurland sé besta svæðið á landinu til að sjá Norðurljós. „Veðuraðstæður eru þannig að mjög góðar líkur eru á því að sjá norðurljósin hér og það heillar okkar gesti. Vetrarferðamennska hefur farið vaxandi síðustu ár, enda margt spennandi sem hægt er að gera og margir staðir sem eru ótrúlega fallegir á veturna,“ segir Arnheiður.
Mynd: Auðunn Níelsson.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/vatnsrennibrautirnar-sla-i-gegn
|
Vatnsrennibrautirnar slá í gegn
Segja má að biðraðir hafi verið í nýju vatnsrennibrautirnar í Sundlaug Akureyrar frá því þær voru opnaðar. Ef borin er saman aðsókn í sundlaugina fyrir og eftir vígslu brautanna kemur í ljós að hún hefur aukist um ríflega 300%.
„N1 fótboltamótið var haldið helgina fyrir vígsluna og þá var pakkað hjá okkur alla dagana en ef við berum saman tvær venjulegar helgar, helgina fyrir N1 mótið og svo síðustu helgi, þá sést svart á hvítu að það hefur orðið algjör sprenging í aðsókninni,“ segir Ólafur Arnar Pálsson aðstoðarforstöðumaður Sundlaugar Akureyrar.
Frá föstudeginum 30. júní til mánudagsins 3. júlí voru gestir lauganna 1.574 en þeir voru hvorki fleiri né færri en 5.105 frá föstudeginum 14. júlí til mánudagsins 17. júlí sem er 324% aukning. Varla þarf að velkjast í vafa um að það eru nýju vatnsrennibrautirnar Flækjan, Trektin og Fossinn sem skýra mest af þessari aukningu og má því segja að þær hafi slegið hressilega í gegn.
Rétt er að geta þess að engar vatnsrennibrautir hafa verið við sundlaugina í sumar fram að vígslu þeirra nýju og því sýnir þessi gríðarlega aukning e.t.v. fyrst og fremst hversu vinsælar vatnsrennibrautir yfir höfuð eru. Ef við hins vegar berum saman aðsókn á sama tíma síðasta sumar og núna, þá kemur í ljós að hún hefur aukist um tæp 60% og munar um minna.
Mynd: Daníel Starrason.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/staersta-skatamot-islandssogunnar
|
Stærsta skátamót Íslandssögunnar
Stærsta skátamót Íslandssögunnar verður haldið víðsvegar um landið, meðal annars á Akureyri, frá 25. júlí til 2. ágúst. Þá taka fleiri en 5.000 skátar frá 95 löndum þátt í hinu alþjóðlega skátamóti World Scout Moot. Mótið er fyrir þátttakendur á aldrinum 18-25 ára. Þetta er í 15. skipti sem slíkt mót er haldið og nú á Íslandi.
Um er að ræða eitt stærsta einstaka verkefni skátahreyfingarinnar í 100 ára sögu hennar á Íslandi og jafnframt stefnir í stærsta heimsmót eldri skáta sem haldið hefur verið frá því að fyrsta mótið var haldið 1931. Mótið er að öllu jöfnu haldið á fjögurra ára fresti, á mismunandi stöðum um heiminn hverju sinni.
Mótið verður sótt af fleiri en 5.000. Um 450 Ástralir, 360 Svisslendingar og 300 Brasilíumenn mæta til leiks, 85 frá Hong Kong og meira að segja munu mæta 15 frá Suður Afríku. Langstærsti hópurinn kemur frá Bretlandi eða um 650 manns. Um 100 íslenskir skátar taka þátt í mótinu. Fleiri en 300 íslenskir skátar hafa sinnt undirbúningi og skipulagningu mótsins frá árinu 2013 og vinna að því að gera upplifun þátttakenda ógleymanlega.
Þema mótsins er Change – Inspired by Iceland. Þemað er hægt að nýta á margvíslegan hátt en það passar vel við það markmið skátanna um að gera heiminn að betri stað. Þátttakendur munu setja sér persónulegar áskoranir áður en komið er til Íslands sem þeir ætla að læra eða gera á mótinu og taka svo með sér heim til að efla sitt samfélag.
Mótið verður sett í Laugardalnum í Reykjavík. Í framhaldinu dreifast þátttakendur á ellefu miðstöðvar víðsvegar um landið. Miðstöðvarnar eru í Reykjavík, Akureyri, Hafnarfirði, Þingvöllum, Skaftafelli, Heimalandi, Vestmannaeyjum, Selfossi, Akranesi, Hveragerði og í Hólaskjóli. Þar munu þátttakendur taka þátt í fjölbreyttri dagskrá sem snýst um ævintýri og virkni, menningu og umhverfi. Þeir munu einnig leggja samfélaginu lið með 20.000 vinnustundum í sjálfboðavinnu fyrir nærsamfélög einstakra miðstöðva, slík verkefni eru t.d. göngustígagerð, hreinsun stranda, leikir fyrir börn svo fátt eitt sé nefnt.
Nánari upplýsingar um mótið.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyri-i-fyrsta-saeti
|
Akureyri í fyrsta sæti
Veftímaritið Condé Nast Traveler’s kaus Akureyri sem áfangastað nr. 1 í flokki sem það kallar „minna þekktar hafnir“ eða „Where to Cruise in 2018: 8 Lesser-Known Ports". Í greininni er sjónum beint að 8 höfnum víðsvegar um heiminn sem taka á móti sífellt fleiri skemmtiferðaskipum og lesendur hvattir til að heimsækja sem fyrst. Bent er á gífurlegan vöxt í komum lágjaldaflugfélaga til suðvesturhornsins, mikinn fjölda ferðamanna þar og tækifærið sem felst í að heimsækja Akureyri nú.
Nefnd eru nokkur sérkenni og möguleikar svæðisins; einn lengsti fjörður landsins, miðnætursólin, fjöldi viðburða, Jarðböðin við Mývatn og heimsókn í Grímsey og yfir heimskautsbauginn.
Skoða má greinina í heild sinni og þá átta staði sem valdir eru á síðu tímaritsins http://www.cntraveler.com
Mynd: María Tryggvadóttir
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/a-hjolandi-ferd
|
Á hjólandi ferð
Um nýlokna helgi stóð Hjólreiðafélag Akureyrar fyrir Hjólreiðahelgi Greifans. Þetta er árviss viðburður sem fer stækkandi. Alls tóku rúmlega 200 keppendur þátt í þremur viðburðum. Í fjögurra ganga mótinu, sem er götuhjólamót frá Siglufirði til Akureyrar, tóku um 90 keppendur þátt, á Sumafögnuði Enduro Ísland voru þeir um 120 auk fjölda barna og unglinga sem hjóluðu götu- og torfæru brautir á Akureyri. Greifinn gerði 3 ára samstarfssamning við Hjólreiðafélag Akureyrar og tryggir þar með framhald viðburðarins næstu 3 árin.
Fleiri hjólaviðburðir eru framundan, því um verslunarmannahelgina verða þrjú mót á dagskrá hjá Hjólreiðafélagi Akureyrar sem eiga það öll sameiginleg að vera mjög áhorfendavæn. Á laugardaginn 5. ágúst verður Bikarmót í Downhill í Hlíðarfjalli sem byrjar kl. 14.00. Á sunnudaginn 6. ágúst leggja hjólreiðamenn undir sig Listagilið og keppa í svokölluðum brekkusprett sem er stutt útsláttarkeppni, þar sem hjólreiðafólk tekur á öllu sínu. Í beinu framhaldi er hið margfræga Townhill eða keppni í brekkubruni, þar sem kapparnir enda á því að koma niður Kirkjutröppurnar á ógnarhraða. Þannig að það verður af nógu að taka og mikið fjör.
Mynd: Ármann Hinrik
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/lokanir-gatna-a-fjolskylduhatidinni-ein-med-ollu-og-islensku-sumarleikunum
|
Lokanir gatna á Einni með öllu og Íslensku sumarleikunum
Fjölskylduhátíðin Ein með öllu og Íslensku sumarleikarnir hófust í dag og standa fram á sunnudagskvöld. Íbúar í bænum hafa líkt og áður verið hvattir til að skreyta í kringum sig með rauðum lit. Í boði á hátíðinni er stórglæsileg dagskrá jafnt fyrir unga sem aldna og munu fjölmargir listamenn taka þátt í að skemmta bæjarbúum og gestum. Einnig verða íþróttaviðburðir undir hatti Íslensku sumarleikanna, þar sem allur aldur fær að spreyta sig og það er mikið fagnaðarefni að viðburðurinn Mömmur og möffins verður á ný í Lystigarðinum, á laugardaginn kl 16-18. Hápunkturinn er Sparitónleikarnir sem verða á Samkomuhúsflötinni á sunnudagskvöld.
Lokanir gatna vegna viðburða eru óumflýjanlegar á umfangsmikilli dagskrá sem þessari og má sjá þær á kortinu hér að neðan. Allar upplýsingar um dagskrá Einnar með öllu er að finna á heimasíðunni einmedollu.is og einnig er upplagt að fylgjast með á Facebook.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/fjolbreytt-verslunarmannahelgi-a-akureyri
|
Ein með öllu og Íslensku sumarleikarnir á Akureyri
Ein af stærstu ferðahelgum ársins, verslunarmannahelgin, er framundan. Búast má við því að fjöldi fólks leggi leið sína til Akureyrar þar sem fram fara fjölskylduhátíðin “Ein með öllu” og Íslensku sumarleikarnir.
Dagskrá hátíðarinnar er mjög fjölbreytt og má sem dæmi nefna tívolí, Kirkjutröppuhlaup, tónleika í miðbænum þar sem fram koma m.a. KK Band, Gréta Salome og Páll Óskar, hæfileikakeppni unga fólksins, viðburðurinn Mömmur og Möffins hefur verið endurvakinn í Lystigarðinum, markaður á Ráðhústorgi, Íslandsmót í fjallabruni og Townhill kirkjutröppubrun á fjallahjólum.
Hápunktur helgarinnar er Sparitónleikarnir á leikhúsflötinni á sunnudagskvöldið þar sem fram koma m.a. KÁ – AKÁ, Aron Hannes, AmabAdama, 200.000 Naglbítar, Úlfur Úlfur og Rúnar Eff og hljómsveit. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 Pollurinn myndar svo fallegan bakgrunn fyrir kvöldið en rauð blys verða tendruð um borð í bátum sem sigla um svæðið og dagskránni lýkur á dúndrandi flugeldasýningu.
Allar upplýsingar um dagskrá helgarinnar og viðburði má finna inn á www.einmedollu.is einnig er hægt að fylgjast með á facebook.
Mynd: Linda Óladóttir
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/kertafleyting-i-minningu-helsprengju
|
Kertafleyting við Minjasafnstjörnina
Árleg kertafleyting verður við Minjasafnstjörnina á Akureyri miðvikudaginn 9. ágúst kl. 22. Samstarfshópur um frið stendur að fleytingunni og hvetur fólk til að fjölmenna. Ávarp flytur Logi Már Einarsson alþingismaður.
Í fréttatilkynningu segir: "Við minnumst helsprengjanna yfir Hiroshima og Nagasaki 1945. Jafnframt minnum við á og mótmælum sprengingum hervalda nútimans gegn Sýrlandi, Írak, Jemen, Afganistan og í Úkraínu. Hernaðarbandamenn Íslands eiga aðild að öllum þessum stríðum". Flotkerti fást á staðnum.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyrarvaka-nalgast-ertu-med-skemmtilega-hugmynd
|
Akureyrarvaka nálgast - ertu með skemmtilega hugmynd?
Það styttist óðum í Akureyrarvöku, afmælishátíð Akureyrarbæjar, en hún fer fram 25.-26. ágúst. Dagskráin verður sem fyrr með fjölbreyttu sniði. Það verða fastir dagskrárliðir svo sem setning í rómantískri stemningu í Lystigarðinu, tónleikar í Listagilinu, Friðarvaka í kirkjutröppum Akureyrarkirkju, Vísindasetur í Hofi og Draugaslóð en einnig fjöldi annarra viðburða þar sem m.a. listum og menningu fyrir alla aldurshópa er gert hátt undir höfði. Verkefnastjórar Akureyrarvöku eru Almar Alfreðsson og Hulda Sif Hermannsdóttir og þau vilja gjarnan fá sendar áhugaverðar hugmyndir frá almenningi – langar þig að taka þátt og hvaða hugmynd ertu með í kollinum? Endilega sendu línu í netfangið akureyrarvaka@akureyri.is og láttu í þér heyra. Hægt er að fylgjast með Akureyrarvöku á facebook og Instagram og dagskráin mun birtast á visitakureyri.is þegar nær dregur.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/oa-tilnefnd-til-evropskra-verdlauna-1
|
ÖA tilnefnd til evrópskra verðlauna
Öldrunarheimili Akureyrar eru tilnefnd til evrópskra verðlauna fyrir frumkvöðlastarf og samfélagslega nýsköpun í opinbera geiranum. Tilnefningin byggir á nýsköpunarverkefni um rafrænt umsjónarkerfi með lyfjaumsýslu hjá Öldrunarheimilum Akureyrar (ÖA). Verkefnið hófst árið 2014 með samstarfi ÖA og tveggja einkafyrirtækja, Þula – norrænt hugvit ehf. og Lyfjaver ehf.
Hugbúnaður sem gengur undir nafninu ALFA var tekin til prófunar hjá ÖA og verkefnið svo framlengt vegna frekari þróunar hugbúnaðarins. Með nýsköpunarverkefninu sáu samstarfsaðilar fram á framleiðniaukningu, hagræðingu, aukin gæði og öryggi í meðferð lyfja, minni sóun vegna fyrninga og bætt starfsumhverfi. Síðari hluti þessa verkefnis er enn í gangi og lýkur í árslok 2017en þar er unnið að sjálfvirknivæðingu pantana og lyfjaskammtana, innleiðingu á rafrænni skráningu á eftirritunarskildum lyfjum og rafrænu lyfjakorti sem er nýjung innan heilbrigðisþjónustunnar varðandi lyfjaumsýslu.
Meginmarkmið samstarfs ÖA, Þulu og Lyfjavers er að þróa ALFA kerfið og aðlaga það að þörfum dvalar- og hjúkrunarheimila þannig að samskipti milli þeirra og apóteka verði með rafrænum hætti. Tilefni þessa frumkvöðlastarfs og nýsköpunar er að bæta og rafvæða meðhöndlun lyfja sem hefur að stórum hluta verið unnið handvirkt og á pappírsformi, með því óhagræði og villuhættu sem því fylgir.
Góður árangur í ALFA verkefninu byggir á þverfaglegu samstarfi, þekkingu og reynslu starfsfólks innan ÖA, Þulu og Lyfjavers. Nú þegar liggja fyrir úttektir sem staðfesta tímasparnað, bætta nýtingu og hagkvæmara birgðahald, betra og öruggara upplýsingaflæði, aukið öryggi og bætta þjónustu fyrir íbúa og meiri starfsánægju. Samhliða hefur lyfjakostnaður ÖA lækkað á tveimur árum um 15% .
Tilnefning ÖA til viðurkenningar er í flokki um "aðgerðir í tengslum við samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og stuðla að frumkvöðlastarfsemi" og er á vegum Enterprise Europe Network (EEN), en það er samstarfsvettvangur 600 aðila í 60 löndum og er stærsta tækniyfirfærslu- og viðskiptanet sinnar tegundar (www.een.is).
Tilnefning ÖA varðar áherslur í opinberri þjónustu. Fyrir það fyrsta eru samfélagslegir frumkvöðlar og fyrirtæki að vinna að lausnum þar sem samfélagslegur ávinningur er meginmarkmiðið en hagnaðarmarkmið í öðru sæti. Í öðru lagi er verið að nýta tækni til framþróunar og nýta snjallar lausnir til að auka lífsgæði samfélagsins á sjálfbæran hátt. Í þriðja lagi felur verkefnið í sér nýjungar á sviði stjórnunar þar sem mannauðsstjórnun, sjálfvirknivæðing og gæðamál eru viðfangsefni og viðhorf í vel reknum fyrirtækjum og stofnunum. Í fjórða lagi er notagildi og yfirfærslugildi, því með breytingu á viðhorfum, verklagi og skipulagi breytast innviðir og áherslur í opinbera og einkageiranum með auknu gegnsæi og jafnræði á sem flestum sviðum.
Með tilnefningunni er ÖA tilnefnt af hálfu Íslands og getur af því tilefni flaggað árangrinum með "2017 EEPA National winner" á heimasíðu sinni og öðrum miðlum. Niðurstaða samkeppninnar verður síðan kynnt á verðlaunaafhendingu sem fram fer í Tallinn í Eistlandi þann 23. nóvember 2017.
Facebook: @PromotingEnterprise
Twitter: @EEPA_EU
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/handverkshatid-og-fiskidagur-2
|
Handverkshátíð og Fiskidagur
Mikið verður um að vera í nágrenni Akureyrar um helgina en þá verður haldin Handverkshátíð á Hrafnagili og Fiskidagurinn mikli á Dalvík, auk þess sem Pæjumótið í fótbolta fer fram á Siglufirði. Það má því búast við fjölda gesta á svæðinu.
Handverkshátíðin í Eyjafjarðarsveit (13 km sunnan Akureyrar) er haldin í 25.skiptið og verður sett kl. 12 í dag, fimmtudaginn 10. ágúst. Hátíðin stendur fram á sunnudag og er opin frá kl. 12-19 nema til kl. 18 á sunnudaginn. Sýningin er fjölbreytt líkt og undanfarin ár með rúmlega 90 sýnendum af öllu landinu sem selja skart, fatnað, fylgihluti, textíl, keramik og gler auk matvæla. Þema Handverkshátíðar 2017 er tré og af því tilefni er boðið upp á sænska farandssýningu sem ber nafnið UR BJÖRK eða Úr birki. Að sýningunni standa 22 handverksmenn og –konur sem skiptu á milli sín heilu birkitré og fengu það hlutverk að nýta allt efnið. Nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar.
Fiskidagurinn mikli er haldin hátíðlegur í sextánda sinn í Dalvíkurbyggð. Segja má að dagskráin skiptist í þrennt: á laugardaginn er dagskrá á sviði og stemmning og matarsmökkun á útisvæðinu og svo almenn dagskrá hér og þar um bæinn alla þessa vikuna. Meðal annars bjóða íbúar byggðalagsins gestum og gangandi upp á fiskisúpu í heimahúsum og görðum á föstudagskvöldið. Markmið hátíðarinnar er að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk. Nánari upplýsingar um hátíðina má finna á heimasíðu Fiskidagsins mikla.
Fótboltakeppni á Pæjumótinu hefst á morgun föstudag og stendur til laugardags, sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Knattspyrnufélags Fjallabyggðar.
Á fiskideginum mikla á Dalvík
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyrarbaer-greidir-fyrir-namsgogn-grunnskolanemenda
|
Akureyrarbær greiðir fyrir námsgögn grunnskólanemenda
Akureyrarbær er eitt af þeim sveitarfélögum sem greiðir að fullu fyrir námsgögn nemenda á grunnskólastigi næsta vetur. Undir námsgögnin falla meðal annars skriffæri, stílabækur, trélitir, gráðubogar, vasareiknar og ritföng, sem foreldrar og forráðamenn hafa hingað til þurft að bera kostnað af.
Tillaga þessa efnis var samþykkt á fundi fræðsluráðs bæjarins 26. júní sl. og samþykkt í bæjarráði 6. júlí. Kaup á námsgögnum voru boðin út og er gert ráð fyrir að kostnaður vegna þessa verði um 6,5 milljónir króna.
Akureyrarbær var fyrsta sveitarfélagið á Íslandi sem innleiddi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en í honum er kveðið á um að öll börn eigi að geta notið grunnmenntunar ókeypis. Þá hafa Barnaheill einnig talað fyrir því að grunnskólaganga barna verði alveg gjaldfrjáls.
„Í þessu felst að nemendum verði útveguð skólagögn þ.e. stílabækur, reikningsbækur, blýanta og tilheyrandi. Foreldrar þurfa áfram að útvega skólatösku, íþróttaföt og sundföt. Foreldrar eru hins vegar hvattir til að nýta ónýttar bækur og ritföng sem liggja inn á heimilum en námsgögnin verða geymd í skólunum og þurfa nemendur að nota sín eigin skriffæri þegar kemur að heimanámi. Þannig náum við að minnka sóun á fjármunum heimila og sveitarfélags enda á skólinn að vera samvinnuverkefni beggja,“ segir Dagbjört Pálsdóttir formaður fræðsluráðs Akureyrarbæjar.
Sumar í Kjarnaskógi. Mynd: Auðunn Níelsson.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/skogardagur-nordurlands-a-laugardag-1
|
Skógardagur Norðurlands á laugardag
Skógardagur Norðurlands verður haldinn á laugardag frá kl. 13-16 í Kjarnaskógi. Aðalatriðið á þessum degi er að nýja útivistar- og grillsvæðið á og við Birkivöll verður formlega tekið í notkun. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri ávarpar afmælisbarnið og skrifað verður undir samning um nýjan Yndisgarð sem meiningin er að koma upp í skóginum með úrvali skrautrunnategunda.
Fræðsla verður um Yndisgarðinn í „fundarsal“ sem útbúinn hefur verið undir greinum stórra grenitrjáa í skóginum. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur sýnir ýmsar sveppategundir sem lifa í skóginum. Ólafur Oddsson fræðslufulltrúi Skógræktarinnar kennir réttu handbrögðin við tálgun og fólk fær að prófa að tálga töfrasprota og fleira. Skátar kynna hátíð sem fer fram á Hömrum um kvöldið og svo verður auðvitað ketilkaffi, lummur, popp, svaladrykkir, sveppasúpa, ratleikur, fræðsluganga um Birkivöll og nágrenni ásamt fleiru.
Loks er vert að geta þess að nú hefur verið útbúinn létthringur í Kjarnaskógi sem fær verður öllu fólki, háum sem lágum, ungum sem gömlum, gangandi eða í hjólastól. Hringur þessi liggur m.a. um hinn nýja Birkivöll.
Að Skógardegi Norðurlands standa Skógræktarfélag Eyfirðinga, Skógræktin, Félag skógarbænda á Norðurlandi, Sólskógar og Akureyrarbær.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/siduskoli-tillaga-ad-deiliskipulagsbreytingu
|
Síðuskóli – Tillaga að deiliskipulagsbreytingu
Bæjarráð Akureyrarkaupstaðar auglýsir hér með skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, tillögu að deiliskipulagsbreytingu fyrir Síðuskóla.
Svæðið sem breytingum tekur nær til innkeyrslu og bílastæða við Síðuskóla. Tillagan gerir
m.a. ráð fyrir að innkeyrsla inn á skólalóðina færist norðar og gerður verður snúningshringur
með sjö sleppistæðum.
Tillöguuppdráttur ásamt greinargerð mun liggja frammi í þjónustuanddyri
Akureyrarkaupstaðar, Geislagötu 9, 1. hæð, frá 16. ágúst til 27. september 2017, svo að þeir
sem þess óska geti kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir. Tillagan er einnig aðgengilega hérna fyrir neðan.
Síðuskóli, innkeyrsla, tillaga að deiliskipulagsbreytingu
Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rennur út kl. 16:00 miðvikudaginn 27.
september 2017 og skal athugasemdum skilað skriflega til Skipulagssviðs
Akureyrarkaupstaðar, Geislagötu 9, 3. hæð eða með tölvupósti (skipulagssvid@akureyri.is)
þar sem nafn, kennitala og heimilisfang sendanda kemur fram.
16. ágúst 2016
Sviðsstjóri skipulagssviðs
Tillaga
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/sjaumst-a-akureyrarvoku
|
Sjáumst á Akureyrarvöku!
Akureyrarvaka, afmælishátíð Akureyrarbæjar fer fram 25.-26. ágúst og er veisluboðið fjölbreytt, skemmtilegt og fræðandi. Þó að formlega setning fari að venju fram í rökkurró í Lystigarðinum á föstdagskvöldið kl 21 er það unga kynslóðin sem tekur að sér að draga fána Akureyrarvöku að húni á föstudagsmorgun kl. 10 og verður það gert við stóru fánastöngina í Listagilinu. Þetta er samvinnuverkefni krakka af leikskólunum Iðavelli og Hólmasól og bæjarstjórans Eiríks Björns Björgvinssonar. Á föstudagskvöld verður einnig Hryllingsvakan í Íþróttahöllinni þar sem ungt og efnilegt tónlistarfólk á Norðurlandi heldur uppi fjörinu. Þemað er svart og eru gestir hvattir til að klæðast svörtu frá toppi til táar. Listasýningin „Fólkið í bænum sem ég bý í“ opnar á föstudagskvöld á Ráðhústorgi 7 þar sem sjónum var beint að 8 einstaklingnum, fjórum konum og fjórum körlum.
Á laugardag upplagt að hefja daginn með stuttri fjölskyldusiglinu um Pollinn með Húna eða sjá heimildarmyndina Amma Dagbók Dísu sem sýnd verður á Öldrunarheimilinu Hlíð kl. 11 en aðalsöguhetjan er Hjördís Kristjánsdóttir íbúi á Hlíð. Í Listagilinu verður líf og fjör með tónlist, mat, listsýningum og leiðsögn og listahópurinn RÖSK kemur sér fyrir með gjörninginn #fljúgandi. Á Ráðhústorgi verður skátagaman þar sem ungviðinu gefst kostur á búa til barmmerki, gera poppkorn yfir eldstæði og fl. og í Landsbankanum verður leiðsögn um listaverkaeignina kl. 14-15 en þar má sjá fjölda verka eftir þekktustu listamenn þjóðarinnar. Í Skátagilinu verða sirkusfimleikar þeim Kalla og Sigurbjörgu sem kalla sig Instant Air Force Chameleons og gefst fólki kostur á að prófa danslyftur og ýmsar fimleikaæfingar. Í Kaktus verður mikið um að vera alla Akureyrarvöku, myndlist, tónlist, bíósýningar og fljúgandi matarboð.
Í Rósenborg verður sérstaklega vel tekið á móti ungviðinu en þar verður Fjölskyldudagur Myndlistarfélagsins þar sem boðið verður upp á vinnustöðvar og verða leiðbeinendur á staðnum, skemmtileg barnamynd verður sýnd í salnum á 4. hæð og einnig verða í Listasalnum Braga tvær ljósmyndasýningar á verkum Sigríðar Ellu Frímannsdóttur.
Vísindasetur verður í Hofi og er dagskráin afar fjölbreytt og fræðandi. Það verða m.a. sprengjusýningar, hitamyndavél sem mælir hitann í líkamanum, slím og slímgerð, froðutöfrar, spennandi fyrirlestrar m.a. um íslenska refinn og Melrakkasetur Íslands. Einnig verður reynt að svara spurningunni hvort það hafi verið eða verði í framtíðinni líf á Mars. Hljóðtaktar verða teygðir til og tvistaðir, kíkt verður undir malbikið á hin ýmsu rör og lagnir sem þar er að finna, rafrásir settar saman og leyndarmál bergsins skoðað. Þetta og svo margt fleira fræðandi sem allir þurfa að prófa!
Í Samkomuhúsinu verður gamanóperan Piparjúnkan og þjófurinn sýnd en þar er fjallað um slúður og leyndarmál í litlum hljóðlátum bæ. Sýninging er sungin á ensku en textavél á sviðinu er með íslenskum texta. Skáldið KÁINN verður til umfjöllunar á málþingi í Háskólanum á Akureyri, ljóð og lög listakonunnar í Fjörunni verða sungin og flutt í Minjasafnskirkjunni. Við togarabryggjuna verður Kaldbaki EA 1 gefið nafn við hátíðlega athöfn og kaffiveitingar á eftir í húsnæði Úgerðarfélagsins í boði Samherja.
Í Sundlaug Akureyrar verða ljúfir tónar kl. 18 af þeim Guðrúnu Hörpu og Atla Má og upplagt að fara í sund og njóta.
Það verða stórtónleikar í Listagilinu á laugardagskvöld sem hefjast kl. 21. Fram kemur hljómsveitin VAÐLAHEIÐIN sem sett er saman sérstaklega fyrir Akureyrarvöku en hana skipa Valur Freyr Halldórsson, Summi Hvanndal, Kristján Edelstein, Arnar Tryggvason og Valmar Valjaots og munu þessi flottu listamenn verða gestgjafar á sviði. Gestir stórtónleikanna verða þ au Andrea Gylfadóttir, Pálmi Gunnarsson, KÁ-AKÁ, Valdimar og júróvisjónstjarnan Jóhanna Guðrún og á lagalistanum eru lögin sem landsmenn þekkja svo vel og hafa sungið með í gegnum tíðina.
Friðarvakan í kirkjutröppunum er orðinn fastur liður í lok Akureyrarvöku en þá eru tröppurnar fylltar af friðarkertum sem Plastiðjan-Bjarg framleiðir sérstaklega fyrir þennan viðburð. Bæjarbúar og gestir eru hvattir til að taka þátt með því að kaupa kerti en það er Slysavarnadeildin á Akureyri sem sér um sölu á kertunum og verður safnað fyrir hjartastuðtækjum sem komið verður fyrir á fjölförnum stöðum í bænum. Kertin verða seld í Lystigarðinum við setningu Akureyrarvöku og allan laugardaginn í miðbænum. Tökum þátt í að styðja við gott málefni og upplifum fegurðina þegar friðarkertin lýsa upp allar tröppurnar.
Upplagt er að enda Akureyrarvöku á rómantískri siglingu kl. 23 með Húna um Pollinn. Með í för verða félagar úr Karlakór Akureyrar-Geysi sem flytja huggulega tónlist.
Þetta er aðeins brotabrot af dagskránni en hana má finna á akureyrarvaka.is, á facebook og Akureyrarvaka er einnig á Instagram. Bæklingi með dagskrá Akureyrarvöku er dreift í öll hús á Akureyri með Dagskránni og einnig verður hægt að kippa með eintaki hér og þar um bæinn.
HELSTU STYRKTAR- OG SAMSTARFSAÐILAR AKUREYRARVÖKU ERU:
LANDSBANKINN, EIMSKIP, NORÐURORKA, HÓTEL KEA, EFLA VERKFRÆÐISTOFA, RAFTÁKN, HÁSKÓLINN Á AKUREYRI, MENNINGARFÉLAG AKUREYRAR, EXTON, ÖLSTOFAN, BAUTINN, LISTASAFNIÐ Á AKUREYRI, MINJASAFNIÐ Á AKUREYRI, SLIPPFÉLAGIÐ, HJÚKRUNAR- OG DVALARHEIMILIÐ HLÍÐ, RÓSENBORG, T BONE STEIKHÚS, RUB 23, PENNINN-EYMUNDSSON, LYSTIGARÐURINN Á AKUREYRI, ÍÞRÓTTAHÖLLIN Á AKUREYRI, BÍLAKLÚBBUR AKUREYRAR, AMTSBÓKASAFNIÐ Á AKUREYRI, FAB LAB AKUREYRI, EIMUR, NÝSKÖPUNARMIÐSTÖÐ, SUNDLAUGIN Á AKUREYRI OG VISTORKA
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/kaera-foldin-kennd-vid-snjo
|
Kæra foldin kennd við snjó
Þjóðræknisfélag Íslendinga, í samvinnu við Amtsbókasafnið á Akureyri og Háskólann á Akureyri, býður til málþings um Akureyringinn Káin, Kristján Níels Júlíus Jónsson, í hátíðarsal Háskólans á Akureyri, laugardaginn 26. ágúst 2017.
Af óhjákvæmilegum ástæðum flyst afhendingarathöfn sem vera átti í Fjörunni innst í Aðalstræti um kl. 17.15, upp í Háskólann á Akureyri og fer hún fram strax að loknu málþinginu. Þar mun bæjarstjórinn á Akureyri veita viðtöku minnisvarða um Káinn sem er gjöf frá Icelandic Roots, The Icelandic Communities Association of NE North-Dakota og frá velunnurum Káins.
Dagskrá málþingsins er þessi:
10.00-12.30 Káinn og vesturferðirnar
Fundarstjóri: Kristinn Már Torfason.
Gestgjafi: Sigrún Stefánsdóttir, formaður afmælisnefndar Háskólans á Akureyri.
Ávarp: Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar.
Setning: Hjálmar W. Hannesson, formaður Þjóðræknisfélags Íslendinga.
Mæðginin Eleanor Geir Biliske og Ed Biliske. Elearnor er hugsanlega eini núlifandi einstaklingurinn sem þekkti Káin: KN Julius The Poet with calloused hands - Life on the Geir Farm.
Tónlist: Vandræðaskáldin, Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur Bergmann.
Jón Hjaltason sagnfræðingur: Af hverju landflótti til Vesturheims?
Jónas Þór sagnfræðingur: Norðuramerískt samfélag – íslensk aðlögun.
Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur: Pegasus í fjósinu og kýrrassatrú.
Var Káinn skáld eða hagyrðingur?
12.30-13.15 Matarhlé
Hægt verður að kaupa veitingar frá Norðurlyst.
13.15-15.00 Ljóð Káins
Fundarstjóri: Hólmkell Hreinsson.
Böðvar Guðmundsson rithöfundur: Minn Káinn.
Hulda Karen Daníelsdóttir, sérfræðingur hjá Menntamálastofnun: K. N. í Lögbergi Heimskringlu á árunum 1990-1992.
Helgi Freyr Hafþórsson, verkefnastjóri við HA: Frá K til N: Frá Káin til nútímans.
Tónlist: Baggalútur.
15-15.20 Kaffiveitingar
15.20-16.40 Káinn í samtímanum
Fundarstjóri: Kristín Margrét Jóhannsdóttir.
Egill Helgason dagskrárgerðarmaður: Káinn settur í sjónvarp.
Sunna Pam Furstenau, forseti Icelandic Roots og forseti Þjóðræknisfélags Íslendinga í Norður-Ameríku: Káinn's Thingvalla - Connections, Celebrations, and Community.
Bragi Valdimar Skúlason: Stína og Stjáni.
Tónlist: Baggalútur
16.40 Slit
Kristín Margrét Jóhannsdóttir.
Mér er eins og öðrum fleiri,
ættjörð týnd og gleymd,
samt er gamla Akureyri,
enn í huga geymd.
-Káinn
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/fraedslurad-veitir-vidurkenningar
|
Fræðsluráð veitir viðurkenningar
Miðvikudaginn 23. ágúst fór fram afhending viðurkenninga fræðsluráðs Akureyrarbæjar til nemenda og kennara leik- og grunnskóla bæjarins sem þóttu hafa skarað fram úr eða sýnt góðar framfarir við nám og störf á síðasta skólaári. Alls fengu 11 nemendur grunnskóla viðurkenningar og 6 starfsmenn leik-og grunnskóla.
Sviðsstjóri fræðslusviðs, Soffía Vagnsdóttir, bauð gesti velkomna og Dagbjört Pálsdóttir, formaður fræðsluráðs, afhenti rósir og viðurkenningarskjöl. Í lok dagskrár var öllum viðstöddum boðið að þiggja veitingar. Mikilvægt er að veita því athygli sem vel er gert í skólastarfi og hvetja fólk til enn frekari dáða.
Viðurkenningar fræðsluráðs Akureyrarbæjar 2017.
Föngulegur hópur í Hofi í gær.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/samherjasjodurinn-gaf-skidalyftu
|
Samherjasjóðurinn gaf skíðalyftu
Nýju skipi Samherja, Kaldbaki EA 1, var formlega gefið nafn á laugardaginn og við það tilefni var tilkynnt að Samherjasjóðurinn gæfi "Vinum Hlíðarfjalls" nýja skíðalyftu sem verður reist í Hlíðarfjalli.
Geir Gíslason formaður Vina hlíðarfjalls segir að keypt verði notuð stólalyfta frá Austurríki og hún flutt til Íslands. Gerður hefur verið samstarfs- og leigusamningur við Akureyrarbæ um leigu og rekstur á lyftunni til næstu fimmtán ára.
„Lyftan mun gjörbreyta allri aðstöðu fyrir skíðafólk í Hlíðarfjalli og tryggja forystu þess sem fremsta skíðasvæði landsins. Lengd lyftunnar verður um 1.100 m, fallhæðin 340 og hún mun flytja um 1.300 skíðamenn á klukkustund upp undir brún á Hlíðafjalli,“ sagði Geir meðal annars í viðtali við N4. Stefnt er á að hefjast handa strax og geta Akureyringar og gestir rennt sér í nýjum brekkum veturinn 2018-2019. Forstöðumaður Hlíðarfjalls er í skýjunum með þessar fréttir.
Frétt um samning Akureyrarbæjar og Vina Hlíðarfjalls frá júní 2017.
Mynd: Þórgnýr Dýrfjörð.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/umhverfisatak-i-kjarnaskogi-og-a-homrum
|
Umhverfisátak í Kjarnaskógi og á Hömrum
Undanfarin þrjú ár hefur Akureyrarbær, í góðu samstarfi við Skógræktarfélag Eyfirðinga, staðið fyrir miklum framkvæmdum í Kjarnaskógi sem miða allar að því að auka aðgengi og bæta afþreyingamöguleika bæjarbúa og gesta. Kjarnaskógur er í dag orðin eitt allra besta útivistarsvæði landsins þar sem allir ættu að finna sér eitthvað við hæfi til útivistar- og afþreyingar.
Strandblaksvellirnir í Kjarnaskógi hafa notið mikilla vinsælda og eru nú þar fjórir löglegir keppnisvellir. Vellirnir eru í mikilli notkun og er sú regla viðhöfð að bóka þarf vellina. Það er hægt að gera á fésbókarsíðunni Strandblak Kjarnaskógur.
Birkivöllur er nýtt leiksvæði suður af strandblaksvöllunum og er þar fjöldi skemmtilegra leiktækja. Við Birkivöll hefur einnig verið sett upp grillhús og er hann því orðinn afar skemmtilegt afþreyingarsvæði fyrir fjölskyldur.
Nýtt salernishús var reist við bílastæði neðan við strandblaksvellina. Salernishúsið smíðaði Þverárgólf ehf. og er það hið glæsilegasta. Suður af salernishúsinu er nýr ærslabelgur sem hefur vakið mikla kátínu og gleði hjá yngri kynslóðinni. Á sömu slóðum eru borðtennisborð auk þess sem framkvæmdir eru hafnar við að setja upp minigolfvöll.
Steinagerðisvöllur var endurgerður, auk þess sem unnið var að ýmsum öðrum framkvæmdum á svæðinu s.s. stígagerð og merkingum.
Á næstunni verður búinn til 9 holu frisbígolfvöllur sem verður framlenging á vellinum sem er við tjaldsvæðið á Hömrum og sem mun þá verða 18 holur alls.
Hamrar sem liggja við Kjarnaskóg eru orðnir að frábærri útivistarparadís með óþrjótandi möguleikum og er nýbúið að koma þar fyrir bílabraut sem áður var í sundlaugargarðinum við Sundlaug Akureyrar og hefur ávallt notið mikilla vinsælda.
Akureyringar og gestir eru hvattir til að nýta sér alla þá möguleika sem í boði eru í bænum til útivistar- og afþreyingar.
Smellið á myndirnar til að skoða þær nánar og fletta á milli þeirra.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyrarstofa-flutti-a-afmaelisdaginn
|
Akureyrarstofa flutti á afmælisdaginn
Akureyrarstofa, heimahöfn menningar-, markaðs-, kynningar- og ferðamála hjá Akureyrarbæ, flutti sig um set í gær, sama dag og Akureyrarkaupstaður fagnaði 155 ára afmæli sínu.
Höfuðstöðvar Akureyrarstofu eru nú á 2. hæð í húsinu Rósenborg sem áður hét Barnaskóli Akureyrar. Akureyrarstofa var í Menningarhúsinu Hofi en rýmið sem stofan hafði þar verður framvegis nýtt af tónlistarskólanum og Menningarfélagi Akureyrar (MAk).
Akureyrarstofa er hluti af samfélagssviði en að auki heyra undir sviðið æskulýðs- og forvarnamál, tómstundir, íþróttamál, félagsmiðstöðvar, menntasmiðjur, fjölskyldustefna, jafnréttismál og önnur mannréttindamál. Samfélagssvið er frístundaráði og stjórn Akureyrarstofu til ráðgjafar varðandi stefnumótandi ákvarðanir í þessum málaflokkum og annast framkvæmd þeirra. Hlutverk sviðsins er að veita bæjarbúum, bæjarfulltrúum, forstöðumönnum og öðrum þeim sem á þurfa að halda, góða þjónustu, ráðgjöf og upplýsingar um málaflokka sviðsins. Samfélagssvið er til húsa í Rósenborg.
Akureyri hlaut fyrst kaupstaðarréttindi árið 1786 þegar þar bjuggu 12 manneskjur en missti réttindin aftur árið 1836. Bærinn endurheimti síðan nafnbótina 29. ágúst 1862 sem varð þar með afmælisdagur Akureyrar.
Ýmislegt markvert á Akureyri og brot úr sögu kaupstaðarins.
Útsýni til austurs úr Rósenborg á fyrsta starfsdegi Akureyrarstofu í húsinu.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/gjorningahatidin-ad-hefjast
|
Gjörningahátíðin að hefjast
A! Gjörningahátíð er fjögurra daga hátíð sem hefst á morgun, fimmtudaginn 31. ágúst, og lýkur sunnudaginn 3. september. Að hátíðinni standa Listasafnið á Akureyri, LÓKAL alþjóðleg leiklistarhátíð, Reykjavík Dance Festival, Menningarfélag Akureyrar, Leikfélag Akureyrar og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. A! er hátíð þar sem myndlistar- og sviðslistafólk fremur gjörninga og setur upp gjörningatengd verk.
Hátíðin er nú haldin í þriðja sinn en hún sló strax í gegn þegar hún var haldin í fyrsta skipti í september árið 2015 og sóttu um 1.500 ánægðir gestir hátíðina. Þátttakendur voru vel þekktir gjörningalistamenn, leikarar og ungir, upprennandi listamenn. Vídeólistahátíðin Heim var haldin á Akureyri á sama tíma og „off venue“ viðburðir víðsvegar um bæinn.
Margrét Elísabet Ólafsdóttir listfræðingur sagði í pistli í Víðsjá á Rás 1 um hátíðina meðal annars:
"Dagskrá Gjörningahátíðarinnar A! var því ekki aðeins fjölbreytt heldur í heildina einkar vel heppnuð. Sú ákvörðun að stefna saman eldri listamönnum og upprennandi, gestum og heimamönnum virðist vera góð uppskrift að hátíð sem vonandi verður árlegur viðburður."
Gjörningarnir á A! 2017 munu fara fram í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi, Samkomuhúsinu, Hofi, Verksmiðjunni á Hjalteyri, Kaktus, Rósenborg, Deiglunni, Lystigarðinum og á fleiri stöðum á Akureyri.
Listamennirnir og hóparnir sem taka þátt að þessu sinni eru: Arna Valsdóttir (IS) og Suchan Kinoshita (J/NL), Gabrielle Cerberville (USA), Gjörningaklúbburinn / The Icelandic Love Corporation (IS), Heiðdís Hólm (IS), Hekla Björt Helgadóttir & Svefnleikhúsið - The Sleep Theatre (IS), Katrine Faber (DK), Magnús Logi Kristinsson (IS/SF), Voiceland – Gísli Grétarsson (IS/N), Mareike Dobewall (D) og Hymnodia (IS), Ragnheiður Harpa Leifsdóttir (IS), Rúrí (IS), Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir (IS) og Liv-K. Nome (N).
Á sama tíma fer vídeóalistahátíðin Heim fram en þátttakendur eru nemendur Suchan Kinoshita úr Listakademíunni í Münster, Þýskalandi: Hui-Chen Yun, Sabine Huzikiewiz, Lejla Aliev, Daniel Bernd Tripp, Mila Petkova Stoytcheva, Fabian Lukas Flinks, René Haustein, Inga Krüger, Georg Mörke, Lisa Katharina Droste, Nadja Janina Rich, Alyssa Saccotelli, Micael Gonçalves Ribeiro, Hagoromo Okamoto, Bastian Buddenbrock, Jana Rippmann, Kai Bomke og Takahiko Kamiyama.
Dagskrá A! Gjörningahátíðar 2017.
Facebooksíða hátíðarinnar.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/haskoli-allra-landsmanna
|
Háskóli allra landsmanna
Háskólinn á Akureyri fagnar 30 ára afmæli um helgina. Skólinn hóf starfsemi 5. september 1987 með kennslu á tveimur námsbrautum, hjúkrunarfræði og iðnrekstrarfræði. Skráðir nemendur hafa aldrei verið fleiri en á þessu haustmisseri eða tæplega 2.100.
Afmælisárið hefur einkennst af viðburðum sem allir hafa það að markmiði að tengja háskólann enn betur við samfélagið. Meðal annars hefur verið boðið upp á fjölbreyttar kynningar á vettvangi, opna fyrirlestra og alþjóðlegar ráðstefnur. Um síðustu helgi var hátíðarsalurinn til að mynda fullsetinn til að minnast alþýðuskáldsins Káins sem fæddist á Akureyri en flutti síðan til Vesturheims.
Dagskráin um komandi helgi er fjölbreytt. Hátíðardagskrá verður á sunnudag, 3. september, og í kjölfarið verður opið hús fyrir almenning þar sem boðið verður meðal annars upp á afmælisköku, kynningar, þrautir, slím og sprengjur.
Sjálfur afmælisdagurinn 5. september er í höndum nemenda en að lokinni keppni milli nemenda og starfsfólks verður blásið til umræðuþings um framtíðarsýn ungs fólks. Almenningi er velkomið að koma og hlýða á niðurstöður kl. 13.00 í hátíðarsal.
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, segist fagna því að afmælisviðburðirnir hafi verið vel sóttir og að markmiðið um betri tengingu við samfélagið hafi náðst. Einnig sé það fagnaðarefni að háskólinn sé fullsetinn á þessu afmælisári. „Margir voru efins um þá ákvörðun að stofna háskóla á Akureyri en með því góða starfsfólki sem hefur unnið við skólann frá upphafi hefur tekist að byggja upp fyrsta flokks háskólasamfélag sem sannarlega hefur náð til landsins alls,“ segir Eyjólfur.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/orn-ingi-heidradur
|
Örn Ingi heiðraður
Stjórn Akureyrarstofu hefur ákveðið að veita Erni Inga Gíslasyni fjöllistamanni heiðursviðurkenningu Menningarsjóðs Akureyrar.
Afhendingin fer fram í Ketilhúsinu á morgun, laugardaginn 2. september, kl. 14 og er fyrsti viðburður dagsins á gjörningahátíðinni A!
Matthías Rögnvaldsson forseti bæjarstjórnar Akureyrar mun afhenda viðurkenninguna og að því loknu verður gestum boðið að þiggja léttar veitingar áður en dagskrá gjörningahátíðarinnar heldur áfram í Samkomuhúsinu kl. 15.
Allir eru hjartanlega velkomnir.
Örn Ingi Gíslason. Mynd: Ragnar Th.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/bokmenntahatid-a-akureyri-1
|
Bókmenntahátíð á Akureyri
Bókmenntahátíð verður í fyrsta sinn á Akureyri þriðjudaginn 5. september í Menningarhúsinu Hofi. Dagskrá hennar er unnin í afar góðu samstarfi Menningarfélags Akureyrar og Amtsbókasafnsins á Akureyri við Bókmenntahátíðina í Reykjavík. Bókmenntahátíðin hefst hér norðan heiða degi áður en Bókmenntahátíðin í Reykjavík er sett. Boðið verður uppá tvo viðburði þennan dag með þátttöku rithöfundanna Anne-Cathrine Riebnitzsky og Esmeralda Santiago.
HÖFUNDAMÓT – höfundar, sögupersónur, lesendur er fyrri viðburðurinn af tveimur þennan dag sem áhugasömum gestum og bókaunnendum er boðið uppá kl. 11.30-13.00. Rithöfundarnir Anne-Cathrine Riebnitzsky (Stormurinn og stillan) og Esmeralda Santiago (Næstum fullorðin) lesa uppúr verkum sínum. Tveir félagar úr akureyrskum bókaklúbbi segja frá sinni upplifun á lestri bókanna og vangaveltum sem urðu til við lesturinn og hafa tækifæri til að spyrja höfundana beint út í verkin. Áheyrendum út í sal gefst einnig kostur á að spyrja spurninga og taka þátt í umræðunum. Viðburðurinn fer fram á ensku og íslensku.
MAÐUR Á MANN er seinni viðburður hátíðarinnar og hefst kl. 17. Þar fara þau Arnar Már Arngrímsson rithöfundur og Esemeralda Santiago á trúnó, en rauði þráðurinn í því eru konur, sjálfsmynd og flutningar. Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður fer á trúnó við Anne- Cathrine Riebnitzsky þar sem aðalumræðuefnið verður konur og stríð ásamt fjölskyldum í skáldskap. Auk þess munu þau Margrét H. Blöndal, Þórgunnur Oddsdóttir, Kristín Þóra Kjartansdóttir, Megas og Hlynur Hallsson lesa uppúr nýútgefnum verkum sínum úr ritröðinni Pastel. Ávarp flytja þær Þuríður Helga Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar og Stella Soffía Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík.
Viðburðurinn fer fram á ensku en upplestur höfunda Pastels er á íslensku.
Örstutt kynning á erlendu rithöfundunum:
Anne-Cathrine Riebnitzsky er danskur rithöfundur með óvenjulegan bakgrunn. Hún var í danska hernum og fór með honum til Afganistan 2007, fyrst sem óbreyttur hermaður en síðar sem ráðgjafi á vegum utanríkisráðuneytisins. Í Afganistan starfaði Riebnitzsky meðal annars með stríðshrjáðum konum og hefur sú reynsla orðið henni að yrkisefni í verkum hennar þar sem hlutskipti kvenna og barna í stríði hefur verið áberandi stef. Frumraun hennar var ævisögulegt uppgjör við árin í Afganistan og nefndist Stríð kvennana (Kvinderens krig) en hún kom úr 2010. Nýjasta bók Riebnitzsky, Stormarnir og stillan er nýkomin út á íslensku.
Esmeralda Santiago er þekktust fyrir endurminningabækur sínar sem fjalla meðal annars um þá reynslu að tilheyra tveimur löndum, en sjálf fæddist hún á Puertó Rikó og fluttist til Bandaríkjanna með fjölskyldu sinni þegar hún var þrettán ára. Tvær endurminningabókanna hafa verið gefnar út í íslenskri þýðingu Herdísar Magneu Hübner hjá bókaforlaginu Sölku, en það eru bækurnar Stúlkan frá Púertó Ríkó og Næstum fullorðin. Í bókunum dregur Santiago upp ljóslifandi myndir úr lífi ungrar konu í New York á sjöunda áratugnum og lýsir togstreitunni sem þrá hennar eftir menntun hefur í för með sér. Nýjasta bók hennar heitir Conquistadora og er söguleg skáldsaga sem gerist á Puertó Rikó en hefur enn ekki verið þýdd á íslensku.
Allir eru hjartanlega velkomnir á hátíðina.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/opnanir-i-listasafninu-a-akureyri
|
Opnanir í Listasafninu á Akureyri
Laugardaginn 9. september kl. 15 verða tvær sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi, annars vegar sýning Rúrí, Jafnvægi-Úr Jafnvægi, og hins vegar sýning Friðgeirs Helgasonar, Stemning.
Á sýningu sinni leggur Rúrí listina á vogarskálar. Vogarskálar vega sögu mannkyns og jarðar, vega tíma, vega vægi mismunandi gilda, til dæmis hagkerfi á móti vistkerfi, eða vægi huglægra gilda. Verkið er innsetning og er samsett úr fjölda eininga.
Rúrí (f. 1951) hefur um árabil safnað skálavogum og vigtum frá ýmsum tímum. Vigtarnar eru margvíslegar að gerð en byggja allar á jafnvægi. Vogir og ýmis önnur mælitæki eins og klukkur, hnattlíkön og landakort eru módel af þeim heimi sem við þekkjum og mynda hluta innsetningarinnar. Hin sterka tilvísun vogarinnar setur spurningarmerki við ójafnvæga afstöðu milli t.d. hagkerfa og vatnsforða jarðar, stríðs og friðar. (Christian Schoen; Fragile Systems, Nordatlantens Brygge, Copenhagen, 2016)
Rúrí hefur starfað að myndlist frá 1974. Verk hennar hafa verið sýnd á fjölmörgum sýningum í Evrópu, Asíu og N-Ameríku og þau má finna í íslenskum og erlendum söfnum auk þess sem útilistaverk eftir hana hafa verið sett upp bæði á Íslandi og erlendis. Rúrí var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2003 þar sem verkið Archive – Endangered Waters vakti mikla athygli. Frekari upplýsingar má finna á ruri.is.
Friðgeir Helgason (f. 1966) flutti ungur til Bandaríkjanna. Hann lagði stund á kvikmyndagerð í Los Angeles City College í Hollywood 2005-2006, þar sem ljósmyndun fangaði huga hans. Hann stundaði ljósmyndanám við sama skóla frá 2006 til 2009 og hefur haldið fjölda ljósmyndasýninga í Bandaríkjunum og á Íslandi.
„Ljósmyndirnar á þessari sýningu voru teknar á árunum 2008-2013 þegar ég þvældist um þau svæði sem mér þykir vænst um: annars vegar á Íslandi og hins vegar í Louisiana í Suðurríkjum Bandaríkjanna,“ segir Friðgeir. „Myndirnar voru allar teknar á Kodakfilmu sem ég prentaði í stækkara upp á gamla mátann. Það jafnast fátt á við að keyra stefnulaust um þjóðvegi með gamla góða Pentaxinn og slatta af filmu í skottinu. Stoppa í vegasjoppum, fá sér í gogginn og spjalla við innfædda. Skynja andrúmsloftið og taka ljósmynd þegar tækifæri gefst. Þessi sýning á að fanga þá stemningu.“
Verk eftir Rúrí á sýningunni.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/laesisstefna-akureyrarbaejar
|
Læsisstefna Akureyrarbæjar
Fimmtudaginn 7. september kl. 15.30 verður ný "Læsisstefna Akureyrarbæjar" kynnt og opnuð með formlegum hætti. Athöfnin fer fram í stofu N102 í Háskólanum á Akureyri.
Dagskrá hefst á stuttu ávarpi Soffíu Vagnsdóttur sviðsstjóra fræðslusviðs Akureyrarbæjar og síðan kynnir Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir sérfræðingur á Miðstöð skólaþróunar HA læsisstefnuna.
Að kynningu lokinni verður boðið upp á spjall yfir kaffibolla með léttu meðlæti. Vonast er til þess að sem flestir sjái sér fært að mæta á kynninguna og gleðjast yfir afrakstri þeirrar miklu vinnu sem lögð hefur verið í metnaðarfulla Læsisstefnu sveitarfélagsins.
Læsi er lykillinn.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/mat-a-umhverfisahrifum-akvordun-um-matsskyldu-1
|
Mat á umhverfisáhrifum – Ákvörðun um matsskyldu
Skipulagsráð Akureyrarkaupstaðar hefur tekið ákvörðun um að eftirtaldar framkvæmdir skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000.
Efnisflutningur til landmótunar á lóð golfklúbbs Akureyrar að Jaðri.
Viðhaldsdýpkun í Fiskihöfn og við Togarabryggju og efnislosun við Torfunefsbryggju.
Ákvörðunin liggur frammi í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og birtist á vef Skipulagsstofnunar www.skipulag.is.
Ákvörðun má kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála til 4. október 2017.
6. september 2017
Sviðsstjóri skipulagssviðs
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/afmaelisrit-leikfelags-akureyrar-1992-2017-kynnt-i-borgarasal-samkomuhussins
|
Afmælisrit Leikfélags Akureyrar 1992-2017 kynnt
Fimmtudaginn 7. september verður „Afmælisrit Leikfélags Akureyrar 1992-2017“ kynnt í Borgarasal Samkomuhússins og stendur stjórn Leikfélagsins fyrir samkomunni. Um er að ræða skrásetningu Sigurgeirs Guðjónssonar á sögu Leikfélags Akureyrar síðasta aldarfjórðung og er tekinn upp þráðurinn þar sem frá var horfið, í riti Haraldar Sigurðssonar sem kom út 1992. Samkoman hefst klukkan 17.00 og mun Sigurgeir Guðjónsson höfundur bókar, kynna hana í máli og myndum. Þá mun vandræðaskáldið Vilhjálmur Bergmann Bragason stíga á stokk og flytja nokkur lög. Að sjálfsögðu verður ritið tilbúið til afhendingar þeim sem þegar hafa fest sér það – og vissulega til sölu fyrir aðra áhugasama.
Mynd úr Pílu pínu.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/althjodastofa-fekk-styrk-fra-erasmus
|
Alþjóðastofa fékk styrk frá Erasmus+
Alþjóðastofa Akureyrarbæjar fékk þann 30. ágúst styrk frá Erasmus+ verkefni Evrópusambandsins að upphæð 258.138 evrur (um 33 milljónir króna) til 30 mánaða á sviði fullorðinsfræðslu.
Styrkurinn fæst til að mæta kostnaði við verkefnið LINGUA+ sem snýst um nýjungar í tungumálakennslu og miðar að aðlögun innflytjenda að menningu þeirra landa sem þeir flytjast til og aukinni þátttöku þeirra í fullorðinsfræðslu. Verkefninu er ætlað að bæta tungumálakennslu fyrir innflytjendur og flóttafólk til að auðvelda samfélagsþátttöku þeirra.
Þau lönd sem taka þátt í þessu verkefni auk Íslands eru Bretland, Ítalía, Tékkland og Kýpur. Í öllum þessum löndum er þörfin fyrir öfluga fullorðinsfræðslu og tungumálakennslu hin sama. Fulltrúar frá þessum löndum hafa mikla reynslu á þessu sviði og hafa hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir starf sitt. Þeir munu leggja allt kapp á að deila reynslunni sín á milli.
Fulltrúi Alþjóðastofu á Akureyri, Zane Brikovska, ásamt Ágústi Hirti Ingþórssyni, forstöðumanni Erasmus+ á Íslandi.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyrsk-born-ganga-i-skolann
|
Akureyrsk börn ganga í skólann
Verkefnið "Göngum í skólann 2017" var sett í morgun. Grunnskólar á Akureyri láta að sjálfsögðu ekki sitt eftir liggja en markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.
Um er að ræða alþjóðlegt verkefni og á síðasta ári tóku milljónir barna í fleiri en 40 löndum víðsvegar um heiminn þátt í því með einum eða öðrum hætti. Hér á landi voru þá um 70 skólar skráðir til leiks og hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt í gegnum árin, en fyrsta árið voru þátttökuskólar 26.
Á heimasíðu Göngum í skólann er hægt að fylgjast með framgangi verkefnisins og meðal annars sjá hvaða skólar eru skráðir. Hægt er að skrá sig fram að hinum alþjóðlega Göngum í skólann degi sem er haldinn hátíðlegur miðvikudaginn 4. október nk.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/althjodadagur-laesis
|
Alþjóðadagur læsis
Frá árinu 1965 hafa Sameinuðu þjóðirnar helgað 8. september málefnum læsis. Í ár taka Íslendingar í áttunda skiptið þátt í þessum alþjóðlega degi og hafa Miðstöð skólaþróunar við HA, bókasafn HA, Amtsbókasafnið, Barnabókasetur og fræðslusvið Akureyrar starfað saman að undirbúningi ýmissa læsisviðburða í tilefni dagsins.
Dagskráin Alþjóðadags læsis föstudaginn 8. september á "Fundi fólksins" í Hofi verður þessi:
Kl. 12-17 – Læsi er lykillinn
Verið velkomin að kynningarborði Alþjóðadags læsis þar sem læsisstefnan Læsi er lykillinn verður kynnt, meðal annars verður boðið upp á líflegt spjall, lestrarhorn, fríar bækur og lestrarhvetjandi efni.
Kl. 15-15.30 – Sófaspjall
Ævar Þór Benediktsson, rithöfundur og leikari, verður sérstakur gestur í sófaspjalli á Alþjóðadegi læsis. Hann mun spjalla við mann og annan um læsi og lestraránægju. Ævar Þór fékk nýverið hvatningarverðlaun JCI sem framúrskarandi ungur Íslendingur 2017.
Og í Pennanum Eymundsson frá kl. 16.30-17.30
Lestrarvöfflur verða í boði fyrir gesti og gangandi og eru allir hvattir til þess að finna sér áhugavert lesefni, koma sér vel fyrir og gæða sér á Lestrarvöfflum. Ævar Þór Benediktsson mætir og les upp úr sínum uppáhaldsbókum.
Á Fundi fólksins verður hægt að kynna sér læsisstefnu Akureyrarbæjar og ýmislegt spennandi tengt læsi í bás Alþjóðadags læsis.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/forseti-nordurlandarads-setur-fund-folksins
|
Forseti Norðurlandaráðs setur Fund fólksins
Forseti Norðurlandaráðs, Britt Lundberg, setur Fund fólksins kl. 12 föstudaginn 8. september í Menningarhúsinu Hofi en fleiri en 60 viðburðir eru á dagskrá lýðræðishátíðarinnar að þessu sinni. Gestum sem leggja leið sína í Menningarhúsið Hof á föstudag og laugardag verður boðið upp á líflegar umræður og tónlistaratriði auk annarra uppákoma.
Upplýsingar, samtal og gagnkvæm virðing eru undirstöður lýðræðisins og er eitt af markmiðum hátíðarinnar er að hvetja til uppbyggjandi skoðanaskipta, þar fá félagasamtök tækifæri til að koma málefnum sínum á framfæri, upplýsa almenning og ráðamenn um sín baráttumál og leita eftir stuðningi. Með því að hlusta og ræða saman í eigin persónu aukum við traust og skilning milli ólíkra aðila samfélagsins.
Dagskrá lýðræðishátíðarinnar Fundar fólksins er öllum opin án endurgjalds.
Hægt er að kynna sér dagskrána HÉR.
Britt Lundberg forseti Norðurlandaráðs.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/fjorir-starfsmenn-heidradir
|
Fjórir starfsmenn heiðraðir
Í gær voru fjórir starfsmenn sem unnið hafa hjá Akureyrarbæ í 40 ár eða lengur heiðraðir fyrir vel unnin störf. Þetta eru þau Helgi Friðjónsson verkstjóri ferliþjónustu, Hrafnhildur Sigurðardóttir leikskólafulltrúi, Regína Þorbjörg Reginsdóttir starfsmaður á öldrunarheimilinu Hlíð og Sigurður Gunnarsson byggingastjóri hjá umhverfis- og mannvirkjasviði bæjarins.
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri Helgi, Hrafnhildur, Sigurður, Regína og Matthías Rögnvaldsson forseti bæjarstjórnar Akureyrar.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/laesisstefna-akureyrarbaejar-1
|
Læsisstefna Akureyrarbæjar
Í síðustu viku ný læsisstefna Akureyrarbæjar, Læsi er lykillinn, formlega kynnt á vegum fræðslusviðs og Miðstöðvar skólaþróunar HA að viðstöddu fjölmenni. Megintilgangur læsisstefnunnar er að efla læsi í víðum skilningi og stuðla að skapandi og gagnrýninni hugsun barna og ungmenna.
Læsisstefnan er afrakstur rúmlega þriggja ára ferlis sem hefur byggst á öflugri samvinnu margra aðila. Skipulag vinnunnar tók mið af hugmyndum um lærdómssamfélag (e. learning community) þar sem lögð var áhersla á að allir sem hlut eiga að máli kæmu að vinnunni.
Læsisstefnan er byggð á ástralskri fyrirmynd en þróuð og staðfærð að aðalnámsskrá íslenskra leik- og grunnskóla.
Unnið er út frá hugmyndafræðinni um læsi í víðum skilningi sem skiptist í þrjú meginsvið:
Samræða, tjáning og hlustun
Lestur, lesskilningur og lesfimi
Ritun og miðlun
Hagnýt gögn stefnunnar byggja á þrepum um þróun læsis þar sem sett eru fram viðmið um færniþætti og áherslur í kennslu út frá öllum þáttum læsis.
Samvinna við kennara á vettvangi leik- og grunnskólanna hefur verið lykilatriði í þróun á innihaldi stefnunnar en sérfræðingar á Miðstöð skólaþróunar við HA hafa stýrt verkinu.
Læsisstefnan birtist á heimasíðunni www.lykillinn.akmennt.is og er hún opin öllum. Á síðunni er að finna heildaráherslur stefnunnar ásamt ýmsu ítarefni sem er hagnýtt bæði fyrir kennara, foreldra og aðra þá sem hafa áhuga á læsi barna.
Hönnunarfyrirtækið Geimstofan, auglýsinga- og skiltagerð á Akureyri sá um hönnunarvinnu á útliti efnis á síðunni.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/tillaga-ad-deiliskipulagsbreytingu
|
Athafnasvæði við Grænhól, Sjafnargata - Tillaga að deiliskipulagsbreytingu
Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar auglýsir hér með skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, tillögu að deiliskipulagsbreytingu á athafnasvæðinu við Grænhól.
Tillagan gerir m.a. ráð fyrir að lóð nr. 7 við Sjafnargötu skiptist upp í fjórar minni lóðir. Lóð nr. 2 við Sjafnargötu sem var skilgreind fyrir verslun- og þjónustu verður athafnasvæði.
Tillöguuppdráttur ásamt greinargerð mun liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarkaupstaðar, Geislagötu 9, 1. hæð, frá 13. september til 25. október 2017, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir.
Grænhóll, tillaga að deiliskipulagsbreytingu
Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rennur út kl. 16:00 miðvikudaginn 25. október 2017 og skal athugasemdum skilað skriflega til Skipulagssviðs Akureyrarkaupstaðar, Geislagötu 9, 3. hæð eða með tölvupósti (skipulagssvid@akureyri.is) þar sem nafn, kennitala og heimilisfang sendanda kemur fram.
13. september 2017
Sviðsstjóri skipulagssviðs
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/tillogur-ad-deiliskipulagi-og-breytingu-a-adalskipulagi
|
Melgerðisás, Skarðshlíð og íþróttasvæði Þórs - Tillögur að deiliskipulagi og breytingu á aðalskipulagi
Eftirtaldar skipulagstillögur eru auglýstar samhliða:
Skarðshlíð, Melgerðisás, þétting byggðar - breyting á Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018,
Bæjarráð Akureyrarkaupstaðar hefur þann 13. júlí 2017 samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 í Hlíðahverfi.
Svæðið sem breytingum tekur nær yfir íbúðasvæðið við Skarðshlíð, frá Undirhlíð að Litluhlíð og svo kvennfélagsreitinn og íbúðasvæðið á Melgerðisásnum. Breytingar eru gerðar á stærðum og afmörkunum landnotkunarreita fyrir íbúðasvæðin, stofnanasvæði Glerárskóla og opið svæði fyrir kvennfélagsreitinn. Opið svæði, skilgreint fyrir íþrótta- og æfingasvæði, er breytt í íbúðasvæði og reiturinn stækkaður.
Skarðshlíð, Melgerðisás, tillaga að breytingu á aðalskipulagi
Melgerðisás og Skarðshlíð - deiliskipulag
Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar hefur þann 5. september 2017 samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Melgerðisás og Skarðshlíð skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Deiliskipulagssvæðið nær yfir Melgerðisás og Skarðshlíð að Hörgárbraut, frá Undirhlíð að sunnan og að Litluhlíð að norðan. Skipulagsmörkum deiliskipulags Hlíðahverfis, suðurhluta, er breytt til samræmis við afmörkun hins nýja deiliskipulags.
Deiliskipulagið skilgreinir m.a. nýjar lóðir, byggingarreiti og umferðarsvæði með það að markmiði að þétta byggð.
Við gildistöku mun deiliskipulag æfingasvæðisins við Skarðshlíð verða fellt úr gildi.
Melgerðisás og Skarðshlíð, tillaga að deiliskipulagi, uppdráttur
Melgerðisás og Skarðshlíð, tillaga að deiliskipulagi, greinargerð
Melgerðisás og Skarðshlíð, húsakönnun
Hlíðahverfi, suðurhluti, tillaga að skipulagsbreytingum
Íþróttasvæði Þórs - deiliskipulagsbreyting
Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar hefur þann 5. september 2017 samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagsbreytingu fyrir íþróttasvæði Þórs skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Deiliskipulagsbreytingin gerir m.a. ráð fyrir að æfingasvæði kastgreina verði komið fyrir í suðausturhorni svæðisins. Breyting er gerð á aðkomu og bílastæðum.
Íþróttasvæði Þórs, tillaga að deiliskipulagsbreytingu
Tillöguuppdrættir ásamt greinargerðum munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarkaupstaðar, Geislagötu 9, 1. hæð og hjá Skipulagsstofnun, frá 13. september til 25. október 2017 svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillögurnar og gert við þær athugasemdir. Allar tillögurnar eru aðgengilegar í hlekkjum hér að ofan.
Frestur til að gera athugasemdir við tillögurnar rennur út kl. 16:00 miðvikudaginn 25. október 2017 og skal athugasemdum skilað skriflega til skipulagssviðs Akureyrarkaupstaðar, Geislagötu 9, 3. hæð eða með tölvupósti (skipulagssvid@akureyri.is) þar sem nafn, kennitala og heimilisfang sendanda kemur fram.
13. september 2017
Sviðsstjóri skipulagssviðs
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/vel-heppnud-lydraedishatid-i-hofi
|
Vel heppnuð lýðræðishátíð í Hofi
Hátt í 2.000 gestir sóttu lýðræðishátíðina Fund fólksins sem haldin var í Menningarhúsinu Hofi dagana 8. og 9. september. Mikil gleði og ánægja ríkti meðal gesta sem voru sammála um að hátíðin í ár væri sú besta til þessa. Þeir voru einnig á einu máli um að hátíð sem þessi ætti mun meira erindi utan höfuðborgarsvæðisins líkt og systurhátíðir hennar á Norðurlöndunum.
Ráðherrar og þingmenn komu gagngert til Akureyrar til að eiga beint samtal við þátttakendur og gesti enda yfir 70 viðburðir á dagskrá þessa daga á vegum 50 ólíkra félagasamtaka víðsvegar af landinu. Það var úr mörgu að velja allt frá örfyrirlestrum, spjalli manna á milli í sófunum í opnu rými, málstofum, umræðutorgi, diskósúpu til tónlistaratriða og uppistands. Gestir í sal tóku virkan þátt í samtalinu og oft og tíðum sköpuðust fjörugar umræður sem færðust jafnvel yfir á kaffihús bæjarins þegar leið á kvöldið.
„Við erum afskaplega ánægð með hvernig til tókst. Við erum að halda hátíðina í fyrsta skipti utan höfuðborgarinnar og erum sérstaklega ánægð með hversu margir gerðu sér ferð norður til að taka þátt. Við náðum að sá fjölda fræja um hvernig hægt er að nýta þennan vettvang og nú þurfum við að vökva spírurnar til að hugmyndirnar vaxi og dafni," segir Þuríður Helga Kristjánsdóttir, verkefnastjóri lýðræðishátíðarinnar Fundar fólksins.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/samgonguvikan-ad-hefjast
|
Samgönguvikan að hefjast
Evrópsk samgönguvika hefst á Akureyri á laugardaginn. Samgönguvikan er átaksverkefni sem á að stuðla að bættum samgöngum í borgum og bæjum í Evrópu. Markmið vikunnar er að hvetja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur og virkja það til að nota almenningssamgöngur, hjóla eða ganga.
Yfirskrift átaksins er að þessu sinni "Förum lengra - samferða" og verður efnt til ljósmyndasamkeppni á Akureyri þar sem þema myndanna á að vera "samferða". Veitt verða glæsileg verðlaun fyrir bestu myndina. Fólk sem vill freista gæfunnar ætti að senda myndir á netfangið samak@akureyri.is eða merkja þær með #samak17 á Instagram og Facebook.
Dagskrá samgönguvikunnar á Akureyri er þessi:
Laugardagur 16. september kl. 12.30: Hjólaferð fjölskyldunnar. Hjólreiðafélag Akureyrar leiðir hjólalestir frá grunnskólum bæjarins að ráðhústorgi. Lestarstjórar verða frá öllum grunnskólunum; Brekkuskóla, Lundarskóla, Naustaskóla, Glerárskóla, Síðuskóla, Oddeyrarskóla og Giljaskóla. Dagskrá hefst á Ráðhústorgi kl. 13.30. Þar verður kynning á hjólum og hjólaleiðum á vegum hjólreiðafélags Akureyrar, sýning á vistvænum ökutækjum og rafhjólum, börnin fá að skreyta göturnar og torgið, og loks verður boðið upp á myndatöku fyrir þá sem vilja fá mynd af sér í bílstjórasæti strætó.
Sunnudagurinn 17. september: Hjólreiðamót fyrir börnin við Minjasafnið. Hjólreiðafélag Akureyrar heldur skemmtilegt hjólreiðamót fyrir börnin. Rásmark er við Minjasafnið og hjólað við tjörnina. Keppni hefst kl. 13.00 og keppt er í aldursflokkunum: 5-7 ára, 8-10 ára, 11-13 ára og 14-16 ára.
Þriðjudagurinn 19. september: Göngu og fræðsluferð um fólkvanginn í Krossanesborgum. Gangan hefst kl. 17.30 á bílastæði norðan við Byko.
Fimmtudagurinn 21. september: Stæðaæði (park(ing) day). Bílastæði í göngugötu eða Skipagötu fær nýtt hlutverk og verður breytt í reiðhjólastæði og hugsanlega lítinn almenningsgarð.
Föstudagurinn 22. september: Bíllausi dagurinn. Alltaf er frítt í almenningssamgöngur innanbæjar og nú verður farþegum boðið upp á bækur og blöð til lestrar í almenningsvögnum bæjarins. Íbúar á Akureyri eru hvattir til að leggja bílnum og ferðast frítt um allan bæ frá morgni til kvölds án þess að hafa áhyggjur af bílastæðum eða eldsneytiskostnaði. Úrslit ljósmyndasamkeppni kunngjörð.
Tökum öll þátt í Evrópsku samgönguvikunni 2017!
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/rammahluti-adalskipulags-oddeyrar-nidurstada-baejarstjornar
|
Rammahluti aðalskipulags Oddeyrar, niðurstaða bæjarstjórnar
Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar hefur þann 5. september samþykkt rammahluta aðalskipulags Oddeyrar í samræmi við 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Skipulagssvæðið afmarkast af Glerá í norðri, Glerárgötu í vestri, Strandgötu í suðri og til austurs nær svæðið að sjó. Í rammahluta aðalskipulagsins er lögð fram heildstæð stefna um þróun byggðar og er forsenda fyrir deiliskipulagsgerð einstakra reita á svæðinu.
Tillagan var auglýst frá 26. apríl til 7. júní 2017. Þrjár athugasemdir bárust og átta umsagnir. Bæjarstjórn hefur afgreitt athugasemdirnar og sent þeim sem gerðu athugasemdir umsögn sína. Athugasemdirnar gáfu tilefni til breytinga á tillögunni. Þær helstu eru eftirfarandi:
Nýr kafli og skýringarmynd sem fjallar um stofnlagnir hitaveitu, vatnsveitu og þrýstilögn fráveitu,
Þjónustugata meðfram ströndinni milli Silfurtanga og Laufásgötu er felld út.
Settir eru inn valkostir um tengingu Laufásgötu við Hjalteyrargötu. Endanleg lausn verður ákvörðuð í deiliskipulagi.
Sett eru inn ákvæði fyrir reit D: Í deiliskipulagi og hönnun bygginga skal taka mið af nálægð við atvinnusvæði, sem valdið geta truflun með umferð og hávaða. Miða skal við að íbúðarbyggð á svæðinu hafi ekki í för með sér íþyngjandi kvaðir eða kröfur á nálæga atvinnustarfsemi.
Rammahluti aðalskipulags Oddeyrar
Breyting á aðalskipulagi Akureyrar á Oddeyri
Rammahluti aðalskipulags Oddeyrar hefur verið sent Skipulagsstofnun sem sér um lokaafgreiðslu erindisins.
Þeir sem óska nánari upplýsinga um tillöguna og niðurstöðu bæjarstjórnar, geta snúið sér til skipulagssviðs, Akureyrarkaupstaðar, Geislagötu 9, 3. hæð.
Sviðsstjóri skipulagssviðs
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/rekstur-i-jafnvaegi
|
Rekstur í jafnvægi
Árshlutareikningur fyrir A- og B-hluta Akureyrarbæjar fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2017 var lagður fram í bæjarráði í dag. Árshlutauppgjörið er óendurskoðað. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta á fyrri hluta ársins var jákvæð um 96,9 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarafgangur yrði 15,8 milljónir króna á tímabilinu. Afkoma samstæðunnar er því nokkru betri en áætlun gerði ráð fyrir á fyrri hluta ársins.
"Reksturinn er í góðu jafnvægi og jákvætt að sjá að niðurstaðan er betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og afkoma í A-hlutanum nokkuð betri en á fyrri hluta árs 2016,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs.
"Við höfum lagt mikla áherslu á kjörtímabilinu að ná jafnvægi í rekstri A-hluta án þess að það bitni á þeirri þjónustu sem sveitarfélagið er að veita og ánægjulegt að sjá að það er að nást. Ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá tekjur aukast meira en útsvarstekjur okkar eru að hækka nokkuð minna en landsmeðaltal og þá sérstaklega hjá þeim sveitarfélögum sem við berum okkur gjarnan saman við á höfðuborgarsvæðinu. Engu að síður er ég sáttur, afkoman er að batna, veltufé frá rekstri er að aukast, skuldahlutfall að lækka og mér sýnist á öllu að okkur ætli að takast það sem að var stefnt í upphafi kjörtímabils, að skila af okkur betra búi,“ segir Guðmundur Baldvin.
Rekstrarniðurstaða A-hluta á fyrri hluta ársins var jákvæð um 4,9 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstarhalli yrði 188 milljónir króna á tímabilinu. Afkoma A-hluta er því nokkru betri en áætlun gerði ráð fyrir. Tekjur samstæðunnar námu samtals 11.757 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir að tekjur yrðu 11.625 milljónir króna. Skatttekjur voru 5.302 milljónir króna sem er 125 milljónum króna umfram áætlun eða 2,36%. Tekjur frá Jöfnunarsjóði námu 1.476 milljónum króna sem er 47 milljónum króna umfram áætlun. Aðrar tekjur voru 4.978 milljónir króna sem er 41 milljónum króna undir áætlun.
Rekstrargjöld samstæðunnar voru samtals 11.178 milljónir króna sem er 180 milljónum króna umfram áætlun eða 1,60%. Laun og launatengd gjöld námu 6.606 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir 6.510 milljónum króna. Annar rekstrarkostnaður var 3.606 milljónir króna sem er 11 milljónum króna undir áætlun. Fjármagnsgjöld, nettó, námu 435 milljónum króna sem er 128 m.kr. undir áætlun.
Lífeyrisskuldbindingar eru færðar miðað við greiddar lífeyrisskuldbindingar á tímabilinu ásamt því að skuldbindingin 31.12.2016 er uppreiknuð miðað við breytingu á vísitölu lífeyrisskuldbindinga opinberra starfsmanna janúar til júní 2017. Með breytingum á lögum um A-deild LSR og samþykktum samsvarandi deildar Brúar lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga voru lífeyrisréttindi jöfnuð milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Í því fólst m.a. að sveitarfélögum ber að gera upp uppsafnaðan halla og framtíðarhalla A-deildar Brúar með einskiptisframlagi. Um talsverða fjárhæð getur verið að ræða sem verður gjaldfærð á árinu í tengslum við þetta uppgjör. Einnig er verið að semja um yfirtöku ríkisins á öðrum lífeyrisskuldbindingum m.a. vegna Öldrunarheimila Akureyrarbæjar sem koma til lækkunnar á skuldbindingum bæjarins. Ekki hefur verið tekið tillit til þessara fyrirhugaðra uppgjöra á lífeyrisskuldbindingum í árshlutauppgjörinu vegna óvissu um fjárhæðir.
Samkvæmt sjóðsstreymi samstæðunnar nam veltufé frá rekstri 1.091 milljónum króna eða 9,28% af tekjum. Fjárfestingahreyfingar námu 803 milljónum króna og fjármögnunarhreyfingar 226 milljónum króna. Afborganir lána námu 363 milljónum króna. Engin ný langtímalán voru tekin á tímabilinu. Handbært fé var 3.398 milljónir króna í lok júní.
Litlar breytingar urðu á efnahag. Fastafjármunir námu 37.341 milljónum króna og veltufjármunir 5.731 milljónum króna. Eigið fé var 18.672 milljónir króna en var 18.578 milljónir króna um síðustu áramót. Langtímaskuldir og skuldbindingar námu 20.498 milljónum króna en námu 20.512 milljónum króna í lok síðasta árs. Skammtímaskuldir voru 3.902 milljónir króna en voru 3.398 milljónir króna um sl. áramót.
Veltufjárhlutfall var 1,47 á móti 1,58 í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall var 43,3% í lok júní.
Árshlutareikningur Akureyrarbæjar 1. janúar - 30. júní 2017.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/sendiherra-esb-heimsaekir-akureyri
|
Sendiherra ESB heimsækir Akureyri
Sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, Michael Mann, heimsótti Akureyri í vikunni og hitti Eirík Björn Björgvinsson bæjarstjóra á fundi í Ráðhúsinu á miðvikudag. Eiríkur fræddi sendiherrann um Akureyri, starfsemi sveitarfélagsins og áherslur þess í norðurslóðamálum.
Michael er nýtekinn við starfi sem sendiherra ESB á Íslandi og heimsóknin til Akureyrar var sú fyrsta út fyrir höfuðborgarsvæðið. Á Akureyri heimsótti hann einnig stofnanir og fyrirtæki, m.a. Háskólann á Akureyri, Norðurslóðanetið og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.
Bæjarstjóri og sendiherrann ræddu almennt um Akureyri, norðurslóðamál og áherslur og hlutverk Akureyrar í því samhengi og norðurslóðaáherslur Evrópusambandsins.
Heimasíða sendinefndar ESB á Íslandi.
Eiríkur og Michael í Ráðhúsi Akureyrarbæjar.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/hjolreidakeppni-barnanna-aflyst
|
Hjólreiðamóti barnanna aflýst
Af óviðráðanlegum orsökum þarf að aflýsa hjólreiðamóti fyrir börn sem halda átti við Minjasafnið á morgun, sunnudaginn 17. september, í tilefni af Evrópskri samgönguviku á Akureyri. Beðist er velvirðingar á þessu.
Minnt er á ljósmyndakeppnina sem standa mun alla næstu viku. Þema myndanna þarf að vera "samferða" og verða veitt glæsileg verðlaun fyrir bestu myndina og einnig aukaverðlaun. Fólk sem vill freista gæfunnar er beðið að senda myndir á netfangið samak@akureyri.is eða merkja þær með #samak17 á Instagram og Facebook.
Dagskrá samgönguvikunnar framundan er þessi:
Þriðjudagurinn 19. september: Göngu og fræðsluferð um fólkvanginn í Krossanesborgum. Gangan hefst kl. 17.30 á bílastæði norðan við Byko.
Fimmtudagurinn 21. september: Stæðaæði (park(ing) day). Bílastæði í göngugötu eða Skipagötu fær nýtt hlutverk og verður breytt í reiðhjólastæði og hugsanlega lítinn almenningsgarð.
Föstudagurinn 22. september: Bíllausi dagurinn. Alltaf er frítt í almenningssamgöngur innanbæjar og nú verður farþegum boðið upp á bækur og blöð til lestrar í almenningsvögnum bæjarins. Íbúar á Akureyri eru hvattir til að leggja bílnum og ferðast frítt um allan bæ frá morgni til kvölds án þess að hafa áhyggjur af bílastæðum eða eldsneytiskostnaði. Úrslit ljósmyndasamkeppni kunngjörð.
Mynd úr safni.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/ny-lod-fyrir-hafnsaekna-ferdathjonustu
|
Ný lóð fyrir hafnsækna ferðaþjónustu
Lóðin Oddeyrarbót 3 er nú auglýst laus til umsóknar. Henni var bætt inn á skipulag, austan lóðarinnar Oddeyrarbót 2 með deiliskipulagsbreytingu sem samþykkt var í bæjarstjórn 4. október 2016. Stærð lóðarinnar er 563,5 m² og byggingarreiturinn er þannig staðsettur að möguleiki er á dvalarsvæði sunnan byggingar.
Nýtingarhlutfall lóðarinnar er 0,355. Hámarks byggingarmagn innan lóðar er 200,0 m² (563,5 m2 x 0,355). Lágmarks byggingarmagn innan lóðar er 100 m².
Sömu skilmálar gilda fyrir Oddeyrarbót 3 og eru í gildi fyrir Oddeyrarbót 1 og 2, það er að byggingin skal vera einnar hæðar, þakform verði flatt og hámarksvegghæð verði 4,0 metrar frá gólfkóta.
Byggingarskilmála og eyðublöð má finna á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/thjonusta/skipulag-og-byggingar/lausar-lodir/lausar-byggingarlodir.
Umsóknarfrestur er til og með 4. október 2017 og umsóknum skal skila í afgreiðslu skipulagssviðs eða í þjónustuanddyri Geislagötu 9. Í umsókn skal gera grein fyrir fyrirhugaðri starfsemi á lóðinni.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/faereysk-ferda-og-atvinnulifssyning-i-hofi
|
Færeysk ferða- og atvinnulífssýning í Hofi
Ávarp flutt við opnun á færeyskri ferða- og atvinnulífssýningu í Hofi miðvikudaginn 19. september 2018.
Utanríkis- og viðskiptaráðherra Færeyja, sendiherra Færeyja á Íslandi, atvinnurekendur, færeyskir sem íslenskir, færeyskt listafólk og matreiðslufólk og aðrir gestir.
Ég býð ykkur velkomin á íslensku því Færeyingar eru líklega eina þjóðin sem skilur tungumálið okkar og við skiljum ykkur – en ég skal þó lofa að tala mjög skýrt.
Milli þessara tveggja eyþjóða, Íslendinga og Færeyinga, eru forn órjúfanleg menningartengsl sem eru jafngömul byggð í löndunum tveimur og er t.d. sagt frá þessum tengslum í Flateyjarbók sem rituð var hér á landi á 13. öld. Þar voru höfðingjarnir tveir, Þrándur í Götu og Sigmundur Brestisson, síður en svo sammála og deildu hart og þaðan er orðtakið "Þrándur í Götu" komið sem lifir enn góðu lífi í máli Íslendinga.
Það er afar ánægjulegt að hingað skuli vera kominn fríður hópur úr færeysku viðskiptalífi, ásamt ráðherra og sendiherra, til að kynna sig, sína vöru og sitt hugvit enda hefur sagan sýnt að við náum vel saman á viðskiptasviðinu. Á Akureyri eru fyrirtæki sem hafa átt mikil viðskipti við Færeyjar, s.s. sjávarútvegsfyrirtækið Samherji sem hefur tengst sjávarútvegi í Færeyjum frá árinu 1994 þegar útgerðarfyrirtækið Framherji aps. var stofnað í félagi við Færeyinga. Kælismiðjan Frost, sem hópurinn heimsótti einmitt núna fyrir hádegi, á í miklum viðskiptum við Færeyjar, það sama gildir um Rafeyri sem hefur verið með stór verkefni þar. Við höfum líka selt Færeyingum matvöru og má þar nefna sölu á kjöti frá Norðlenska, mjólkurvörur frá Mjólkursamsölunni eða MS eins og það er nefnt í daglegu tali og ekki má gleyma því að við flytjum út til ykkar íslenska þjóðarréttinn harðfisk – það mætti því halda því fram að við Íslendingar ættum að sama skapi að versla grindarhvalkjöt af ykkur! Og kannski er það gert nú þegar.
Sjávarútvegur og mikilvægi hans er sannarlega nokkuð sem tengir okkur. Báðar þjóðir hafa lagt mikinn metnað í fiskveiðar og fiskvinnslu og leggja áherslu á hugvit við að nýta aflann betur og að standa sig í umhverfismálum. Það sést t.d. á því úrvali fyrirtækja sem hér tekur þátt og vonandi munu verða hér til ný viðskiptasambönd sem allir hagnast á.
Vinir eru þannig að við leitum til þeirra þegar við þurfum á ráðum og þekkingu að halda. Sveitarfélög hér við Eyjafjörð standa nú frammi fyrir því að skoða kosti og galla fiskeldis og að taka afstöðu til þess hvað gera skuli. Þessa atvinnugrein þekkið þið afar vel og við viljum læra af ykkur og ykkar reynslu. Við viljum vita hverjir kostirnir eru, gallarnir, hvað ber að varast og hvar tækifærin liggja. Þetta er vinasamtal sem við viljum gjarnan eiga við ykkur og kannski má hefja það óformlega þegar við hér í lok dags smökkum á færeyskum bjór og mat.
Orðatiltækið "Líkur sækir líkan heim" er upplagt a nota þegar við ræðum um vinskap Færeyinga og Íslendinga. Okkur finnst gott að heimsækja Færeyjar því að það er svolítið eins og að koma heim en samt eitthvað sem er öðruvísi og ég vona að það sé líka upplifun ykkar þegar þið heimsækið okkur. Við hér á Akureyri viljum auðvitað sjá mun meira af færeyskum gestum. Hér fyrir nokkrum árum þá komu Færingar í beinu flugi þrjú ár í röð til að skíða í Hlíðarfjalli og slíkar heimsóknir mundi ég svo gjarnan vilja sjá meira af.
Á menningarsviðinu eru vinaböndin sterk og við höfum átt mikið og fjölbreytt samstarf. Dæmi um afar metnaðarfulla samvinnu var samstarf fyrr á þessu ári milli Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Sinfóníuhljómsveitar Færeyja og Norðurlandshússins í Þórshöfn, þar sem haldnir voru alveg einstakir tónleikar með fremsta tónlistarfólki landanna beggja og á sama tíma opnaði í Norðurlandahúsinu myndlistarsýning tveggja myndlistarkvenna sem báðar eru héðan frá Akureyri. Það hefur verið samstarf milli Tónlistarskóla Færeyja og Tónlistarskólans á Akureyri, Listasafnið á Akureyri og Norðurlandahúsið í Færeyjum hafa átt í samstarfi og svo hafa aðdáendur hennar Eivarar Pálsdóttur verið svo heppnir að geta hlustað reglulega á hana flytja sína tónlist á Græna hattinum hér á Akureyri og ég þarf ekkert að lýsa slíkum yndisstundum neitt frekar – þið vitið hversu frábær tónlistarmaður Eivör er.
Ekki má gleyma að Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Færeyjum og fleiri slíkar stofnanir í norðrinu hafa átt í samstarfi m.a. um meistaranám í vestnorrænum fræðum og er það von mín að þau samskipti munu eflast enn frekar. Tækifærin eru klárlega fyrir hendi.
Að síðustu vil ég segja að það er gott að vera Íslendingur víðast hvar á Norðurlöndum en það er alveg sérlega gott að vera Íslendingur í Færeyjum. Í hinum fornu Hávamálum er vináttan m.a. viðfangsefni og ég ætla að enda á að vitna í þann texta ásamt því óska ykkur öllum farsæls dags með nýjum tækifærum og vinskap.
Veistu, ef þú vin átt,
þann er þú vel trúir,
og vilt þú af honum gott geta,
geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft.
Við setninguna í Hofi fluttu Ásthildur og Poul Michelsen, utanríkis-og viðskiptaráðherra Færeyja, ávörp.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/vetrardvol-i-akureyrarhofn
|
Vetrardvöl í Akureyrarhöfn
Í síðustu viku fékk Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri heimsókn á skrifstofu sína frá Dario Schwoerer sem býr nú með fjölskyldu sinni í skútu í Akureyrarhöfn. Dario stýrir ásamt eiginkonu sinni Sabinu loftlagsleiðangrinum Top to Top en þau hafa heimsótt fleiri en 100 lönd, ferðast til afskekktustu staða heims og frætt fleiri en 100.000 skólabörn um loftlagsbreytingar og umhverfisvernd.
Hjónin hafa verið á ferðalagi í 16 ár og eignast sex börn á ferðalaginu, það síðasta leit heimsins ljós á Sjúkrahúsinu á Akureyri 24. ágúst síðastliðinn. Fjölskyldan ætlar að hafa vetursetu á Akureyri og á fundi sínum með Eiríki ræddi Dario meðal annars fyrirhugaðar kynningar Top to Top leiðangursins í skólum bæjarins.
Heimasíða leiðangursins.
Facebooksíða Top to Top.
Eiríkur Björn og Dario Schwoerer.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/vestnorden-2018-a-akureyri
|
Vestnorden 2018 á Akureyri
Á Vestnorden ferðakaupstefnunni sem lýkur í dag í Nuuk á Grænlandi var tilkynnt að á næsta ári verði kaupstefnan haldin á Akureyri dagana 2.-4. október.
Vestnorden ferðakaupstefnan, sem er samstarfsverkefni Grænlands, Færeyja og Íslands, er haldin árlega til skiptis í löndunum þremur. Á kaupstefnunni koma saman öll helstu ferðaþjónustufyrirtæki frá löndunum til að kynna vöruframboð sitt fyrir erlendum ferðaheildsölum.
Þátttakendur á kaupstefnunni voru um 700 þegar hún var haldin í Reykjavík á síðasta ári en hún er sú mikilvægasta sinnar tegundar sem haldin er á Norður-Atlantshafssvæðinu. Síðast var kaupstefnan haldin á Akureyri árið 2010 og þar áður 2002 og er því orðið löngu tímabært að hún komi aftur í höfuðstað Norðurlands.
Frá Vestnorden 2016.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/sidustu-forvod-i-ljosmyndasamkeppni
|
Síðustu forvöð í ljósmyndasamkeppni
Bíllausi dagurinn er í dag. Alltaf er frítt í almenningssamgöngur innanbæjar en nú er farþegum boðið upp á bækur og blöð til lestrar í almenningsvögnum bæjarins.
Í dag eru einnig síðustu forvöð að senda myndir í ljósmyndasamkeppni Samgönguvikunnar 2017. Þemað er "samferða". Merkið myndirnar með #samak17 á Facebook eða Instagram eða sendið þær á netfangið samak@akureyri.is fyrir kl. 16 í dag.
Flunkunýtt stórglæsilegt reiðhjól er í verðlaun fyrir bestu myndina.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/opid-bokhald-akureyrarbaejar
|
Opið bókhald Akureyrarbæjar
Ákveðið hefur verið að opna bókhald Akureyrarbæjar og gera það aðgengilegt á heimasíðunni Akureyri.is. Þar verður framvegis hægt að skoða útgjaldaliði bæjarins, hvaða greiðslur hafa verið inntar af hendi og til hverra, hver kostnaður er og hefur verið við einstaka málaflokka, verkefni og deildir. Einnig verður hægt að bera saman kostnaðarliði á milli ára á aðgengilegan og myndrænan hátt.
Bókhaldið er brotið niður í fimm liði á heimasíðunni og þar er hægt að skoða tekjur og gjöld fyrri A- og B-hluta sjóða, auk þess að greina gjöld eftir bókhaldsliðum. Opnun bókhaldsins á heimasíðunni er liður í innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu hjá Akureyrarkaupstað.
„Þetta er mjög jákvætt skref í að efla gagnsæi og aðgangi að opinberum upplýsingum. Þróun í hugbúnaði hefur í dag einnig hjálpað okkur að birta þessar upplýsingar með auðveldari hætti en áður. Opnun bókhaldsins er jafnframt enn eitt skrefið í rafrænni stjórnsýslu hjá sveitarfélaginu og sú þróun mun halda áfram,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri.
Hlekkur á opið bókhald Akureyrarkaupstaðar á Akureyri.is.
Bæjarfulltrúarnir Gunnar Gíslason, Sóley Björk Stefánsdóttir og Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs, ásamt Eiríki Birni Björgvinssyni bæjarstjóra og Dan Jens Brynjarssyni sviðsstjóra fjársýslusviðs Akureyrarbæjar. Mynd: Þorgeir Baldursson.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/sigurvegarar-i-ljosmyndasamkeppni
|
Sigurvegarar í ljósmyndasamkeppni
Mynd Snæfríðar Ingadóttur af föður með dóttur sína á háhesti hlaut 1. verðlaun í ljósmyndasamkeppni Samgönguvikunnar 2017.
Ágæt þátttaka var í keppninni og var dómnefnd nokkur vandi á höndum að gera upp á milli nokkurra mjög góðra mynda. Snæfríður hlýtur glæsilegt reiðhjól að launum.
Á myndinni er eiginmaður Snæfríðar Matthías Kristjánsson og Bryndís yngsta dóttir þeirra.
Önnur verðlaun, 10 miða kort í Sundlaug Akureyrar, hlaut Rúna Ásmundsdóttir og þriðju verðlaun, dagskort í Hlíðarfjalli, hlaut mynd af Instagram en höfundur hennar er Guðrún Torfadóttir.
1. verðlaun: Snæfríður Ingadóttir.
2. verðlaun: Rúna Ásmundsdóttir.
3. verðlaun: Guðrún Torfadóttir.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/orbis-et-globus-vigt-i-grimsey
|
Orbis et Globus vígt í Grímsey
Í dag fór fram í Grímsey vígsla á listaverkinu Orbis et Globus sem er nýtt kennileiti fyrir heimsskautsbauginn eftir Kristinn E. Hrafnsson og Steve Christer hjá Studio Granda.
Kúlan er 3 metrar í þvermál og hugmynd listamannanna er sú að hún færist úr stað í samræmi við hreyfingar heimsskautsbaugsíns þar til hann yfirgefur eyjuna árið 2047 eða því sem næst.
Forsaga málsins er að tillaga Kristins og Studio Granda sigraði í samkeppni um nýtt kennileiti sem efnt var til undir lok ársins 2013 og voru úrslit í samkeppninni kunngjörð í mars 2014.
Nú loks er kúlan komin á sinn stað og var hún vígð í blíðskaparveðri á heimskautsbaugnum að viðstöddum fjölda gesta.
Ávörp fluttu Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri, Kristinn E. Hrafnsson listamaður og Elías Bj. Gíslason frá Ferðamálastofu. Þorkell Ásgeir Jóhannsson lék á básúnu fyrir og eftir vígslu verksins og eftir ávarp Kristins blésu þeir félagar Kristinn og Steve sápukúlum í kringum verkið.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/radgjafar-med-fasta-vidveru-i-vidilundi-og-bugdusidu
|
Ráðgjafar með fasta viðveru í Víðilundi og Bugðusíðu
Þeirri nýbreytni hefur verið komið á að nú hafa ráðgjafar í málefnum aldraðra fasta viðverðu í félagsmiðstöðvunum í Víðilundi og Bugðusíðu. Með því er komið til móts við þarfir eldri borga fyrir miðlæga upplýsingamiðlun og ráðgjöf þar sem þjónustukeðjan birtist sem ein heild.
Þessi aukna þjónusta er veitt í kjölfar fundar sem fulltrúar búsetu- og fjölskyldusviðs, Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA) og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) héldu 10. október 2016. Þar var fjallað um niðurstöðu hópavinnu sem unnin var í tengslum við stefnumótun í velferðamálum hjá Akureyrarbæ vorið 2016. Sú vinna leiddi meðal annars í ljós þörf á bættu aðgengi að þjónustu, aukinni samþættingu og að efla þyrfti upplýsingagjöf og ráðgjöf til eldri borgara. Á fundinum var ákveðið að skipa í þverfaglegan vinnuhóp sem fengi það verkefni að kortleggja stöðuna og leggja línurnar fyrir framhaldið.
Ein af niðurstöðum vinnuhópsins var að mikilvægt væri að bjóða upp á miðlæga upplýsingamiðlun og ráðgjöf þar sem þjónustukeðjan birtist sem ein heild. Er verið að stíga skref í áttina að því með viðveru ráðgjafa í félagsmiðstöðvum eldri borgara. Það eru starfsmenn búsetu- og fjölskyldusviðs bæjarins, HSN, SAk og ÖA sem skiptast á að veita upplýsingar og ráðgjöf um ýmis úrræði og þjónustu fyrir eldra fólk á Akureyri. Verða þeir í félagsmiðstöðvunum í Bugðusíðu aðra hverja viku á miðvikudögum og í Víðilundi aðra hverja viku á föstudögum. Þetta er liður í að bæta upplýsingagjöf til eldra fólks og aðstandenda. Ekki þarf að panta tíma.
Hér að neðan má sjá yfirlit yfir þá daga sem ráðgjafarnir verða til viðtals:
Bugðusíða
Miðvikudagar kl . 16–18
27. september
10. október
25. október
8. nóvember
22. nóvember
6. desember
Víðilundur
Föstudagar kl. 10–12
6. október
20. október
3. nóvember
17. nóvember
1. desember
15. desember
Félagsmiðstöðin í Víðilundi.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/leikfangasafnid-a-akureyri-afram-i-fridbjarnarhusi-og-hymnodia-i-laxdalshusi
|
Leikfangasafnið á Akureyri áfram í Friðbjarnarhúsi og Hymnodia í Laxdalshúsi
Búið er að skrifa undir samning milli Akureyrarbæjar og Guðbjargar Ringsted eiganda Leikfangasafnsins í Friðbjarnarhúsi og er þar með búið að tryggja að safnið verður í húsinu næstu fjögur árin. Guðbjörg Ringsted hefur til margra ára safnað leikföngum og hefur verið með muni sína í Friðbjarnarhúsi frá árinu 2010 en húsið var gjöf til Akureyrarbæjar frá Góðtemplarareglu Íslands. Bæði Friðbjarnarhús og Laxdalshús voru auglýst til leigu fyrr á þessu ári eftir að stjórn Akureyrar hafði samþykkt viðmiðunarreglur vegna afnota af Laxdalshúsi, Friðbjarnarhúsi og Gudmands Minde. Einnig var í sumar skrifað undir samning við kammerkórinn Hymnodiu um afnot af Laxdalshúsi til fjögurra ára og verður húsið notað fyrir æfingar og skipulagningu á starfsemi kórsins s.s. aðstöðu til tónsmíða, skapandi umræðu og til smærri tónleikahalds.
Guðbjörg Ringsted eigandi Leikfangasýningarinnar á Akureyri og Þórgnýr Dýrfjörð deildarstjóri Akureyrarstofu við undirritun samningsins.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/thorka-er-islands-meist-ari
|
Þór/KA er Íslandsmeistari
Þór/KA er Íslandsmeistari kvenna í knattspyrnu árið 2017, en þetta var ljóst eftir 2:0-sigur á FH í lokaumferð deildarinnar á Akureyri í dag. Þetta er annar Íslandsmeistaratitill félagsins sem varð einnig meistari árið 2012.
Mynd: Kristinn Jakob Reimarsson.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/eftirliti-med-oryggismalum-i-ithrottahusum-ad-engu-leyti-abotavant
|
Eftirliti með öryggismálum í íþróttahúsum að engu leyti ábótavant
Vegna óhapps sem varð í íþróttahúsi Glerárskóla á fimmtudag, vill íþróttafulltrúi Akureyrarbæjar, Ellert Örn Erlingsson, að skýrt komi fram að eftirliti með öryggismálum í íþróttahúsum bæjarins er að engu leyti ábótavant. Verið var að hífa upp körfu eftir körfuboltaæfingu þegar togvír slitnaði og festing á öryggiskeðju gaf sig. Önnur öryggiskeðja hélt þó og karfan stöðvaðist því í þeirri hæð sem hún er venjulega höfð í þegar hún er í notkun.
„Hér er um grafalvarlegt óhapp að ræða og í raun furðulegt að vírinn, sem er aðeins um árs gamall, skyldi slitna. Öllum körfuboltaæfingum í Glerárskóla hefur nú verið hætt um óákveðinn tíma á meðan farið verður betur í saumana á því sem gerðist og flytjast æfingar þar með í Íþróttahöllina og íþróttahús Naustaskóla.
Að sjálfsögðu harma ég þetta óhapp og það er og hefur verið algjört forgangsatriði hjá okkur að tryggja öryggi þeirra barna sem iðka íþróttir í bænum. Við höfum átt í mjög góðu samstarfi við ÍBA og íþróttahreyfinguna á Akureyri um uppbyggingu og viðhald mannvirkja. Starfsmenn bæjarins brugðust strax við þegar vírinn slitnaði og það verða engar körfuboltaæfingar þarna fyrst um sinn a.m.k. Öryggið þarf að vera algjörlega tryggt og allt til þess gert að koma í veg fyrir að svona nokkuð geti átt sér stað. Það skiptir öllu máli að ekki urðu slys á fólki. Öryggi barnanna okkar er auðvitað alltaf númer eitt,“ segir Ellert Örn Erlingsson.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/lif-og-heilsa-a-nordurlandi
|
Líf og heilsa á Norðurlandi
SÍBS Líf og heilsa er forvarnaverkefni um heilbrigði og lífsstíl þar sem SÍBS ásamt aðildarfélögum og Samtökum sykursjúkra bjóða almenningi ókeypis heilsufarsmælingu í samstarfi við heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög. Mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun og fleira, auk þess sem þátttakendum er boðið að taka þátt í könnun um lífsstíl og heilsufar sem snertir á flestum áhrifaþáttum heilbrigðs lífs.
Í byrjun október verður boðið upp á mælingar á Norðurlandi:
Fimmtudagur 5. október 2017
kl. 15–17 Ólafsfjörður – Heilsugæslan Hornbrekku
Föstudagur 6. október 2017
kl. 9–12 Siglufjörður – Heilsugæslan Hvanneyrarbraut 37
kl. 15–18 Dalvík – Berg menningarhús
Laugardagur 7. október 2017
kl. 10–17 Akureyri – Heimahjúkrun heilsugæslunnar, Skarðshlíð 20 (Húsnæði Hvítasunnukirkjunnar)
Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan, en ekki einungis að vera laus við sjúkdóma og örorku. Fyrir einstaklinginn skiptir heilsan öllu. Langvinnir sjúkdómar valda næstum 9 af hverjum 10 dauðsföllum í okkar heimshluta, og tengjast þeir flestir lífsstíl. Forvarnir eru eina skilvirka leiðin til að stemma stigu við þessu. Að forða einum einstaklingi frá tíu ára sjúkdómsferli eða ótímabærum dauða skilar samfélaginu yfir 70 milljón króna sparnaði mælt í vergri landsframleiðslu á mann. Heilbrigði er því gríðarlegt hagsmunamál fyrir samfélagið
Til þess að kortleggja hvar aðgerða er þörf í forvarnamálum er samhliða mælingum á blóðgildum lögð fyrir könnun um heilsufar og lífsstíl sem tekur á helstu áhrifaþáttum langvinnra, lífsstílstengdra sjúkdóma. SÍBS Líf og heilsa má þannig nota til að meta stöðuna í hverju sveitarfélagi, stofnun eða vinnustað fyrir sig. Um leið hlýtur hver einstaklingur innsýn í hvað betur megi fara í eigin heilsu og lífsstíl.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/jofnun-a-flutningskostnadi-oliuvara
|
Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara
Á fundi bæjarstjórnar þriðjudaginn 3. október var samþykkt samhljóða eftirfarandi áskorun til ríkisstjórnar Íslands, fjármálaráðherra og tilvonandi þingmanna um að beita sér fyrir breytingu á núgildandi lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara:
Bæjarstjórn Akureyrar skorar á stjórnvöld, fjármálaráðherra og ekki síst tilvonandi þingmenn að beita sér fyrir breytingu á núgildandi lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara. Í núgildandi lögum er kveðið á um að jöfnun á flutningskostnaði nái ekki til eldsneytis vegna millilandaflugs. Staðan er því sú að flugvélaeldsneyti vegna millilandaflugs er mun dýrara á Akureyri og Egilsstöðum en í Keflavík og Reykjavík. Unnið hefur verið að því um árabil að koma á millilandaflugi til Akureyrar og áhugi flugrekstraraðila á því hefur aukist. Ljóst er að verð á eldsneyti getur skipt sköpum í því að þetta verði að veruleika og því afar mikilvægt að nú þegar verði tryggt að verð á flugvélaeldsneyti til notkunar í millilandaflugi sé það sama á öllum alþjóðaflugvöllum landsins. Hér er um byggðasjónarmið að ræða sem skiptir miklu máli við að styðja við og efla byggð í landinu. Það er ljóst að með því að fjölga gáttum inn í landið má jafna fjölda ferðamanna um landið og fjölga þeim ferðamönnum sem koma aftur, en þá á aðra staði en suður- og vesturhluta landsins. Þetta er ekki síður mikilvægt í ljósi þess að dvalartími ferðamanna hefur styst og ein afleiðing þess virðist vera fækkun gistinátta á Norðurlandi. Með tilkomu Flugþróunarsjóðs átti að veita flugfélögum styrki til að hefja millilandaflug til Akureyrar og Egilsstaða en eins og staðan er nú fer megnið af áætluðum styrk til jöfnunar á eldsneytisverði sem aldrei var ætlunin í upphafi. Það er því ófrávíkjanleg krafa bæjarstjórnar að jöfnun á flutningskostnaði á flugvélaeldsneyti verði að veruleika sem allra fyrst.
Einnig var samþykkt eftirfarandi bókun um framtíð innanlandsflugs og sjúkraflugs fyrir landið allt:
Bæjarstjórn Akureyrar leggur áherslu á að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram miðstöð innanlandsflugs og sjúkraflugs fyrir landið allt, þar til jafngóð eða betri lausn finnst. Fram hefur komið á undangengnum vikum að það er langtímaverkefni að finna jafngóða eða betri lausn og getur tekið tugi ára. Það er því óhjákvæmilegt að tryggja rekstur Reykjavíkurflugvallar þannig að hægt sé að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir s.s. að byggja nýja flugstöð og lagfæra útlit umhverfis flugvöllinn svo sómi sé að. Þá ítrekar bæjarstjórn bókun bæjarráðs Akureyrar frá 5.1.2017 þar sem þess var krafist að SV/NA flugbrautin verði opnuð aftur svo tryggja megi að sjúkraflugvélar geti lent á Reykjavíkurflugvelli, en það gerðist ítrekað sl. vetur að ekki var hægt að lenda á vellinum vegna veðurs eftir lokun brautarinnar. Það er svo enn alvarlegra mál að slík flugbraut er ekki til á öllu SV horni landsins, þar sem eina hátæknisjúkrahús landsins er staðsett.
Bæjarstjórn Akureyrar skorar því á stjórnvöld og ekki síst tilvonandi þingmenn að beita sér áfram í þessu máli og finna lausn til frambúðar.
Akureyrarflugvöllur.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/kvennasagan-a-hundavadi
|
Kvennasagan á hundavaði
Leikfélag Akureyrar frumsýndi síðasta föstudagskvöld verkið Kvenfólk í flutningi höfunda þess, Hjörleifs Hjartarsonar og Eiríks Stephensen. Sýningunni var ákaflega vel tekið og voru flytjendur og listrænir stjórnendur hylltir kröftuglega að henni lokinni.
Verkið er bráðfyndin revíuskotin sagnfræði þar sem Hundur í óskilum fer á hundavaði yfir kvennasöguna og veltir við hverjum steini við mikla kátínu og gleði áhorfenda. Varpað er óvæntu ljósi á Íslandssöguna með húmorinn að vopni. Sagan greinir frá örfáum konum - raunar svo fáum að það er búið að skíra rakettur í höfuðið á þeim öllum.
HUNDUR Í ÓSKILUM er margrómaður og verðlaunaður dúett sem er leikhúsgestum hér og sunnan heiða góðu kunnur fyrir leiksýningar sínar Sögu þjóðar sem hlaut Grímuverðlaunin árið 2012 og Öldina okkar sem gekk fyrir fullu húsi í Samkomuhúsinu og svo í Borgarleikhúsinu í kjölfarið. Hér leiða þeir aftur saman hunda sína undir stjórn Ágústu Skúladóttur leikstjóra.
Í sýningunni kemur einnig fram kvennahljómsveit sem er skipuð Áslaugu Maríu Stephensen á trommur, Gunni Vignisdóttur á bassa, Unu Haraldsdóttur á hljómborð og Margréti Hildi Egilsdóttur sem syngur.
Sýnt er í október og nóvember í Samkomuhúsinu.
Miðasala er í fullum gangi á tix.is.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/domulegir-dekurdagar-um-helgina-1
|
Dömulegir dekurdagar um helgina
Dömulegir dekurdagar á Akureyri hófust í gærkvöldi og standa yfir fram á sunnudag. Hugmyndin er að vinkonur, systur, mæðgur, frænkur og vinnufélagar njóti þess að gera eitthvað skemmtilegt saman í bænum.
Hægt er að velja úr fjölda viðburða sem gleðja hjartað og verslanir og fyrirtæki bjóða mörg hver upp á ýmis konar dömuleg tilboð af þessu tilefni.
Skoða má það helsta sem er að gerast um helgina á Dömulegum dekurdögum á Facebook.
Hér má skoða helstu atriði dagskrárinnar.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/innihaldsrikar-samverustundir
|
Innihaldsríkar samverustundir
Í síðustu viku kom út bæklingurinn "Komdu í heimsókn" sem flytur fróðleik um það hvernig skapa má innihaldsríkar samverustundir með einstaklingum sem búa við heilabilun.
Ásta Júlía, Elísa og Ester, starfsmenn iðju-og félagsstarfs á Öldrunarheimilum Akureyrar (ÖA) í Hlíð, vinna mikið með einstaklingum sem búa við heilabilun og hafa séð hvað samvera og samskipti skipta miklu máli. Það er þeim hjartans mál að auka gæðastundir milli einstaklinganna og aðstandenda þeirra en þær hafa orðið þess áskynja að margir aðstendur upplifa að heimsóknir séu erfiðar. Fengu þær hugmynd að gerð fræðslubæklings um málefnið og sóttu um samfélagsstyrk frá Landsbankanum til verkefnisins í nafni ÖA.
Í bæklingnum er fræðsla um heilabilun, hvað gott sé að hafa í huga í samskiptum ásamt hugmyndum að afþreyingu sem stuðlað getur að innihaldsríkum samverustundum þrátt fyrir heilabilun. Bæklingurinn er unninn með börn og unga aðstandendur í huga en getur auðveldlega nýst öllum aðstandendum. Honum verður dreift á næstu vikum á ÖA og stofnunum á Eyjarfjarðarsvæðinu.
Elísa Arnars Ólafsdóttir, Ásta Júlía Aðalsteinsdóttir og Ester Einarsdóttir.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/ungskaldum-a-eythingssvaedinu-bodid-i-ritlistarsmidju
|
Ungskáldum á Eyþingssvæðinu boðið í ritlistarsmiðju
Laugardaginn 14. október býðst Ungskáldum á aldrinum 16-25 ára á Eyþingssvæðinu að taka þátt í ritlistarsmiðju á vegum verkefnisins Ungskáld sem styrkt er að Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra. Þar mun Hildur Knútsdóttir rithöfundur kenna skapandi skrif og skapandi hugsun. Hildur er með BA-próf í ritlist og fengið Íslensku bókmenntaverðlaunin og Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar. Hún hefur m.a. gefið út hrollvekjandi unglingasöguna Vetrarfrí og framhald hennar, Vetrarhörkur. Það kostar ekkert að taka þátt í smiðjunni sem fram fer kl. 13-16 í Ungmennahúsinu á 4. hæð í Rósenborg og skráning er á netfanginu ungskald@akureyri.is
Smiðjan er hluti af verkefninu Ungskáld sem gengur út á að hvetja ungmenni á Eyþingssvæðinu á aldrinum 16-25 ára til að skrifa og þeim gefst kostur á að senda inn texta sem farið er yfir af dómnefnd en hún að þessu sinni skipuð þeim Sesselíu Ólafsdóttur, Vilhjálmi B. Bragasyni og Þórgunni Oddsdóttur. Þrjú bestu verkin fá peningaverðlaun. Síðasti dagur til að skila inn verkum er mánudagurinn 6. nóvember og er verkunum skilað í netfangið ungskald@akureyri.is
Ungskáld er samstarfsverkefni Amtsbókasafnsins, Akureyrarstofu, Ungmennahússins í Rósenborg, Menntaskólans á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Menntaskólans á Tröllaskaga, Framhaldsskólans á Laugum og Framhaldsskólans á Húsavík.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/nytt-ithrottahus-vigt-i-dag
|
Nýtt íþróttahús vígt
Íþróttahús Naustaskóla var vígt og formlega tekið í notkun í dag, þriðjudaginn 10. október. Húsið er í alla staði hið glæsilegasta og búið fullkomnum tækjabúnaði.
Það var í ársbyrjun 2006 að undirbúningur hófst fyrir byggingu Naustaskóla og var fyrsti áfangi hans tekinn í notkun fyrir átta árum. Íþróttahúsið var opnað fyrir iðkendum í tveimur áföngum; nemendur Naustaskóla hófu að nota það fyrir ári síðan og núna í haust var húsið opnað að fullu fyrir almenna notkun íþróttafélaga bæjarins.
Ingibjörg Ólöf Isaksen, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs, flutti stutt ávarp við vígsluna þar sem hún meðal annars þakkaði öllum sem að verkinu komu og sagði að því búnu:
"Ég óska Akureyringum til hamingju með þetta glæsilega íþróttahús. [...] Megi það verða til þess að efla íþróttaiðkun í bænum, stuðla að aukinni hreyfingu og bættri heilsu bæjarbúa, auka metnað unga fólksins og ef til vill færa okkur í fyllingu tímans fleira afreksfólk sem getur fetað í fótspor fyrirliða íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu." Fyrirliðinn Aron Einar er sem kunnugt er Akureyringur.
Ingibjörg afhenti síðan Silju Dögg Baldursdóttur, formanni frístundaráðs, sérstakan vígsluskjöld til marks um að húsið hafi verið formlega tekið í notkun.
Ingibjörg Ólöf Isaksen, Silja Dögg Baldursdóttir og Ellert Örn Erlingsson íþróttafulltrúi Akureyrarbæjar.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/finnsk-vika-i-hofi
|
Finnsk vika í Hofi
Menningarfélag Akureyrar býður til finnskrar viku í Hofi dagana 16.–22. október. Tilefnið er aldarafmæli finnska lýðveldisins og því verður finnsk menning í hávegum höfð.
"Af þessu tilefni hefur Menningarfélag Akureyrar sett saman áhugaverða dagskrá í samstarfi við ólíka aðila sem allir vilja halda uppi merkjum finnskrar menningar," segir Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri MAk. "Kveikjan er stórtónleikarnir Finlandia og Frón þar sem finnski stjórnandinn Peter Sakari stýrir Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sem flytur verk Sibeliusar, en verkið hefur sterk tengsl við lýðveldisbaráttu Finnlands. Það er því ekki að ástæðulausu að sendiherra Finnlands, Valtteri Hirvonen, mun heiðra okkur með nærveru sinni og fjalla um þessi tengsl fyrir áhugsama tónleikagesti áður en tónleikarnir sjálfir hefjast." segir Kristín Sóley.
Alla vikuna frá mánudegi til föstudags mun upplestur gleðja hádegisverðargesti veitingastaðarins 1862 Nordic Bistro í Hofi. Þar munu meðal annars Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri, Pia Viinikka bókasafnsfræðingur og Saga Geirdal Jónsdóttir lesa úr velkunnum bókum eftir finnska höfunda.
Um miðja viku, nánar tiltekið miðvikudaginn 18. október kl. 17.30, verður bíóstemning í Hofi í samstarfi við finnska sendiráðið. Þá verða sýndar stuttmyndirnar Clumsy little acts of tenderness (2012) sem fjallar um föður sem reynir sitt besta að tengjast dóttur sinni eftir skilnað, þrátt fyrir ólík áhugamál, og nær því á ögurstundu; Listen (2014) sem sýnir fram á hversu hjálparvana við getum verið þegar sameiginlegt tungumál er ekki til staðar; Noste (2014) sem fer með áhorfendann í ógleymanlegt ferðalag um dansveröld neðansjávar; og loks gamanmyndin Do I have to take care of everything? sem tilnefnd var til óskarsverðlauna í flokki stuttmynda árið 2012. Allar myndirnar eru á finnsku en með enskum texta.
Tónlistarmaðurinn Matti Kallieo spilar finnska tónlist fyrir matargesti Nönnu laugardagskvöldið 21. október en á borðum verða finnskir réttir og Harmonikkufélag Eyjafjarðar verður með tangóskotið ball í Hömrum það sama kvöld. Kallieo mun einnig gleðja matargesti í dögurði á sunnudeginum en matseðlar veitingastaðanna í húsinu verða með finnsku ívafi alla vikuna og finnskar vörur í hávegum í versluninni Kistu.
Menningarfélag Akureyrar ásamt Norræna félaginu býður til BAR SVARS föstudagskvöldið 20. október kl. 19.30 á R5 við Ráðhústorg. Þar geta áhugasamir gestir og spurningakeppnisunnendur spreytt sig á þematengdum spurningum um Finnland.
Að morgni laugardagsins 21. október kl. 11 verður sögu- og föndurstund fyrir börnin í samvinnu við Amtsbókasafnið en hápunktur finnsku þemavikunnar eru stórtónleikarnir FINLANDIA og FRÓN. Þar stjórnar finnski snillingurinn Petri Sakari flutningi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á verkum Síbelíusar og Áskels Mássonar.
Áskell er Íslendingum að góðu kunnur fyrir tónsmíðar sínar. Færri vita að Áskell er slagverksmeistari mikill og mun höfundurinn sjálfur vera einleikarinn þegar konsertinn Capriccio fyrir sinfóníuhljómsveit og darabuku verður frumfluttur á tónleikunum.
Á tónleikadaginn sjálfan, sunnudaginn 22. október kl. 15, mun finnski sendiherrann Valtteri Hirvonen fjalla um sögu lýðræðisbaráttunnar og tengsl hennar við verk Sibeliusar í tilefni af aldarafmæli þess. Sérstakur gestur verður Matti Kallio tónlistarmaður. Boðið verður upp á léttar veitingar með finnsku ívafi og eru allir hjartanlega velkomnir.
Menningarhúsið Hof. Mynd: Auðunn Níelsson.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/vetrarkort-i-hlidarfjall-a-betra-verdi
|
Vetrarkort í Hlíðarfjall á betra verði
Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli býður nú 23% afslátt af vetrarkortum fyrir fullorðna í Hlíðarfjall ef þau eru keypt á netinu fyrir 1. desember nk. Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli, segir að þetta sé meðal annars gert til að hita upp fyrir veturinn og koma fólki í gírinn en einnig til að flýta fyrir afgreiðslu vetrarkortanna þegar snjórinn loks fellur.
„Þeir sem kaupa strax fá þennan fína afslátt og það er líka vert að nefna að gjaldskráin í lyfturnar hjá okkur hefur ekkert hækkað á milli ára sem hlýtur að vera mikið ánægjuefni fyrir skíða- og brettafólk," segir hinn veðurglöggi Guðmundur Karl og bætir við: „Það er líka eins gott að setja vetrarkortið í vasann sem fyrst því ég finn það á mér að bráðum fer að snjóa og það meira en lítið."
Alla jafna er skíðasvæðið í Hlíðarfjalli opnað um mánaðamótin nóvember desember og núna er stefnt að því að opna 28. nóvember ef aðstæður leyfa. Svæðið verður opið til 22. apríl næsta vor en það er að jafnaði opið í um 110 daga á ári hverju.
Vetrarkorti í Hlíðarfjall fylgir svokallað Norðurlandskort en handhafar þess geta rennt sér án endurgjalds í tvo daga á skíðasvæðunum á Dalvík, í Ólafsfirði, Siglufirði og á Sauðárkróki. Norðurlandskortið gildir þó ekki um páskana og meðan á Andrésar andar leikunum stendur. Að auki hefur Hlíðarfjall samstarf við erlend skíðasvæði sem gerir handhöfum vetrarkorts kleift að renna sér allt að sjö dögum á skíðasvæðunum í Winter Park og Steamboat í Colorado í Bandaríkjunum gegn því að bóka gistingu á hótelunum sem skíðasvæðin reka og á Stratton-skíðasvæðinu í Vermont í þrjá daga án skuldbindinga um kaup á gistingu. Loks geta þeir sem eiga vetrarkort í Hlíðarfjall rennt sér ókeypis á öllum opinberum skíðasvæðum Skotlands, tvo daga á hverju svæði. Einnig má nefna að skíðaglaðir námsmenn fá sérstök vetrarkort með ríflega helmings afslætti.
Sala vetrarkorta á heimasíðu Hlíðarfjalls.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/konum-bodid-a-kvenfolk
|
Konum boðið á Kvenfólk
Leikfélag Akureyrar býður konum á sýninguna Kvenfólk í Samkomuhúsinu á kvennafrídaginn, þann 24. október. Sýningin hefst klukkan 15.00 og er aðgangur ókeypis. Kvenfólk er 323. sviðsetning Leikfélags Akureyrar og hefur fengið frábæra dóma og mikið lof áheyrenda en þetta er nýtt íslenskt sviðsverk eftir Hund í óskilum.
Dúettinn Hund í óskilum skipa þeir Hjörleifur Hjartarsson og Eiríkur Stephensen en þeir eru bæði höfundar og flytjendur verksins. Þeir eru þó ekki alveg einir á báti heldur njóta fulltingis kvennahljómsveitar í sýningunni. Í Kvenfólk fara þeir Hjörleifur og Eiríkur á hundavaði yfir kvennasöguna undir leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Sýningin hefur verið sýnd fyrir fullu húsi frá því hún var frumsýnd þann 29. september.
Í tilefni af Kvennafrídeginum hafa LA og Hundur í óskilum ákveðið að bjóða öllum konum á þessa frábæru sýningu án endurgjalds á meðan húsrúm leyfir.
Ekki er hægt að panta miða á netinu eða í gegnum síma. Til að tryggja sér miða þarf að mæta samdægurs í Samkomuhúsið en miðasalan verður opnuð kl. 13 á kvennafrídaginn.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/enginn-titill-43
|
Akureyri á Arctic Circle ráðstefnunni
Akureyrarbær hefur á undanförnum árum gert sig gildandi í norðurslóðaumræðu og bæjarstjórn samþykkti fyrir skemmstu stefnu um norðurslóðasamstarf. Á ráðstefnunni Arctic Circle sem haldin var í Hörpu í Reykjavík nýverið var bæjarstjórinn á Akureyri með innlegg í tveimur málstofum. Ráðstefnan er ein sú stærsta í heiminum sem tengist norðurslóðamálum en þátttakendur voru um 2.500.
Akureyri hefur þróast í að verða miðstöð norðurslóða á Íslandi. Þar skiptir ekki síst máli að stofnanir eins og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar og skrifstofur CAFF og PAME, sem eru fastir vinnuhópar Norðurskautsráðsins, eru staðsettar á Akureyri. Háskólinn á Akureyri er hluti af Háskóla norðurslóða og starfrækir námsbraut í heimskautarétti. Þá hafa fyrirtæki í bæjarfélaginu stofnað samtök sín á milli, Arctic Services, sem ætlað er að sinna þjónustu við Grænland á sviði iðnaðar og tækni. Samstarfsvettvangur þessara aðila og allra þeirra sem vinna að málefnum norðurslóða á Íslandi er Norðurslóðanetið sem hefur bækistöðvar sínar á Akureyri. Akureyrarbær er aðili að Norðurslóðanetinu.
Akureyrarbær leggur ríka áherslu á virka þátttöku í norðurslóðamálum innanlands sem utan m.a. með aðild að samtökum sem tengjast norðurslóðum. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri hefur þar af leiðandi verið áberandi í umræðu um norðurslóðamál á erlendum sem innlendum vettvangi. Ísland mun fara með formennsku í Norðurskautsráðinu á árunum 2019-2021 og hefur Akureyrarbæ verið boðið að taka þátt í undirbúningnum.
Á nýyfirstaðinni ráðstefnu um norðurslóðamál, Arctic Circle, var Eiríkur með innlegg í tveimur málstofum. Fyrri málstofan sem hann tók þátt í var skipulögð af Tromsø borg í Noregi en þar fjallaði hann um hvernig Akureyri nálgast sjálfbærni í ferðamennsku. Yfirskrift málstofunnar var We are the Arctic eða Við erum norðurslóðir og var makmiðið með henni að koma á framfæri sjónarmiði bæja og borga á norðurslóðum.
Í síðari málstofunni sem skipulögð var af Institute of the North í Alaska og Centre for International Relations í Noregi tók Eiríkur þátt í pallborði þar sem rætt var um hvaða áhrif nærsamfélögin geta haft á stefnumótun stjórnvalda á norðurslóðum. Fram kom í máli hans að m.a. sé mikilvægt að borgir og bæir á norðurslóðum móti sér stefnu um aðkomu sína að málaflokknum en bæjarstjórn Akureyrar samþykkti sérstaka stefnu um samstarf í norðurslóðamálum nú á haustdögum.
Á ráðstefnunni í Hörpu voru norðurslóðastofnanir sem staðsettar eru á Akureyri mjög áberandi sem og Háskólinn á Akureyri og komu ásamt Akureyrarbæ saman fram undir heitinu Arctic Akureyri.
Pallborðsumræður um það hvaða áhrif nærsamfélögin geta haft á stefnumótun stjórnvalda á norðurslóðum.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/thverfaglegt-samstarf-i-thagu-ungmenna
|
Þverfaglegt samstarf í þágu ungmenna
Í dag var undirritaður samningur um þverfaglegt samstarf aðila á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu sem sinna málefnum ungs fólks á aldrinum 16-29 ára. Undirritunin fór fram í Ungmennahúsinu Rósenborg.
Verkefnið gengur undir heitinu Virkið og því er ætlað að vera vettvangur um samstarf þegar þessi hópur fólks þarf, stöðu sinnar vegna, á þjónustu að halda. Þjónustu sem snýr m.a. að atvinnuleit, skólagöngu, endurhæfingu eða annarri meðferð.
Með tilkomu samningsins verður þverfaglegt samstarf þeirra sem koma að málefnum aldurshópsins fest í sessi.
Eftirfarandi aðilar standa að samkomulaginu: Vinnumálastofnun Norðurlands eystra, Akureyrarbær (fjölskyldusvið og Ungmennahúsið - Rósenborg), Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, Fjölsmiðjan á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri (geðdeild og BUG teymið), Heilbrigðisstofnun Norðurlands (Heilsugæslan), Virk, Menntaskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, Grófin geðverndarmiðstöð og Starfsendurhæfing Norðurlands.
Meginmarkmið samstarfsins er að:
stuðla að bættri almennri þjónustu fyrir ungt fólk á aldrinum 16–29 ára
stuðla að bættri sérhæfðri þjónustu fyrir fólk á aldrinum 16–29 ára
efla þverfaglegt samstarf fagaðila stofnananna til hagsbóta fyrir hópinn
Frá undirritun samstarfssamningsins fyrr í dag.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/tekjuskipting-rikis-og-sveitarfelaga
|
Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga
Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku voru samþykktar samhljóða þrjár ályktanir er lúta að tekju- og kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Fjallað var um þann kostnað sem fallið hefur á Akureyrarbæ vegna rekstrar Öldrunarheimila Akureyrarbæjar á síðustu árum en ríkinu ber að standa straum af. Þá var athygli stjórnvalda vakin á því að ekki hefur verið gengið frá samningi um öryggisvistun fyrir árið 2017 og loks var samþykkt ályktun um mikilvægi þess að tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga verði tekin til gagngerrar endurskoðunar.
Tillögurnar þrjár sem samþykktar voru með 11 samhljóða atkvæðum eru eftirfarandi:
Öldrunarheimili Akureyrar - daggjöld
Bæjarstjórn Akureyrar skorar á stjórnvöld, fjármálaráðherra og ekki síst tilvonandi þingmenn að beita sér fyrir breytingum á núgildandi lögum og reglum er snúa að daggjöldum til hjúkrunarheimila. Daggjöld hafa ekki fylgt þeirri þróun sem orðið hefur á kjarasamningsbundnum launum á liðnum árum og nú er svo komið að daggjöld duga rétt fyrir launum en annar rekstarkostnaður er borinn uppi af rekstraraðilum hjúkrunarheimila. Fyrir liggur að ríkinu ber að annast þessa þjónustu og daggjöld eiga að endurspegla raunverulegan rekstrarkostnað heimilanna sem byggir á þjónustustöðlum sem settir eru af ríkinu. Akureyrarbær hefur á s.l. fimm árum greitt með rekstri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar 843 milljónir króna og felur bæjarstjórn bæjarstjóra og bæjarlögmanni að leita réttar sveitarfélagsins til greiðslu á þeim kostnaði sem fallið hefur á sveitarfélagið vegna rekstursins. Það er ófrávíkjanleg krafa að ríkið standi undir greiðslum vegna þeirrar þjónustu sem það ber ábyrgð á samkvæmt lögum.
Samningar um öryggisvistun
Bæjarstjórn Akureyrar vill vekja athygli stjórnvalda á að samningur um öryggisvistun, sem Akureyrarbær sér um fyrir hönd ríkisins, er gerður til eins árs í senn. Ekki hefur verið gengið frá samningi vegna öryggisvistunar fyrir árið 2017 sem leiðir til þess að Akureyrarbær hefur á árinu fjármagnað þjónustu sem ríkinu ber að greiða. Þetta er með öllu óásættanlegt og skorar bæjarstjórn á ríkið að ganga nú þegar frá samningnum auk þess sem krafist er að samningurinn gildi til lengri tíma en eins árs í senn.
Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga
Bæjarstjórn Akureyrar telur afar mikilvægt að tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga verði tekin til gagngerrar endurskoðunar. Í því sambandi verður að horfa til þeirrar þróunar sem orðið hefur í samfélaginu s.s. íbúaþróunar, lýðfræðilegra þátta, lagaskyldu og innnviðauppbyggingar. Ljóst er að verkefni sveitarfélaga hafa vaxið jafnt og þétt og útlit er fyrir að þau aukist enn frekar á komandi árum. Heildartekjur hins opinbera hafa vaxið verulega á liðnum árum og þá sérstaklega með auknum tekjum af ferðaþjónustu og fær ríkið stærsta hluta þeirrar tekjuaukningar. Á sama tíma standa sveitarfélög frammi fyrir auknum kostnaði m.a. við innviðauppbyggingu vegna mikillar fjölgunar ferðamanna. Þá telur bæjarstjórn að rétt sé að horfa til þess að sveitarfélög hafi ekki nettóskattbyrði af virðisaukaskatti, fái hlutdeild í fjármagnstekjuskatti, í skattlagningu fyrirtækja og veiði- og auðlindagjöldum.
Ráðhús Akureyrarbæjar. Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/minnismerki-um-kainn-vigt
|
Minnismerki um KÁINN vígt
Miðvikudaginn 25. október, sem er dánardagur skáldsins Kristjáns Níelsar Júlíusar Jónssonar eða KÁINS, verður minnismerki um hann vígt í Innbænum á Akureyri, skammt sunnan Minjasafnsins á Akureyri.
"Icelandic Roots, The Icelandic Communities Association of NE North-Dakota" og aðrir velunnarar Káins vestan hafs létu gera afsteypu af lágmynd sem prýðir minnismerki um skáldið í Norður-Dakota og færðu Akureyringum að gjöf. Lágmyndin hefur nú verið felld í stuðlabergsstapa sem myndar nýja minnismerkið.
Dagskráin hefst kl. 16.15 með stuttri athöfn við minnismerkið og að henni lokinni verður gestum boðið í kaffisopa og með því á Amtsbókasafninu á Akureyri. Þar mun meðal annarra koma fram Vandræðaskáldið Vilhjálmur B Bragason. Hann segir frá sínum KÁINN og flytur eigið lag við kvæði hans.
Allir hjartanlega velkomnir.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/skokassajol-i-siduskola
|
Skókassajól í Síðuskóla
Krakkarnir í Síðuskóla stóðu í ströngu í gær við að pakka alls kyns nytsamlegum hlutum og leikföngum í skreytta skókassa. Vinna þeirra er hluti af alþjóðlega verkefninu "Jól í skókassa" sem miðar að því að fá börn jafnt sem fullorðna til að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika í Úkraínu með því að gefa þeim jólagjafir í skókassa.
Haustið 2013 ákváðu umsjónarkennarar í 7. bekk Síðuskóla að vera með í verkefninu og hefur skólinn verið þátttakandi allar götur síðan. Verkefnið hefur fest sig í sessi í skólastarfinu og var ákveðið, að ár hvert yrðu það nemendur í 7. bekk og umsjónarkennarar þeirra sem héldu utan um verkefnið. Helga Dögg dönskukennari hefur yfirumsjón með verkefninu og stýrir því á hverju ári.
Síðuskóli hefur verið Grænfánaskóli frá því árið 2006 og fellur þetta verkefni vel að umhverfisstefnu skólans þar sem safnað er saman gjöfum í kassana frá nemendum og starfsfólki. Lögð er áhersla á að endunýta og finna það sem er nothæft, setja í kassana og gefa hlutunum nýtt hlutverk á nýjum slóðum. Nemendur sýna þessu verkefni áhuga, hluttekningu og finnst þetta skemmtilegt. Í byrjun nóvember fer hópurinn saman með gjafirnar í starfsstöð KFUM og KFUK.
Myndir frá starfinu í Síðuskóla.
Gott starf unnið í Síðuskóla.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/klafur-a-tind-hlidarfjalls
|
Kláfur á tind Hlíðarfjalls?
Í dag var undirritaður í húsakynnum Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar samningur um stofnun undirbúningsfélagsins Hlíðarhryggur ehf. en að félaginu standa Sannir Landvættir, Íslensk Verðbréf, Yrki Arkitektar, Akureyrarbær, Verkís og Umsýslufélagið Verðandi. Hópurinn hefur það að markmiði að Hlíðarfjall bjóði upp á víðtæka möguleika til útivistar og afþreyingar allt árið um kring.
Hópurinn var myndaður í kjölfar þess að Akureyrarbær fól Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar að auglýsa eftir áhugasömum aðilum til að taka að sér rekstur og uppbyggingu skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli með það að markmiði að auka þjónustu við bæjarbúa, íþróttaiðkendur og ferðamenn.
Tillaga hópsins byggir á að taka allt Hlíðarfjallssvæðið í sína umsjá næstu 35-40 árin, byggja það upp, markaðssetja og reka með hagsmuni sem flestra að leiðarljósi. Rík áhersla er lögð á að svæðið þjóni eins breiðum hópi samfélagsins og kostur er og tryggt verði gott aðgengi fyrir alla að Hlíðarfjalli sem heilsárs útivistarparadís. Haft verður víðtækt samráð við íþrótta- og útivistarfélög sem áhuga hafa á að nýta þá aðstöðu sem fjallið býður upp á.
Í tillögunni er meðal annars gert ráð fyrir að opnað verði fyrir aðgengi upp á topp fjallsins með kláfi og öllum þannig gert kleift að njóta svæðisins. Aðstaða fyrir gesti og íþróttafélög sem sækja svæðið heim verður stórbætt. Vernd náttúru Hlíðarfjalls og aðliggjandi svæða verður í fyrirrúmi og fullt tillit tekið til vatnsverndarsvæða er umlykja það.
Stýrihópur á vegum stofnaðila hefur verið settur á laggirnar. Hópurinn vinnur að málinu og ræðst á næstu vikum í ítarlega og nauðsynlega greiningarvinnu á ástandi svæðisins, húsa- og tækjakosti þess ásamt greiningu á rekstarforsendum og hugsanlegri fjármögnun.
Á næstu vikum mun stýrihópurinn eiga fundi með hugsanlegum samstarfsaðilum og fjárfestum. Mikill metnaður er lagður í að eiga gott samstarf við alla sem nota svæðið og opna möguleika fyrir þá sem hafa hug á að nýta það með nýjum hætti.
Tölvuteikning að fyrirhugaðri aðkomu upp á tind Hlíðarfjalls með nýjum kláfi. Mynd: Yrki Arkitektastofa.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/kjordeildir-a-akureyri-1
|
Kjördeildir á Akureyri
Kosið verður til Alþingis Íslendinga laugardaginn 28. október.
Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt tillögu kjörstjórnar um að Akureyrarkaupstað verði skipt í tólf kjördeildir.
Tíu kjördeildir verða á Akureyri, ein í Hrísey og ein í Grímsey.
Á Akureyri verði kjörstaður í Verkmenntaskólanum á Akureyri, í Hrísey verði kjörstaður í Hríseyjarskóla og í Grímsey í Grímseyjarskóla.
Kjörfundir munu standa frá kl. 9 til kl. 22.
Kjördeildir á Akureyri í Alþingiskosningum 28. október 2017.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/nytt-minnismerki-i-innbaenum
|
Nýtt minnismerki í Innbænum
Miðvikudaginn 25. október, á dánardegi Kristján Níels Júlíus Jónsson, Káins, var minnismerki um skáldið vígt í Innbænum. Lágmyndin af skáldinu er afsteypa af minnismerki sem er að finna í Norður-Dakóta þar sem Káinn bjó lengst af. Hann fæddist á Akureyri 7. apríl 1859 en lést árið 1936.
Afsteypan er gjöf til Akureyringa frá félaginu Icelandic Roots, The Icelandic Communities Association of NE North-Dakota og öðrum velunnurum Káins vestan. Hún hefur verið felld í stuðlabergsstapa sem myndar nýja minnismerkið. Það stendur syðst á grasfletinum austan við Minjasafnið.
Í grein um Káinn í blaðinu Lögbergi-Heimskringlu 26. maí 1960 segir meðal annars:
Káinn varð maður gamall, einu ári betur en hálfáttræður. Sagt var, að hann hefði enga óvini átt, aðeins vini. Hann hafði þó ort skammarvísur, en hann meinti bara ekkert með þeim. Hann dó svo með bros á vör 25. okt. 1936. Útfarardaginn var öllum skólum lokað í íslendingabyggðum í Norður-Dakota. Bæði Lögberg og Heimskringla minntust Káins í ritstjórnargreinum. Í öðru blaðinu er hann m. a. kallaður mannvinur og skáld. Fyrirsögn hinnar greinarinnar var: „Hver gerir oss nú glatt í lund?"
Frá vígslu minnismerkisins. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri, Kristinn Már Torfason fulltrúi Káinn-hópsins svokallaða, Þórgnýr Dýrfjörð deildarstjóri Akureyrarstofu og Matthías Rögnvaldsson forseti bæjarstjórnar Akureyrar.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/haustfri-a-akureyri
|
Haustfrí á Akureyri
Haustfrí eru nú í grunnskólum Akureyrar og mörgum öðrum grunnskólum landsins. Á Akureyri er margt skemmtilegt í boði fyrir alla fjölskylduna til að lyfta sér á kreik og bregða á leik. Akureyrarstofa hefur tekið saman yfirlit yfir ýmislegt sem hægt er að taka sér fyrir hendur í leyfinu.
Hugmyndir fyrir fjölskylduna í haustfríinu.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/skatar-a-akureyri-i-100-ar
|
Skátar á Akureyri í 100 ár
Í tilefni 100 ára skátastarfs á Akureyri verður opnuð sýning í norðursal safnsins laugardaginn 28. október kl. 14. Minjasafnið á Akureyri og Skátafélagið Klakkur standa í sameiningu að sýningunni. Skátafélagið hefur safnað ýmsum gripum sem starfsfólk safnsins setur upp á skemmtilegan hátt svo úr verður skemmtilegt skátamót með tilheyrandi tjöldum og gripum. Þjóðminjasafn Íslands lánar svo leynigestinn.
Það var hinn 22. maí 1917 að fyrsta skátafélagið á Akureyri var stofnað. Á tímabili störfuðu fjögur félög drengja og eitt félag stúlkna í bænum. Lengst af voru Kvenskátafélagið Valkyrjan og Skátafélag Akureyrar aðalskátafélögin. Fyrir 30 árum sameinuðust félögin í Skátafélagið Klakk sem nú fagnar þessum merku tímamótum með sýningu í Minjasafninu á Akureyri.
Boðið verður upp á léttar veitingar í tilefni dagsins.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/slysavarnadeildin-a-akureyri-afhendir-hjartastudtaeki-sem-keypt-voru-eftir-fridarvoku-a-akureyrarvoku
|
Slysavarnadeildin á Akureyri afhendir hjartastuðtæki
Slysavarnadeildin á Akureyri hefur afhent tvö hjartastuðtæki sem safnað var fyrir á Friðarvökunni á Akureyrarvöku en félagið lagði einnig fjármuni til kaupanna. Eins og um var rætt eru tækin staðsett á fjölförnum stöðum. Annað tækið er í Íþróttahöllinni á Akureyri þar sem það gagnast bæjarbúum og gestum en þar eru haldnir ýmsir fjölmennir viðburðir s.s. árshátíðir Akureyrarbæjar og Sjúkrahússins á Akureyri, útskriftarhátíðir MA stúdenta og júbilanta auk fjölmennra íþróttaviðburðanna svo eitthvað sé nefnt. Að sögn Aðalsteins Sigurgeirssonar forstöðumanns Íþróttahallarinnar sem veitti tækjunum viðtöku heimsækja á bilinu þrjú til fjögurhundruð þúsund gestir húsið ár hvert. Hitt tækið er staðsett í húsakynnum Glerárlaugar og gagnast þar sundlaugargestum en einnig verður hægt að nýta það í Íþróttahúsi Glerárskóla ef þörf krefur.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/endurmotun-listasafnsins-a-akureyri
|
Endurmótun Listasafnsins á Akureyri
Þriðjudaginn 31. október kl. 17-17.40 heldur arkitektinn Steinþór Kári Kárason Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi, undir yfirskriftinni Endurmótun. Í fyrirlestrinum mun hann fjalla um endurmótun Listasafnsins á Akureyri, þær hugmyndir sem þar liggja að baki, markmið og arkitektóníska sýn. Steinþór Kári mun sýna myndir og teikningar af breytingunum ásamt öðrum verkum sem hann hefur unnið.
Steinþór Kári Kárason útskrifaðist sem arkitekt úr École Polytechnique Féderale de Lausanne í Sviss 1998. Eftir að hafa starfað hjá Studio Granda 1998-2003 og hjá Tony Fretton Architects í London 2003-2004 stofnaði hann ásamt Ásmundi Hrafni Sturlusyni Kurtogpi 2004 og hefur starfað þar síðan. Hann hefur kennt arkitektúr við Listaháskóla Íslands frá 2002 og verið prófessor við skólann frá 2010 auk þess að sitja í ýmsum ráðum, nefndum og stjórnum á vegum hins opinbera, félagasamtaka og stofnana.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Myndlistaskólans á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri. Næstu fyrirlesarar eru Hugleikur Dagsson og Jessica Tawczynski.
Steinþór Kári Kárason.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/mogulegt-samstarf-akureyringa-og-kinverja
|
Mögulegt samstarf Akureyringa og Kínverja
Í tengslum við þátttöku fulltrúa Akureyrarbæjar í ráðstefnunni Arctic Circle sem haldin var í Hörpu í Reykjavík um miðjan október, áttu bæjarstjóri og þeir bæjarfulltrúar sem sóttu ráðstefnuna fund með vararáðherra hafmála í Kína og sendinefnd hans ásamt sendiherra Kína á Íslandi og sendiherra Íslands í Kína. Fundinn sátu einnig fulltrúar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Hafnarsamlags Norðurlands, Háskólans á Akureyri og RANNÍS.
Tilgangur fundarins var fyrst og fremst að endurgjalda höfðinglegar móttökur sendinefndar frá Akureyri sem heimsótti Kína í vor í tengslum við norðurslóðamálefni, vinabæjasamskipti og möguleg samstarfsverkefni.
Á fundinum, sem var óformlegur, voru ýmis málefni til umræðu, m.a. uppbygging Heimskautarannsóknastofnunar Kína á norðurljósarannsóknarsetri að Kárhóli í Þingeyjarsýslum, samstarf Háskólans á Akureyri og háskóla í Kína, hugsanlegt samstarf um hafrannsóknir og vinabæjasamskipti Akureyrarbæjar og borgarhlutans Lingang í Shanghai.
Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri og Lin Shanqing vararáðherra hafmála í Kína.
Símamynd.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/nyr-adstodarmadur-baejarstjora
|
Nýr aðstoðarmaður bæjarstjóra
Hulda Sif Hermannsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Eiríks Björns Björgvinssonar bæjarstjóra og leysir hún af hólmi Katrínu Björgu Ríkarðsdóttur sem tekur við starfi framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu. Hulda Sif hefur starfað á Akureyrarstofu sem verkefnastjóri viðburða- og menningarmála frá árinu 2007. Hulda Sif er með BA próf í þýsku og nám í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun. Snertifletir Huldu Sifjar á Akureyrarstofu hafa verið auk menningarmála og viðburðastjórnunar, mál tengd ferðaþjónustu og markaðs- og kynningarmálum. Hulda Sif starfaði áður hjá RÚV við dagskrárgerð og fréttamennsku.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/domur-um-logmaeti-skipulagsbreytingar-stadfestur
|
Dómur um lögmæti skipulagsbreytingar staðfestur
Hæstiréttur Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra um að Akueyrarkaupstaður skuli sýkn af kröfum SS Byggis ehf. og Hálanda ehf. vegna breytinga á Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 skuli vera óraskaður.
Í dóminum er staðfest að heimilt hafi verið að breyta þéttbýlislínu aðalskipulags, sem hafði þau áhrif að eiganda orlofsbyggðar ber að greiða gatnagerðargjald af fasteignum sem voru byggðar eftir að aðalskipulag tók gildi.
Niðurstaða Hæstaréttar var lögð fram til kynningar í bæjarráði 19. október sl.
Dómur Hæstaréttar í máli nr. 634/2016.
Ráðhús Akureyrarbæjar.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/fjarhagsaaetlun-akureyrarbaejar-logd-framjakvaed-afkoma-i-rekstri-baejarins
|
Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2018, jákvæð afkoma í rekstri bæjarins
Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2018 var lögð fram í bæjarráði í dag. Rekstarafkoma A- og B-hluta er áætluð jákvæð um 963,2 milljónir króna eftir fjármagnsliði og tekjuskatt. Jafnframt var lögð fram þriggja ára áætlun áranna 2019-2021.
Að sögn Guðmundar Baldvins Guðmundssonar formanns bæjarráðs ber fjárhagsáætlunin þess merki, líkt og rekstur ársins 2017 að rekstur sveitarfélagsins sé í jafnvægi. Hér sé verið að leggja fram fjárhagsáætlun til fyrri umræðu í bæjarstjórn og eðlilega muni hún taka einhverjum breytingum á milli umræðna. Það sem helst beri að nefna er að gert er ráð fyrir um 8% lækkun á álagningarprósentu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði auk þess sem aukinn verður afsláttur á fasteignaskatti til elli- og örorkulífeyrisþega. Einnig hækka frístundaávísanir til barna og unglinga um 50% í 30 þúsund krónur og aukin verða framlög til MAk menningarfélags í tengslum við menningarsamning við ríkið. Að sjálfsögðu verði gætt aðhalds í rekstrinum hér eftir sem hingað til en þó sé ákveðið svigrúm nú til að bæta í með það að markmiði að gera góðan bæ enn betri. Guðmundur Baldvin segir jafnframt að framkvæmdaáætlun sé ekki endanleg og muni taka breytingum milli umræðna. Væntanlega verði dregið eitthvað úr og framkvæmdir færðar til milli ára.
Fjárhagsáætlunin er sett fram samkvæmt reikningsskilum sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, Fasteignir Akureyrarbæjar, Framkvæmdamiðstöð og Eignasjóð gatna. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Félagslegar íbúðir, Strætisvagnar Akureyrabæjar, Öldrunarheimili Akureyrabæjar, Framkvæmdasjóður Akureyrarbæjar, Bifreiðastæðasjóður Akureyrarbæjar, Hafnarsamlag Norðurlands, Norðurorka hf., Byggingasjóður Náttúrufræðistofnunar og Gjafasjóður Öldrunarheimila Akureyrarbæjar.
Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi samstæðunnar mun veltufé frá rekstri nema 3.084 millj.kr. Fjárfestingarhreyfingar nema samtals 4.192 millj.kr. Fjármögnunarhreyfingar munu nema samtals 771 millj.kr. Áætlað er að afborganir langtímalána nemi 2.811 millj.kr. Ný langtímalán eru áætluð 3.585 millj.kr. Handbært fé sveitarfélagsins í árslok er áætlað 1.897 millj.kr.
Skatttekjur samstæðu eru áætlaðar 11.520 millj.kr, tekjur frá jöfnunarsjóði 3.070 millj.kr. og aðrar tekjur 9.994 millj.kr. Heildartekjur samstæðunnar eru því áætlaðar 24.584 millj.kr.
Heildarlaunagreiðslur ásamt launatengdum gjöldum hjá samstæðunni eru áætlaðar 14.070 millj.kr. Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins, í hlutfalli við rekstrartekjur þess, eru áætluð 57,2%. Annar rekstrarkostnaður er áætlaður 27,5% af rekstrartekjum. Skatttekjur sveitarfélagsins og tekjur frá jöfnunarsjóði eru áætlaðar 772 þús.kr. á hvern íbúa en tekjur samtals 1.301 þús.kr. á hvern íbúa. Árið 2017 eru skatttekjurnar ásamt jöfnunarsjóði áætlaðar skv. útkomuspá 726 þús.kr. á hvern íbúa og heildartekjurnar 1.227 þús.kr.
Áætlað er að eignir sveitarfélagsins í efnahagsreikningi 31.12.2018 verði bókfærðar á 45.753 millj.kr., þar af eru veltufjármunir 4.595 millj.kr. Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum nemi þá samkvæmt efnahagsreikningi 25.696 millj.kr., þar af verði skammtímaskuldir 3.467 millj.kr. Áætlað er að heildareignir á hvern íbúa muni nema 2.421 þús.kr. og skuldir 1.162 þús.kr. Veltufjárhlutfallið er áætlað 1,33 í árslok 2018, en er áætlað 0,91 í árslok 2017. Bókfært eigið fé er áætlað að nemi 20.056 millj.kr í árslok 2018. Eiginfjárhlutfall í árslok er áætlað að nemi 44%.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um fjárhagsáætlun á tveimur fundum í sveitarstjórn og verður hún til fyrri umræðu í bæjarstjórn Akureyrar þriðjudaginn 7. nóvember og til síðari umræðu þann 5. desember nk.
FJÁRHAGSÁÆTLUN AKUREYRARBÆJAR 2018 - 2021
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/uppbyggingarsjodur-nordurlands-eystra-auglysir-eftir-umsoknum-2
|
Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra auglýsir eftir umsóknum
Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra auglýsir eftir umsóknum fyrir árið 2018. Hlutverk sjóðsins er að styrkja menningar-, atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni, auk þess veitir sjóðurinn stofn- og rekstrarstyrki til menningarmála. Uppbyggingarsjóður er samkeppnissjóður og miðast styrkveitingar við árið 2018.
Frekari upplýsingar um umsóknarferlið, úthlutunarreglur 2018, áherslur sjóðsins og Sóknaráætlun Norðurlands eystra er að finna á heimasíðu Eyþings www.eything.is og atvinnuþróunarfélaganna www.afe.is og www.atthing.is.
Sækja þarf um rafrænt á heimasíðu Eyþings með Íslykli eða rafrænum skilríkjum. Umsóknarfrestur er til og með 29. nóvember nk. Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér verklagsreglur uppbyggingarsjóðs á heimasíðu Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna.
Nánari upplýsingar um Uppbyggingarsjóð Norðurlands eystra veitir, Baldvin Valdimarsson baldvin@afe.is sími 460 5701 Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér vel þær áherslur og skilyrði sem í samningum felast og reglur um styrkhæfan kostnað.
Starfsmenn sjóðsins verða með viðveru og vinnustofur á starfssvæðinu í tengslum við úthlutunina þar sem veitt verður ráðgjöf við gerð umsókna. Viðvera starfsmanna uppbyggingarsjóðs verður á eftirfarandi stöðum:
• Akureyri 13. nóv. kl. 13.00-16.00 Skrifstofu Eyþings
• Dalvíkurbyggð 14. nóv. kl. 10.00-12.00 Menningarhúsinu Bergi
• Ólafsfjörður 14. nóv. kl. 13.00-14.00 Bókasafni Fjallabyggðar Ólafsfirði
• Siglufjörður 14. nóv. kl. 14.30-16.00 Ráðhúsinu Siglufirði
• Akureyri 15.nóv. kl. 9.00-11.00 Skrifstofu Eyþings
• Grenivík 15. nóv. kl. 14.00-15.00 Skrifstofu Grýtubakkahrepps
• Þórshöfn 16. nóv. kl. 10.30-12.00 Menntasetrinu á Þórshöfn
• Raufarhöfn 16. nóv. kl. 13.00-15.30 Skrifstofu Norðurþings
• Kópasker 16. nóv. kl. 15.30-17.00 Skrifstofu Norðurþings
• Reykjahlíð 17. nóv. kl. 8.30-10.00 Skrifstofa Skútustaðahrepps
• Laugar 17. nóv. kl. 10.30-12.00 Seigla – miðstöð sköpunar
• Húsavík 17. nóv kl. 13.00-15.00 Skrifstofu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga
Frekari upplýsingar veita:
Baldvin Valdemarsson á netfang baldvin@afe.is eða í síma 460 5701
Ari Páll Pálsson netfang aripall@atthing.is sími 464 0416
Vigdís Rún Jónsdóttir netfang vigdis@eything.is
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/samningur-akureyrarbaejar-og-fjarmala-og-efnahagsraduneytisins-um-skiptingu-lifeyrisskuldbindinga-vegna-oldrunarheimila
|
Samningur Akureyrarbæjar og fjármála- og efnahagsráðuneytisins um skiptingu lífeyrisskuldbindinga vegna öldrunarheimila
Skrifað hefur verið undir samning milli Akureyrarbæjar og fjármála- og efnahagsráðuneytisins um skiptingu lífeyrisskuldbindinga vegna öldrunarheimila. Samningurinn byggir á samkomulagi fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga en í ársbyrjun 2016 var skipaður starfshópur fjármálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem Dan Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat í fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga og var tilgangurinn að fara yfir lífeyrissjóðsskuldbindingar vegna samrekstrarverkefna ríkis og sveitarfélaga . Samkvæmt samningnum mun ríkið greiða upp 97 % af áföllnum lífeyrissjóðsskuldbindingum öldrunarheimila bæjarins. Um er að ræða þrjá lífeyrissjóði þ.e. Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og Lífeyrissjóð starfsmanna Akureyrarbæjar og voru skuldbindingarnar upp á rúmar 1.874 milljónir og mun ríkissjóður yfirtaka rúmar 1.818 milljónir króna eða 97 %.
Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri, Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og Dan Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs skrifa undir samninginn.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/anaegdur-med-akureyringa
|
Ánægður með Akureyringa
Dario Schwoerer er afar ánægður með hjálpsemi Akureyringa en hann ásamt fjölskyldu sinni var hætt kominn í aftakaveðri í Akureyrarhöfn um síðustu helgi. Fjölskyldan hefur búið í skútu sinni í höfninni síðustu mánuði og ætlar að hafa þar vetursetu.
Dario tekur djúpt í árinni og haft er eftir honum að Akureyri sé besti staðurinn í heiminum. Margir Akureyringar hafí ljáð fjölskyldunni hjálparhönd og allt viljað fyrir hana gera.
Mynd: Skapti Hallgrímsson.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/ithrottabandalag-akureyrar-eflt-til-mikilla-muna
|
Íþróttabandalag Akureyrar eflt til mikilla muna
Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri og Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) undirrituðu í dag nýjan samstarfssamning um samskipti Akureyrarbæjar við íþróttafélögin í bænum, styrkveitingar, rekstur og önnur sameiginleg hagsmunamál. Markmið samningsins er að efla íþróttastarf á Akureyri og tryggja að það verði blómlegt og kraftmikið öllum bæjarbúum til heilla. Í því felst að skapa sem bestar aðstæður til að reka starfsemi sem tryggir bæjarbúum öflugt íþróttastarf, einkum í barna- og unglingastarfi.
Með samningnum fær ÍBA aukið rekstrarfé til að efla starf sitt og er meðal annars gert ráð fyrir framkvæmdastjóra í fullu starfi. Aðildarfélög ÍBA, sem eru 23, skulu nú sem aldrei fyrr beina öllum erindum sínum til ÍBA sem vinnur málin áfram og vísar ef þurfa þykir til frístundaráðs Akureyrarbæjar. ÍBA ber að fylgja því eftir að aðildarfélögin sinni faglegu starfi í hvívetna í samræmi við íþróttanámskrá ÍBA, barna- og unglingastefnu ÍSÍ og íþróttastefnu Akureyrarbæjar og ÍBA.
Samningurinn gerir ráð fyrir því að reglur um tímaúthlutun til aðildarfélaga í íþróttamannvirkjum Akureyrarbæjar verði endurnýjaðar fyrir haustið 2018. Einnig mun skrifstofa ÍBA sjá um umsýslu rekstrarstyrkja til aðildarfélaga, styrkja úr Afrekssjóði Akureyrar og kvennastyrkja sem voru áður í umsjón íþróttadeildar Akureyrarbæjar. Samningurinn gerir kröfu um að ÍBA taki saman tölfræði og greinagóðar upplýsingar um íþróttastarf á Akureyri auk þess að taka við yfirumsjón með rafrænu skráningarkerfi sem aðildarfélög nota undir vefsíðunni https://iba.felog.is/. ÍBA skal samkvæmt samningnum kalla eftir upplýsingum frá aðildarfélögum ár hvert yfir verkefni, framkvæmdir, viðhald og endurnýjun áhalda og búnaðar, þar sem þörf er á aðkomu Akureyrarbæjar. ÍBA skal forgangsraða tillögum aðildarfélaga og skila til frístundaráðs sem í framhaldinu hefur tillögurnar til hliðsjónar við gerð fjárhagsáætlunar.
Samstarfssamningur Akureyrarbæjar og Íþróttabandalags Akureyrar 10. nóvember 2017.
Frá undirritun samningsins í Sundlaug Akureyrar í morgun.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/vidtalstimar-baejarfulltrua-1
|
Viðtalstímar bæjarfulltrúa
Viðtalstímar bæjarfulltrúa Akureyrarbæjar eru haldnir tvisvar í mánuði á fimmtudögum frá kl. 17-19 á tímabilinu október til maí. Í viðtalstímum gefst bæjarbúum kostur á að hitta fulltrúa í bæjarstjórn og ræða þau málefni sem hæst ber hverju sinni. Viðtalstímarnir eru í Ráðhúsinu, Geislagötu 9, 1. hæð. Fimmtudaginn 16. nóvember verða bæjarfulltrúarnir Silja Dögg Baldursdóttir og Sóley Björk Stefánsdóttir í Ráðhúsinu til skrafs og ráðagerða.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/hjortu-gegn-einelti
|
Hjörtu gegn einelti
Árlegur baráttudagur gegn einelti var á miðvikudag í síðustu viku og nemendur og starfsmenn Síðuskóla létu ekki sitt eftir liggja. Allir fóru saman út á lóð og mynduðu tvö hjörtu með því að haldast í hendur. Stærra hjartað var myndað af nemendum en starfsfólk myndaði annað hjarta innan í því stóra.
"Við vildum með þessu sýna að við í skólanum stöndum saman gegn einelti af öllu tagi, erum góð hvert við annað og sýnum virðingu í samskiptum," segir Ólöf Inga Andrésdóttir skólastjóri Síðuskóla.
Mynd: Gunnar Björn Gunnarsson.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/spjallad-um-nonna-160-ara
|
Spjallað um Nonna 160 ára
Jón Sveinsson, sem síðar varð þekktur sem rithöfundurinn Nonni, fæddist á Akureyri 16. nóvember 1857 eða fyrir réttum 160 árum. Af því tilefni ætlar Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins að spjalla við gesti um Nonna og fjölskyldu hans í kvöld frá kl. 19-22 í Nonnahúsi en lífshlaup þessa fólks var á köflum ævintýralegt. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
Í næsta nágrenni við Nonnahús er Minjasafnið og þar verður opnuð jólasýningin Allir fá þá eitthvað fallegt og vaskir skátar verða á vappi á sýningunni Skátar á Akureyri í 100 ár. Bæði Nonnahús og Minjasafnið verða opin frá kl. 19-22 í kvöld og aðgangseyrir er enginn.
Nonni í Japan.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/litrikir-themadagar-i-oddeyrarskola
|
Litríkir þemadagar í Oddeyrarskóla
Á nýafstöðnum þemadögum í Oddeyrarskóla hafa nemendur unnið ýmis verkefni sem tengjast 60 ára afmælishátíð skólans sem verður þann 7. desember nk.
Verkefnin voru meðal annars að semja og æfa dans tileinkaðan vináttu gegn einelti, vinna í forritun á fjölbreyttan hátt, búa til myndbönd tengd áherslum skólans, gera spil eða búa til líkön af Oddeyrarskóla. Þá bjuggu nokkrir nemendur til fréttaskýringarþátt og sömdu rapptexta um skólann. Aðrir tóku þátt í ljósmyndaverkefni sem tengist einkunnarorðum skólans en þau eru ábyrgð, virðing og vinátta. Allir nemendurnir tóku þátt í að útbúa skraut fyrir hátíðahöldin og baka smákökur. Dagarnir gengu virkilega vel fyrir sig og er hugur í nemendum og starfsfólki fyrir komandi veisluhöld.
Nokkrar myndir frá þemadögunum.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/jonas-hallgrimsson-hylltur-i-hofi
|
Jónas Hallgrímsson hylltur í Hofi
Jónasarsetur, Menningarfélagið Hraun í Öxnadal, býður til afmælisdagskrár Jónasar Hallgrímssonar þjóðskálds, náttúrufræðings og nýyrðasmiðs undir heitinu "Á íslensku má alltaf finna svar" laugardaginn 18. nóvember kl. 14 í Hamraborg í Hofi í samvinnu við Menningarfélag Akureyrar.
Afmælisdagskráin einkennist af tali og tónum. Kristín S. Árnadóttir bókmenntafræðingur verður með hugleiðingu um Jónas Hallgrímsson og orðasmíð hans.
Vandræðaskáldið Villi leikur sér með orð til heiðurs afmælisbarninu. Barnaraddir munu óma um allt hús þegar eldri barnakór og stúlknakór Akureyrarkirkju syngja lög við texta Jónasar undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur.
Þessu næst hristir rapparinn Viljar Níu upp í áheyrendum um leið og hann hyllir nýyrðasmiðinn Jónas.
Ljóð ungskálda, sem tekið hafa þátt í samkeppni Amtsbókasafnsins og Akureyrarbæjar, verða lesin upp. Ætli Jónas hafi jafnvel veitt þeim innblástur við skrifin?
Það eru svo norðlensku tónlistarkonurnar Þórhildur Örvarsdóttir, Helga Kvam og Lára Sóley Jóhannsdóttir sem setja punktinn yfir i-ið og syngja og leika nokkur lög við texta Jónasar.
Það er hinn óborganlegi oddur Bjarni Þorkelsson sem hnýtir dagskrárliðina saman af sinni alkunnu snilld.
Enginn aðgangseyrir er á dagskrána og allir því hjartanlega velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Húsið verður opnað kl. 13.45.
Uppbyggingarsjóður Eyþings styrkir viðburðinn.
Jónas Hallgrímsson.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/hesjuvellir-kynning-a-deiliskipulagi
|
Hesjuvellir - Kynning á deiliskipulagi
Hér á heimasíðu Akureyrar og í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar er nú til kynningar deiliskipulag Hesjuvalla landnr. 212076, sem liggur neðan Lögmannshlíðarvegar, í samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ábendingum er hægt að koma á framfæri skriflega til skipulagssviðs í Ráðhúsi Akureyrar, Geislagötu 9, 600 Akureyri eða á netfangið: skipulagssvid@akureyri.is fyrir 6. desember 2017.
Hesjuvellir, neðan Lögmannshlíðarvegar, drög að deiliskipulagi
Forleifakönnun
16. nóvember 2017
Sviðsstjóri skipulagssviðs
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/fundur-baejarstjornar-21-november
|
Fundur bæjarstjórnar 21. nóvember
Fundur verður í bæjarstjórn Akureyrar þriðjudaginn 21. nóvember og eru sex mál á dagskrá. Fundurinn er haldinn í bæjarstjórnarsalnum í Geislagötu 9, 4. hæð og hefst að þessu sinni kl. 17.
Sjónvarpað er frá fundinum daginn eftir, miðvikudag, kl. 14 á sjónvarpsstöðinni N4. Bein útsending er frá fundum bæjarstjórnar á heimasíðu Akureyrarbæjar og þar er einnig hægt að nálgast upptökur frá þeim.
Dagskrá næsta bæjarstjórnarfundar.
Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/islenskt-i-grunnskolum-baejarins
|
Íslenskt í grunnskólum bæjarins
Krakkar í grunnskólum Akureyrarbæjar héldu dag íslenskrar tungu hátíðlegan í gær, heiðruðu minningu þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar og fundu upp á ýmsu sem gæti orðið til að auðga og efla íslenskuna.
Í Grímseyjarskóla skráðu nemendur niður allar slettur og slangur sem notuð eru í daglegu máli og fóru síðan í leik þar sem leitað var íslenskra orða sem mætti nota í staðinn. Loks voru bestu tillögurnar límdar upp á vegg.
Naustaskóli var færður í hátíðarbúning á degi íslenskrar tungu og skreyttur með íslenska fánanum. Bæði nemendur og starfsfólk lögðu niður störf klukkan níu, settust niður og lásu í bók í 20 mínútur. Efnt var til ljóðakeppni í tilefni dagsins. Margir fundu ljóðskáldið innra með sér og sendu inn ljóð. Einnig bjuggu nemendur í unglingadeild til myndbönd sem fjölluðu um mikilvægi íslenskunnar. Myndböndin má skoða á Facebooksíðu Naustaskóla.
Í Oddeyrarskóla sátu nemendur og starfsfólk að lestri um alla ganga og í öllum kennslustofum. Teknar voru frá tuttugu mínútur fyrir lesturinn. Fjórði bekkur hefur það fyrir reglu að heimsækja leikskólann í hverfinu á degi íslenskrar tungu og syngja og lesa fyrir leikskólabörnin. Er það liður í æfingum fyrir litlu upplestrarkeppnina. Nemendur í öðrum bekk fengu fræðslu um Jónas Hallgrímsson, hlustuðu á ljóð eftir hann og ræddu saman um ljóðið. Stóra upplestrarkeppnin er sett með formlegum hætti á þessum degi. Safnkennari skólans fór og hitti nemendur sjöunda bekkjar, las fyrir þá ljóð og ræddi um tilgang og framkvæmd upplestrarkeppninnar.
Í Hríseyjarskóla var íbúum eyjarinnar boðið í léttan hádegisverð og nemendur kynntu verkefni sem þeir unnu um heimabyggðina. Þá voru einnig sýnd verkefni sem voru unnin í nýliðinni verkefnaviku sem kennd er við Sudbury Valley skólann í Bandaríkjunum en sú vika miðar að því að nemendur skipuleggi sjálfir námið út frá áhugamálum sínum. Nánar um Sudbury-verkefnið.
Tveir nemendur í Grímseyjarskóla við vegginn góða.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/umhverfismidstod-oskar-eftir-tilbodum-i-bifreidar-og-taeki
|
Umhverfismiðstöð óskar eftir tilboðum í bifreiðar og tæki
Umhverfismiðstöð Akureyrarbæjar óskar eftir tilboðum í eftirtaldar bifreiðar og tæki:
Volkswager Transporter dobbule cab Syncro 4x4 árgerð 1996
Ford Escort CLX árgerð 1999
Valmet 6400 árgerð 1996
Epoke PSL 6,5 árgerð 1987
Drifskaftsknúinn sand-/saltdreifari árgerð 2012
Wirtgen W350 malbiksfræsari árgerð 2000
Allar frekari upplýsingar um tækin veitir Jónas Vigfússon í gegnum netfangið jonasv@akureyri.is. Myndir af tækjunum má sjá hér að neðan. Smellið á þær til að sjá stærri útgáfur og fletta á milli.
Tilboðum skal skila inn til Umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar Geislagötu 9, 4. hæð fyrir klukkan 15.00 mánudaginn 4. desember 2017 í lokuðum umslögum merktum því/þeim tæki/tækjum sem tilboðið nær til. Tilboð verða opnuð á sama tíma og stað að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska. Heimilt er að senda tilboð í tölvupósti á netfangið dora@akureyri.is.
Umhverfis- og mannvirkjasvið áskilur sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna þeim öllum.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/jolatred-fra-randers
|
Jólagleði á Ráðhústorgi á laugardag
Næsta laugardag, 25. nóvember kl. 16, taka Akureyringar formlega við jólatrénu sem vinabærinn Randers í Danmörku gefur þeim að venju og verður ýmislegt til gamans gert.
Lúðrasveit Akureyrar spilar jólalög og Barna- og æskulýðskór Glerárkirkju syngur með dyggri aðstoð Söngfugla Glerárkirkju og vaskra jólasveina sem koma kafrjóðir til byggða. Margrét Árnadóttir er kórstjóri Barna- og æskulýðskórsins og Gert-Ott Kuldpärg stýrir lúðrasveitinni.
Matthías Rögnvaldsson forseti bæjarstjórnar ávarpar gesti og Andreas Nøhr Vestergaard frá danska sendiráðinu segir nokkur orð. Að því búnu ætla systkinin Katrín Dögg Kristjánsdóttir og Unnar Daði Kristjánsson að tendra ljósin á trénu. Loks munu jólasveinarnir syngja með áhorfendum og kannski gefa börnunum eitthvert góðgæti, hugsanlega mandarínur.
Frá skemmtuninni á Ráðhústorgi í fyrra. Mynd: Ragnar Hólm.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/tilnefningar-til-jafnrettisvidurkenningar
|
Tilnefningar til jafnréttisviðurkenningar
Frístundaráð Akureyrarbæjar auglýsir eftir tilnefningum til jafnréttisviðurkenningar ráðsins. Tilgangurinn er að veita viðurkenningu fyrir vel unnin störf í þágu jafnréttismála í samræmi við Jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar.
Viðurkenningu geta hlotið:
Fyrirtæki sem hafa:
sérstaka stefnu/áætlun í jafnréttismálum
unnið að því að afnema staðalímyndir kynjanna
sett sér aðgerðaráætlun sem tæki til að vinna að framgangi jafnréttis kvenna og karla
gert ráðstafanir til að koma í veg fyrir kynbundna eða kynferðislega áreitni á vinnustöðum
Félög/félagasamtök sem hafa:
sérstaka stefnu/áætlun í jafnréttismálum
sett sér aðgerðaráætlun sem tæki til að vinna að framgangi jafnréttis kvenna og karla
gert ráðstafanir til að koma í veg fyrir kynbundna eða kynferðislega áreitni innan félags
veitt leiðbeinendum/þjálfurum fræðslu um jafnréttismál
Einstaklingar sem hafa skarað fram úr í vinnu að jafnréttismálum
Þú getur skráð rökstudda tilnefningu á heimasíðu Akureyrarbæjar, www.akureyri.is/jafnretti, eða sent tölvupóst á netfangið samfelagssvid@akureyri.is.
Rökstuddar tillögur skulu hafa borist fyrir 1. desember nk.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/um-snjomokstur-i-baenum
|
Um snjómokstur í bænum
Síðustu dægrin hefur kyngt niður snjó á Akureyri og fer sums staðar að verða nokkuð torfært í hverfum bæjarins. Unnið er að því að moka götur bæjarins og ryðja gangstéttar samkvæmt ákveðinni forgangsröðun.
Þegar óveður gengur yfir miðast þjónustan við að halda helstu stofn- og tengibrautum, strætisvagnaleiðum og aðgengi að neyðarþjónustu opnu eins og kostur er en við venjulegar vetraraðstæður gilda vinnureglur sem kynntar eru hér á eftir.
Snjómokstur gönguleiða:
Stofnstígar svo sem göngu- og hjólastígar milli bæjarhluta fá forgang í hreinsun ásamt helstu leiðum sem liggja að skólum, leikskólum, strætóbiðstöðvum og helstu stofnunum bæjarins.
Snjómokstur gatna:
Þær götur sem njóta forgangs í snjómokstri eru stofnbrautir, helstu tengibrautir m.a. að neyðarþjónustu eins og sjúkrahúsi, lögreglu, slökkviliði, strætisvagnaleiðum og fjölförnum safngötum. Húsagötur eru ekki mokaðar nema þær séu þungfærar einkabílum eða stefni í að þær verði þungfærar og ef von er á hláku. Húsagötur og fáfarnari safngötur eru aðeins hreinsaðar ef þær eru þungfærar einkabílum. Almennt er hreinsaður snjór frá innkeyrslum en við snjóhreinsun gatna er þó líklegt að það myndist einhver snjóruðningur eða kögglar við innkeyrslur sem Akureyrarbær nær ekki að hreinsa og þurfa því íbúar að sjá um það sjálfir.
Hálkuvarnir:
Þau svæði gatna sem eru hálkuvarin í bænum eru fyrst og fremst erfiðar brekkur og gatnamót. Til hálkuvarna er notað brotið malarefni sem hefur gott viðnám (kornastærð 2-6 mm). Til að minnka svifryk er fínefnið sigtað frá og einnig er efnið blandað lítillega með salti (5-7%). Saltið minnkar rykmyndun og gerir það að verkum að auðveldara er að vinna með efnið í frosti.
Sandkistur:
Sandkistur eru á nokkrum stöðum í bænum og þar mega íbúar Akureyrar taka efni til hálkuvarna, en þær eru ekki hugsaðar fyrir verktaka.
Hægt er að sjá kort sem sýnir þjónustuflokka vetrarþjónustu með því að smella hér. Hægt er að smella á i-merkið til að fá upplýsingar um flokkana, eða halda músarbendlinum yfir ? við viðkomandi þjónustuflokk til að sjá forgangsröðunina. Þá er hægt að merkja við hvern flokk fyrir sig og loka öðrum með því að haka fyrir framan flokkana.
Ábendingar og nánari upplýsingar á lager Umhverfismiðstöðvar sími 460-1212.
Netfang: olafurh@akureyri.is.
Snjómokstur í Kaupvangsstræti í gær.
|
https://www.akureyri.is/is/frettir/allt-skolahald-fellur-nidur
|
Allt skólahald fellur niður
Mikið hvassviðri og ofankoma er nú á Akureyri. Í samráði við lögreglu hefur verið ákveðið að allt skólahald í leik- og grunnskólum bæjarins falli niður í dag, föstudaginn 24. nóvember.
Taka ber fram að vakt og viðvera er í öllum leik- og grunnskólum til að taka á móti þeim börnum sem þangað kynnu að koma.
|
Subsets and Splits
No community queries yet
The top public SQL queries from the community will appear here once available.